Elskulegu vinir og vinkonur.
Þá er víst komið að því sem við vissum að kæmi að, fyrr eða síðar. Minn heittelskaði og hugumprúði ektamaður þarf nú á nýjan leik að glíma við heilakrabbameinið astrocytoma sem greindist upphaflega í árslok 2006. Eins og þið sem á sínum tíma lásuð pistlana mína á þeim tíma þá vorum við búsett í Edinborg í Skotlandi ásamt börnum okkar og höfðum verið frá sumrinu 2005, bæði við framhaldsnám. Í janúar 2007 gekkst hann þar undir skurðaðgerð þar sem um helmingur af allstóru æxli í vinstra gagnaugablaði var fjarlægður og fór síðan í geislameðferð sem tók 6 vikur.
Heilaæxli eru af fjórum gráðum eftir því hversu ífarandi og ört vaxandi þau eru og er miðað við hæstu gráðu frumur sem finnast við vefjarannsókn. Hún sýndi að megnið af því sem var fjarlægt 2007 var af 2. gráðu, nokkuð af 3. gráðu og lítið eitt af 4. gráðu. Við kölluðum ófétið drekann í hálfkæringi og líktum lífinu við ævintýri, þar sem prinsinn hugrakki og hans undurfagra prinsessa takast á við dreka og aðrar þrautir á leið sinni í gegnum skóginn - vissum ekki fyrr en eftir greininguna að æxlið hafði einmitt vaxið utan um líffæri sem heitir hippocampus á latínu en ... dreki á íslensku. Eiginlega var með ólíkindum hversu lítil einkennin voru miðað við stærðina á æxlinu en það mældist horn í horn á lengdina 7.7 sm., 3.3 sm. ofan frá
og niður í annan endann, 4.4 sm. ofan og niður hinum megin og 3.7 sm. á
breiddina frá vinstri til hægri. Æxlið var á þessum tíma farið að þrýsta á miðlínu heilans, og nálægt heilastofni en skurðaðgerðin tók þann þrýsting, til allrar hamingju, og bráðri hættu var vikið frá. Um þessa sögu alla, gagnaugablaðsflogaveikina og nafna-gleymskuna sem fylgdi glímunni má sjá neðar á síðunni ef flett er upp í Eldri þönkum og smellt á mánuðina frá og með janúar 2007 og áfram.
Frá því að þetta var hefur Minn heittelskaði verið í eftirliti og farið á hálfs árs fresti í segulómunarmyndatöku á Landsanum. Niðurstaðan hefur alltaf verið hin sama: engar breytingar, drekinn sefur fast, rotaður eftir ,,geislastríðið". Þar til 7. ágúst sl. Þá kom í ljós að skepnan var farin að slá til halanum: breytingar voru í aftast aðgerðaholunni frá því 2007 sem sáust vegna lítils háttar upptöku skuggaefnis. Þessu skuggaefni er sprautað í æð fyrir myndatöku til að kanna hvort æxlið er farið að mynda eigin æðakerfi (til að ná sér í meira blóðstreymi og þar með næringu) eða bjúgur sé farinn að sjást, sem gefur til kynna nýjan vöxt. Breytingin var hins vegar svo lítil að ákveðið var að taka aðra mynd 6 vikum síðar, 19. sept., og meta stöðuna þá aftur. Þeirri myndatöku var síðan flýtt til föstudagsins 7. september eftir að Minn heittelskaði fékk mjög skyndileg einkenni málstols helgina áður. Hann var um leið settur á stera sem hafa virkað mjög vel og einkennin minnkað mikið, en eru þó slík að hann varð að hætta kennslu í MH.
Niðurstaðan úr segulómuninni 7. september var mikið áfall. Drekinn er ekki aðeins vaknaður og vöxtur sýnilegur í aðgerðaholunni, hann hefur líka getið af sér afkvæmi: nýtt æxli hefur vaxið í hvirfilblaðinu vinstra megin á þessum mánuði frá síðustu myndatöku. Það er 2,5 x 2 sm. að stærð, í því er mikið af æðaflækjum og bjúgur umlykur það, vegna þess hversu ört það hefur vaxið. Vaxtarhraðinn og æðarnar gefa til kynna að þetta æxli sé af fjórðu gráðu en úr því verður þó ekki skorið endanlega nema með því að skoða æxlisvef undir smásjá.
Því miður er þetta æxli ekki skurðtækt, þótt það sé sem betur fer ekki nálægt heilastofni eða miðlínu. Það ,,liggur með taugabrautum" sagði skurðlæknirinn í dag, skurðaðgerð gæti því skemmt meira en bætt. Þess vegna á að taka sýni úr æxlinu, þ.e. til að greina gerðina. Sýnatakan fer fram miðdegis á morgun, fimmtudag 13. september, á Landspítalanum í Fossvogi, og Minn heittelskaði mun síðan, ef allt gengur að óskum, fá að fara heim aftur eftir sólarhring.
Niðurstaða úr vefjarannsókn ætti að liggja fyrir snemma í næstu viku. Í framhaldi af því (e.t.v. eftir 2-3 vikur) hefst geislameðferð líkt og 2007 (alls 30 skipti, 5 skipti í viku) og samtímis því einnig lyfjameðferð. sem stendur samfleytt í 40 daga, síðan í 5 daga í mánuði í samtals sex mánuði. Lyfið heitir Temozolomide og er tekið í töfluformi, varð standard meðferð við heilakrabbameini fyrir nokkrum árum og hefur sýnt nokkru betri árangur og mun minni aukaverkanir en fyrri lyfjameðferðir. Ástæðan fyrir því að lyfin eru gefin samhliða geislameðferð
Við vonum innilega að æxlisvefurinn sé af gráðu þrjú en ekki fjögur. Meðferðin verður hin sama, hvort sem er, en lægri gráða þýðir hægari vöxt og meiri von um að æxlið svari geisla-og lyfjameðferðinni vel og skreppi því meira saman. Við vonum og vitum að þið sendið okkur styrk og góðar hugsanir; vináttan og kærleikurinn er það sem skiptir mestu máli í þessu lífi.
12 ummæli:
Baráttukveðjur frá okkur í vesturbænum!
Gangi ykkur vel í orrustunni sem er framundan.
Palli og Ólöf
Kærleikskveðjur og megi guð gefa ykur styrk og kjark. Hulda og Tapio
Stórt knús!
hér kemur andlegt knús og rafrænt yfir ljósnet símans
Okkar bænir fullar af fallegum óskum og kærleik ykkur til handa.
Auður Lilja & Raggi
Risaknús til ykkar og baráttukveðjur frá okkur Valla Jökuls og Öllu Rúnu í Mosfellsbænum.
Bestu kveðjur frá Svíþjóð. Hugur okkar er hjá ykkur.
Ásgeir og Inga
Samstöðukveðjur frá okkur Guðrúnu með. Innilegri von um að óskir okkar allra rætist ykkur til heilla. Gísli
kraftakveðjur!
valgerður
Gangi ykkur- og sérílagi þínum heittelskaða - allt sem allra, allra best í þessum slag.
ævar örn
Elsku Vilborg. En ólýsanlega erfitt stríð. Ég sendi ykkur mína hlýjustu strauma, gangi ykkur sem best.
Skrifa ummæli