Líf í árvekni: Hugrakkur prins bryður stera, borðar kex og kaupir Nivea

mánudagur, 15. október 2012

Hugrakkur prins bryður stera, borðar kex og kaupir Nivea

Skýringuna á því hvað þessir dularfullu akurhringir hafa að gera með heilakrabbamein er að finna um miðbik pistilsins.
Það er svo margt í daglegu lífi sem við göngum að sem gefnu, svo ótal margt sem við höfum lært allt frá því að við mæltum fram fyrstu orðin. Tugþúsundir atriða hafa þotið fram og til baka eftir taugabrautunum í heilanum í milljónir skipta. Við veltum því aldrei fyrir okkur hvað það er í rauninni merkilegt að á broti úr millisekúndu munum við hvað allt okkar fólk heitir, þurfum kannski ekki nema hálfa eða eina sekúndu til að kalla fram í hugann nafnið á fjarskyldri frænku sem við erum bara í jólakortasambandi við eða skólafélaga úr æsku sem við höfum þó ekki hugsað um í tuttugu ár, getum romsað upp úr okkur viðstöðulaust nöfnum á systkinabörnum okkar og tengdafólki, mágum og mágkonum, þremenningum og svona áfram. Og ekki aðeins heitin á fólkinu heldur heitin á öllum hlutunum sem eru í kringum okkur, grænmetinu, ávöxtunum, kryddinu, litunum, húsgögnunum, spilunum í spilastokknum: laufagosi, tíguldama, spaðakóngur, hjartafimma og séð það allt saman fyrir hugskotssjónum okkar í sömu svipan.

Ég gæti haldið áfram í það óendanlega en veit að þið skiljið hvað ég er að fara. Horfið í kringum ykkur og reynið að telja hversu mörg nafnorð koma upp í hugann á sama augnabliki og þið lítið hlutinn augum.

Við látum dæluna ganga á móðurmálinu og mörg okkar kunna annað mál til og jafnvel það þriðja, allt án þess að gefa því nokkurn gaum hvað það er magnað að öll þessi orð skuli rata rétta leið úr kollinum fram á tunguna, hlæjum vandræðalega þessi fáeinu skipti sem okkur verður á mismæli og við segjum eitthvað annað en við ætluðum. Og okkur finnst líka ákaflega einfalt og sjálfsagt að geta skrifað öll þessi orð niður á blað eða slegið þau inn í tölvuna. Allt þar til það er hvorki einfalt eða sjálfsagt lengur.

Þannig er það hér í Hallveigarkastala þessa dagana, nú þegar tvær vikur eru liðnar frá því að prinsinn hugrakki hóf geisla-og lyfjastríð sitt gegn drekanum og afkvæmi hans. Nokkrum sinnum á dag heyri ég að hann skortir orð, mismælir sig og notar allt annað orð eða nafn en hann augljóslega ætlaði að nota. Ég geri fastlega ráð fyrir því að fyrir hvert eitt skipti sem ég tek eftir því hafi hann sjálfur fundið fyrir því margfalt oftar og kosið að segja færra en ella eða alls ekki neitt.

Að vonum misskiljum við hvort annað oft á tíðum, ekki síst þegar yðar einlæg gleymir sér og lætur móðan mása á vanalegri fart sem mótaðist í æsku þegar það gilti í stórum systkinahópi að tala sem mest þegar orðið á annað borð náðist og láta það helst ekki af hendi nema fyrir eftirgangsmuni.

Ég er samt orðin flinkari í að átta mig á því hvenær við tölum í austur og vestur. Það gerist helst þegar ég hef skeiðað í gegnum tvö eða þrjú atriði í einni lotu og svarið sem ég fæ vísar til þess fyrsta. Líka þegar ýmislegt áreiti - sem að öllu jöfnu er auðvelt að útiloka - truflar viðtektina, eins og umhverfishljóð af öllu tagi, músík í útvarpi, hlátrasköll í Skottunni og vinkonunum, barnamyndin í sjónvarpinu, umgangur, tveir tala í senn; í stuttu máli allt þetta sem við sigtum fyrirhafnarlaust burt þegar allt er með felldu. Býst við að þau sem glíma við athyglisbrest skilji einna helst hvað við er átt.

