Líf í árvekni: Harðangur og klaustur?

mánudagur, 15. janúar 2007

Harðangur og klaustur?

Þá er plásturinn farinn af skurðinum og svona framan frá er nú varla hægt að sjá nokkuð skapaðan hlut nema margumrætt glóðarauga - ég hélt þriðju gráðu yfirheyrslu yfir piltinum í dag og fékk að heyra af þremur glóðaraugum sem í öllum tilvikum voru tekin út yfir jól, voru tíu daga að hverfa og voru sko alveg örugglega alltaf öðrum að kenna!

Ég smellti einni nærmynd af gulleitum vinstri vanganum en hef hana bara litla, vona að engum verði um of um brugðið - (treysti á að tengdamóðir mín hjúkrunarkonan hafi nú séð saumaðan skurð áður) - þarna getur að líta 22 spor með nælonþræði sem hafa ábyggilega eitthvert krúttlegt nafn á dönsku sem ég man ekki hvert er, ekki harðangur og klaustur en eitthvað svipað (nokkur handavinnukennari meðal lesenda?).


Þarna undir húðinni og ósýnilegar utan frá eru þrjár títanþynnur sem halda beininu, sem þurfti að taka frá á meðan á aðgerð stóð, á sínum stað, og eru sérstaklega ,,MRI adapted," þannig að Björgvin getur farið bæði í segulómskoðun og gegnum öryggishlið flugvalla án þess að setja öll viðvörunarkerfi í gang.

Hann fór í ,,post-op CT scan" (kona er orðin fullbefær í læknamáli sko) eða myndatöku af heilanum í morgun, sem læknahersingin mun nú leggjast yfir til þess að sjá hvernig landið liggur, hversu mikið er eftir af æxlisvef og hvernig tómið sem er eftir artar sig, en mér skilst að það fyllist strax af vökva og með tíð og tíma geti heilbrigður heilavefur fyllt upp í það.

Sjúkraþjálfi kom enginn í dag né heldur iðjuþjálfi, enda þykir mínum, sem labbar sig nú aðstoðarlaust fram á kló og setustofu, það algjör óþarfi fyrir sína parta: ,,Sé ekki hvað þeir ættu að gera." Á morgun er boðuð heimsókn talmeinasérfræðingsins sem átti svona líka skemmtilegt samtal við hann á föstudaginn síðasta um hvernig ætti að búa til virkilega gott Chili con carne (hélt kryddblöndunni fyrir sjálfan sig samt) og ætlar nú að bera saman talið við það sem var fyrir (og í?) aðgerð.

Þá er líka væntanlegur taugasálfræðingur sem Björgvin hefur áður setið fyrir svörum hjá og svarað ögn skemmtilegri spurningum en þeim sem lúta að heiti, aldri og staðsetningu á landakortinu. (Þórir kannast væntanlega við þetta, sbr. frásögn hans á Ameríkublogginu frá 1.7.06 af taugasálfræðingnum sem vildi vita hvort björninn væri dauður, ef ljónið hefði drepið hann...!)

Ekki ljóst í þessum skrifuðum orðum hvort Björgvin nær fyrir spurningatímum að koma heim á morgun þriðjudag en það skýrist með morgni (fallegt, austfirskt orðatiltæki sem ég hef lært af Löggu minni: ,,Með morgni": Í fyrramálið).

p.s. þau hugrökku geta smellt á litlu myndina og skoðað saumaskapinn nánar ef þeir vilja, því þá fyllir hún út í skjáinn...

17 ummæli:

Ljúfa sagði...

Heitir þetta ekki kapmellusaumur eða eitthvað álíka?

Gott að sjá hvað allt gengur vel.

Ameríkugengið sagði...

Ég get svo svarið það, hann Björgvin er með kappmellaðan hausinn!! Þórir fékk nú bara sauminn varpaðann. Þið hljótið að hafa borgað extra fyrir þetta.
Hlakka til að vita hvort hann fái sömu spurningar og Þórir fékk frá taugasálfræðingnum.
Bestu kveðjur,
Guðrún Erla

Davíð Davídsson sagði...

Drekinn er greinilega floginn burtu,til hamingju!!

Þórir Þórisson sagði...

Sæll Björgvin

Ég er ekkert smá spenntur fyrir þína hönd, að fá að hitta taugasálfræðing á morgun. Ég fór nú bara strax að hlæja þegar ég las það. (vekur skemmtilegar minningar)
Eins og ég sagði áður, þá ætla ég ekki að skemma fyrir þér ánægjuna, með því að segja frá þeim snilldar spurningum sem þú kemur til með að fá!!
Ég krefst þess að fá að heyra sýnishorn af spurningunum í lok dags. Eins gott að þú náir að svara þessum "lykilspurningum" rétt.
Ef þú færð engar alvöru spurningar, þá neyðist ég sennilega til að taka þig sjálfur í stöðupróf (he,he)

Bíð spenntur eftir næsta bloggi frá prinsessunni í Edinborgarkastala.

kv.
Þórir

Auður Lilja sagði...

