Líf í árvekni: október 2008

laugardagur, 25. október 2008

Hamingjan er...

Um það bil frá því að kreppan brast á hef ég á hverjum morgni hugsað um hamingjuna og í hverju hún er fólgin, frá því um klukkan hálftíu til klukkan tólf á hádegi. Þetta er einkar gefandi tími og þótt ég sé alla jafna hamingjusöm yfirleitt (samkvæmt skilgreiningunni að hamingjan sé sátt við Guð og fólk) þá er ég ekki frá því að þessi staðfasta iðkun hafi enn bætt mitt geð, til góðs jafnt yðar einlægri sem þeim sem í kring eru.

Þessar afmörkuðu stundir mín með hamingjupælingunum eiga samleið með kreppunni af því að í byrjun mánaðarins skrifaði ég uppá að þýða litla bók um efnið hjá bókaútgáfunni Sölku, útgáfa væntanleg með vorinu.
Sem betur fer þá er ekkert talað um peninga í þessari bók, ekki nema þar sem tekin eru dæmi af því hvernig söfnun þeirra getur hindrað okkur í að vera hamingjusöm núna, burtséð frá því hver staðan er á fjármálunum. (Þ.e. ef við hengjum hamingju okkar á tiltekna fjármálastöðu þá er nokkuð ljóst að við verðum að bíða með hamingjuna þar til aurarnir hafa skilað sér. Hvenær sem það nú verður - ef einhvern tímann).
Meginþemað í þessari bók um listina að lifa, líkt og ýmsum öðrum sem ég og Minn höfum sankað að okkur um efnið í gegnum tíðina, er mikilvægi þess að streitast ekki á móti veruleikanum heldur gangast við því sem er. Þar með er ekki endilega sagt að við eigum að gera okkur ánægð með það sem er, heldur einfaldlega að taka því að allt er eins og það er, án þess reyna að horfa framhjá því, afneita því, berjast við það í huganum, stinga höfðinu í sandinn, garga yfir því hvað það er óréttlátt að einmitt svona sé þetta, án þess að óska þess að hlutirnir væru öðruvísi en þeir eru. Sem sagt: Lykillinn að hamingjunni er að gangast við því sem er. Að vera kjur með því sem er.
Hljómar aldeilis einfalt en er þó hægara sagt en gert. Get samt sagt frá því af eigin reynslu að þegar það tekst þá færist yfir kollinn og kroppinn allan ótrúleg friðsæld. Eins og sálin dragi andann djúpt og dæsi síðan af tómri vellíðan: ,,Jæja, þá er manneskjan loksins til friðs!" Ég upplifði þetta síðast 12. janúar 2007 um kl. 22.00 og hef oft hugsað til þeirrar stundar síðan, sótt mér æðruleysi í þá minningu, svo einkennilega sem það kann nú að hljóma fyrir þá sem til þekkja.
Þetta þýðir samt ekki að við eigum bara að sitja á rassinum þegar eitthvað er verulega mikið að því hvernig allt er. Alls ekki. En þetta er samt sem áður allra fyrsta sporið í að átta sig á því einmitt hvort og hvað má færa til betri vegar.

Þau sem kannast við Sporin tólf kalla þetta einmitt 1. sporið: að viðurkenna vanmátt sinn. Undarlegt að hægt sé að öðlast styrk með því að játa vanmátt sinn. Samt er það svo. Að láta af bardaganum við það sem er ekki á okkar valdi. Magnað.
Svona er ég spök á morgnana. En eftir hádegi, þegar ég sit úti á Safni við mín eigin skrif, þá hallast ég meira að því að taka undir það sem kollega mín ein, sem ég deildi einu sinni skrifstofu með, sagði um hamingjuna, nefnilega að hún felist í því að hafa verið dugleg. Mest við skriftirnar náttúrulega, en líka við hvaðeina sem getur flokkast undir annan dugnað, skúringar (með kraftmikilli músík), straujun á uppsöfnuðum haug af krumpuðu taui og þess háttar.
Í uppáhaldsbók minni þessa dagana, Ritmálssafni Orðabókar Háskóla Íslands, fann ég þetta gullkorn svipaðs efnis: ,,Iðnin og hamingjan eru mæðgur."

