Jæja, skammt í að rafrænar myndir birtist hér að nýju eftir nokkurt hlé; væntanlega strax á morgun fáið þið að sjá liljur Meadows-vallanna í blóma! Eftir að hafa farið með Kodak-græjuna táningsins í þrjár myndavélabúðir og verið sagt að þar fengist ekki gert við Kodak þar sem Kodak-menn sætu einir að viðgerðum og varahlutum á eigin framleiðslu (á þriðja staðnum var mér sagt að næsta Kodak-firma væri í Þýskalandi!) ákvað ég að gera lokatilraun í þeirri fjórðu í þeirri von að þar væri amk hægt að láta senda dótið til Þýskalands til viðgerðar.
Afgreiðslumaðurinn sagði það vissulega mögulegt en vildi samt vita hvað væri að áður en græjan væri send á milli landa, opnaði rafhlöðuhólfið og var snöggur að leysa málið: ,,Drasl, þessar ódýru rafhlöður!" Smellti nýjum og mun þyngri í, og sjá: Það varð ljós! Rafmagnsætur miklar svona myndavélar, sagði maðurinn, og seldi mér á 10 pund hleðslutæki sem þessa stundina er að hlaða fjórar rafhlöður sem má endurnýta þúsund sinnum. Ágæt kaup það.
Héðan er það annars helst að frétta að eftir þessa viku er kennslu lokið í Skóla skoskra fræða við Edinborgarháskóla. Prófatörnin hefst þó ekki fyrr en í síðustu viku apríl, til allrar hamingju, svo að það verður góður tími til undirbúnings og til að sinna Snúði sem kemur fljúgandi til okkar eftir slétta tíu daga (trallatrallalalala!) Skila inn fyrri kúrsaritgerð af tveimur á föstudaginn en hinni ekki fyrr en um miðjan apríl og á þá í leiðinni að flytja 'presenteisjón' um efnið, sem er trúarleg tjáning í daglegu lífi minnar góðu mágkonu vestur á Ísafirði.
Eftir að hafa kynnt okkur námsmeyjunum trúartjáningu skoskra múslima, gyðinga, 'Brethren'-fólks og kaþólskra var okkur nefnilega falið það verkefni að hafa sjálfar upp á trúuðum einstaklingum og kynna okkur þau áhrif sem trúin hefur á þeirra daglega líf. Einkar fróðlegt og lærdómsríkt, ekki síður en heimsóknir í mosku, samkunduhús og kirkju kaþólskra og reynir nú á yðar einlæga að 'aftengjast' og halda til hlés hvers kyns fyrirfram skoðunum og/eða áhrifum af fjölskyldutengslum í ... já, um 19 ár, því bróðir minn kynnti mig rjóður af hamingju fyrir kærustunni sinni vorið sem Fröken Fix fæddist.
Þeir hafa allir búið við mikið konulán, þessir þrír sem gengnir eru út, og reyndar alveg með ólíkindum hvað þeim hefur haldist vel á spúsunum - yðar einlæg hefur af því reynsluna að búa með þeim á heimili um árabil og veit kvenna best að það er sko enginn leikur! En á meðan hún ég átti eintóm skilnaðarafmæli hafa þessir þrír átt alls konar pappírs, járn, tré og guðmávitahvaðfleira-brúðkaupsafmæli! Jæja, ástandið hér á bæ mun brátt breytast í þessum efnum eins og innvígðir vita og þá verður sko hæ þar á Hóli!
p.s. Teikningin að ofan er af Meadows-engjunum árið 1810, og að frátöldum kúnum eru þau svipuð að sjá enn í dag og þá, horft í norðaustur í átt að Edinborgarkastala.
1 ummæli:
yðar einlæg hefur af því reynsluna að búa með þeim á heimili um árabil og veit kvenna best að það er sko enginn leikur
hvada hvada hvada....!!!!
Skrifa ummæli