Við höfðum ætlað okkur að vakna snemma í morgun því framundan var akstur til Glasgow eftir Mattanum, lending kl. 10.25. Vöknuðum þó á undan klukkunni, um 20 mínútur í 7, við óskaplegan dynk og stukkum fram úr með öndina í hálsinum og ótta um gassprengingu efsta í huga.
Ástæða hávaðans var heimsókn að ofan; heljarinnar vatnsfoss stóð niður í gegnum loftið í gegnum gat á loftklæðingunni og mulningurinn dreifður um allt.Táningurinn var sendur á stökki upp til gömlu frú Fersch, 92 ára nágrannakonu okkar á hæðinni fyrir ofan okkar á meðan minn heittelskaði hringdi í neyðarnúmerið 999 eftir aðstoð, og við Skottan horfðum dolfallnar á rigninguna úr eldhúsi þeirrar gömlu. Neyðarnúmerið vísaði á 'borgarvatnsveituna' en þar voru allir farnir heim nema sá sem svaraði í símann og kvaðst hann skyldu reyna að finna einhvern á bakvakt til að kanna málið. Táningurinn kom niður með þau tíðindi að frú Fersch væri lífs en hefði þurft að fá sér sæti þegar hún sá nokkurra sentimetra vatnshæðina á eldhúsgólfinu sínu, og væri búin að ýta á neyðarhnappinn sem hún hefur um hálsinn, hjálp væri á leiðinni.
Minn heittelskaði ákvað að hinkra ekki eftir neinni hjálp innlendra enda óvíst hvenær hún bærist, hentist upp til frú Fersch og hóf dauðaleit að vatnskrönum og inntaki í afar skrítnum skáp ofan við baðherbergið í íbúð þessarar fyrrverandi antík-kaupkonu og postulínssafnara (Viktoríanskar postulínsstyttur, aðallega hvítar og bláar).

Það hafðist eftir skamma stund og sjatnaði þegar flóðið sem hún ég hafði þó haft rænu á að setja fötur undir og má heita lán í óláni að fossinn var mestur ofan við vaskinn og nóg að losa stífluna í honum af og til. Í ljós kom að þvottavélarslanga hafði farið í sundur hjá frú Fersch - óvíst af hverju en ég hef mýslurnar grunaðar.
Tæpri klukkustund eftir dynkinn mikla hringdi svo símsvararinn hjá vatnsveitunni og sagði okkur að því miður finndi hann engan til að aðstoða okkur, sem skipti svo sem ekki miklu þar sem búið var að skrúfa fyrir vatnið. Húsfreyjunni þótti þó heldur slök þjónustan hjá borginni sem sífellt herjar á okkur með reglulegum hótunum um að skrúfa fyrir þetta fj. vatn ef við förum ekki að borga þeirra ótætis útsvar upp á yfir 1000 pund (sem við eigum ekkert að borga og konsúllinn okkar er margbúinn að segja þeim) !
Sem fyrr greinir stóð móttaka einkasonarins fyrir dyrum og úr varð að minn heittelskaði fór einn til Glasgow en upphófust miklar skúringar og þrif sem stóðu fram yfir hádegi. Leigumiðlunin sem opnaði hjá sér kl. 9 tók sér tvo tíma í að finna okkur hreingerningamenn, sem komu svo ekki fyrr en tveimur tímum eftir það og var þá hin vestfirska kjarnakona vitanlega búin að nánast gera vorhreingerningu í eldhúsinu svo að Heiðar snyrtipinni sjálfur hefði mátt vera stoltur af - þó ég segi sjálf frá.
'Every cloud has a silver lining' segja hérlendir um ólán sem hefur eitthvert lán í för með sér og nú stólum við á að músafjölskyldan sem hér býr inni í veggjum eldhússins hafi fengið ærlega fyrir ferðina og fljóti drukknuð um einhvers staðar langt ofan í kjallara - því það kom líka vatn inn í íbúðina fyrir neðan okkar, og hlýtur að hafa lekið um veggina því ekkert gat kom á loftið þar.

Flóðið hafði líka þá ágætu afleiðingu að hingað hringdi eigandinn frá Englandi og reyndist hinn ágætasti viðræðu, mun skemmtilegri en nafnlaust (og minnislaust) starfsfólk leigumiðlunarinnar. Húsið er að hans sögn byggt 1869, og 137 ára gamalt 'plasterið' í loftinu afar þykkt, hugsanlega er milligólfið fyllt með ösku og 'zinder' (sindri?) til hljóðeinangrunar. Vísast heljarinnar aðgerð að skipta um klæðninguna, sem ekki er hægt að fara í fyrr en allt er þornað og tryggingamatsmaður væntanlegur í þau plön eftir helgina.
Við látum okkur bara hlakka til því klárlega verður ekki hægt að nota eldhúsið í einhverja daga á meðan og þá hljótum við að fara út að borða tvisvar á dag á meðan í boði tryggingafélagsins ;o)
Eigandinn sagði mér líka annað sem mér þótti ekki síður merkilegt en hár aldur hússins, og það er að skáldsaga hefur verið skrifuð sem gerist í einmitt þessum stigagangi, bók sem ber titilinn The Stairs! Sú gæti sem best hafa verið fyrirmynd Alexander McCall Smith að gríðarskemmtilegri frásögn hans um íbúana í stigaganginum í 44 Scotland Street í Edinborg sem birt er hér í Scotsman sem framhaldssaga og hefur auk þess verið safnað í bók.
Lýk máli að sinni enda komið kósíkvöld með ALLRI fjölskyldunni eftir langa bið, á morgun koma hér myndir af Snúði og Skottu á páskaliljuvöllum í blóma!
Í dag fann ég hins vegar bjartsýnina á ný, þegar ég hlustaði á viðtal á BBC 2 við Lundúnabúa sem í fyrra tók til við að læðast út seint á kvöldin vopnaður blómlaukum, runnum og skóflu og gróðursetja hvers kyns plöntur hvar sem honum sýnist ástæða til á vanræktum svæðum sem talist geta almenningseign, s.s. umferðareyjar og eyjar inni í hringtorgum, skikar sem enginn hirðir um en milljónir hafa fyrir augunum á hverjum degi.















Í samkunduhúsinu og gagnasafni sem þar er um gyðinga í Skotlandi hittum við Rósu, sem kom 13 ára frá Berlín til Bretlands árið 1938 í hópi 10.000 gyðingabarna sem þannig var bjargað frá því að týna lífinu í útrýmingarbúðum nasista. Hún sagði okkur frá móður sinni sem lifði í leynum í Berlín allt stríðið á enda og var vitni að því þegar Rússar tóku borgina í maí 1945. Faðir hennar og bróðir fórust í helförinni en móðir Rósu kom til hennar í Skotlandi eftir stríðið.


Botna þetta með einni þaðan, sem sýnir svipinn sem skottan setur upp til svars þegar hún er spurð hver sé sætust.