Líf í árvekni: Borhola á Skeljastöðum

laugardagur, 15. september 2012

Borhola á Skeljastöðum

IMF er víða, jafnvel á óvæntustu stöðum eins og Landspítalanum í Fossvogi. Að þessu komumst við prinsinn hugrakki á fimmtudagsmorguninn þegar við mættum þar í bítið, ég með hann og hann með tannburstann. (,,Af hverju fara læknar og hjúkrunarfræðingar svona snemma í vinnuna?" spurðu Skottan og vinkona hennar hissa, þegar ég útskýrði að hún þyrfti að gista hjá frænku nóttina áður en pabbi þurfti á spítalann að láta skoða ,,heilakúluna" því við þyrftum að mæta klukkutíma áður en hún í skólann). En aftur að IMF. Það er sem sagt Innskriftarmiðstöð í Fossvogi. Fyrir þá sem eru á leið í aðgerð. Fann ekki lógóið þeirra á vef spítalans, sem er synd því það er eiginlega flottara en hjá IMF þar sem allt snýst um peninga en ekki fólk. Hjá IMF í Fossvogi snýst allt um fólk. Komumst líka fljótt að því. Sbr. eftirfarandi:



Fólk sem fer í aðgerð þarf að fara í blóðsýnatöku við innskrift svo að hægt sé að hafa úttekt úr Blóðbankanum tiltæka. Vingjarnlegu hvítsloppakonurnar hjá IMF hringdu eftir starfsmanni til að fylgja Mínum og öðrum sjúklingi niður um nokkrar hæðir, hægri og svo vinstri, o.s.frv. í blóðsýnatökuna, þar eð okkur fannst borðleggjandi að ef einhver ætti rétt á að fá aðstoð til að rata um sjúkrahúsganga þá væri það maður með heilaæxli. (Ekki þar fyrir, ratvísi Míns er viðbrugðið eins og þau sem til þekkja vita. Ég er hins vegar ákaflega illa stödd í þessu efni og er ein þessara sem hef armbandsúrið til að minna mig á muninn á vinstri og hægri).

Hvað um það. Kona í hvítum slopp kom innan stundar inn ganginn, virtist þegar orðin streitt þótt enn væri rökkvað úti, og kallaði stundarhátt: ,,Eru einhver sýni hérna?" Þær hjá IMF litu sposkar hver á aðra og ein þeirra svaraði jafnhátt: ,,Nei. Við erum bara með fólk hér!" Fliss eftir öllum ganginum vitnaði um að mannskapurinn sem enn beið eftir innskrift fannst svarið gott.

Innritunin hófst reyndar á öðrum stungum, á vegum röntgendeildarinnar. Nýja segulómmynd í þrívídd þurfti af kolli Míns heittelskaða fyrir skurðlækninn og fyrir hana þurfti að sprauta skuggaefni í æð. Skuggaefnið er sogað upp af æðum í æxlinu og sýnir lækninum staðsetninguna á drekaunganum. Það tók tvær konur fimm tilraunir að koma skuggaefninu í æðarnar sem hörfuðu vitanlega eins og skjaldbökur inn í skel sína við atlögur þeirra hver af annarri. Og Minn fyrir eins og dópisti, með fjólubláa marbletti eftir sams konar sprautu á föstudaginn fyrir viku. ,,Það er gott að þú komst svona snemma," tautaði sú sem á endanum fann æð, ósköp vandræðaleg.

Síðan var það pappírsvinnan, engan veginn eins óþægileg, til allrar hamingju. Dálítið skondið, fannst yðar einlægri, eftir að hafa aðstoðað við nákvæma svörun spurninga um atriði eins og lyf og ofnæmi (penicillin) að hvítslopparnir þrír, svæfingarlæknir, hjúkrunarfræðingur og einn enn (sem ég man ekki hver var), sem tóku minn í viðtal héldu allar á því sama blaði og spurðu án þess að líta á það: ,,Ertu með eitthvert ofnæmi?"

Eftir IMF tók síðan við löng, löng, löng bið, á mjög kósí setustofu á dagdeild heila-og taugaskurðdeildar. Vissum reyndar að aðgerðin færi ekki fram fyrr en miðdegis og vorum pollróleg, Minn dormaði í sófa og ég las gríðarlega fína sakamálasögu um strák með Asperger (takk Vala!)

Um þrjúleytið kom skurðlæknirinn sem hafði stungið Mínum akút inn í pakkaðan vinnudaginn og útskýrði hvað væri framundan. Fyrst er höfuðið skorðað af í sérstakt ,,navigasjón" tæki með myndavélakúlum (sjá myndina að ofan) sem sýna nákvæmlega hvar sýnatökunálin fer án þess að skaða taugabrautir á leið inn að æxlinu. Þar myndi hún taka litlar pulsur á 2-3 stöðum (tók eftir að hann sagði ekki pylsur eins og á að segja). Þegar ég spurði áhyggjufull hvort Minn kæmi nokkuð heim með skallablett eftir hann þá flýtti læknirinn sér að taka fram að hann yrði voðalega lítill, ,,bara á stærð við frímerki" til að halda hárinu frá þegar holan yrði boruð. (Þessi ágæti læknir notar ansi stór frímerki, verð ég að segja, svona eftir á. Og ég verð líka að segja að þótt vinkonu minni einni þyki hann líkur Georg nokkrum Klúní þá er ég því ekki sammála, hökuskarðslaus maðurinn. Alveg huggulegur samt).


