Líf í árvekni: Um fiðrildi, blóð og hinn fullkomna glæp

fimmtudagur, 8. nóvember 2012

Um fiðrildi, blóð og hinn fullkomna glæp


Við fengum þessa fallegu mynd senda frá góðum vini sem var á ferðalagi í Belfast á Norður-Írlandi og sá hana þar á sjúkrahússvegg. ,,Worry never robs tomorrow of its sorrow, it only saps today of its joy." Áhyggjur koma ekki í veg fyrir sorgir morgundagsins en spilla aðeins gleði dagsins í dag.Spaklega mælt og fagurlega skeytt fiðrildum.

Í mínum huga hafa fiðrildin þess utan lengi verið tákn frelsisins sem við öðlumst þegar við höfum öðlast styrk til að brjótast út úr púpunni og taka flugið.

Það er samt hægara sagt en gert að hafa aldrei áhyggjur af því sem gæti mögulega gerst síðar meir og velta því fyrir sér hvernig ætti nú að bregðast við þessu og hinu - sem síðan gerist ef til vill alls ekki, að minnsta kosti ábyggilega ekki þegar kona er viðbúin því. Auðveldast í heimi að missa stjórn á hugsunum sínum og láta þær teyma sig út í áhyggjumóana.

Eða hvers vegna eiga svona mörg okkar erfitt með að hugleiða? Skyldum ætla að fátt ætti að vera auðveldara í veröldinni að sitja kyrr í nokkrar mínútur og láta það ógert að hugsa. Útilokað. Hef ekki tölu á því hversu margar tilraunir ég hef gert til þess arna með sáralitlum árangri.

Ég á góða vinkonu sem er svo gott sem prófessjónal í þessari kúnst og hún sagði mér um daginn að það væri allt í lagi þótt ég geti alls ekki farið í lótus (eins og Minn heittelskaði, sjá mynd með eggjalánsbloggi) og slökkt á masinu í huganum því það sé reyndar eitt form af hugleiðslu að halda sig í deginum í dag og með hugann við það verk sem unnið er. Hugleiðsla mín þann daginn fólst í því að þegar ég skipti á rúmunum hugsaði ég um það eitt að koma hornunum á sængunum í hornin á verunum, hrista kodda og klappa sængur. Eina hugsunin sem ekki var bundin við augnablikið var tilhugsunin um hvað það yrði notalegt að kúra sig undir hreinum sængurfötum að kveldi dags. Líf í árvekni og hana nú. Að minnsta kosti stund og stund í erli dagsins.

Já, vel á minnst. Erill daganna fer reyndar lítillega vaxandi hjá yðar einlægri með útkomu Vígroðans þann 30. október. Þegar fyrri bókin um Þá djúpúðgu kom út fyrir þremur árum flutti ég ríflega fjörtíu kynningar á henni í jólabókaflóðinu og las upp út um allar trissur, fyrir austan, norðan, sunnan og vestan land. Eitt það skemmtilegasta sem ég geri að tala um bókina mína. Það er frekar einmanalegt djobb að skrifa. að Fámennt á kaffistofunni í pásum og enginn til að bera sig upp við ef sögupersónur eru með stæla og láta illa að stjórn. Því er ákaflega gaman að fá tækifæri til að hitta lesendur, bæði gamla og væntanlega. Þau eru fólkið sem skapar veröld Auðar með mér, hvert um sig.

En síminn er nú ekki farinn að hringja að neinu gagni ennþá sosum. Getur verið að viðtalið í Fréttatímanum hafi valdið því að fólk standi í þeirri trú að ég sitji daginn langan á rúmstokknum hjá Mínum og strjúki honum um enni og fölan vanga? Ætla rétt að vona ekki. Ef eitthvert ykkar sem þetta les heyrir slíkar vangaveltur þá í guðsbænum leiðréttið það.

