Líf í árvekni: Af reyninum

fimmtudagur, 18. september 2008

Af reyninum

Hér í Þingholtsskógi (sem Minn heittelskaði segir að sé sá stærsti á Íslandi, eða kannski næststærsti á eftir Hallormi) keppast reynitrén við að fella laufið og sáldra berjunum sínum um allar trissur með aðstoð haustlægðanna og kona fyllist djúpri andakt á daglegum spássertúrnum yfir á Laufásborg með Skottunni yfir litadýrð náttúrunnar.

Eitt af því sem ég lærði í Skóla skoskra og keltneskra fræða í Edinborg var að reynitréð er eitt helgasta tré sem um getur, að minnsta kosti meðal íbúa Bretlandseyja.

Bændur bundu til að mynda tvær reynigreinar í kross og festu yfir dyrum útihúsa og hlöðu til þess að vernda skepnurnar fyrir óhöppum, nornum og sérdeilis hinu illa auga öfundarinnar (sem af einhverjum ástæðum til eru sögur af alls staðar á byggðu bóli nema hér á Ísalandi, kannski átti enginn neitt sem hægt var að öfundast yfir?).

Tjallar bæði og keltneskættaðir hafa löngum tengt reynitréð helgri Brigíði sem er reyndar miklu eldri en kristnin þar í eyjunum, komin af samnefndri gyðju úr írskri forneskju og tók við hlutverki hennar sem patrónessa lækninga, lista, ullarvinnu og fæðandi kvenna (hún ku hafa verið ljósmóðirin hans Jesú austur í Betlehem, hvernig svo sem það getur nú staðist, hún búsett svona norðarlega í álfunni og ekki á dögum fyrr en á 5. öld...).
Drúídarnir eru líka sagðir hafa verið hrifnir af reyninum (en líka heslitrjám, sjá 1. kafla Korkusögu) og svo mun hann hafa dugað vel til þess að finna málm í jörðu, líklega mýrarrauða þá. Og enn í dag planta frændur okkar Skotar og Írar og Bretar reynitrjám í húsagarðana sína, vísast löngu búnir að gleyma af hverju en það voru svona tré í garðinum hjá ömmu þeirra og afa og líka ömmu þeirra og afa og svona áfram langt aftur í myrkur fortíðarinnar þar sem ekki þótti af veita að tryggja sér og sínum alla þá vernd sem hafandi var í viðsjárverðri veröld.

Það voru stór reynitré í garðinum hjá Mundu ömmu minni og Gunnari afa fyrir vestan og þegar ég hugsa um það þá er þessi hlýja sem ég finn í hjartanu þegar ég horfi á fagurrauð berin líkast til upprunnin þaðan.

Kannski ég taki mig til og tíni þessi fáu ber sem eftir eru hér á reynitrénu fyrir framan Hallveigarkastala, þau eru nefnilega ágæt í hlaup með grænum eplum og sykri, það verður dálítið rammt en er ljómandi gott með sjófugli eins og t.d. ,,skarfabróður" (dýrfirsk fuglategund sem pabbi minn veiðir stundum, óvart).

Ég ætlaði reyndar að skrifa djúphugsaðan pistil í kvöld um það hvað það er mikilvægt að kunna að setja yfirgangssömu fólki mörk svo það haldi ekki að það geti vaðið um allt á skítugum skónum sínum án þess að aðrir segi múkk eða finni til undan þeim; það er nefnilega svo gott fyrir sjálfsvirðinguna að segja: ,,Stopp, nú er nóg komið af vitleysu." En ég geri það bara næst. Kannski.

Síðasta myndin er sérstaklega tekin fyrir nöfnu Únglingsins í skóginum (þú veist hver þú ert, Matta) og pabba minn. Þau hafa nefnilega bæði verið að falast eftir því að sjá eitthvað af því sem ég hef verið að skrifa í klefanum mínum á bókasafni þjóðarinnar.

Það sem er þarna á skjánum skrifaði ég í dag ;o)

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ansi gengur mér illa að lesa þessa bók, er ég farin að sjá svona illa?
Reynirinn er mitt uppáhaldstré,eins og sjá má í mínum garði.Kærar kveðjur að vestan. Mamma

Matthildur sagði...

Ef við værum nú bara saman í súper-glæpa-sjónvarps-seríu þá gæti ég, með aðstoð tækninnar, súmmað á þetta og lesið orð fyrir orð. En lífið er bara líf og við forvitnu Dýrfirðingarnir verðum annað hvort að hætta að suða í þér, nú eða þá ekki. Það er aldrei að vita hvað gerist.

þva
Matta

Nafnlaus sagði...

Gleymdi að minnast á þessa fínu mynd af Sigrúnu, vild alveg eiga hana í ramma:'Astarkveðjur til hennar frá ömmu Kötu

Inga María sagði...

Engin leið að stela að hugmyndum...
Kveðja

Hulda í finnaskógum sagði...

Reynir " Sorbus aucuparia-rósaætt"

Til forna var reynir helgaður 'Asa- Þór og kallaður björg Þórs. 'I kristni var einnig mikil helgi á reyniviðnum og mátti hvorki höggva né skerða.

Áhrif: Barkandi, hægðalosandi, þvagdrífandi, örvar tíðir.

Notkun: Ferskur berjasafi ( saft) er notaður sem hægðalyf, sérstaklega fyrir börn.
Einnig er safinn notaður við særindi í slímhúð meltingavegar og við hálsbólgu og kvefi og jafnvel berklum.
Þurrkuð eða soðin berin hafa barkandi verkun og eru notuð við niðurgangi , einkum hjá börnum.
Með öðrum jurtum eru berin notuð gegn bjúg.

Í einni góðri bók sem ég hef átt lengi og hefur gagnast vel . Íslenskar Lækningarjurtir( Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir)

Svona til gamans!
Hulda í finnaskógum

tapio sagði...

Ok vil ek láta þess getið, að eigi er hann reynirinn óhelgur hér meðal Finna. Segir það í Kalevala, að "í helgum högum reynir gróír", pihlajat pyhillä mailla, og hefur hann verið tileinkaður þrumugoði Ukko og konu hans Rauni. Finnar hafa frekar litla hefð fyrir að tina og nota berin, en viðurinn úr reyni hefur verið notaður þar sem þarf sérlega seigan og harðan við að halda, td. í aktygi.