Líf í árvekni: Fred og Ed

miðvikudagur, 8. mars 2006

Fred og Ed

Ég var víst aldrei búin að segja ykkur frá þeim Fred og Ed í sankti Patreks kirkju við Kúagötu. Fred er gulbröndóttur, stór og feitur og sér um að halda músunum í skefjum í húsi Guðs, mikill mannvinur og strýkur sér utan í alla sem hann hittir. Væri víst jafnvel hægt að fá hann lánaðan heim til þátttöku í Músastríðinu sem þar stendur yfir, en ég er ekki viss um að gamla frú Fersch sé nógu hrifin af köttum.

Ed er ekki síðri mannvinur, þó hvorki feitur né bröndóttur. Hann er faðir – eða kannski bróðir (?) – kaþólska safnaðrins í gamla bænum í Edinborg; munkur í reglu sem heitir The Congregation of the Most Holy Redeemer upp á engelsku, The Redemptorists til styttingar. Myndi væntanlega útleggjast regla frelsunarbræðranna á ylhýra, eða eitthvað í þá veruna.

Alla vega. Þeir Fred og Ed tóku vel á móti okkur skólasystrunum fjórum og lærimóður okkar á þriðjudaginn fyrir rúmri viku, sýndu okkur hvernig öllu var þar háttað innanstokks og hvernig kaþólikkar brúka rými í kirkjunni fyrir frelsarann, móður hans og heilaga menn og konur. Þar er dýrlingum úthlutað hliðaraltörum; heilagur Patrekur og Fransiskus standa þar skornir í tré og steyptir í alabastur mildir og hlýlegir á svip, þess albúnir að offra himnaföðurnum bænir sínar fyrir hvern sem um það biður og á Hann trúir, enda næstu nágrannar Hans, helgir mennirnir, og eiga auðveldara um aðgang að Guði en við hin sem syndum vafin búum hér niðri á Hótel Jörð.

Í stað þess að fara alla leið til Jerúsalem í pílagrímsferð eins og rétt og næstum skylt var fyrr á öldum má fylgja í fótspor Krists á píslargöngunni með því að rekja sig eftir málverkum sem hana sýna á þremur veggjum kirkjunnar.

Þeir félagar Patrekur og Fransiskur búa saman í útskotinu sunnan megin við háaltarið en í því sem er norðan megin – kvenna megin fyrr á tímum – er skríni hinnar lotningarverðu Margrétar Sinclair, sem er á biðlista hjá páfanum eftir geislabaug og dýrlingsvottorði. Margrét þessi er af okkar tímum, fædd skammt frá Kúagötu (Cowgate) aldamótaárið 1900 og dó ung af berklum í hálsi aðeins 25 ára gömul.

Hafði þá þegar á sér orð fyrir einstakan bænhita og dyggðugt líferni, var nunna síðustu þrjú æviárin en vann fyrir sér fram að því í verksmiðju sem smíðaði stóla frá morgni til kvölds. Jarðneskar leifar Margrétar voru lagðar undir gólfið í norðuraltarinu fyrir fáum árum og fjöldi fólks hefur skrifað bænir sínar á miða og lagt í dúnk eða skrifað bænarefni sín og þakkir í mikla gestabók þar hjá. Ýmis kraftaverk á hún að hafa haft milligöngu um, það helst að reisa sex ára dreng upp frá dauðum á fyrri hluta 20. aldar, en heimilislæknirinn var þá búinn að lýsa snáðann látinn af veikindum. Drengurinn sem nú er roskinn maður hefur varið stórum hluta ævinnar í að hefja nafn Margrétar Sinclair til virðingar og fá hana viðurkennda sem dýrling hjá páfastóli.

