Líf í árvekni: Um afleiðingar þess að fá lánuð egg

fimmtudagur, 25. október 2012

Um afleiðingar þess að fá lánuð egg


Kvöld eitt fyrir tæpum mánuði vantaði mig bráðnauðsynlega tvö egg í bakstur og þar sem búið var að loka búðinni skrapp ég yfir til Helgu nágranna sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. En sem ég beið eftir eggjunum niðri í mjög svo smekklegri forstofunni hennar Helgu (hún býr uppi og inngangurinn er á jarðhæðinni líkt og hjá okkur) tók ég eftir því að hún var með afar sterklega galvaníseraða stöng undir yfirhafnir og þótti nokkuð til koma.

Þið skiljið hvers vegna þegar þið lítið á myndina hérna fyrir neðan en þar getur að líta þáverandi signa og veigalitla krómstöngina í okkar síður smekklega fatahengi.


Ég fór heim með eggin og horfði djúpt hugsi inn í fatahengið okkar. Það var málað í snarheitum snemma árs 2003 fyrir flutning bráðum fimm manna fjölskyldu og ekki sinnt síðan þá að öðru leyti en því að draga kápur og frakka af og til betur fyrir vegginn ljóta. Skótauið um allt gólf og eitthvað uppi í hillum líka, litla Ikea skóhillan löngu horfin sjónum undir byrðinni.


Stigabríkin til vinstri orðin svartröndótt eftir hjólastýrin. Lamirnar enn á dyrakarminum þótt við höfum fleygt burt hurðinni fyrir mörgum árum. Ljóti kertastjaki fyrri eigenda enn á veggnum þótt þar hafi aldrei verið lagt í að kveikja á kerti. Hvítmálaðar hillurnar rispaðar og sjúskaðar af átta ára notkun undir allt mögulegt, meðal annars fjórar mismunandi bastkörfur sem ekki hafa komist annars staðar í brúk á heimilinu.

Óskiljanlegt í rauninni, þegar höfð er í huga allt að því sjúkleg árátta húsfreyjunnar til þess að gæta ítrasta samræmis í sétteringum, allt frá hnífapörum til húsgagna.


Úlpur og dót á snaganum í enda kompunnar þar sem ekki hefur þótt þorandi að leggja meira á krómstöngina, svo bogin sem hún var orðin. Galvaníseruð járnstöng eins og hjá Helgu nágranna myndi nú bera meira en þessi ræfill, hugsaði ég með mér á meðan ég braut eggin og byrjaði að baka.

Ekki gott fengsjú í því að láta þetta vera það fyrsta sem blasir við augum þegar komið er inn í kastalann. Ég sá að þetta gengi hreinlega ekki lengur. Og þar sem Minn heittelskaði og handlagni ektamaður var einmitt kominn í óvænt frí frá störfum (sjá fyrri pistla) og í ofanálag farin að bryðja orkuaukandi stera af miklum móð var lausnin borðleggjandi.

Hann var sem betur fer á sama máli, ekki síst fyrir á orsök að þar með fékk hann leyfi til þess að klæðast ósmekklegu Hawai skyrtunni sinni sem ég af alkunnri smekkvísi minni hef harðbannað honum að nota nema eingöngu til málningarvinnu. Og daginn eftir var hafist handa.


Til þess að lagfæra mætti vegginn almennilega og þétta samskeytin um leið tók Minn stærstan hluta gereftisins burt. Þarna hinum megin við spjaldið í fyrrum dyragætt er eldhús íbúðarinnar á jarðhæðinni og stundum gerst að steikarilminn - að ég segi ekki brælu - hafi lagt í gegn. (Takið eftir jógastellingunni, sérlega þægileg vinnustelling að sögn hins handlagna heimilisföður).


Veggurinn gleypti á nokkrum dögum innihaldið úr þremur tveggja lítra fötum af spartli.


