Líf í árvekni: mars 2006

föstudagur, 31. mars 2006

Heimsókn að ofan

Við höfðum ætlað okkur að vakna snemma í morgun því framundan var akstur til Glasgow eftir Mattanum, lending kl. 10.25. Vöknuðum þó á undan klukkunni, um 20 mínútur í 7, við óskaplegan dynk og stukkum fram úr með öndina í hálsinum og ótta um gassprengingu efsta í huga. Ástæða hávaðans var heimsókn að ofan; heljarinnar vatnsfoss stóð niður í gegnum loftið í gegnum gat á loftklæðingunni og mulningurinn dreifður um allt.

Táningurinn var sendur á stökki upp til gömlu frú Fersch, 92 ára nágrannakonu okkar á hæðinni fyrir ofan okkar á meðan minn heittelskaði hringdi í neyðarnúmerið 999 eftir aðstoð, og við Skottan horfðum dolfallnar á rigninguna úr eldhúsi þeirrar gömlu. Neyðarnúmerið vísaði á 'borgarvatnsveituna' en þar voru allir farnir heim nema sá sem svaraði í símann og kvaðst hann skyldu reyna að finna einhvern á bakvakt til að kanna málið. Táningurinn kom niður með þau tíðindi að frú Fersch væri lífs en hefði þurft að fá sér sæti þegar hún sá nokkurra sentimetra vatnshæðina á eldhúsgólfinu sínu, og væri búin að ýta á neyðarhnappinn sem hún hefur um hálsinn, hjálp væri á leiðinni.

Minn heittelskaði ákvað að hinkra ekki eftir neinni hjálp innlendra enda óvíst hvenær hún bærist, hentist upp til frú Fersch og hóf dauðaleit að vatnskrönum og inntaki í afar skrítnum skáp ofan við baðherbergið í íbúð þessarar fyrrverandi antík-kaupkonu og postulínssafnara (Viktoríanskar postulínsstyttur, aðallega hvítar og bláar).

Það hafðist eftir skamma stund og sjatnaði þegar flóðið sem hún ég hafði þó haft rænu á að setja fötur undir og má heita lán í óláni að fossinn var mestur ofan við vaskinn og nóg að losa stífluna í honum af og til. Í ljós kom að þvottavélarslanga hafði farið í sundur hjá frú Fersch - óvíst af hverju en ég hef mýslurnar grunaðar.

Tæpri klukkustund eftir dynkinn mikla hringdi svo símsvararinn hjá vatnsveitunni og sagði okkur að því miður finndi hann engan til að aðstoða okkur, sem skipti svo sem ekki miklu þar sem búið var að skrúfa fyrir vatnið. Húsfreyjunni þótti þó heldur slök þjónustan hjá borginni sem sífellt herjar á okkur með reglulegum hótunum um að skrúfa fyrir þetta fj. vatn ef við förum ekki að borga þeirra ótætis útsvar upp á yfir 1000 pund (sem við eigum ekkert að borga og konsúllinn okkar er margbúinn að segja þeim) !

Sem fyrr greinir stóð móttaka einkasonarins fyrir dyrum og úr varð að minn heittelskaði fór einn til Glasgow en upphófust miklar skúringar og þrif sem stóðu fram yfir hádegi. Leigumiðlunin sem opnaði hjá sér kl. 9 tók sér tvo tíma í að finna okkur hreingerningamenn, sem komu svo ekki fyrr en tveimur tímum eftir það og var þá hin vestfirska kjarnakona vitanlega búin að nánast gera vorhreingerningu í eldhúsinu svo að Heiðar snyrtipinni sjálfur hefði mátt vera stoltur af - þó ég segi sjálf frá.

'Every cloud has a silver lining' segja hérlendir um ólán sem hefur eitthvert lán í för með sér og nú stólum við á að músafjölskyldan sem hér býr inni í veggjum eldhússins hafi fengið ærlega fyrir ferðina og fljóti drukknuð um einhvers staðar langt ofan í kjallara - því það kom líka vatn inn í íbúðina fyrir neðan okkar, og hlýtur að hafa lekið um veggina því ekkert gat kom á loftið þar.

