Líf í árvekni: Gleðilegt ár

sunnudagur, 4. janúar 2009

Gleðilegt ár

Eins og árvökulir lesendur (séu þeir einhverjir eftir þarna úti eftir ógnarlangt jólafríið) veita athygli hefur yðar einlæg með nýju ári tekið upp nýja yfirskrift yfir netskrifin: Líf í árvekni. Þess ber þó að geta að merkingin er eftir sem áður hin sama eins og undirtitillinn ber með sér.

Finnst bara þetta orð árvekni og að vera árvökul(l) fallegri þýðing á enskunni sem ég lagði af stað með á gamlársdag 2005 í Eiðinaborg (Mindful living/ mindfulness /being mindful) heldur en varurðin, og heldur þjálli, að ég segi ekki til muna gagnsærri (les: fleiri vita væntanlega hvað árvekni er en varurð, sem gúgglast eingöngu utan þessara síðna í textum Guðspekifélags Íslands og er skýrt þar sem athugun í tengslum við hugleiðslu).
Er að velta því fyrir mér að gera það að áramótaheiti að vera duglegri að skrifa hér, til að mynda tvisvar í viku hverri (?) en er ekkert fyrir að lofa einhverju nema með fylgi einlægur ásetningur um að standa við það sem ég segi. Þessi tvö fallegu orð, árvekni og ásetningur, gegna stóru hlutverki í þýðingunni á Hamingjubókinni sem ég er rétt að ljúka við fyrir Sölku og verður gefin út einhvern tímann með vorinu. Best að fara vel með þau.

Það verður gott að hefja hvunndaginn aftur; það er gaman að breyta til en enn betra að komast í hvunndaginn aftur, hafa reglu á hlutunum, það er nú aldeilis eitthvað fyrir mína. Finn bókstaflega hvernig andinn lyftist af þeirri ákvörðun einni að láta á nýjan leik af sykurátinu sem hefur staðið frá því í Árlega Smákökuboðinu Okkar .

Líkaminn mótmælir reyndar ennþá á fjórða degi og heimtar sætindi eins og Kaktus og Baktus (sem Skottan nefnir svo) í ofvirknikasti en holdið verður að hlýða andanum og mun gera það innan skamms; af nokkurri reynslu veit ég sem er að ,,afvötnunin" tekur þetta tíu til tólf daga og þá linnir þessum ferðum í eldhússkápana þar sem leitað er að ,,bara einhverju" mörgum sinnum á dag.

Önnur hálfvolg áramótaheit eru helst til mikið prívat til að tala um hér. Nema það náttúrulega að halda áfram hér eftir sem hingað til (og að baki því er einlægur ásetningur) að lifa samkvæmt því að lífið sé alveg jafn dásamlegt fyrirbæri og áður en fjármálakerfið á landinu fór í klessu með ákaflega umræddum afleiðingum. Pollýanna, ég ;o)

Guð gefi ykkur gæfuríkt ár.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég óska þér farsæls nýs árs og takk fyrir skrifin á árinu sem var að líða.

McHillary sagði...

Sælar mín kæra!
Og gleðilegt árið. Mikið er þetta sæt mynd af ykkur mæðgum, þú ert nú bara eins og twenty something, getsvosvariðþað.
Nú ætla ég að fara að mæta á Hallveigarstíginn fljótlega, þarf ekki að rýna í tarrotið svona í upphafi árs?

Nafnlaus sagði...

Gleði og gæfuríkt 'ár elskurnar og þökk fyrir allt bloggið á árinu. Bíð eftir myndinni af þér og vestinu.Mamma

Nafnlaus sagði...

Gleðilegt ár mín kæra og takk fyrir allt!

Hlíf Ragnarsdóttir
Þorlákshöfn