Elskurnar mínar!
Jerímías minn eini hvað þetta er saumað flott!
Sjaldað séð annað eins bróderí :o)
Hugur minn hjá ykkur eins og áður
og sendi milljón bataóskir héðan úr Kópavoginum.
Knúskveðja
Auður Lilja

gudmundur bogason sagði...

Sæll Björgvin og Villa

Örið er mjög fallegt og mikið höfuðprýði, það má spinna góðar sögur út frá því þegar fram í sækir.

Hvað varðar sérþekkingu Björgvins á glóðaaugum, þá er hún töluverð og óhætt að treysta fullyrðingum hans um bata þeirra. En eins og þú veist Villa þá eru sjálfsævisögur oft ekki góðar heimildir og myndi ég því leita mér annarra heimilda um í hvaða tilfellum manni áskotnast slíkt... þetta gæti verið ættgengur erfðagalli sem kemur fram á nokkra mánaða fresti á milli tvítugs og þrítugs... aldrei að taka mark á heimild sem er búin að fara í gegnum massívan heilaskurð... sérstaklega ef hann er eitthvað að tala um samferða menn sína...

Ég vill að lokum taka undir með Þóri, hér að ofan, og undirstrika nauðsyn þess að þá að heyra væntanlegar spurningar taugasálfræðingsins og svona upp og ofan af svörunum.

Gunni & Co sagði...

Þetta er sami sumur og samar notuðu til að sauma saman báta sína í gamla daga. Það er svona bátur á safninu hér í Tromsö. Bátarnir voru saumaðir til að hægt væri að pakka þeim saman á ferðalögum yfir land. Ansi flott handavinna sýnist mér. Bið að heilsa i bili.

Kristjana sagði...

Þetta er glæsilegur saumaskapur, fær 10+ í einkunn :)

Það er frábært að þetta gangi svona vel og gaman að sjá hvað Björgvin lítur vel út eftir svona stuttan tíma, við sendum góða strauma frá Leifsgötunni.

Bestu kveðjur, Kristjana & co.

Nafnlaus sagði...

Sæl bæði tvö Villa og Björgvin (þótt ég þekki Björgvin ekkert nema af þessum skrifum eiginkonunnar)
Hann er ótrúlegur krafturinn sem virðist vera í karli....og gleður það mig og mína sem fylgjast með úr fjarlægð. Það verða þá fleiri sem sigrast á helvítis krabbanum!
Mér er persónulega alveg sama hvaða klaufasaumur,fagur eða ófagur, grófur eða fínn er settur á skalla mannsins. Það er ekki útlitið sem skiptir öllu máli, heldur innihaldið. Og gaman verður að fá féttir af því hvort innihaldið er ekki óskaddað og batatækt. Miðað við ,,post-op inspection" þína Villa mín, eigum við von á góðum fréttum á morgun eða hinn. Bið fyrir ykkur.
Kveðja, Erna A

Kiddi bróðir/mágur sagði...

Hafi þeir skorið jafn vel og þeir eru í bróderingu þá má drekinn passa sig. Ég skoðaði sauminn í king-size sjónarhorni og minnir að þetta hafi á Húsmæðraskólanum Ósk, sem ég var í um árið, kallað rúllupylsusaumur :-)

Kær kveðja af Kirkjusandi,

Kiddi

Hulda og Tapio sagði...

Eg hef avallt kallað þennan saum slatursaum!!!!
En flottur ertu Björgvin og greinilega a myndum ma sja að einhvað er farið! Þu ert farinn að geisla meir.Við fylgjumst með ykkur og sendum ljos.
Slátursaumur eða kappmella, já! En fyrst hef ég lært að þekkja þennan saum með nafni (mállyska) "Poosmannin tikki" sem væri bátsmannssaumur! Notaður til að gera við ábreiður, segl og sekki.

McHillary sagði...

Hæ mín kæru.
Það er nú meira hvað Björgvin lítur orðið vel út eftir ekki lengri tíma. Hugsa mikið til ykkar.
Bestu kveðjur,

Magnea Sif sagði...

Elsku Björgvin og fjölskylda. Hugur minn er hjá ykkur og það er gott að heyra að þetta gekk vel. Bata kveðjur og þúsund kossar frá Magneu Sif

benni rabba sagði...

Við vorum að fá þær góðu fréttir að Björgvin væri kominn heim. Hugurinn er hjá ykkur. Bestu kveðjur Björg og Agnar

Nafnlaus sagði...

Ég sem hélt að harðangur væri magakveisa. Gott að heyra hvað allt gengur vel en munið bara að hvíla ykkur, bæði tvö. Já þú líka Villa. Allt tekur sinn tíma og það þýðir ekkert að fást um það.
Bestu kveðjur
Matta

Herdís Pála sagði...

Vil bara kvitta fyrir komu minni hingað og senda ykkur hlýjar kveðjur, Herdís Pála.

Morag Dickson sagði...

Prof Whittle was never one for his neat stiching but I'm certainly convinced about the rest of his craftmanship!! Good luck to you and your family, Villa. It's good to see you using Maggies Centre.