Flóðið hafði líka þá ágætu afleiðingu að hingað hringdi eigandinn frá Englandi og reyndist hinn ágætasti viðræðu, mun skemmtilegri en nafnlaust (og minnislaust) starfsfólk leigumiðlunarinnar. Húsið er að hans sögn byggt 1869, og 137 ára gamalt 'plasterið' í loftinu afar þykkt, hugsanlega er milligólfið fyllt með ösku og 'zinder' (sindri?) til hljóðeinangrunar. Vísast heljarinnar aðgerð að skipta um klæðninguna, sem ekki er hægt að fara í fyrr en allt er þornað og tryggingamatsmaður væntanlegur í þau plön eftir helgina.

Við látum okkur bara hlakka til því klárlega verður ekki hægt að nota eldhúsið í einhverja daga á meðan og þá hljótum við að fara út að borða tvisvar á dag á meðan í boði tryggingafélagsins ;o)

Eigandinn sagði mér líka annað sem mér þótti ekki síður merkilegt en hár aldur hússins, og það er að skáldsaga hefur verið skrifuð sem gerist í einmitt þessum stigagangi, bók sem ber titilinn The Stairs! Sú gæti sem best hafa verið fyrirmynd Alexander McCall Smith að gríðarskemmtilegri frásögn hans um íbúana í stigaganginum í 44 Scotland Street í Edinborg sem birt er hér í Scotsman sem framhaldssaga og hefur auk þess verið safnað í bók.

Lýk máli að sinni enda komið kósíkvöld með ALLRI fjölskyldunni eftir langa bið, á morgun koma hér myndir af Snúði og Skottu á páskaliljuvöllum í blóma!

fimmtudagur, 30. mars 2006

Þessi heimur...

Mesta sjónvarpsruslefni sem ég hef augum litið hér í Bretlandi er daglegur þáttur sem heitir Trisha eftir stýrunni, og er breska útgáfan af þeirri amrísku ömurð Jerry Springer. Þarna mætir treggáfað fólk með alls kyns þroska- og fíknivandamál til að viðra vandamál sín og fá ,,ráðgjöf" frá áhorfendum í sal.

Vandamálin eru t.d. þau að makinn heldur framhjá, drekkur, beitir ofbeldi, er kynlífsfíkill, stelsjúkur, lyginn og svo framvegis. Hann/hún mætir líka í sjónvarpssalinn þar sem spúsan eys yfir viðkomandi svívirðingum og brestur iðulega í grát eða stendur á öskrum. Áhorfendur taka yfirleitt undir og óþverrinn lekur af skjánum. Ég horfði á brot af þessu með klígju í hálsi um daginn og fylltist myrku vonleysi um framtíð mannkyns.

Fleiri þættir af álíka tagi eru á öðrum stöðvum og hér er ágæt grein sem lýsir því að sjónvarpsdagskráin breska sem er í boði á daginn sé hreinlega stórskaðleg börnum. Það á örugglega við um fullorðna líka - þó má reyndar ætla að það fullorðna fólk sem horfir reglulega á þessa þætti sé þegar illa skaðað á sál og skert að þroska. Í dag fann ég hins vegar bjartsýnina á ný, þegar ég hlustaði á viðtal á BBC 2 við Lundúnabúa sem í fyrra tók til við að læðast út seint á kvöldin vopnaður blómlaukum, runnum og skóflu og gróðursetja hvers kyns plöntur hvar sem honum sýnist ástæða til á vanræktum svæðum sem talist geta almenningseign, s.s. umferðareyjar og eyjar inni í hringtorgum, skikar sem enginn hirðir um en milljónir hafa fyrir augunum á hverjum degi.

Hann sagðist því miður ekki eiga neinn garð sjálfur en vera mikill áhugamaður um garðyrkju og með þessu móti slær hann tvær flugur í einu höggi; notar sína grænu fingur og fegrar heiminn.

Fjöldi fólks hefur farið að dæmi hans og gerst það sem nú kallast ,,Guerrilla Gardeners", skvett úr fræpokum á eyðilegar umferðareyjur, jafnvel sett grænmeti í moldarbeð sem enginn hefur áður sinnt um og stungið niður páskaliljulaukum hist og her, eins og sjá má á heimasíðunni sem þessi snillingur heldur úti.

mánudagur, 27. mars 2006

Mér finnst rigningin góð!

