Líf í árvekni: Liljur vallarins

miðvikudagur, 1. mars 2006

Liljur vallarins

Mér sýndist í fyrstu þegar þessir laukar voru að gægjast upp úr moldinni að þetta væru enn fleiri krókusar, en áttaði mig svo á því að á þessum skika handan götunnar okkar hefur páskaliljum verið raðað í svona líka skipulegar raðir. Sumar eiga ekki langt í að springa út, eins og sést hér til vinstri og völlurinn verður vísast orðinn gulur og fagur yfir að líta löngu fyrir páska. Við sjáum yfir hann úr stofuglugganum sem er á annarri hæð í turnspírunni þarna lengst til vinstri í myndinni.

Og af því að ég var farin að munda myndavélina í dag þá smellti ég líka myndum af einhyrningunum sem standa vörð á háum súlum um gangbrautina yfir Melville Drive. Einhyrningar eru í skjaldarmerki skólans hennar Katrínar en hann er reyndar spölkorn í aðra átt (ekki spyrja mig hvaða!) og ég veit ekki af hverju þeim hefur verið plantað hér niður. Það er einhver latína ofarlega á súlunum sem ég hef ekki náð að rýna í.

Þeir gætu verið eldgamlir svo sem, jafnvel frá þeim tíma sem Meadows garðurinn var notaður undir fjöldagrafir fórnarlamba plágunnar miklu, Svarta dauða. ,,A plague pit," (plágupyttur) sagði við mig amrískur póstgradjúeit í keltnesku deildinni sem er að stúdera írska goðsagnapersónu sem ku hafa verið mikill lögfræðingur í öndverðu írskrar sagnamenningar. Írinn, það er að segja, ekki sá amríski, sem heitir Chris og hefur sítt hár í tagli til að bæta sér upp umtalsverðan skort á hárvexti ofan ennis.

Tók líka myndir af skottunni á róló og setti allt saman inn á myndasíðuna okkar, sem og myndir sem voru teknar í febrúar. Botna þetta með einni þaðan, sem sýnir svipinn sem skottan setur upp til svars þegar hún er spurð hver sé sætust.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fer ekki á milli mála hver er sætust!!!
Verst að páskaliljurn verða líklega búnar þegar við komum til Skotalands!Verður dýrðlegt um að litast þegar þær springa út!
Hér hefur allt verið autt í marga daga, þar til að kastaði éli seinnipartinn í dag.Mamma

Gunnella sagði...

Hiklaust sætastar :-D