Líf í árvekni: Af mosku, múslimum og englum til hægri og vinstri

sunnudagur, 26. febrúar 2006

Af mosku, múslimum og englum til hægri og vinstri

Maðurinn sem sýndi okkur moskuna í Edinborg á þriðjudaginn síðasta hafði einstaklega góða nærveru, gráskeggjaður, hlýlegur og brosmildur, líkast til á sjötugsaldri. Ég náði aldrei nafninu hans en hann flutti frá Indlandi til Bretlands fyrir um 40 árum og hafði þá verið í níu ár að stúdera fræði Islam í Rijad í Saudi-Arabíu. Minnir mig. Hann bauð okkur fimm (fjórar námsmeyjar og lærimóðir okkar dr. Maggie Mackay) velkomnar í moskuna og hafði dregið fram stóla fyrir okkur að sitja á, en engin húsgögn eru í moskunni að jafnaði. N.B. myndin hér fyrir neðan er ekki af okkur, því ég tók ekki myndavélina en hnuplaði þessum af netinu. Hann lét þess reyndar getið að hann hefði setið á stól við bænahaldið í þó nokkrar vikur eftir að hann fór í hjartaþræðingu fyrir fáum árum. Þeir sem leiða bænahald múslima eru kallaðir imam en ég veit ekki hvort hann hafði þá stöðu eða var bara einn þeirra sem sýnir forvitnum moskuna og sinnir fræðslu þar. Börn þeirra sem það vilja koma í tíma hvern eftirmiðdag eftir skólatíma og læra arabísku til þess að geta lesið Kóraninn - eða Qur'an eins og engelskir stafsetja heiti helgrar bókar múslima - og þarna á þriðjudagsmorguninn var lítill hópur kvenna í skólastofu að læra ensku. Sumar með slæðu og aðrar ekki - við fimm mættum vitanlega búnar slæðum sem við lögðum yfir hárið áður en við stigum inn í helgidóminn með græna teppinu.

Maggie spurði eftir litnum á teppinu - hvort hann táknaði eitthvað sérstakt og hafði reyndar sjálf nefnt við okkur áður að teppi í moskum væru oft græn vegna þess að sá litur minnti menn á vinjarnar í eyðimörkinni - en gestgjafi okkar hristi höfuðið og sagði að hvaða litur sem er gæti verið á teppum. Það eina sem þeir hefðu óskað eftir við gefanda teppisins var að það væri með reglulegum línum, sem menn geta miðað við þegar þeir leggjast á bæn. Í loftinu hengu risastórar kristalsljósakrónur, frá sama gefanda og teppið.

Uppi eru kvennasvalir handan glers, og þar sjá konurnar niður yfir menn sína og heyra það sem fram fer í hátölurum. ,,Það er þægilegra fyrir bæði þær og mennina, þá er ekkert sem truflar athyglina og tekur hana frá bæninni," sagði Gráskeggur og brosti hlýlega. ,,Og þær geta spjallað saman þar í næði ef þær vilja."

Múslimar trúa því að Jesú hefði verið mikill spámaður líkt og Móse og Abraham, og síðast Múhameð, og eiga bæði sérstakt Maríu- og Jesú guðspjall í Kóraninum. Og þegar Gráskeggur - eða hvaða múslimi sem er - nefnir einhvern þessara manna á nafn er alltaf bætt við strax á eftir: ,,peace be upon him". Í skrifuðu máli er þetta einfaldlega skammstafað innan sviga: (pbuh). Sjá t.d. hér á fræðslusíðu BBC um Islam.

Látleysið í moskunni minnti mig eiginlega dálítið á samkomusali bókstafstrúarsafnaða á Íslandi, t.d. hjá Krossinum og Veginum - sem ég heimsótti einu sinni sem blm. svo það sé á hreinu! Engar myndir neins staðar, ekkert skraut, ekkert altari. Útskotið sem sést á myndinni er í öllum moskum og er staðsett nákvæmlega þannig að það vísi hinum trúuðu í átt til hinnar helgu borgar Makkah (eða Mekka) þar sem spámaðurinn Múhameð kom í heiminn á 7. öld. Predikunarstóll eins konar sést þarna líka, þar stendur imaminn á föstudögum og heldur predikun, svipað og kristnir prestar. Það sem mér þótti ekki síst merkilegt var að ekkert svæði í moskunni er bannsvæði. Allir mega vera alls staðar. Engar grátur eða grindur utan um altari eða alheilagt svæði eingöngu ætlað útvöldum. Allir eiga beint og milliliðalaust samband við Guð, rétt eins og manni skilst að Lúther hafi talað um á 16. öldinni.