Og talandi um heilsufarið hjá Mínum heittelskaða og hugrakka geislariddara: Blóðið í honum var rannsakað af hjálparhellunum á Landsanum í síðustu viku og þrátt fyrir allt það magn sem hann hefur sporðrennt undanfarnar fjórar vikur af rótsterku krabbameinslyfinu (Temomedac) þá eru blóðkornin hans í ágætu standi og bæði þau hvítu og rauðu fyllilega innan góðra viðmiðunarmarka. Þreytan sem hefur farið ört vaxandi síðustu dagana er því ekki blóðkornaskorti að kenna heldur fremur álaginu sem geislarnir valda, meðal annars á hormónabúskapinn.

Þeir hafa nefnilega ekki aðeins grillað drekaófétið heldur einnig hluta af heiladinglinum þar sem hormónastýring kroppsins hefur aðsetur sitt. Súnki hinir og þessir hormónar (latnesk nöfn eru hætt að festast mér í minni) meira niður í næstu viku fær Minn væntanlega nokkrar pillur í viðbót í kokteilinn sem hann hefur í forrétt bæði fyrir morgun- og kveldmat.
 
Á sunnudag verður síðasta Temomedac pilluglasið (þetta sem týndist og fannst aftur) tæmt. Þá tekur við 30 daga sumarfrí frá þvíumlíku og að því loknu verður tekin ný segulómmynd af heilanum til að skoða restarnar af steiktum drekanum í gagnauganu og uppljómuðu afkvæmi hans í hvirfilblaðinu. Læknirinn hefur þegar útskýrt að myndin sú muni vísast ekki sýna okkur neina minnkun strax á æxlunum. Þau geta jafnvel hafa stækkað miðað við myndina í byrjun september, vegna þess að meðferðin hefur ekki stöðvað vöxtinn fyrr en hún hefur staðið í a.m.k. fjórar vikur. Drekinn gæti þannig hafa stækkað þó nokkuð fram að þeim tíma og þótt hann hafi rýrnað eftir það þá gæti hann samt enn verið stærri þann 12. desember en þegar við börðum hann augum síðast. Vona að þetta skiljist hjá mér.

Hvað sem því líður þá er næsti mánudagur Lokadagurinn í geislastríðinu sem þá hefur staðið í sex vikur. Þrjátíu heimsóknir til geislagyðjunnar Eirar á 10K. Það verður klárlega haldið upp á það.
 
PS  Ef þú hefur enn látið ógert að láta þér líka við síðu VÍGROÐA á Facebook - sú heitir reyndar ,,Auður (djúpúðga)" - þá yrði yðar einlæg þakklát ef þú bættir þar úr. Og enn þakklátari ef þú myndir bjóða fleirum í hópinn.

P.P.S. Í auglýsingaskyni vil ég svo bæta því við að það er framið morð í þessari sögu sem má jafna við hinn fullkomna glæp því það mun aldrei upplýsast. Hinn seki mun þó taka út refsingu sína. Segi ekki meir. (Það er ekki eins og krimmahöfundar hafi einhvern einkarétt á glæpasögum)...

4 ummæli:

Ingunn sagði...

Var að ljúka við Vígroða, hún var svo spennandi að ég las hana í einni lotu, og nagaði á mér neglurnar! - sem var raunar ekkert svo gott, en þær vaxa aftur :-) Til hamingju með bókina, frú mín góð, hún er alveg frábær og ég fór alla leið inn í annan heim og var treg til að snúa til baka á Ísafjörð. Þú ert snillingur, gangi ykkur vel í baráttunni, takk fyrir mig.

Nafnlaus sagði...

Elskuleg, fallegur pistill að vanda
xxx Auður Lilja

Nafnlaus sagði...

Ég kann vel við belföstu orðin.

dhk

Nafnlaus sagði...

Gæti hugsanlega verið að þú sért mögulega að velta fyrir þér hvort þú ættir kannski að spá í að skrifa sögulega glæpasögu? Væri það ekki eitthvað?
Takk annars fyrir góðan pistil
þva
Matta