Þegar ég hugsa um það, þá er dugnaður/iðni líkast til falinn í að gera hvaðeina sem skilar af sér einhverjum afrakstri eða sköpun. Í víðustu merkingu þeirra orða.
Afraksturinn af því að lesa kvöldsögu fyrir háttað og strokið smáfólk er til dæmis sköpun á vellíðan fyrir foreldri og barn.
Afraksturinn af því að dúka kvöldmatarborðið með spariglösum og servíettum í servíettuhringum og logandi kertaljósum er glatt auga (og svo held ég að maturinn smakkist hreinlega betur líka).
Lýk þessum spekúlasjónum með spurningu til ykkar, elskulegu les-endur Varurðarlífsins: Hver væri ykkar botn á setningunni: Ég er hamingjusöm /hamingjusamur þegar .......... ? Vísast margir botnar, kannski jafnmargir og mannfólkið. En það væri gaman að sjá brot af því sem hægt er að hugsa sér.
P.S. Efsta myndin er tekin á Laugarnesi í Reykjavík. Skottan krýpur í grasinu þar sem á skilti segir frá Laugarneskirkju, sú mun hafa staðið þar frá því í öndverðu Íslandsbyggðar þar til á síðustu eða næstsíðustu öld.
P.P.S. Gleymdi alveg sparnaðarráði dagsins og bæti úr því með því að vísa í pistil frá því fyrr á árinu þar sem útskýrt er vel og vandlega hvernig má spara fúlgur fjár með matseðilsgerð. Ath. Ráðið er í síðari hluta setningarinnar og svo er smáviðbót í athugasemdaglugganum.

þriðjudagur, 14. október 2008

Alveg nóg er alveg nóg


Það hefur verið skrítið að vera til síðustu daga. Bubbi Morthens segist sjá allt í litum, nöfn og hvaðeina, (útvarpsþáttur á Rás 2 í gær þar sem hann tók afar fræðandi og gott viðtal við Pál Matthíasson geðlækni og lífshamingjukúnstner) en ég á það til að sjá setningar sem fólk segir fyrir mér eins og í loftbólunum fyrir ofan fígúrur í myndasögum og skapa mynd af því sjálfu, lífi þess og viðhorfum. Þegar ég geng niður Laugaveginn eða um ganga bókasafnsins heyri ég slitur af samtölum fólks á milli, nokkur orð sem líða út í loftið, teikna örmynd af lífi þess sem talar, leysast síðan upp.

Allar myndirnar sem ég hef séð, hver einasta, undanfarna daga er af hræddu fólki, fólki sem er fullt af ótta, líka reitt en veit ekki alveg við hvern, mest kannski við ,,þá" en líka sjálft sig því í bland erum við með sektarkennd yfir því að hafa ekki áttað okkur á hvert stefndi og reynum að réttlæta okkur með vörninni: Þetta er ekki okkur að kenna, við Jónarnir og Gunnurnar vorum ekki að kaupa okkur poppstjörnur í afmælin eða einkaþotur undir rassinn, við vissum ekki einu sinni um þessi bankaútibú í útlöndum, við treystum því að bankaliðið vissi hvað það væri að gera, treystum þjónusturáðgjafanum þegar hann sagði að það væri alveg jafnöruggt að leggja spariféð í peningamarkaðsbréf í Sjóði 9 og að hafa það á venjulegum sparireikningi, bara meiri vextir og hvenær hef ég flotinu neitað?

Fyrir ríflega áratug, um það leyti sem ég komst til vits og ára (en eins og allir vita að það gerist yfirleitt upp úr þrítugu) kom ég mér upp slagorði í fjármálum sem hefur nýst mér vel alla daga síðan. Það hljómar svona: Alveg nóg er alveg nóg.

