Líf í árvekni: Fyrsti fífill vorsins

fimmtudagur, 16. mars 2006

Fyrsti fífill vorsins


Sá fyrsta fífil vorsins í vikunni hér handan götunnar en honum er vísast kalt í dag því í morgun hefur verið að snjóa. Við sem erum búin að bíða í allan vetur eftir vetrinum erum dálítið hissa á að hann skulli skella á svona með vorkomunni - en kannski er þetta bara skoska vorið eins og það á vanda til að vera. Og ekki svo sem nægur snjór nema til að endast rétt fram yfir hádegi, svo það er ekki ástæða til að örvænta, og páskaliljurnar um það bil að opnast.

Krúttið sem hér heldur á fífli er letidýrið Sid og hans fífill er sá síðasti á hans heimaslóðum, nefnilega Ísöldinni. Myndin um Sid, Manna mammút og Diego, sem Skottan kallar Þiþa (Kisa), rúllar hringinn hér á heimilinu flesta daga og hefur stjakað Stubbunum úr fyrsta sætinu, Fröken Fix til léttis, en hún lýsir einmitt miklum áhyggjum af skaðlegum áhrifum La-la og Pó á bernskan huga litlu systur á blogginu sínu nýlega.

Skottan er ákaflega ánægð með lífið þessa dagana enda flutti uppáhaldið hennar, hún Pó, inn á heimilið í vikunni úr hillu í Woolworths og una þær stöllurnar sér afar vel saman. Pó er ekki alveg jafnstór og Skottan en nokkru breiðari og lætur sér vel líka þótt á henni sé setið, legið og hoppað og ósköp er nú notalegt að kúra með henni í rúminu á kvöldin.

Táningurinn getur nú aldeilis bloggað, eignaðist glænýja fartölvu í gær. Það er raunar fyrsta tölvan sem hún eignast nýja því fram að þessu hefur fengið garmana frá móður sinni í arf jafnóðum og hún ég hefur uppfært, ef mig skyldi kalla, eins og konan sagði.

Annars er sosum ekki ástæða til hógværðar á þessum bænum, yðar einlæg hefur loks lokið við ritgerðina um Dýflissu Edinborgar og er mikið fegin - alveg búin að fá hrútleið á þessu, aðallega vegna þess hvað ég hef verið að dútla við þetta lengi. (Það má vísa í þennan árangur í kommentum...!) Þarf eiginlega að líta við í dýflissunni aftur áður en ég skila af mér en ýti því líkast til fram á sunnudag og hef með mér minn heittelskaða. Sá situr við frá morgni til kvölds að undirbúa námskeið fyrir skólafélaga sína um listina að hætta að reykja en 26. mars nk. skellur hér á reykingabann á öllum opinberum stöðum.

p.s. Elsku bestu, auðmjúklegast... skrifa komment?

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað er eiginleg í Dýflissunni!
Þú ættir að vita hvað kom á skjáinn hjá mér þegar ég opnaði merkið hjá á síðunni!!!
Kl, nei eg prenta þetta ekki hér!
Kveðja mamma.

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

*Skellihlátur* Þér er óhætt að smella á hana aftur núna, það vantaði afar mikilvægt -s aftan við linkinn! Dýflissan er "drauga-hryllings-hús" fyrir túrista.

Nafnlaus sagði...

Mamma hringdi, alveg í sjokki yfir ósómanum sem hún hélt að væri fastur í tölvunni hjá sér ;)
Til hamingju með að hafa lokið ritgerðinni, þú ert endalaust dugleg systir!
Knúskveðja
Auður á ryksugunni...

Nafnlaus sagði...

hvaða ósóma Auður?

Gunnella sagði...

Komment ;-)

Við skemmtum okkur konunglega í snjónum um daginn, en týpískt að vinkona mín að heiman var akkúrat í heimsókn þá ;-P En allavegana fullt af myndum á síðunum. Til lykke með að hafa klárað ritgerðina, nú þarf ég bara að klára þennan fyrirlestur og þá getum við farið að stefna okkur mót ;-D

Katrín sagði...

Gunni: þú getur lesið um ósómanná blogginu mínu: http://pantaleon.blogspot.com