Fyrirsögnin er í orðastað Skottunnar, eins gott að taka það fram strax, og tilkomin vegna þess hversu vel hún skemmti sér í dag við að stappa í pollunum, þurrka rennibrautina á róló með vettlingunum sínum og svo framvegis, eins og hér getur að líta.

Annars ætti maður vitanlega að tileinka sér þetta jákvæða hugarfar gagnvart rigningunni - slíkt er aldeilis í anda lífs í varurð - því nú hefur hlýnað til muna hér í landi og þar með nokkuð víst að því mun fylgja rigningarskúr og önnur. Sem er jú gott fyrir gróðurinn, páskaliljurnar galopnuðust við bæði hlýindi og vökvunina og halda vonandi fegurð sinni fram undir lok apríl þegar hingað eru væntanlegir góðir gestir norðan af landinu bláa.

Nú kemur Snúður til okkar á föstudaginn og tilhlökkunin mikil enda höfum við nú ekki sést í 75 daga og höfum aldrei nokkurn tímann verið svo lengi fjarri hvort öðru, mæðginin.

Til hamingju, Skotland!

Frá og með kl. 6 síðdegis í gær, 26. mars, er bannað að reykja í "lokuðu almannarými" í Skotlandi, þ.e. pöbbum, veitingahúsum, lestarstöðvum, flugvöllum, hótelum, vinnustöðum... já eiginlega bara hvar sem þak er yfir höfði fólks. Held að einu löglegu reykherbergin verði á elliheimilum og geðdeildum. Blöðin hér virðast hálfhissa á því að enginn hafi farið í mótmælagöngu í gær (það var reyndar rigning) og minnir á skoðanakannanir sem bentu til þess að yfir fimmtungur reykingamanna (27% þjóðarinnar) ætluðu að gefa lögunum langt reykinganef.

Times segir á forsíðu "Skotland gefst upp bardagalaust." Vísar í Jakobítauppreisnir 18. aldar um sjálfstæðistilhneigingar Skota og engu líkara en menn séu bara hálfsúrir yfir því hvað Skotinn tekur þessu vel. Breyttir tímar síðan á dögum Kalla prins Sæta, segir blaðið, og andvarpar.

20 reykingalöggur heimsóttu 147 vínveitingastaði í Edinborg í gærkvöldi og höfðu kl. 10 um kvöldið ekki nappað einn einasta mann. 100% löghlýðni. Búið er að setja á laggirnar klögunarlínu fyrir almenna borgara og í hana höfðu 23 hringt þegar Scotsman (,,blaðið okkar") forvitnaðist þar um í dag, en þar af höfðu aðeins 5 eitthvað til síns máls. Lyktar samt illa, svona nokk, finnst henni mér, persónulega. Jafnilla og sígarettureykur.

Það rýkur samt úr nösunum á einhverjum yfir þessum róttæku lögum, sem ætlað er að hífa upp mannorð Skota í heilsufarsmálum. Öðruvísi gæti það varla verið. En vísast verður þetta bara eins og þegar bílbelti voru lögleidd. Fyrst verða margir hundfúlir yfir þessari skerðingu á frelsinu til að stjórna lífi sínu (og lífshættum) en með tímanum finnst mönnum skrítið að þetta hafi ekki verið tekið í lög fyrir löngu.

fimmtudagur, 23. mars 2006

Plágupælingar og golf í 271 ár

Ég nefndi það um daginn að hafa heyrt að fjöldi fórnarlamba plágunnar miklu, Svarta dauða, hefði verið grafinn undir golfvellinum hér handan götuhornsins, og ákvað að kanna hvort eitthvað væri um þetta að finna á Netinu. Fann þar ágæta grein í Scotsman þar sem fram kemur að þetta á við nokkur rök að styðjast. Og líka að golfvöllurinn, Bruntsfield Links, er ekki bara plágupyttur heldur líka elsti 9 holu golfvöllur heims, lagður árið 1735!

