Líf í árvekni: Til hamingju, Skotland!

mánudagur, 27. mars 2006

Til hamingju, Skotland!

Frá og með kl. 6 síðdegis í gær, 26. mars, er bannað að reykja í "lokuðu almannarými" í Skotlandi, þ.e. pöbbum, veitingahúsum, lestarstöðvum, flugvöllum, hótelum, vinnustöðum... já eiginlega bara hvar sem þak er yfir höfði fólks. Held að einu löglegu reykherbergin verði á elliheimilum og geðdeildum. Blöðin hér virðast hálfhissa á því að enginn hafi farið í mótmælagöngu í gær (það var reyndar rigning) og minnir á skoðanakannanir sem bentu til þess að yfir fimmtungur reykingamanna (27% þjóðarinnar) ætluðu að gefa lögunum langt reykinganef.

Times segir á forsíðu "Skotland gefst upp bardagalaust." Vísar í Jakobítauppreisnir 18. aldar um sjálfstæðistilhneigingar Skota og engu líkara en menn séu bara hálfsúrir yfir því hvað Skotinn tekur þessu vel. Breyttir tímar síðan á dögum Kalla prins Sæta, segir blaðið, og andvarpar.

20 reykingalöggur heimsóttu 147 vínveitingastaði í Edinborg í gærkvöldi og höfðu kl. 10 um kvöldið ekki nappað einn einasta mann. 100% löghlýðni. Búið er að setja á laggirnar klögunarlínu fyrir almenna borgara og í hana höfðu 23 hringt þegar Scotsman (,,blaðið okkar") forvitnaðist þar um í dag, en þar af höfðu aðeins 5 eitthvað til síns máls. Lyktar samt illa, svona nokk, finnst henni mér, persónulega. Jafnilla og sígarettureykur.

Það rýkur samt úr nösunum á einhverjum yfir þessum róttæku lögum, sem ætlað er að hífa upp mannorð Skota í heilsufarsmálum. Öðruvísi gæti það varla verið. En vísast verður þetta bara eins og þegar bílbelti voru lögleidd. Fyrst verða margir hundfúlir yfir þessari skerðingu á frelsinu til að stjórna lífi sínu (og lífshættum) en með tímanum finnst mönnum skrítið að þetta hafi ekki verið tekið í lög fyrir löngu.

1 ummæli:

gunni sagði...

til hamingju !!