Þegar sparslvinnunni var lokið var tekið til við að mála. Af einhverjum ástæðum kom húsfreyjunni til hugar að það gæti verið smart að hafa mildan, grænan lit á kompunni og heim var farið með lítra af ,,laugargrænu" sem hún taldi víst að væri ekki eins ljótur og nafnið gefur til kynna þegar hann yrði kominn á veggina. Það reyndist alrangt, liturinn var enn ljótari og er hér með alvarlega varað við laugargrænum lit á heimilum. (Nei, það var ekki tekin nein mynd af honum en forvitnir geta virt fyrir sér litinn á botni næstu sundlaugar við tækifæri).

Marmarahvít málning (2 lítrar) fór yfir hörmungina og síðan var haldið út í BYKO eftir 1.4 metra hilluefni til þess að fullnýta rýmið. Skóhillan fékk á sig sama djúpbláa litinn og er á stigahandriðinu og var síðan fest á þrjá hillubera nógu hátt frá gólfi til þess að undir hana má einnig koma skótaui. Háu hillurnar fengu á sig sama lit, því næst dyrakarmurinn (eftir að götin eftir fjarlægðar lamir höfu einnig verið spörtluð) og sömuleiðis stigabríkin. Bless, hjólastýrisrákir.


Stöngin sterklega, 3/4 tommu að gildleika og galvaníseruð, nákvæmlega eins og hjá Helgu nágranna, fannst í Húsasmiðjunni.

Þar var skrúfgangur snittaður á báða enda eftir málinu okkar sem var svo hárnákvæmt að það tók talsverða lagni að koma henni á sinn stað með þessum líka traustlegu festingum sem sú sem hér slær lykla veit nú að heita galvaníserað fláns (kannast hlustendur við orðið fláns ellegar uppruna þess?)



Sem sjá má er yfrið nóg pláss fyrir skótau fjölskyldunnar á þessum 2 x 140 sentímetrum.

Litli skápurinn undir stiganum sem geymir endurvinnslupoka og kattamat var líka málaður í bláu og settur nýjum hnúð úr postulíni, keyptum í uppáhaldsbúð Míns heittelskaða, Brynju við Laugaveg.
Punkturinn yfir hið fræga i var síðan þessi ryðbrúni og skrautlegi snagi með postulínshnúð sem kom í stað leirkertastjakans. Héðan í frá þarf ekki að gera langa leit að skóhorninu undir hrúgum af yfirhöfnum (sem ég veit að mun gleðja karl föður minn í næstu heimsókn), né heldur geymslulyklinum sem er nú festur við svo stóran leðurbút að Mínum ætti að vera ógerlegt að gleyma að taka hann úr vasanum og skila honum á sinn stað. 

 Merkilegt hvað svona litlir hlutir geta breytt miklu. Speglinum sem áður sneri lóðrétt úti í horni var að endingu snúið lárétt og færður á nýjan stað. Voila! 
 

 Og hvar er svo Vala Matt þegar kona getur loksins boðið henni í bæinn án þess að skammast sín?

P.S. Úps! Man núna að ég á enn eftir að borga Helgu nágranna eggin til baka ...

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábært !!!

Nafnlaus sagði...

I need a handy man!! Your hallway looks spectacular. Send Bjorgvin down to me... lots of work needing done here at my house. Sent you awee e-mail last week Vila. hope thins are going well
Love
Moarg D.x

Unknown sagði...

Geggjuð breyting :) þið eruð æði.
Er alveg farin að hlakka til að fá smákökur hjá ykkur í desember.

Knús og kossar

Sigurður Karl sagði...

Flangs er það frænka heillinn en ekki fláns. Og er yfirleitt notað um festi flangs, ryðfrían,svartan er galvaniseraðan. Sést best þar sem rör eru boltuð saman með bolta flangs, mikið af því í skipum svo karl faðir þinn ætti að þekkja það. Held þetta sé tekið úr dönsku með smá breytingum. Æjj bara varð að bögga þig. Kv fallegi frændi þinn hann Siggi