Líf í árvekni: Af stællegu lúkki og ráðgátu sem leystist

mánudagur, 29. október 2012

Af stællegu lúkki og ráðgátu sem leystist


Þá eru að baki tuttugu af þrjátíu áætluðum heimsóknum á deild 10K á Landsanum og aðeins þriðjungurinn eftir af stríði geislariddarans við krabbadrekann. Eins og sjá má af myndinni hér að ofan er hárið nú fallið af svæðinu sem geislað er og Minn kominn með svona frekar stællegt lúkk (eins báðum megin). Höfum tekið eftir því í kringum okkur að hann er aldeilis ekki einn um það að hafa mjög snöggt í vöngum; engu líkara en þetta sé nýjasta hártískan meðal íslenskra karlmanna.

Mesta erfiðið er að baki því eftir átjánda skiptið var svæðið minnkað verulega; gamli drekinn sem nú hefur verið grillaður í annað sinn (í 30 skipti árið 2007) hefur fengið þann skammt sem riddarinn þolir að meðtaka.

 
Það sem nú varir af meðferðinni er aðeins geislað á nýja æxlið sem birtist á segulómmynd í byrjun september og eins og sjá má á þessari mynd af geislagrímunni (krossmerkta svæðið aftast) er drekaunginn mun minni um sig en sá gamli, jafnvel þótt bætt sé tveggja sentímetra radíus í kringum hann. Þá er að auki bætt við þeirri tilbreytingu fyrir Minn heittelskaða að geislagyðjan Eir sendir þrjú skot í hverri heimsókn í stað tveggja, eitt hvoru megin og snýst síðan undir bekkinn og sendir það þriðja í gegnum hnakkann.

Við gerum ráð fyrir að heilabólgan af völdum bæði æxlisvaxtar og geislaálagsins fari minnkandi úr þessu og þar með áhrifin sem hún hefur á getu Míns til að finna réttu orðin og halda uppi gáfulegum samræðum við Sína og aðra. Læknirarnir voru enda búnir að segja að það tæki geislana og æxlishemjandi lyfið Temomedac, sem hann tekur inn daglega, um þrjár til fjórar vikur að virka til að stöðva frekari vöxt. Þar með verður þá hægt að draga úr steratökunni sem hafa ýmsar óskemmtilegar hliðarverkanir séu þeir teknir til lengri tíma.

Okkur sýnist reyndar að staðan sé heldur að lagast í þeim efnum, 7-9-13. Botna pistil dagsins þó með örsögu af Mínum sem hrósar nú happi að hafa skothelda afsökun fyrir hvers konar gleymni. Hann stóð nebblega á því fastar en á fótunum í síðustu viku að apótekurnar á Landsanum hefðu illa klúðrað afgreiðslunni á lyfjaglösunum á Temomedac um mánaðamótin síðustu, fengið honum sjö í stað átta glös (já, það eru ekki nema fimm hylki í hverju glasi,vegna þess að í lengri tíma meðferð eru teknar  fimm töflur á fimm dögum og síðan gert hlé í 23 daga).

Horfði á yðar einlæga sterapirruðum svip á meðan ég rótaði í þrígang í lyfjaskúffunni og gáði á endanum tortryggin í lyfjaumbúðahrúguna í bréfakörfunni. Hrmpf! Maður man nú hvað maður fékk mörg glös afgreidd hvað sem öðru líður, fékk ektakvinnan að vita.

Minn rétt búinn að fá nýjan lyfseðil í hendurnar fyrir einu glasi enn frá læknirinum á 10K þegar hann þurfti að gá að einhverju í snyrtitöskunni sinni uppi í hillu. Og viti menn... kom ekki eitt lítið Temo-glas þar í leitirnar.

Alltaf er nú jafnskemmtilegt að hafa rétt fyrir sér, ekki síst þegar sá sem hefur haft á röngu að standa verður jafnlúpulegur og Minn heittelskaði þegar hann sagði mér frá því lágum rómi að ráðgátan um týnda lyfjaglasið væri leyst... ;)

4 ummæli:

Katrín sagði...

Glæsileg klippingin!
Stórt knús frá Danmörku xox

Nafnlaus sagði...

Þetta er tískan í Dag !

Nafnlaus sagði...

Baráttukveðja frá Istanbúl/Konstantínópel/Bysantinum, Kiddi og Hrefna XXX

Nafnlaus sagði...

Flottur Björgvin! Óskir um gott gengi. Hugsa til ykkar. Kveðja, Anna Sigga.