Líf í árvekni: Bogginn og við

miðvikudagur, 24. október 2012

Bogginn og við

Við Skottan erum þessi kvöldin langt komnar með lesturinn á þriðja bindinu um ævintýri galdrastráksins Harrys Potter sem stundar nám í Hogwartsskóla, einhvers staðar í skosku Hálöndunum (þar sem Auður djúpúðga Ketilsdóttir ríður um héruð í Vígroða, en það er önnur saga). Nú síðast lásum við um viðureign Harrys og skólafélaga hans við óvættina bogga í tíma í faginu Vörn gegn myrku öflunum og hlógum dátt.

 Boggi, fyrir þau sem ekki eru kunnug undraheimi J.K. Rowling, er skepna sem felur sig í myrkum skúmaskotum, til dæmis standklukkum og kjallarakompum, og hefur unun af því að valda skelfingu. Enginn veit hvernig boggi lítur út í raun og veru því hann tekur á sig hverja þá mynd sem skelfir viðkomandi mest af öllu. Sá sem er til dæmis með köngulóarfælni, eins og Ron Weasley, besti vinur Harrys, sér þá boggann sem ægistóra könguló en Neville, sem er hræddastur við töfradrykkjakennarann Snape birtist óvætturin sem ... rétt til getið, Severus Snape (leikinn af einum kynþokkafyllsta leikara Breta, Alan Rickman, en það er líka allt önnur saga).

Sjálfur er Harry hræddastur við vitsugurnar sem sjúga í sig alla lífsgleði og góðar minningar þar til fórnarlambið missir vitið og langar til þess eins að deyja. Hann er sem sagt hræddastur við óttann sjálfan og það, líkt og kennarinn hans segir, er ákaflega skynsamlegt. Það er aðeins ein leið til þess að sigrast á bogganum. Hún felst í því að hugsa af öllum kröftum um það sem gerir það sem þú skelfist mest hlægilegt um leið og þú mælir skýrt og ákveðið fram töfraorðið ,,riddikulus".

Eins og þau sem þekkja engilsaxneska tungu átta sig á er þarna komið sama orðið og ridiculous sem merkir einmitt hlægilegt eða fáránlegt. Ron Weasley hugsar sér köngulóna lappalausa; bogginn breytir sér óðara samkvæmt því og rúllar bjargarlaus um gólfið. Neville litli Longbottom hugsar um kennaraófétið Snape íklæddan fötum ömmu sinnar, grænum kjól og hatti skreyttum uppstoppuðum hrægammi, og bogginn bregst við samstundis með sprenghlægilegum afleiðingum. Svo miður sín verður óvætturin af hlátrinum sem hún vekur að hún leysist upp í reykjarbólstra og sést ekki framar. Húmorinn hrekur óttann á braut.

Bogginn okkar hér í Hallveigarkastala, sem erum að læra að lifa með krabbadreka á heimilinu, tekur á sig ýmsar myndir sem flestar eiga það sameiginlegt að eiga heima í óljósri framtíð. Óttinn við það sem ekki hefur gerst ennþá en mun gerast kannski og ef til vill síðar meir reynir að smeygja sér inn fyrir þröskuldinn og breiða úr sér. Slái drekinn til halanum og valdi nýjum einkennum, eins og auknu mismæli og orðagleymni, bregður okkur í brún og hugurinn tekur á rás um allar þær brautir sem bogginn býr til á ógnarhraða.

Og þá er nú ágætt að rifja það upp að sá sem er með dreka í kollinum hefur til dæmis afar góða afsökun fyrir nánast hverju sem er. Hann getur komist upp með að muna ekki hvað nokkur einasti maður heitir, hvort sem hann stendur honum nærri eða fjarri, á meðan aumingjans ektakvinnan kemur sér í stöðug vandræði með að geta alls ekki fest í minni heiti á til dæmis foreldrum bekkjarsystkina Skottunnar né heldur reyndar andlit þeirra og marga annarra sem hún mætir þó hvað eftir annað á förnum vegi. Og hefur enga haldbæra afsökun.