Á miðöldum voru þessi engi, og raunar mun stærra svæði sunnan þáverandi borgarmúra, vaxið eikarskógi sem kallaðist Burgh Muir. Þegar plágan herjaði á Edinborgara með reglulegu millibili frá 15. öld til þeirrar 17. voru smitaðir reknir í sóttkví út í þennan skóg og áttu sér þar skjól í kofum umhverfis kapellu st. Roche, verndardýrlings plágusjúklinga, þar til dauðinn sótti þá. Hann var reyndar stundum svo fljótur í förum að fólk dó á leiðinni og var þá grafið í vegkantinum. Beinaleifar hafa iðulega komið upp úr grænmetisbeðum góðborgara hér í hverfinu og í einum garði er m.a.s. legsteinn hjóna sem önduðust úr plágu á því herrans ári 1645.

Talandi um garðyrkju - ég var einmitt að setja í potta kóríanderfræ og steinselju sem ég ætla að planta út í litla blettinn hér baka til, þ.e.a.s. ef gamla frú Fersch leyfir, en hún á hefðarrétt að öllu sem að garðyrkju lýtur í þessu húsi, að manni skilst, hafandi búið hér á 3. hæðinni í 27 ár. Sem er svo sem ekki langur tími, þegar litið er til sögunnar sem hér er allt í kring....

miðvikudagur, 22. mars 2006

Liljurnar þremur vikum síðar

Páskaliljurnar handan götunnar okkar eru byrjaðar að springa út þótt ekki séu þær allar í fullum blóma ennþá - og kannski ekki von, því sólin hefur ekkert verið að sýna sig nema í miklu hófi að undanförnu og hitinn varla nema þetta 4-5 stig og næðingur flesta daga. Óskaplega kalt og viðeigandi þetta orð: Næðingur. Brrr! Stóla á að næsta fimm daga spá standist því samkvæmt henni á hitastigið loksins að skríða upp í tveggja stafa tölu á sunnudaginn og fara upp í heilar þrettán gráður. Væri svo sem ekki að kvarta þetta nema bara af því að heimili okkar er óttaleg kuldakista og ef blæs að austan í 5 stiga hita er ekki vært fyrir kulda áveðursmegin.

Hér eru svo fleiri ljósmyndir úr deginum, af skottunni í boltanum á Meadows-túninu, skammt frá Skóla skoskra fræða. Hún er orðin nokkuð lunkin með boltann, tekur iðulega kraftspyrnur og heldur boltanum á lofti og sparkar um leið og hún sleppir honum, afleiðingin reyndar stundum sú að jafnvægið fer fyrir lítið við tilfæringarnar og frökenin dettur á bossann. Hún lætur það vitanlega ekkert á sig fá og heldur ótrauð áfram.

Orðaforðinn eykst stöðugt eins við er að búast, skottan enda orðin 22 mánaða. Hún reynir þó ekki við eigið nafn og segir bara ,,baddnið" um sjálfa sig, jafnt og öll önnur börn sem fyrir augu ber. Fyrir áhugafólk um málþroska er kominn listi yfir það sem stúlkan hefur orð yfir hér, reyndar ekki glænýr og vísast eitthvað komið í viðbót síðan. Að minnsta kosti ,,botti." Og ,,Ókei!", sem er alltaf sagt í afar sérstæðum mæðutóni, líkt og skottan láti sig hafa það að samsinna því sem sagt er með miklum þrautum. Og skiptir þá engu hvort verið er að bjóða henni hreina bleiu eða uppáhalds kexið sitt.

þriðjudagur, 21. mars 2006

Síðasta vikan

Jæja, skammt í að rafrænar myndir birtist hér að nýju eftir nokkurt hlé; væntanlega strax á morgun fáið þið að sjá liljur Meadows-vallanna í blóma! Eftir að hafa farið með Kodak-græjuna táningsins í þrjár myndavélabúðir og verið sagt að þar fengist ekki gert við Kodak þar sem Kodak-menn sætu einir að viðgerðum og varahlutum á eigin framleiðslu (á þriðja staðnum var mér sagt að næsta Kodak-firma væri í Þýskalandi!) ákvað ég að gera lokatilraun í þeirri fjórðu í þeirri von að þar væri amk hægt að láta senda dótið til Þýskalands til viðgerðar.