Sömuleiðis gengur ekki að ætla að eiga gáfuleg samtöl þegar prinsinn hugrakki er að fást við verk sem krefst einbeitingar hans. Hann er flinkur kokkur og getur eldað Chili con carne eftir langri og flókinni uppskrift með alls konar kryddi, baunum, hakki og grænmeti. Eins og hann gerði reyndar í kvöld. Og hann getur líka hlustað af athygli á skoðanir mínar á uppruna Íslendingasagna í munnlegum arfsögnum og skáldlegum meðförum sagnafólks í gegnum aldirnar, allt þar til einhverjum lærðum karli sem átti fé fyrir kálfskinni (hugsanlega búsettum í Reykholti), kom til hugar að láta skrifara sinn festa þessar sögur á bókfell. En hann gerir ekki hvort tveggja í senn, að galdra fram pottréttinn og að meðtaka innblásna speki sinnar heittelskuðu. 


Og þá kemur að skýringunni á efstu myndinni sem sýnir kornakra sem í hafa verið troðin fegurstu mynstur, að sumra mati af hrekkjóttu fólki en annarra af verum utan úr geimi sem vilja koma til okkar mikilvægum (en óskiljanlegum) skilaboðum. Eitt sinn var truflun á starfsemi heilans af völdum krabbameins þar nefnilega skýrð fyrir okkur þannig að heilanum mætti líkja við kornakur og taugabrautunum við slóðir í akrinum sem verða til þegar hveitiöxin eru troðin niður. Hver ferð eftir upplýsingum myndar slóð og því oftar sem sömu upplýsingar eru sóttar, því fljótfarnari er slóðin.

En þegar krabbaæxli hlassar sér niður í miðja brautina þá þarf að troða nýja í kringum það til þess að sækja upplýsingarnar, sem vissulega eru enn fyrir hendi. En það tekur tíma að þræða sig í kringum æxlið og mynda nýja braut á réttan áfangastað. Og þegar það á endanum tekst að finna til dæmis orðið eða setninguna sem segja átti má fastlega gera ráð fyrir því að umræðurnar við kaffiborðið séu komnar á allt aðrar og nýjar slóðir.

Við vitum að þessar truflanir á tjáningu og viðtekt stafa af fyrirferð æxlanna tveggja og þó enn frekar af bjúgnum sem bæði vöxtur þeirra og ekki síst geislarnir valda í heilanum. Flest vitum við að sá sem dettur harkalega á höfuðið hefur fengið heilahristing ef honum verður óglatt. Færri vita að ógleðin er vegna þrýstings af völdum bjúgs sem myndast sem svörun líkamans við högginu. Hið sama gerist þegar heilaæxli veldur þrýstingi með örum vexti og einnig þegar geislum er beint á heilann: bjúgur myndast.

Sterar eru mikið galdralyf, eitt af þeim allra merkilegustu sem manneskjan hefur fundið upp, sagði góður vinur í læknastétt okkur. Þeir virka á heilabjúg eins og blessað penicillinið á sýkingar. En þótt Minn heittelskaði gleypi heila lófafylli af þessum litlu hvítu töfrapillum dag hvern duga þær ekki til að vinna alveg á þessari vökvasöfnun því svæðið sem verður fyrir geislunum er stórt. Það er ekki fyrr en geislastríðið verður að baki um miðjan nóvember og æxlisvöxturinn stöðvaður sem bjúgmyndunin hættir og sterarnir ná að ,,þurrka upp" vökvann að fullu. Og ekki fyrr en þá komumst við að því hversu mikið af þessum einkennum mun ganga til baka.

Eins og mörg áhrifarík lyf hafa sterarnir ýmsar miður skemmtilegar aukaverkanir sem ágerast eftir því sem á líður. Sú sýnilegasta er líklega fitusöfnun í andliti og andlitsroði. Vinkona, sem hefur í áravís þurft að bryðja stera vegna sjúkdóms, segist hafa ,,hamstra-andlit". Önnur er kolvetnagræðgi sem í tilviki Míns heittelskaða, sem hefur haldið sig frá viðbættum sykri um langt skeið, lýsir sér einkum í ómældri neyslu á Frón matarkexi og Kornmo hafrakexi. Og þætti nú mörgum nautnabelgnum og nammigrísnum kannski ekki mikið þótt þeir fjúki hér orðið þrír og fjórir kexpakkar í sort á viku.

Sú þriðja kom okkur illilega á óvart en það var kvíði sem aldrei hafði gert vart við sig í geislastríðinu 2007. Enn meir undruðumst við að heyra að þess háttar hendir upp í helming þeirra sem þurfa að taka stera um langt skeið. En til allrar guðslukku eru til ágætar pillur við þess konar líka. Sú fjórða, sömuleiðis algeng, hefur ekki látið á sér kræla ennþá en það er geðstirfni sem ku á við fyrirtíðaspennu í þriðja veldi. Er ekkert viss um að hún muni sýna sig yfirleitt hjá Mínum, að minnsta kosti ekki út á við, svo æðrulaus sem hann er og jafnaðargeðinu viðbrugðið.