Sæll Patrekur á kirkjuna, verandi helsti verndardýrlingur Íra, en þeir lögðu gamla bæinn undir sig seint á 19. öldinni á leið sinni til betra lífs, og í þessari fallegu byggingu var fyrir margt löngu stofnaður fótboltaklúbburinn Hibernians til að forða írskum piltum frá borgarsollinum. Faðir Ed sagði okkur að djúpt í iðrum kirkjunnar væru geymdir tveir bikarar klúbbsins sem væru teknir fram árlega tiltekna daga til sýningar og gárungar úr öðrum klúbbum, svo sem eins og Rangers, segðu það eins gott að passa þá vel því það væri ólíklegt að Hibs-mönnum takist að vinna sér inn fleiri bikara!

Frammi við aðaldyrnar, rétt hjá helgimunasjoppunni, er platti á vegg með nafni prestsins sem stofnaði Hibernian klúbbinn og er máður, því margur drengurinn hefur þar strokið hendi yfir og heitið á prest að tryggja þeim nú sigur í boltanum.
Fleiri sögur mætti segja úr kirkju heilags Patreks, t.d. af málverkinu sem þar ,,fannst” eftir að hafa verið týnt í heila öld en nú er víst komið nóg og rétt að fara að huga að Skottunni sem vill fara að komast á sitt heittelskaða ,,Lóló”.

Af Uglunni er það annars helst að frétta að hún hefur loksins náð (nokkurn veginn) utan um nafn systur sinnar og kallar hana Kagínu. Þessu langþráða takmarki var náð við matarborðið í gærkvöldi og var þeirri stuttu vitanlega klappað lof í lófa, sem gladdi hana svo að hún margendurtók nafnið þar til viðstaddir voru orðnir sárir í lófum, og lét hún þá loks gott heita.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman að lesa bloggið þitt Villa mín , eg byrja alltaf á því þegar ég opna! Námskeiðin sem ég er á eru í sambandi við vinnuna og fjalla um flest sem tengist henni.Vorum á Ísafirði í dag ,fór í Bókhlöðuna,Hrafninn trónir þar á sama stað með tilnefningar miðanum!
Ástarkveðjur mamma.

Auður Lilja sagði...

hmmm mamma ... það er nú orðið áberandi ójafnvægið í þessu hjá þér ;)

Auður Lilja sagði...

Ég viðurkenni samt að ég byrja líka á Villu bloggi, híhí :)

McHillary sagði...

Gaman að lesa þennan fróðleik. Nú fer að styttast í að ég þigg hjá þér kaffibollann!!júhúúú

Nafnlaus sagði...

Sæl Villa mín . Er pakkinn kominn?
Hvernig líður páskaliljunum!
Bestu kveðjur til allra mamma !

Villa sagði...

MacHillary: Er glæpsamlega á eftir þér við ritgerðaskrifin en mun taka mig haustaki núna um helgina. Láttu heyra í þér um leið og þú ert orðin nógu kaffiþyrst!

Auður Lilja: Það er þér og mömmu jafnt að þakka að ég er að þessu pikki - þið eruð svo duglegar að kommentera sem eru vitanlega einu launin fyrir bloggið :)

Mamma: Pakkinn kominn, risaknús fyrir súkkulaðið sem verður notað í kaloríubombueftirrétt fljótlega. Við mæðgurnar mátuðum tátiljurnar frá Öldu en vorum eins og stjúpsystur Öskubusku svo að þær hanga núna inni á baði, rennblautar og teygðar upp um tvö númer, og svo er að sjá hvort það dugir til, því við þurfum á tánum og hælunum að halda... :)

Aðrir lesendur sem hafið ekki nennt/þorað að kommenta ennþá: Hættið þessum gunguskap og látið vita af ykkur, ég veit að þið eruð þarna - eða eins og Mikki sagði um árið: Ég sé þig vel!

Mamma sagði...

Snjóar enn í Skotalandi! Búin að fá lánaða Stúlkuna með perlueyrnalokkinn,hlakka til að lesa hana.Byrjuð á minni vettlingum fyrir Ugluna! Bestu kveðjur Mamma.

Mamma sagði...

Búin að lesa Auði Eir,Frábær kona! Bestu kveðjur Mamma.
Vettlingar bráðum tilbúnir!