Drekariddarinn þarf ekki heldur að muna neina afmælisdaga eða stefnumótin hist og her, kennitölur fjölskyldumeðlima eða neitt yfirleitt af því ótalmarga sem við ,,eigum" að muna og hafa á hraðbergi alla daga. Að vísu er Minn þó svo riddaralegur að hann skellti þeirri afsökun ekki á borðið í gær við ókunnuga afgreiðslukonu í apótekinu að hann gæti ómögulega munað lengur kennitöluna móður sinnar vegna þess að hann væri með krabbameinsæxli í heila á þeim slóðum þar sem þessar upplýsingar eru geymdar. Maðurinn kann sig nú. Nei, hann hringdi bara í Sína, sagðist ekki muna töluna fyrir mömmu og rétti afgreiðslukonunni síðan gemsann. Hló að sjálfum sér þegar heim var komið og hristi höfuðið yfir ,,öllu ruglinu" sem kemur út úr honum.

Við erum að átta okkur á því að bogginn / óttinn mesti felst ekki einmitt í því sem henti í dag, eins og til dæmis að muna ekki lengur kennitölu sem hefur verið romsað upp oftar en tölu (!) verður á komið í bönkum, apótekum, pósthúsum. Heldur hinu sem er ástæðan að baki gleymninni og því sem býr í morgundeginum. Við ráðum alveg ágætlega við sem er fyrir framan okkur í dag. Lífið er röð atvika sem við leysum úr einu af öðru, yfirleitt með ágætum árangri. (Og þó það takist jafnvel stundum brösulega, þá skiptir það í rauninni ekki svo miklu máli, svona í hinu stóra samhengi alheimsins.) Það sem skelfir er að geta ekki séð fyrir eða leyst fyrirfram úr því sem á (hugsanlega og kannski) eftir að gerast síðar meir. Hvað ef...?!

Sem getur líka verið broslegt út af fyrir sig. Myndum við yfirleitt nenna að fara á fætur að morgni ef við vissum hvað hver einasti dagur ber í skauti sér? Hvað yrði þá um eftirvæntinguna, gleðina yfir því óvænta, yfir stóru og smáu, og um vonina sem gerir lífið mögulegt? Og þá er ég ekki að tala um vonina eftir kraftaverki heldur þá von sem fjallað er um í pistli skrifuðum sumarið 2007, að afloknu fyrra geislastríði Míns heittelskaða.

Harry Potter, svo við víkjum nú að galdrastráknum aftur í lokin áður en þetta verður alltof alvarlegt, er sá eini (auk skólameistarans) sem þorir að nefna leiðtoga hinna myrku afla, Voldemort, á nafn. Allir aðrir segja ,,sá-sem-ekki-má-nefna" og lamast af hræðslu við það eitt að ófétið sé nefnt á nafn. Þannig gefa viðhorf þeirra ógnvaldinum aukinn mátt. Harry botnar ekki alveg í þessari skelfingu fólksins í kringum sig en hefur sér það til ,,afsökunar" að hann er ekki alinn upp í óttanum við Voldemort og sögur af voðaverkum hans. Fyrir honum er Voldemort ,,bara Voldemort".

Ég er ekki frá því að hið sama gildi um heilakrabbamein. Og raunar hvaða ,,dreka" sem við þurfum að kljást við og/eða læra að lifa með á heimilinu. Hvort sem það er alvarlegur sjúkdómur okkar sjálfra eða ástvinar, geðræn vandamál eins og dökkur tónn í sálinni og kvíði, þroskaskerðing barns, hjónaskilnaður, ástvinamissir, einelti, kynferðislegt ofbeldi eða önnur áföll í fortíðinni, eigin fíkn eða annarra í mat, áfengi eða lyf. Allir þurfa að takast á við eitthvað í þessu ævintýri sem lífsgangan er og það er alveg áreiðanlegt að það er alltaf léttara þegar við gefum okkur leyfi til að tala um þrautirnar okkar og kalla hlutina sínum réttu nöfnum.