Afgreiðslumaðurinn sagði það vissulega mögulegt en vildi samt vita hvað væri að áður en græjan væri send á milli landa, opnaði rafhlöðuhólfið og var snöggur að leysa málið: ,,Drasl, þessar ódýru rafhlöður!" Smellti nýjum og mun þyngri í, og sjá: Það varð ljós! Rafmagnsætur miklar svona myndavélar, sagði maðurinn, og seldi mér á 10 pund hleðslutæki sem þessa stundina er að hlaða fjórar rafhlöður sem má endurnýta þúsund sinnum. Ágæt kaup það.

Héðan er það annars helst að frétta að eftir þessa viku er kennslu lokið í Skóla skoskra fræða við Edinborgarháskóla. Prófatörnin hefst þó ekki fyrr en í síðustu viku apríl, til allrar hamingju, svo að það verður góður tími til undirbúnings og til að sinna Snúði sem kemur fljúgandi til okkar eftir slétta tíu daga (trallatrallalalala!) Skila inn fyrri kúrsaritgerð af tveimur á föstudaginn en hinni ekki fyrr en um miðjan apríl og á þá í leiðinni að flytja 'presenteisjón' um efnið, sem er trúarleg tjáning í daglegu lífi minnar góðu mágkonu vestur á Ísafirði.

Eftir að hafa kynnt okkur námsmeyjunum trúartjáningu skoskra múslima, gyðinga, 'Brethren'-fólks og kaþólskra var okkur nefnilega falið það verkefni að hafa sjálfar upp á trúuðum einstaklingum og kynna okkur þau áhrif sem trúin hefur á þeirra daglega líf. Einkar fróðlegt og lærdómsríkt, ekki síður en heimsóknir í mosku, samkunduhús og kirkju kaþólskra og reynir nú á yðar einlæga að 'aftengjast' og halda til hlés hvers kyns fyrirfram skoðunum og/eða áhrifum af fjölskyldutengslum í ... já, um 19 ár, því bróðir minn kynnti mig rjóður af hamingju fyrir kærustunni sinni vorið sem Fröken Fix fæddist.

Þeir hafa allir búið við mikið konulán, þessir þrír sem gengnir eru út, og reyndar alveg með ólíkindum hvað þeim hefur haldist vel á spúsunum - yðar einlæg hefur af því reynsluna að búa með þeim á heimili um árabil og veit kvenna best að það er sko enginn leikur! En á meðan hún ég átti eintóm skilnaðarafmæli hafa þessir þrír átt alls konar pappírs, járn, tré og guðmávitahvaðfleira-brúðkaupsafmæli! Jæja, ástandið hér á bæ mun brátt breytast í þessum efnum eins og innvígðir vita og þá verður sko hæ þar á Hóli!

p.s. Teikningin að ofan er af Meadows-engjunum árið 1810, og að frátöldum kúnum eru þau svipuð að sjá enn í dag og þá, horft í norðaustur í átt að Edinborgarkastala.

fimmtudagur, 16. mars 2006

Til hamingju, Ísland

...með að herinn fer! Stundum er gaman að lesa fréttir að heiman. Og pistla eins og þennan hér, líkt og talað frá mínu brjósti. Herlaust land, hugsa sér að fá að lifa svona tíma!

Fyrsti fífill vorsins


Sá fyrsta fífil vorsins í vikunni hér handan götunnar en honum er vísast kalt í dag því í morgun hefur verið að snjóa. Við sem erum búin að bíða í allan vetur eftir vetrinum erum dálítið hissa á að hann skulli skella á svona með vorkomunni - en kannski er þetta bara skoska vorið eins og það á vanda til að vera. Og ekki svo sem nægur snjór nema til að endast rétt fram yfir hádegi, svo það er ekki ástæða til að örvænta, og páskaliljurnar um það bil að opnast.