Ég spurði hann líka um útlitið á nýja æxlinu, hvort það væri vel afmarkað, líkt og upprunaæxlið í gagnaugablaðinu var á MRI myndum í Skotlandi á sínum tíma. Stundum eru þessi kvikindi nefnilega með stóra anga um allt og óljós mörk. Hann svaraði því til að útlitinu mætti líkja við blettina sem sjást í tölvuleik þegar sprengjur springa, með litlum oddum allt í kring. Ég býst við að hann hafi átt við tölvuleik eins og þennan sem Minn heittelskaði spilar mjög gjarnan í lófatölvunni sinni og ég man ekki hvað heitir en margir kannast eflaust við. Er dálítið eins og sjóorrusta sem við systkinin lékum á rúðustrikuðum blöðum sem krakkar, í gamla daga þegar tölvur voru enn álíka stórar og einbýlishús og komust ekki fyrir í lófa.

Þegar við fengum síðan að vita að aðgerðin yrði ekki fyrr en klukkan sex pillaði ég mig heim og lét minn einan í árvekni í þögninni á sjúkrastofunni sinni.

Fékk svo áður lofað símtal upp úr klukkan níu frá skurðlækninum sem sagði að reyndar hefði aðgerðin ekki hafist fyrr en hálfátta en allt hefði gengið mjög vel og ég mátti koma á Vöknun og heilsa upp á ektamanninn. Þegar ég furðaði mig við skurðlækninn á löngum vinnudegi fólks sem hefur það að atvinnu að krukka í kollinn á öðrum og kona skyldi ætla að mikilvægt væri að væri óþreytt í svona nákvæmnisdjobbi, þá hló hann við, þessi geðþekki maður, og sagði þetta vera alvanalegt hjá sér. Reyndar væru litlu börnin hans stundum að kvarta yfir því að sjá hann ekki heilu dagana. En hann var kátur því hann átti frí á morgun og var á leið í réttir. (Ég komst vitanlega ekki hjá því að sjá fyrir mér heilaskurðlækninn í græna gallanum að draga rollur í dilka).


Minn heittelskaði var með túrban á höfðinu þegar ég kom í Fossvoginn og roknahausverk sem von er eftir atganginn. Ástandið lagaðist þó fljótt eftir að hjúkrunarfræðingarnir höfðu dælt í hann verkjalyfjum. ,,Því meira af dópi, því betra," sagði hann sáttur þegar morfínið streymdi út í æðarnar.

Heim mátti Minn koma á hádegi á föstudegi, laus við túrbaninn og ekki svo mikið sem plástur yfir sjö spora kapmellusauminum á bletti sem er ekki eins-og-frímerki-að-stærð (eða alla vega ekki þeim sem eru notuð á 50 gr. bréf). Af tillitsemi við Skottuna, sem sagði ,,en krípí" þegar hún sá sauminn, þá setti hann síðan upp skoskan sixpensara. Tók ekki einu sinni ofan við matarborðið.

Okkur báðum léttis er ekki að heyra að þessi aðgerð hafi haft neina truflun í málstöðvunum í för með sér - eins og ákveðin hætta var á. ,,Því þótt svona sýnataka sé ekki eins mikið inngrip og heilaskurðaðgerð þá er þetta nú ekki eins og að fara til tannlæknisins," sagði ekki-Georg Klúní og hefur auðvitað talsvert fyrir sér í því. Og víst er prinsinn hugrakki nokkuð dasaður og verður því vafinn í bómull um helgina, þarf hvorki að elda né svo mikið sem setja í vél. Niðurstöðurnar fást frá meinafræðingunum á þriðjudag. Þá hittum við skurðlækninn og geisla- og krabbameinslækninn til að ræða meðferðina framundan.

Með þakklæti fyrir góðar kveðjur og hjartastyrkjandi tilskrif,
ykkar einlæg
-Vilborg

PS. Skildi eftir hálfskrifaða setningu í síðasta pistli um tilgang þess að geisla- og lyfjameðferð fara fram samhliða gegn heilakrabbameini. Það er sem sagt gert vegna þess að lyfið (Temozolomide) hefur þau áhrif að gera æxlisfrumurnar næmari fyrir geislunum.

3 ummæli:

Kiddi sagði...

Úff, meiri baráttukveðjur - & knús :-*

Nafnlaus sagði...

knús og koss, hugrakka mín,
vala ben

Aldís sagði...

Heil og sæl bæði. Ég var beðin um að koma kveðjum til ykkar frá félagsfræðadeildinni í MH. Við söknum Björgvins þar. Góðar fréttir ef málið er að koma til baka. Kær kveðja, Aldís Guðmundsdóttir, sálfræðikennari