En eins og þið sjáið hér af þá er við ýmislegt að kljást þessa dagana, margt að meðtaka, skilja, höndla og læra að lifa við. Minn heittelskaði hefur á meðan ég sit hér við pistilskrif verið að læra á lítið undratæki til að hjálpa sér við þetta verkefni. Þetta er vasahljóðriti, sem jafnframt er tónhlaða (mp3 spilari). Þar inn á getur hann nú talað hin og þessi atriði sem hann vill muna, hvort sem það er nú  læknisviðtalið á morgun eftir geislaskammt dagsins, eða að það þarf að kaupa meira matarkex. Græjan heitir König sem ég held að þýði áreiðanlega kóngur á þýsku. Viðeigandi fyrir prins, verð ég að segja. 

En þótt Minn eigi í basli við að skrifa þá getur hann samt lesið án teljandi vandkvæða. Um daginn fór hann að versla að venju sinni og á tossamiðann hafði ég sett andlitshreinsi frá Nivea sem hann hefur keypt inn fyrir mig sirka mánaðarlega í áravís. Til þess að vera samt alveg viss um að hann færi ekki í grafgötur um hvað hann ætti að kaupa þá skrifaði ég upp allt heitið sem er á brúsanum: ,,Gentle Eye Make-up Remover". Bætti síðan Nivea í línuna fyrir neðan, til að gæta fyllsta öryggis.

Ég meina, um daginn keypti hann uppþvottaduft í misgripum fyrir uppþvottaglansefni og áttum við þó stóran brúsa fyrir. Núna eigum við um 6 kg. af uppþvottadufti, notum eina teskeið á dag, þannig að birgðirnar ættu að endast fram að fermingu Skottunnar.

Upp úr innkaupapokanum kom 1 stk. andlitshreinsir og 1 stk. stærsta dósin af Nivea handáburði, þessum sem mömmur okkar hafa alltaf gætt að eiga á lager og brúkað sem sína helstu snyrtivöru í áratugi.

,,Af hverju varstu þá að skrifa Nivea ef það var ekki það sem þú vildir fá?" spurði Minn hissa.
Lái honum hver sem vill.6 ummæli:

Ingunn sagði...

Mér flaug í hug að ef til vill ætti ég að láta öðrum og nákomnari þér það eftir að kommenta hér fyrst manna. En kannski er þetta bara í lagi. Mig langaði bara að segja þér og ykkur að ég hugsa til ykkar af mikilli hlýju þótt kynni okkar séu enn í mýflugumynd. Þið eruð gott og elskulegt fólk og ég óska ykkur hins besta í þessari baráttu. Bloggið er inspírerandi fallegt, og fyndið þrátt fyrir allt. Þið eruð ekki ein. Bkv, Ingunn

Þorgerður Mattía sagði...

Það er gott að lesa svona heiðarlega og fræðandi umfjöllun um baráttuna við krabbameinið. Það að geta fléttað húmor inn í erfiðar aðstæður er langt í frá einfalt, en það gerir þú vel Villa! Um leið ert þú að vinna að auknum skilningi okkar hinna á aðstæðum sem skapast þegar drekinn kemur í heimsókn - óboðinn og veður um spúandi eldi! Gangi ykkur vel í baráttunni við drekann og afkvæmi hans. Ég sendi prinsinum mína bestu strauma og bullandi jákvæðni ... góð vopn í baráttuna!

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Bestu þakkir fyrir hlý orð, kæru vinkonur. Það er nú svo að kommentin hvetja bloggarann til dáða og gott að vita að það sem er skrifað kemur fleirum en yðar einlægri að notum. Mörg setja nokkrar línur inn á Fés/Fjasbókina sem er líka fínt en þar hverfa þær hins vegar sjónum eftir daginn. Hér í athugasemdirnar má líka setja inn alls konar pælingar og spurningar sé það eitthvað sem lesanda langar að vita um dreka en aldrei þorað að spyrja um ... svo vitnað sé í fræga bók frá síðustu öld.

Nafnlaus sagði...

Það er svo dæmalaust mikil vakning að lesa bloggið þigg elsku Villa, ég var að hugsa til þín og ykkar í kvennamessunni í gær.
Knús,
Elín Lóa

Kiddi sagði...

Það er nú ekki öllum gefið að skrifa þannig um báráttu við krabbadreka þannig að maður brosir og hlær - og strýkur samtímis tár úr augnhvarmi. Takk og baráttukveðjur!

Nafnlaus sagði...

Elsku besta mín, mikið er fróðlegt að lesa bloggið þitt og mikið má af því læra. Gangi ykkur sem allra best, ég hugsa til ykkar á hverjum degi.
Valgerður B