Krúttið sem hér heldur á fífli er letidýrið Sid og hans fífill er sá síðasti á hans heimaslóðum, nefnilega Ísöldinni. Myndin um Sid, Manna mammút og Diego, sem Skottan kallar Þiþa (Kisa), rúllar hringinn hér á heimilinu flesta daga og hefur stjakað Stubbunum úr fyrsta sætinu, Fröken Fix til léttis, en hún lýsir einmitt miklum áhyggjum af skaðlegum áhrifum La-la og Pó á bernskan huga litlu systur á blogginu sínu nýlega.

Skottan er ákaflega ánægð með lífið þessa dagana enda flutti uppáhaldið hennar, hún Pó, inn á heimilið í vikunni úr hillu í Woolworths og una þær stöllurnar sér afar vel saman. Pó er ekki alveg jafnstór og Skottan en nokkru breiðari og lætur sér vel líka þótt á henni sé setið, legið og hoppað og ósköp er nú notalegt að kúra með henni í rúminu á kvöldin.

Táningurinn getur nú aldeilis bloggað, eignaðist glænýja fartölvu í gær. Það er raunar fyrsta tölvan sem hún eignast nýja því fram að þessu hefur fengið garmana frá móður sinni í arf jafnóðum og hún ég hefur uppfært, ef mig skyldi kalla, eins og konan sagði.

Annars er sosum ekki ástæða til hógværðar á þessum bænum, yðar einlæg hefur loks lokið við ritgerðina um Dýflissu Edinborgar og er mikið fegin - alveg búin að fá hrútleið á þessu, aðallega vegna þess hvað ég hef verið að dútla við þetta lengi. (Það má vísa í þennan árangur í kommentum...!) Þarf eiginlega að líta við í dýflissunni aftur áður en ég skila af mér en ýti því líkast til fram á sunnudag og hef með mér minn heittelskaða. Sá situr við frá morgni til kvölds að undirbúa námskeið fyrir skólafélaga sína um listina að hætta að reykja en 26. mars nk. skellur hér á reykingabann á öllum opinberum stöðum.

p.s. Elsku bestu, auðmjúklegast... skrifa komment?

miðvikudagur, 8. mars 2006

Fred og Ed

Ég var víst aldrei búin að segja ykkur frá þeim Fred og Ed í sankti Patreks kirkju við Kúagötu. Fred er gulbröndóttur, stór og feitur og sér um að halda músunum í skefjum í húsi Guðs, mikill mannvinur og strýkur sér utan í alla sem hann hittir. Væri víst jafnvel hægt að fá hann lánaðan heim til þátttöku í Músastríðinu sem þar stendur yfir, en ég er ekki viss um að gamla frú Fersch sé nógu hrifin af köttum.

Ed er ekki síðri mannvinur, þó hvorki feitur né bröndóttur. Hann er faðir – eða kannski bróðir (?) – kaþólska safnaðrins í gamla bænum í Edinborg; munkur í reglu sem heitir The Congregation of the Most Holy Redeemer upp á engelsku, The Redemptorists til styttingar. Myndi væntanlega útleggjast regla frelsunarbræðranna á ylhýra, eða eitthvað í þá veruna.

Alla vega. Þeir Fred og Ed tóku vel á móti okkur skólasystrunum fjórum og lærimóður okkar á þriðjudaginn fyrir rúmri viku, sýndu okkur hvernig öllu var þar háttað innanstokks og hvernig kaþólikkar brúka rými í kirkjunni fyrir frelsarann, móður hans og heilaga menn og konur. Þar er dýrlingum úthlutað hliðaraltörum; heilagur Patrekur og Fransiskus standa þar skornir í tré og steyptir í alabastur mildir og hlýlegir á svip, þess albúnir að offra himnaföðurnum bænir sínar fyrir hvern sem um það biður og á Hann trúir, enda næstu nágrannar Hans, helgir mennirnir, og eiga auðveldara um aðgang að Guði en við hin sem syndum vafin búum hér niðri á Hótel Jörð.

Í stað þess að fara alla leið til Jerúsalem í pílagrímsferð eins og rétt og næstum skylt var fyrr á öldum má fylgja í fótspor Krists á píslargöngunni með því að rekja sig eftir málverkum sem hana sýna á þremur veggjum kirkjunnar.

