Líf í árvekni: Sparkað í rassinn á dreka

miðvikudagur, 14. nóvember 2012

Sparkað í rassinn á dreka

Ýmsar aðferðir hafa verið hafðar til þess að bana drekum í gegnum tíðina. Hetjan Sigurður gerði sér gryfju á vegi drekans Fáfnis á Gnitaheiði að ánni þar sem hann fékk sér að drekka og lagði þaðan sverð sitt upp í kvið hans. Útsmogin drápsaðferð, vissulega, og skilaði góðum árangri. Að undanförnu hef ég haft á náttborðinu afar skemmtilega bók um breska dreka þar sem safnað hefur verið saman alls kyns fróðleik um dreka á Bretlandseyjum og hinar margvíslegustu aðferðir við það sem höfundurinn, Jacqueline Simpson, nefnir dragonicide. (Því  má við bæta að hún sagði mér í matarboði í Þúsaldarhverfinu Grafarholti í haust að þetta fallega orð væri hennar eigin hugarsmíð). 

Af mörgum ágætum aðferðum sem þar er greint frá finnst mér sú langsamlega skemmtilegust sem sést á myndinni hérna og ég hef geymt mér að brúka í bloggið þar til núna, að afloknu geislastríði Míns heittelskaða gegn drekanum Anaplastic Astrocytoma sem býr í kolli hans. 

Hér sést nefnilega hvernig riddarinn More frá More Hall sparkar duglega í rassinn á drekanum í Wantley og þótt ótrúlegt megi virðast þá hafði þetta spark þær afleiðingar að drekinn datt um koll og dó. Tókst með naumindum að láta þess getið í kvæði í andarslitrunum að hefði More látið ógert að sparka einmitt í þennan óæðri stað þá hefði honum aldrei tekist að fyrirkoma sér. 
 
Við slíka dreka sem við er að eiga á okkar heimili er því miður ekki hægt að beita þessari heldur óhefðbundnu aðferð hins engelska riddara - nema þá í óeiginlegum skilningi.

Læknavísindin eru meira inn á því að ,,skera, brenna og eitra", svo snarað sé slangri úr enskumælandi krabbaheiminum um bardagaaðferðirnar (,,slash-burn-poison"). Og nú í vikunni lauk sem sé geislastríði hinu seinna  - og um leið fyrstu lotu í lyfjameðferðinni sem hafði það að markmiði að laska æxlisfrumurnar þannig að þær yrðu enn veiklaðri og viðkvæmari fyrir geislunum. 

Eftir síðasta tímann afhentum við prinsinn hugrakki hjálparhellunum okkar á geisladeildinni 10K á Landspítalanum innpakkaða bók (vitanlega með drekamynd á kápunni...!) í þakklætisskyni fyrir geislana sem þær hafa miðlað honum frá lækningagyðjunni Eir undangengnar sex vikur og ekki síður fyrir geislandi brosin og hlýtt viðmótið. Satt að segja held ég að það sé leitun að jafnhlýlegu fólki og brosmildu og því sem starfar á 10K,megi Sú almáttuga blessa þau öllsömun. 

Næsta mánuðinn á Minn ,,frí" frá lækningunum en að því búnu upphefst sex mánaða lyfjameðferð með sama æxlishemjandi lyfinu og hann hefur tekið inn sl. 40 daga. Þá verður sá munur á að skammturinn verður stækkaður en aðeins teknar inn fimm töflur í jafnmarga daga og síðan gert hlé á í 23 daga. Það verður komið fram í sólmánuð 2013 þegar yfir lýkur.


Um árangurinn af þessu öllu saman vitum við ekki fyrr en eftir dúk og disk því næsta segulómmynd (13. des) mun væntanlega ekki sýna neinar sérstakar breytingar. Vera má þó að eitthvað hafi æxlin rýrnað á næstu mynd þar á eftir, þremur mánuðum síðar eða um miðjan mars. Markmiðið er fyrst og fremst að hemja vöxtinn og náist það verðum við þakklát, því meir sem tekst að stöðva ófétin lengur frá því að taka nýjan vaxtarkipp, en rýrni þau ofan í kaupið þá verðum við enn þakklátari. 

Það er nefnilega þannig að drekar af þessu tagi verða ekki lagðir að velli í eitt skipti fyrir öll. Í rassinn á þeim þarf að sparka í hvert sinn sem þeir hreyfa sig og freista þess að rota þá um sinn. Vel má vera, sagði krabbameinslæknirinn á mánudaginn, að þessi lota muni duga til þess að halda meininu í skefjum í einhver ár. Þess vegna höldum við áfram að vera þakklát fyrir hvern dag sem upp rennur í austri og látum morgundaginn sjá um sig sjálfan. 

Framundan er hvíld hjá prinsinum hugrakka eftir atganginn í geislastríðinu og umtalsverður bóklestur hjá prinsessunni undurfögru (þ.e. sko yðar einlægri ef mig skyldi kalla). Um helgina er það Bókamessa í bókmenntaborginni Reykjavík - öll velkomin í Ráðhúsið - og upplestrar um allar trissur sem ég sting inn upplýsingum um jafnóðum á Fjasbókarsíðuna Auður (djúpúðga). Þið eigið hlýjar hugsanir okkar beggja vísar fyrir áframsendingar og deilingar á þvíumlíku og sömuleiðis fyrir allar góðu kveðjurnar sem við höfum fengið bæði hér, á Facebook og á förnum vegi. 

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Tár- og broskveðja á ykkur hetjurnar frá nýnudduðum kalli sem er að fara að leggja sig í Lima, í síðasta sinn í bili. Sjáumst :-*

Nafnlaus sagði...

Þið eruð dugleg. Niður með ófétin.

-dhk