Líf í árvekni: Af ástareldi

mánudagur, 12. janúar 2009

Af ástareldi

Tíminn er undarlegt fyrirbæri. Í Hamingjubókinni sem ég er að ljúka við að snara þessa dagana veltir höfundurinn þessu fyrir sér í samhengi við viskuna um að lifa í núinu (og af árvekni vitanlega) og heldur því fram - réttilega að mínu viti - að í rauninni sé ekkert til nema líðandi stund og því sé um að gera að anda henni að sér, njóta hennar til fulls og sóa ekki einu andartaki í áhyggjur af framtíðinni eða eftirsjá yfir því sem er liðið.

Samt má kannski segja að fortíðin lifi í minningunum, hugsununum um það sem hefur þegar gerst, hvort heldur það er nú ánægjulegt eður ei. Er liðin tíð kannski til í einhverjum skilningi sem víddin þar sem við geymum minningarnar, því áþreifanlegri sem við lítum þar oftar við?
Reynslan (hvort heldur það er nú lærdómur/æðruleysi eða hugarangur/sársauki) af því sem hefur gerst verður til í gegnum tíðina og er náttlega til staðar í núinu, ekki satt, sem hugsanir okkar núna? Er hún þá ekki birtingarmynd fortíðarinnar í núinu?
Hmmm.... Mín heimspekileg í dag, tólfta dag janúarmánaðar.
Í dag eru tvö ár frá því að Mínum heittelskaða var rúllað inn á tauga-og heilaskurðdeild Western General Hospital í Edinborg til þess að gangast undir sjö klukkustunda skurðaðgerð þar sem stórt op var gert á höfuðkúpuna, helmingur af illkynja heilaæxli á stærð við myndarlega sítrónu fjarlægt úr kollinum á honum, beinið fest á sinn stað aftur með þremur títanskrúfum og bogadreginn skurðurinn saumaður með 22 ákaflega vandvirknislegum kapmellusporum.
Að einhverju leyti er eins og þetta hafi gerst í síðustu viku en að öðru leyti eins og það hafi verið í öðru lífi.
Ég man þegar við deildum reynslu okkar í litla hópnum sem sótti stuðningsfundi á þriðjudagsmorgnum í Maggie´s Centre fyrir aðstandendur krabbameinsgreindra, að eitt af mörgu sem við áttum sameiginlegt var að fyrsta hugsunin um leið og við opnuðum augun á morgnana var um mein ástvinar okkar. Síðan steyptust yfir allar hugsanirnar um það sem var búið að gerast og því næst hugsanirnar um það sem gæti gerst næst, í dag eða einhvern annan dag í framtíðinni. Stundum allt saman í einni andrá. (Mæli ekki með þessari aðferð til að byrja daginn.)
Til allrar hamingju er það ekki svo lengur. Ég veit ekki hvenær það breyttist en það er þó nokkuð síðan. Samt líður vísast ekki sá dagur að ekki komi upp í hugann einhver hugsun tengd ,,drekanum" eins og við fórum að kalla æxlisskömmina í hálfkæringi, stendur þó yfirleitt stutt við. Húmorinn hjálpar til.
Við hlæjum að því þegar Minn man ekki þetta eða hitt og hefur alltaf skothelda afsökun fyrir hvers kyns gleymsku og líka fleiru sem snýst alls ekkert um gleymsku, djókum með hvaðeina sem hægt er svo að úr því verði ekki einhver dauðans alvara. Verðum samt að gæta að okkur því það hafa ekki allir húmor fyrir heilakrabbameini, blessuð börnin eiga það meira segja til að líta til himins yfir glósunum sem stundum fljúga.
Eitt af því sem mér finnst óskaplega fyndið er að engu er líkara en allar upplýsingar um ferskt grænmeti hafi verið skornar úr honum þarna um árið. ,,Er þetta steinselja?" spurði hann í gær og benti á pottablóm sem ber það fagra nafn Ástareldur og er í eldhúsglugganum, við hliðina á potti sem stundum eru í kryddjurtir (ekki núna reyndar).
Ég hef ekki tölu á því hve oft hann hefur spurt mig að því hvað þetta þarna æi fjólubláa, það er aflangt, heiti nú aftur (eggaldin) og man samt stundum en stundum ekki að það heitir aubergine á ensku. Gulrætur/rófur/kúrbítur/steinselja
/klettasalat/basil/kóríander/steinseljurót og hvað það nú heitir allt saman víxlast iðulega hvert um annað þvert.
Þó er ein grænmetistegund sem mun víst aldrei líða honum úr minni: Blessað rauðkálið.
En það er líka í krukku.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég myndi nú ekki þekkja allar þessar jurtir í sundur, og ekki hef ég neina algilda afsökun eins og hann!

-Katrín

Nafnlaus sagði...

Yndislegur pistill, minnir mann á að já húmorinn í lífinu og njóta þess að brosa :)
Knús Auður Lilja

Nafnlaus sagði...

á að "sjá" húmorin átti þetta að vera :) kkv. ALD

Nafnlaus sagði...

Skiftir ekki máli hvað þetta eða hitt heitir, bara að sé bóta :-)Kærar kveðjur mamma

Nafnlaus sagði...

Hæ Vilborg mín. Gott að vera búin að finna loksins bloggið þitt. Þú ert enn sami orkuboltinn sé ég, þýðir og skrifar og kannt að lifa í deginum í dag. Takk fyrir alla viskuna sem er að finna á síðunni þinni. Sjáumst fljótlega. Kærar kveðjur, Anna Kristine

Nafnlaus sagði...

'A ekkert að blogga meira Kærar kveðjur mamma

Nafnlaus sagði...

Nýtt blogg, takk fyrir

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Veskú!