Þeir félagar Patrekur og Fransiskur búa saman í útskotinu sunnan megin við háaltarið en í því sem er norðan megin – kvenna megin fyrr á tímum – er skríni hinnar lotningarverðu Margrétar Sinclair, sem er á biðlista hjá páfanum eftir geislabaug og dýrlingsvottorði. Margrét þessi er af okkar tímum, fædd skammt frá Kúagötu (Cowgate) aldamótaárið 1900 og dó ung af berklum í hálsi aðeins 25 ára gömul.

Hafði þá þegar á sér orð fyrir einstakan bænhita og dyggðugt líferni, var nunna síðustu þrjú æviárin en vann fyrir sér fram að því í verksmiðju sem smíðaði stóla frá morgni til kvölds. Jarðneskar leifar Margrétar voru lagðar undir gólfið í norðuraltarinu fyrir fáum árum og fjöldi fólks hefur skrifað bænir sínar á miða og lagt í dúnk eða skrifað bænarefni sín og þakkir í mikla gestabók þar hjá. Ýmis kraftaverk á hún að hafa haft milligöngu um, það helst að reisa sex ára dreng upp frá dauðum á fyrri hluta 20. aldar, en heimilislæknirinn var þá búinn að lýsa snáðann látinn af veikindum. Drengurinn sem nú er roskinn maður hefur varið stórum hluta ævinnar í að hefja nafn Margrétar Sinclair til virðingar og fá hana viðurkennda sem dýrling hjá páfastóli.

Sæll Patrekur á kirkjuna, verandi helsti verndardýrlingur Íra, en þeir lögðu gamla bæinn undir sig seint á 19. öldinni á leið sinni til betra lífs, og í þessari fallegu byggingu var fyrir margt löngu stofnaður fótboltaklúbburinn Hibernians til að forða írskum piltum frá borgarsollinum. Faðir Ed sagði okkur að djúpt í iðrum kirkjunnar væru geymdir tveir bikarar klúbbsins sem væru teknir fram árlega tiltekna daga til sýningar og gárungar úr öðrum klúbbum, svo sem eins og Rangers, segðu það eins gott að passa þá vel því það væri ólíklegt að Hibs-mönnum takist að vinna sér inn fleiri bikara!

Frammi við aðaldyrnar, rétt hjá helgimunasjoppunni, er platti á vegg með nafni prestsins sem stofnaði Hibernian klúbbinn og er máður, því margur drengurinn hefur þar strokið hendi yfir og heitið á prest að tryggja þeim nú sigur í boltanum.
Fleiri sögur mætti segja úr kirkju heilags Patreks, t.d. af málverkinu sem þar ,,fannst” eftir að hafa verið týnt í heila öld en nú er víst komið nóg og rétt að fara að huga að Skottunni sem vill fara að komast á sitt heittelskaða ,,Lóló”.

Af Uglunni er það annars helst að frétta að hún hefur loksins náð (nokkurn veginn) utan um nafn systur sinnar og kallar hana Kagínu. Þessu langþráða takmarki var náð við matarborðið í gærkvöldi og var þeirri stuttu vitanlega klappað lof í lófa, sem gladdi hana svo að hún margendurtók nafnið þar til viðstaddir voru orðnir sárir í lófum, og lét hún þá loks gott heita.

föstudagur, 3. mars 2006

Snjór í Edinborg

Fyrsti snjórinn í vetur féll í dag (tel ekki með frosnu döggina í nóvemberlok), innfæddum til mismikillar ánægju. Fréttatíminn á BBC Scotland í kvöld fullur með spólandi bílum og kyrrsettum skólabörnum. Skottan skemmti sér vel á róló í snjónum en var hálfhissa á þessu hvíta teppi sem lagðist yfir veröldina og tók sér dágóðan tíma í að reyna að bursta snjóinn af bæði sér og pabba, hafði þó vart undan veðurguðunum.