Gráskeggur fræddi okkur á því að í Edinborg væru um 5.000 múslimar en um 30.000 í Glasgow. Síðarnefnda borgin er víst í hópi þeirra fimm borga í Bretlandi þar sem múslimar eru hvað fjölmennastir. En í Edinborg koma ekki nema um 30-40 manns til hinna fimm daglegu bænastunda í moskunni, og eitthvað um 80-90 manns í föstudagspredikunina. Kannski er það bara ágætt - hvað ætli margir mæti í vikulega messu í 5000 manna sókn á Íslandi? Gráskeggur brosti og sagði að fólk væri önnum kafið og ætti erfitt með að komast í moskuna úr vinnudeginum en margir biðjast fyrir heima hjá sér fimm sinnum hvern dag eins og góður múslimi á að gera að boði Múhameðs og fólk sem vinnur t.d. í búð skreppur frá afgreiðsluborðinu í 5-10 mínútur, biðst fyrir í herbergi baka til og kemur svo aftur og heldur áfram að vinna.

Islam er ekki bara trúarbrögð, heldur lífsmáti, segja múslimarnir, og koma lífi sínu fyrir innan þess ramma sem bænahald og trúarlíf skapar. Við hin vestrænu smeygjum kannski frekar inn bænum og kirkjusókn inn í veraldlega lífið þegar og ef það hentar okkur.

Eftir spjallið í tilbeiðslusalnum skoðuðum við sýningu í kjallara moskunnar um líf Múhameðs og sögu múslima í Bretlandi. Vegna þess að múslimar eru enn taugaveiklaðri gagnvart myndefni af spámönnunum (hvort sem það eru Móse, Abraham, Jesú eða Múhameð) var sýningin aðallega samsett af stórum veggspjöldum með textum og ljósmyndum af moskum. Kóraninn var þar líka skreyttur fallegu mynstri og skápur með gulli slegnum bikurum og könnu sem ég veit ekki til hvers var, en líktist mjög þeim búnaði sem kristnir hafa til að bergja á blóði Krists við altarissakramentið.

Óeirðirnar sem hófust þegar danskir móðguðu múslima með skopmyndum af spámanninum komu til tals og Gráskeggur hristi höfuðið mæðulega og sagði að það hefði verið miklu affarasælla ef menn hefðu haft vit á að hundsa þetta allt saman. Það sama hefði átt að gera þegar Salman Rushdie skrifaði ljótt um Kóraninn. ,,Ef menn hefðu haft vit á því að hundsa þessar gerðir hefði enginn frétt af þeim," sagði hann.

Ég fór nú að hugsa um það sjálf að kristnir menn mættu líta í eigin barm þegar þeir gerðu grín að þessari viðkvæmni múslima gagnvart myndbirtingum af spámanninum (og auðvitað snýst málið um miklu meira en danska fyndni).

Trúarbrögð okkar flestra í Norður-Evrópu er sprottin af hreyfingu ofstækisfulls fólks sem fór eins og engisprettufaraldur yfir kirkjulistaverk miðalda, málaði yfir ómetanlegar freskur með kalki, braut aldagömul og falleg líknesi, bræddi gripi úr gulli og silfri, stal gimsteinum úr dýrlingaskrínum og brenndi myndum skreyttar helgisagnir á báli. Allt í nafni trúarinnar á miskunnsaman og algóðan guð. Sem á arabísku er Allah, á hebresku - eða er það arameíska?- Jehovah (sem þýðir ,,ég er sá sem ég er") og Guð vinkona okkar í íslensku Kvennakirkjunni.

Rétt í lokin: Gráskeggur sagði okkur að tveir englar fylgdu okkur öllum hvert sem við færum. Annar er við vinstri öxl okkar og skrifar hjá sér í bók allt sem við gerum rangt og í andstöðu við vilja Guðs. Hinn er við hægri öxlina og skrifar niður allt gott sem við gerum. Svo hló sá gamli og klappaði á vinstri öxlina á sér og sagði: ,,And this one here is always busy!"

3 ummæli:

Trína sagði...

Mig minnir endilega að Múhameð hafi fæðst í Medína, en svo flúið til Mekka, og svo aftur heim til að deyja. Eða er þetta vitleysa í mér?

tapio sagði...

Hae, Múhammad víst faeddist í Mekka, flúdi til Medina og tók Mekka svo med hervaldi. Tímatal múslima hefst frá hidzra, sem er flotti Muhammads frá Mekka til Medina. En annars: Gud á hebreisku er Jahve, og thýdir, einsog Villa sagdi, sá sem er. Svo gydingar ekki leggja nafn hans í hégóma, og sögdu alltaf "Herra" eda "Adonai" í stadinn fyrir Jahve. Í stafsetningu eru bara merkt samhljódin, og nú merktu their sérhljódin med litlum punktum. Svo fóru their ad setja Adonai-punktana yfir Jahve, svo ad madur örugglega mundi lesa Adonai, og af thessu kemur myndin Jehovah.

Villa sagði...

Jább. Þ.e. þetta er vitleysa í þér. Fæddur í Makkah 570, flúði til Medina 622 (sem þaðan í frá varð ár 1 meðal múslima) og lagði Makkah svo undir sig áratug síðar.
Sjá http://www.bbc.co.uk/religion/religions/islam/history/muhammad.shtml