Það er vitanlega hvers og eins að meta hvað er henni eða honum alveg nóg en í mínu tilfelli var og er það að eiga fyrir reikningunum um mánaðamótin, hafa öruggt húsnæði og nóg að bíta og brenna. Ágætt að eiga dálítinn varasjóð í bankanum sínum líka fyrir óvæntum útgjöldum en á þessum tíma var ekki fyrir því að fara; úr því rættist síðan smám saman eftir að slagorðið kom til sögunnar og var beitt til hægri og vinstri á afkomuóttaköstin sem lögðu undir sig sálarlífið af og til á milli útborgunardaga (sem hjá rithöfundum eru 1. júní ár hvert).
Um sama leyti tók ég upp á því að ráði góðrar konu (Victoria Moran: Shelter for the Spirit) að blessa reikningana mína og minnast þess að þeir eru merki um að ég hafi notið einhvers frá öðrum sem treysta á mig um að standa skil á því sem það kostaði og í hvert sinn sem ég skrifa nafnið mitt á kreditkortanótu þakka ég Vinkonu minni (Guði) fyrir að eiga aur fyrir þessari þjónustu eða varningi sem undirskriftin tryggir mér, nú já, eða að minnsta kosti lánstraustið sem ég hef hjá kortaútgefandanum.
Prinsippmál líka að sjá aldrei eftir því að þurfa að borga öðrum fyrir framlag sitt til þess að ég geti notið gæðanna sem þetta líf hefur upp á að bjóða og hafa alltaf í huga að hinir þurfa líka að lifa. (Í framkvæmd er þetta að minni reynslu nauðsynlegast þegar virkilega reynir á, t.d. þegar kaupa þarf fagþekkingu fólks eins og pípulagningamanna eða tannlækna).

Þessi fjármálaspeki hefur skilað mér á þann stað að þokkalega efnaður bróðir minn sem starfar (en hættir bráðum) hjá einum þeirra banka sem nýlega voru teknir í ríkiseigu sagði við mig með mikilli velþóknun fyrir ekki svo löngu: ,,Þú hefur nú alltaf getað lifað á loftinu." Hann ætti að vita hvað hann segir, maður sem er viðmælandi Wall Street Journal í vikunni (og pabbi okkar líka).
Það hefur reynst mér hjálplegt að vera alin upp af ákaflega heiðarlegu og hagsýnu fólki sem sjálft hefur séð tímana tvenna í fjármálum og ekkert er þeim meira eitur í beinum en lántökur. Ég er náttúrulega mörkuð af þessu uppeldi sem einu sinni fyrir langa löngu (áður en ég komst til vits og ára) olli því að ég tók út sálarkvalir þegar minn þáverandi hafði að tómstundagamni að safna stöðumælasektum og taldi það ódýrara en að borga í mælinn þar sem það gerðist ekki svo oft (sú fullyrðing stóðst ekki í reyndinni auk þess sem greiðslan fór ekki fram fyrir en eftir dúkinn og diskinn og þá af Yðar einl.).
Því er ég að deila þessu með ykkur (sem kannski hafið alls ekki alveg nóg) að ég hef með því að rifja upp þessa nokkuð svo þrengri tíma fyrir ríflega áratug og hversu úr rættist tekist að losa mig undan óttanum sem skaut upp kollinum við hinar meintu ,,hamfarir"*** í efnahagslífi þjóðarinnar. Óvissan er auðvitað verst eins og alltaf. Ekki í fyrsta sinn sem kona reynir það á eigin skinni. Eins og mig minni að ég hafi nefnt það áður að ekkert sé jafnóþægilegt og að vita ekki fyrir víst hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Þegar tilfinningin um að við ráðum ekki eigin lífi, höfum enga stjórn, nær yfirhöndinni.

