Líf í árvekni: Um smáfiskadráp og Prins Póló

mánudagur, 27. febrúar 2006

Um smáfiskadráp og Prins Póló

Eldaði ýsu í kvöld og leið eins og ég væri samsek í barnamorðum. Þvílíkar sardínur, þessi ýsa úr stórmarkaðinum! Tólf flök þurfti fyrir okkur fjögur, alls 600 grömm - ég er ekki að ýkja! Og ekki nóg með það heldur kunna Skotar ekki að flaka fisk. Allur fiskur er flattur eins og saltfiskur, þannig flökin hanga saman á uggunum. Svo að ég mátti gjöra svo vel og skera af þessum títlum uggabein beggja vegna og plokka örsmáan beinagarðinn úr (hefði átt að nota flísatöng auðvitað) tólf stykkjum. Varla hægt að segja að þessi grey hafi verið nema rétt komin af klakstiginu.

Það er ekki að furða þótt fiskur sé rándýr í landi Betu drottningar þegar svona er komið á fiskimiðum Evrópusambandsins. Sveiattan. En maðurinn lifir ekki á kjöti einu saman. Svo að maður verður nauðbeygður að taka þátt í ósómanum, býst ég við. Nema pabbi og mamma komi með almennilegan fisk að vestan þegar þau koma til okkar í heimsókn eftir páska. Spurning með tollinn, náttlega...

Talandi um mat - við fórum á Þorrablót Íslendingafélagsins í Skotlandi á laugardaginn, í hliðarálmu kirkju St. Mary í miðbænum og skemmtum okkur alveg hreint ágætlega. Þorramatur (mínus súrmatinn), fjöldasöngur (eitt lag), Hafnarfjarðarbrandarar veislustjóra (margir), minni kvenna og karla, brennivín og diskótek með stuðmannamúsík á eftir. Mitt fyrsta Þorrablót. Og Katrínar vitanlega. Harðfiskurinn var ótrúlega góður sem og sviðin en eftirmaturinn toppaði allt sem á undan var komið og ég fékk næstum því heimþrá: Prins póló fyrir alla! Nammi namm!

p.s. Það er fullt af myndum frá blótinu (og af okkur) á heimasíðunni hennar Gunnellu sem var þar ásamt sínum manni, og tók myndir í gríð og erg, m.a. fyrir okkur því rafhlöðurnar klikkuðu í vélinni hennar Katrínar. Get af einhverjum ástæðum ekki hnuplað þeim til birtingar hér. Kannski er Gunnella með þjófavörn...

4 ummæli:

Mamma sagði...

Ljótt er að heyra um ýsukóðin hjá Skotum. Heldurðu að við kæmumst meðfisk til Skotlands?
Annars er ég að lesa bók eftir Skota Alexsander McCall Smith um kvenspæjarastofuna !
Mamma

McHillary sagði...

Hæ Villa.
Það var synd að missa af blótinu. Annars var ég búin að frétta af því að Hafnarfjarðarbrandararnir hefðu verið helst til margir.Allt með bærilegast móti hérna megin og maður er bara að lesa frá morgni til kvölds.
Sjáumst vonandi fljótlega.

Gunnella sagði...

Hæ hæ :-D Hægt að nappa myndunum með því að fara inn á http://www.flickr.com/photos/gunnella síðan eftir að hafa valið þér mynd(ir) þá smella á blog this fyrir ofan. Veit ekki hvort þú þarft að skrá þig eða ekki en það er hvort eð er ókeypis. Svo held ég að þú eigir líka að geta valið all sizes og þá bara valið þér í hvaða útgáfu þu vilt hafa myndina :-D
Láttu mig vita hvernig gengur ;-D
p.s. skemmtum okkur ekkert smá vel ;-)

Villa sagði...

Búin að reyna ýmislegt, m.a. að senda mér mynd í e-mail, en virðist þurfa að skrá mig á Yahoo og flickr et cetera. Svo að ég læt duga í bili að vísa á brennivínsmyndina hér:
http://www.flickr.com/photos/gunnella/104679695/

Og er farin að baka pönnukökur, þar sem sprengidagur í Skotlandi heitir pönnukökudagur og ekkert saltkjöt fáanlegt í kaupfélaginu.