Líf í árvekni: Dagur rauða dregilsins

fimmtudagur, 29. mars 2007

Dagur rauða dregilsins

,,It´s the Day of the Red Carpet!" sagði dr. Anna Gregor þegar við mættum til hennar á stofuna í gærmorgun, eftir að drekinn hafði verið steiktur í þrígang með geislasendingunum í þrítugasta og síðasta sinn. Lokadagur geislastríðsins, sem hefur staðið undanfarnar sex vikur, var sem sé í gær og léttirinn mikill að hafa það að baki.

Þessum góða og mikla áfanga var fagnað fyrst með því að skála í djús og ískaffi á Café Nero en síðan fórum við hjónakornin út að borða á Laraz, kúrdneskum veitingastað, í gærkvöldi.

Prinsinn hugumprúði er að vonum dálítið dasaður eftir fyrirganginn en þó ekki meir en svo að hann hefur auðveldlega hjólað í nánast hverja einustu atlögu, samtals klukkustundar hjólreiðaferð fimm daga vikunnar, aukin heldur með farþega af og til. Hjúkkan okkar góða, Shanne hin írska, hefur þó varað við því að þreytan muni vísast ágerast heldur en hitt næstu vikurnar og ná væntanlega hámarki eftir 3-4 vikur, eða í seinni hluta apríl.
Eftir þrjá mánuði, þann 28. júní, verður svo tekin segulómmynd af heilanum til þess að skoða brunarústirnar af drekanum.
Dr. Gregor sagði ekki við því að búast að myndin yrði normal þótt þrír mánuðir væru liðnir frá því að meðferð lyki, því heilinn er óratíma að losa sig við skaddaðar og dauðar frumur, þar eð ekkert sérstakt drenkerfi er þarna uppi. Fastlega mætti hins vegar gera ráð fyrir því að æxlið verði þá ekki í neinum vexti og prinsinn þar með progression-free eins og það heitir á læknalatínu. Engar áætlanir eru uppi um lyfjameðferð af neinu tagi á þessu stigi máls, enda gott að eiga það úrræði eftir í vopnabúrinu ef drekinn skyti uppi kolli aftur síðar.

Frá og með næstu viku byrjar prinsinn síðan að minnka steratökuna hægt og rólega, þannig að hann verði laus við þá í júnílok, um svipað leyti og hliðarverkanir geislameðferðarinnar verða væntanlega alveg að baki og líðanin komin á baseline, eins og doktorinn tók til orða. Viðbúið er þó að það geti orðið skrykkjótt ganga að kveðja sterana blessaða, sem auk þess að koma í veg fyrir heilabólgu, veita orku.

Þessar undanfarnar tíu vikur sem eru liðnar frá því að prinsinn gekkst undir skurðaðgerðina höfum við komið okkur upp ágætri og ósköp notalegri rútínu í daginn, og sú mun því vísast halda áfram fram á sumarið, á meðan kröftum er safnað fyrir Eyjaförina um miðjan júní (meira um hana seinna), og heimflutningana mánuði síðar.

Stundataflan er nokkurn veginn þannig að við förum alltaf á sama tíma í háttinn (seint eða mjög seint) og á fætur (seint eða mjög seint), og þess á milli er farið í spássertúr í bæinn á kaffihús eða setið í rólegheitum eftir hádegið og unnið að ritstörfum í tölvunni (annað okkar er að skrifa bók, hitt að þýða bók) á meðan Skottan leikur sér við jafnaldrana á Regnbogaleikskólanum. Og eins og þeir sem best til þekkja hér á heimilinu þá er fastur dagur fyrir innkaupin, annar fyrir þrifin, þriðji fyrir vídeógláp og poppkornsát (og stundum fjórði), sakamál á föstudags-og sunnudagskvöldum (Rebus/Taggart/Barnaby/Frost/Miss Marple/Poirot), eldamennska hvers um sig bundin við tiltekna daga og svona áfram - hlutirnir í röð og reglu í Gilmore kastala og lífið í eins miklum skorðum og hægt er miðað við allt og allt.

Gott að hafa rútínu í lífinu, finnst mér, hjálpar konu að eiga við hvaðeina annað það sem ekki er hægt að hafa stjórn á. Heimasætan sagði reyndar um daginn að það væru þrír í hjónabandinu sem stofnað var til í fyrrasumar: Fóstri hennar, mamma hennar og Excel töflureiknirinn. Kona hefur bara húmor fyrir því að únglíngurinn geri grín að gamla settinu, Katarína mín má nú búa við það flesta daga að fá á sig endalaus skot frá okkur báðum þegar hún fer út á lífið með vinkonunum, og miklar spekúlasjónir eilíft í gangi um hennar einkalíf sem er orðið æði fjörugt (sjá aðra hvora færslu á www.pantaleon.blogspot.com).
Skelli hér í restina nærmynd af prinsinum með nýja höfuðfatið sem var fjárfest í um helgina eftir að við gáfum upp vonina um að finna ,,pabbahatt" í Edinborg. Þetta er dökkgræn húfa úr sams konar efni og í hinum erkiensku vaxúlpum (já, hann á svoleiðis!), frá Barbour, hvorki meira né minna, en þar versla aðeins þeir séntilmenn og konur sem hafa vandaðan (og dýran) smekk í breskum kántrístíl. Sem er allt annað en amrískur kántrístíll, nota bene...

4 ummæli:

McHillary sagði...

Hæ Villan mín.
Akkúrat á þessari mínútu á snúðurinn þinn að vera að lenda í Glasgow og vonandi hefur rútuferðalagið gengið eins og í sögu. Við skulum endilega hittast,við getum komið yfir eða snúður getur komið hingað.
Er búin með bókina!! og þarf að skila henni til þín. Og margfaldar hamingjuóskir með að geislastríðinu sé lokið! Pabbahatturinn er kúl!
Kv. Hilla McSmilla

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með að vera búinn með greislana Björgvin.
Hafið það sem best og njótið hvers dags í botn.
Kveðja
Dedda og Siggi

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Takk innilega fyrir hamingjuóskirnar! Þið vitið ekki hvað það er okkur dýrmætt að sjá kveðjurnar ykkar hér í kommentaglugganum. Hressir, bætir og kætir ;o)

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa og Björgvin !Ynnilega til hamingju með dag rauða dregilsins! Erum nú loksins komin heim ! 'Astarkveðjur mamma og pabbi.Húfan fer Björgvin príðilega!