Þess vegna er líka gott að minna sig á að enginn, alls enginn, veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér, nokkurn tímann. Sálin verður svona líka miklu öruggari með sig þegar hún veit að hún er í báti með öllum hinum en ekki alein á ólgusjónum og hvergi land í augsýn. Þau sem þekkja reynslusporin tólf þekkja þetta; hvað það er okkur manneskjunum nauðsynlegt að hafa hendur annarra að halda í svo að við missum ekki fótanna. Skuldunautar ættu þannig að geta huggað sig við það, þó ekki sé annað, að þeir eru í sömu sporum og ákaflega margir, vísast bróðurpartur þjóðarinnar (bróðurpartur, hafið þið spáð í pólitíkina í þessu orði?!).
Og svo getum við líka verið glöð yfir því að loksins eru konur ráðnar til þess að stjórna bönkum. Guð láti gott á vita; þetta sýnir að mínu viti að við erum þegar farin að draga dýrmætan lærdóm af reynslunni.
Mínum heittelskaða finnst ég dálítið skrítinn fugl, hann hefur engan sérstakan áhuga á peningum og fær því engan veginn sama kikkið út úr því að setja saman fjárlög fyrir heimilið og yðar einlæg. Já, ég verð bara að viðurkenna það að ég hef haft dálítið gaman af því að leggja sparnaðarlínur á la 1996 að undanförnu, búa til Excel-skjal yfir innkomuna og útgjöldin og (Hildur, hættu að hlæja, það heyrist í þér upp í Þingholtin!). Pínlegt. Að minnsta kosti hingað til. En kannski verður minn stíll bara kúl á næstunni.

Ég tek samt ekki slátur (en kaupi frosna keppi).

Sparnaðarráð mun því fylgja pistlum mínum á næstunni, það fyrsta er frá bróðurnum ofangreinda: Það dugir að nota eina teskeið af uppþvottadufti í uppþvottavélina. Ef þú hefur asnast til að kaupa töflur í stað dufts skaltu brjóta þær í fjóra mola og nota einn slíkan í hvern uppþvott. Það er alveg nóg.

***
Ég lýsi hér með frati á þessa orðanotkun, að líkja áföllum í peningamálum við náttúruhamfarir, flóðbylgjur, hvirfilvinda o.s.frv. Ég lærði á námskeiði í gær hjá Kvennakirkjunni um feminíska vistguðfræði að svona orðræða er apocalyptísk, þ.e. tekin úr heimsendaspá Opinberunarbókar Jóhannesar (aftast í Biblíunni) sem boðar mannkyni eld og brennistein í syndalaun (Skaftárhlaup?) og hefur verið nýtt mest af vakningapredikurum. Gætum orða okkar. Heimurinn er ekki að farast. Við erum bara blankari en við vorum áður.

P.S.. Myndskreytingar dagsins eru frá því að Veturinn var með forsýninguna um daginn.

fimmtudagur, 2. október 2008

Enn sefur drekinn!

Í gær fór Minn heittelskaði í segulómunarmyndatöku á heila til þess að líta mætti til með drekanum og í morgun fengum við niðurstöðurnar frá Jakobi Jóh. krabbameinslækni: Tíðindin eins góð og þau geta orðið, engar breytingar sjást á æxlinu sem gæfu til kynna að það væri komið af stað aftur, allt sem sé við það sama og fyrir hálfu ári, við síðustu myndatöku og drekinn steinsefur sem fastast undir geislabaugnum sem hlaðið var yfir hann í geislameðferðinni í Edinborg í fyrravor.

Við erum því létt í lund í dag hvað svo sem kreppu líður og svifi krónunnar um geiminn; merkilegt í rauninni hvað stór mál geta orðið smá þegar hlutirnir eru settir í nýtt samhengi.

Ég hef að undanförnu hugsað mikið til hennar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem nýlega gekkst undir heilaskurðaðgerð í New York og til fjölskyldu hennar og vil senda út í eterinn með þessum línum kærleikskveðju og bestu óskir til hennar um góðan bata.