Yðar einlæg var fjarri á meðan á þessum undrum gekk, var í dagsferð í snjólausri Glasgow með lærimóður og skólasystur að heimsækja eitt af samkunduhúsum gyðinga þar í borg sem og St. Mungo Museum of Religous Life and Art. Myndavélarskömmin brást aftur og verður nú sett í viðgerð, en myndin hér er fengin af netinu. Mér þótti samkunduhúsið minna merkilega mikið á sóknarkirkjuna okkar heima, þ.e. Dómkirkjuna í Reykjavík, en um það getur hver dæmt fyrir sig (t.d. 5. ágúst í sumar)...Í samkunduhúsinu og gagnasafni sem þar er um gyðinga í Skotlandi hittum við Rósu, sem kom 13 ára frá Berlín til Bretlands árið 1938 í hópi 10.000 gyðingabarna sem þannig var bjargað frá því að týna lífinu í útrýmingarbúðum nasista. Hún sagði okkur frá móður sinni sem lifði í leynum í Berlín allt stríðið á enda og var vitni að því þegar Rússar tóku borgina í maí 1945. Faðir hennar og bróðir fórust í helförinni en móðir Rósu kom til hennar í Skotlandi eftir stríðið.

Saga Rósu var mögnuð á að heyra, ekki síst fyrir það að í gærkvöldi horfði ég á kvikmyndina Der Untergang í sjónvarpinu, sem fjallar um síðustu daga Hitlers frá sjónarhorni ritara hans. Rósa sagði okkur m.a. frá því að móðir hennar hefði dag einn verið á leið í lestina með tösku með matvælum sem hún hafði keypt á svartamarkaðinum, þegar hún var stöðvuð af lögreglumanni sem krafðist þess að sjá ofan í töskuna hennar. Hefði hún þurft að opna töskuna hefðu dagar hennar verið taldir því hún hafði vitanlega enga pappíra, og hafði byrjað ,,neðanjarðarlíf" sitt árið 1941 eftir að hafa skrifað sjálfsmorðsbréf og skilið eftir á heimili sínu.

Hún var fljót að hugsa, kerrti hnakkann og hreytti í lögreglumanninn um leið og hún strunsaði áfram: ,,Ég hef engan tíma til þess, ég er á leiðinni til fundar við der Fuhrer!" Hann trúði henni og hleypti henni framhjá. Hurð skall nærri hælum í fleiri skipti þessi fjögur ár og kraftaverki líkast að þessi hugrakka kona skyldi lifa af.

miðvikudagur, 1. mars 2006

Liljur vallarins

Mér sýndist í fyrstu þegar þessir laukar voru að gægjast upp úr moldinni að þetta væru enn fleiri krókusar, en áttaði mig svo á því að á þessum skika handan götunnar okkar hefur páskaliljum verið raðað í svona líka skipulegar raðir. Sumar eiga ekki langt í að springa út, eins og sést hér til vinstri og völlurinn verður vísast orðinn gulur og fagur yfir að líta löngu fyrir páska. Við sjáum yfir hann úr stofuglugganum sem er á annarri hæð í turnspírunni þarna lengst til vinstri í myndinni.

Og af því að ég var farin að munda myndavélina í dag þá smellti ég líka myndum af einhyrningunum sem standa vörð á háum súlum um gangbrautina yfir Melville Drive. Einhyrningar eru í skjaldarmerki skólans hennar Katrínar en hann er reyndar spölkorn í aðra átt (ekki spyrja mig hvaða!) og ég veit ekki af hverju þeim hefur verið plantað hér niður. Það er einhver latína ofarlega á súlunum sem ég hef ekki náð að rýna í.

Þeir gætu verið eldgamlir svo sem, jafnvel frá þeim tíma sem Meadows garðurinn var notaður undir fjöldagrafir fórnarlamba plágunnar miklu, Svarta dauða. ,,A plague pit," (plágupyttur) sagði við mig amrískur póstgradjúeit í keltnesku deildinni sem er að stúdera írska goðsagnapersónu sem ku hafa verið mikill lögfræðingur í öndverðu írskrar sagnamenningar. Írinn, það er að segja, ekki sá amríski, sem heitir Chris og hefur sítt hár í tagli til að bæta sér upp umtalsverðan skort á hárvexti ofan ennis.

Tók líka myndir af skottunni á róló og setti allt saman inn á myndasíðuna okkar, sem og myndir sem voru teknar í febrúar. Botna þetta með einni þaðan, sem sýnir svipinn sem skottan setur upp til svars þegar hún er spurð hver sé sætust.