Takk fyrir að hlusta á mig.

8 ummæli:

bogason sagði...

Nú er klukkan hjá mér nefnilega 18:21, sami tími og þegar þú skrifaðir þinn pistill, væntanlega í gær, því annars er ég tímaflakkari. Svona geta nú tilviljanir verið skemmtilegar.

Ég á nefnilega stundum erfitt með að kalla hlutina réttum nöfnum, kannski í þeirri vona að ef ég ekki nefni þá, þá hverfi þeir á braut, ef þeir heyra ekki nafn sitt kallað.

Takk fyrir pistilinn, allar þessar litlu ferðasögur um tilveruna...

Kv
Gummi

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Það væri skemmtilegra ef þú værir tímaflakkari en skýringin er samt sú að blogspot.com kann ekki á íslenska klukku og mér hefur ekkert gengið að finna leið til að bæta úr þessum stundarmun sem er á Klakanum og sæberspeisinu þar sem blogspot.com á heima. Þú með þínar tölvusénísgráður gætir kannski leyst úr vandanum? Péess: Takk fyrir að skrifa kveðju; fátt veit bloggarinn skemmtilegra en einmitt að fá lestrarkvitt.

Þorgerður Mattía sagði...

Takk Villa fyrir enn einn góðan og hugvekjandi pistil. Tíminn hjá mér er 16:30 svo tímaflakkið heldur áfram (en ég er reyndar á Bahama þar sem hvirfilvindur mun væntanlega æða um á morgun, þann hinn sama dag og ég stefni á að fljúga til Jamaica).

Það er þetta með óttann! Ég get vitaskuld illa sett mig í spor ykkar kastalabúa, en ég veit að húmorinn er lykilþáttur í að takast á við svo margan drekann. Við systkinin höfum t.d. ævinlega reynt að sjá og benda á húmorísku hliðarnar á alzheimersjúkdómnum sem hefur herjað á hana mömmu mína árum saman. Því hló ég dátt um daginn þegar ég fékk þær fréttir að mamma hefði heilsað yngstu systur minni um leið og hún kynnti sjálfa sig sem: Þorgerði Mattíu. Greinilegt að hugur minn og hugsanir til hennar hafa undarleg áhrif á huga hennar :)

En knús og takk fyrir skrifin, þú heldur áfram að opna okkur sýn. Gangi ykkur vel í baráttunni! Kær kveðja, Þorgerður Mattía

Gunnars bilder sagði...

það eru margir voldemortar í þessum heimi og gott að æ séu fleiri sem nefna hann á nafn eins og ekket sé. voða er þetta einkennilegt hvað margir finna sig knúna til að halda sjúkdómum leyndum en þetta er nú á réttri leið þó hægt gangi. kveðja Gunni

Davíð Halldór sagði...

Takk fyrir lesturinn.

Nafnlaus sagði...

Dittó á Davíðs skrif. Þetta er snubbótt lestrarkvitt... Og baráttukveðja frá flakkara.
Knús,
Kiddi

Ragga sagði...

Kæra Villa
það eru forréttindi að fá að vera samferða þér á veginum, ég mun aldrei þreytast á því að hlusta á þig. Það er ómetanlegt að fá að fylgja ykkur í andanum, gegnum skrifin þín.
Knús og kossar frá Röggunni.

Aldís sagði...

Það er sannarlega gott að geta skrifað um hlutina af hispursleysi. Kemur ekki á óvart að hið ókomna, hvað framtíðin kann að bera í skauti sér, skuli geta vakið kvíðahnút. Mikið sé ég Björgvin vel fyrir mér í apótekinu, lætur ekki slá sig út af laginu og tekst á við þessar hversdagsglímur af stakri ró í bland við kómík. Kveðja til ykkar frá okkur í MH (er reglulega spurð um hann þar)