Líf í árvekni: Geislar frá ásynju

þriðjudagur, 2. október 2012

Geislar frá ásynju




K-byggingin heitir víst bara K-bygging af því að deildirnar í aðalbyggingu Landsans við Hringbraut voru búnar að hirða stafina sem eru á undan K í stafrófinu áður en hún var byggð. Einhver hefði kannski haldið að það væri út af kröbbunum sem eru hraktir þar á braut en það er reyndar krabbameinsdeild yfir í aðalbyggingu líka.

Þar sem frumlegheitum í þessu efni var ekki fyrir að fara þá kom það skemmtilega á óvart að komast að því í dag, á fyrsta degi geislastríðsins, að tækin tvö sem miðla geislunum bera nöfn sem bæði eru fengin úr norrænni goðafræði og voru valin að afstaðinni nafnasamkeppni. Önnur græjan heitir Þór eftir þeim alkunna og ástsæla syni Jarðar sem forðum fór í brúðardragg til að heimta aftur hamar sinn Mjölni, lumbraði á jötnum og var knésettur af Elli kerlingu. Hin græjan heitir Eir og um ásynjuna þá segir Snorri Sturluson okkur þetta eitt: ,,Hún er læknir bestur."

Oft er Snorri fámáll um það sem við hefðum gjarnan viljað fá að vita meira um en þetta er held ég áreiðanlega skemmsta lýsing hans á nokkru goðmagni í allri Eddu sinni. Hefði ég þó talið að æði mörg formæðra okkar og feðra hefðu beðið til Eirar um líkn og lækningu á þeim tímum þegar engin ráð voru við mannanna meinum önnur en einmitt að heita á æðri máttarvöld. En kannski fór bara minna fyrir þeim sem hétu á gyðju lækninga en á goð jarðargróðurs og hernaðar. 


Hmmm.... sýnist ég vera á góðri leið með að tapa þræðinum í frásögunni af prinsinum og drekanum og komin yfir í allt aðrar lendur. Sem skýrist vísast af því að ég hef dags daglega búið í hugarheimum innan um heiðna menn og konur undanfarin misseri. Afraksturinn þar af kemur fyrir almennings sjónir eftir fáeinar vikur (Fésbókarfólk getur litið við á síðunni Auður (djúpúðga) eftir nánari fréttum ... og hafiði ekki þegar gert hana að Ánægjuefni megið þið gjarnan bæta þar úr). 



Hvert var ég komin? Já. Geislatækið hans Míns heittelskaða og hughrausta heitir sem sagt Eir. Reiturinn sem geislar lækningagyðjunnar leika um í hálfa mínútu hvoru megin er teiknaður á bardagagrímuna. Svæðið er fremur stórt, enda nær það bæði utan um gamla drekann í gagnaugablaðinu og ungann sem hann eignaðist í september í hvirfilblaðinu og tveggja sentímetra jaðarsvæði í tilbót. Þeim er bætt við til þess að ná í skottið á æxlisfrumum sem víst er að þar eru að sniglast en sjást ekki á myndum.

Í stjórnstöðinni heyrist hávært píp í þessa hálfu mínútu sem hvort geislaskot varir en Minn sagðist bara hafa heyrt lágt suð rétt á meðan.

Eins og það er nú súrt út af fyrir sig að ekki er hægt að skera æxlisófétin þá hef ég lesið  mér það til í læknisfræðilegri yfirlitsgrein um þessi efni að af þeim þremur aðferðum sem notaðar eru gegn heilakrabbameini, (uppskurður, geislar, lyf), þá raðast geislarnir í efsta sætið, á undan skurðaðgerð, hvað varðar árangur. Geislarnir eru mikilvægastir. Og lyfjameðferðin sem hefur verið beitt frá aldamótum er talsvert betri en það sem áður bauðst, aukaverkanir miklu minni og áhrifin meiri.

Lyfið, temozolomíð, er tekið jafnframt geislameðferðinni í 40 daga og virkar bæði til þess að laska æxlisfrumurnar þannig að þær geti ekki fjölgað sér og líka til þess að gera þær viðkvæmari fyrir geislaskotunum. Það er tekið í töfluformi og veldur aðeins fáum ógleði sem þá má koma í veg fyrir með ógleðilyfi. Hárið fellur ekki af völdum þess eins og af völdum annarra krabbameinslyfja. Að vísu skjóta geislarnir hársekkina sem fyrir þeim verða í kaf þannig að Minn á eftir að verða þunnhærður í vöngum en skidt med det. Það vex að öllum líkindum aftur, gerði það að minnsta kosti síðast.

Læt þetta duga í bili þar sem dansk-sænska Brúin er um það bil að hefjast á RÚV en í næsta þætti - bloggsins, ekki Brúarinnar - verður sagt frá samtali við átta ára Skottu um heilakrabbamein og líka því að uppáhaldsnæring krabbameinsfrumna fæst einmitt í anddyri Landsspítalans í miklu úrvali...

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Baráttukveðjur - alltaf lærir maður eitthvað nýtt á að lesa bloggið þitt. Eir - jahá, þaðan kemur nafnið Eirberg yfir hús hjúkrunar á Landspítalalóð þá!
Baráttu- og batakveðjur,
Palli

Nafnlaus sagði...

Mögnuð lesning. Og athyglisvert að velta fyrir sér því sem Snorri skrifar - og því sem hann lætur ósagt.
Kær kveðja,
Valgerður