Líf í árvekni: desember 2005

laugardagur, 31. desember 2005

Í upphafi

Hefjast þá dagbókarskrifin, á fyrsta tíma síðasta dags ársins, og ekki seinna vænna. Hér verður deilt með þeim sem þola hinu og öðru sem vísast kemur fæstum við og mun vart nema að litlu leyti standa undir þeim væntingum sem hvatt er til með yfirskriftinni.*

Til sögu verða kynnt eftir því sem tilefni gefast til Hún ég, Minn heittelskaði, Táningsdóttirin, Strákurinn (einnig þekktur sem Míní Mí), Skottan (einnig þekkt sem Míní Hí), gamla frú Fersch á 3. hæð, mýslurnar okkar, Ýmsir Skotar og hverjir þeir aðrir sem á förnum vegi bloggarans verða og vekja upp þanka sem þurfa á blað/skjá.

Meðfram spjalli um alls kyns óþarfa verður þó leitast við að deila með lesendum tilraunum sögupersónanna til að finna út hvernig má sem best lifa til fulls, lifa sjálfrátt, ríkulega, með fullri eftirtekt, et cetera og eru allar athugasemdir um skrifin ákaflega vel þegnar frá hverjum þeim sem til þess finnur hjá sér hvöt að gefa af nægtum sínum inn um þar til gerðan glugga.


*p.s. Til mjólkurfernufasista og annarra velunnara íslenskrar tungu: Sá/sú sem getur komið með skothelda þýðingu á hugtakinu Mindful Living vinnur til veglegra verðlauna, þ.e. gisting í lúxusgestaherbergi í íbúð í hjarta Edinborgar í viku að eigin vali fyrir þrettánda 2006. Útsýni yfir Arthur's Seat, The Meadows, krokketvöll (húsið okkar á miðri mynd) og 18 holu æfingagolfvöll (að vísu hvítan af hrími). Kastali og verslunarhverfi í göngufjarlægð.