Skemmtilegasti markaðurinn er rétt hjá Römblunni (stór göngugata í miðbænum) - aldrei hef ég séð þvílíka gnótt matar, öllu saman raðað upp af aldeilis ótrúlegu listfengi, svo að hvert sem litið var mátti sjá veislu jafnt fyrir augað og magann.
Leist samt ekki á sviðin þeirra Börsunga sem sjá má hér til vinstri innan um svínaspik, vambir og annað góðgæti; þeir húðfletta þau og hvað er þá eiginlega eftir?!
Má til að stinga hér inn mynd líka sem ég tók sérstaklega fyrir Arnot MacDonald, skoska vinkonu mína, sem var Tupperware-drottning Edinborgar áður en hún venti kvæði sínu í kross og lærði til bókavörslu.
Í gamla daga, þegar engin almennileg húsmóðir gat verið án þess að eiga a.m.k. kynningarsettið af Tupperware (ég á eina dós úr því ennþá og rjómaafgangakönnu, frá því 1990 sem ég hef reyndar aldrei notað, könnuna sko) þá lá blátt bann við því að selja Tupperware nema í heimasölu.
Eitthvað hefur heimurinn víst breyst síðan fyrir sautján árum og markaðssetningin uppfærð ásamt með öllu öðru.
Sem leiðir mig óbeint að því að segja ykkur frá bókinni sem ég tók með mér til að lesa í fluginu og heitir Bréf til Maríu, eftir Einar Má Jónson.
Las megnið af henni reyndar í flugstöð Leifs Eiríkssonar, en þar gáfust óvænt 8 klukkutímar til lesturs á brottfarardaginn - vélin okkar sem átti að fara í loftið klukkan hálffimm síðdegis bilaði og önnur kom ekki í hennar stað fyrr en klukkan hálfeitt eftir miðnætti - og þótt flugstöðvar séu ekki beinlínis mínir uppáhaldsstaðir þá var ákaflega kærkomið að fá þarna hina fullkomnu ástæðu fyrir því að liggja í lestri tímunum saman.
(Ekki að kona þurfi til þess endilega afsökun að liggja í bókum; samt eitthvað rótgróið í mér að finnast bóklestur merki um letingjahátt - kannski einhver arfur úr bernskunni frá því að vinkona mín sakaði mig um að vera innipúka af því að mér fannst eiginlega alltaf meira gaman að vera inni og lesa en fara út í snjókast og svoleiðis.)
En sem sagt, bókin er hreinasta snilld; skemmtileg ádeila á óhræsis frjálshyggjutískuna sem ætlar allt lifandi að drepa svo að hverjum þeim sem kemur til hugar að hafa eitthvað á móti öllum ,,væðingunum" (einka-, einkavina-, alþjóða-, tölvu-, nútíma-, markaðsvæðingu etc.) er barasta hlægilegur og ekkert hægt við hann eða hana að tala. Markaðurinn hefur fyrsta og síðasta orðið og ekkert hnu með það; þarfir hans ganga fyrir öllu öðru og sá sem efast er álitinn í besta falli frekar barnalegur en oftar argasta afturhald, nöldrari og dragbítur á ,,framfarir".
Alveg galbannað að gagnrýna, rétt eins og sovét- mönnum fyrrum var bannað að gagnrýna stóra sann- leikann komm- únismans er okkur stranglega bannað að efast um heilagleika og réttmæti endalausrar frjálshyggju, hagvaxtarkapphlaups og samkeppnishugsunar á öllum sviðum. Ekkert vandamál er það stórt eða smátt að ekki sé hægt að leysa það með því að einkavæða, koma á samkeppni (les: fákeppni), setja á hlutabréfamarkað og svo endalaust framvegis.
Þeim sem eiga hugsanlega við einhvern vanda að etja sem ekki má leysa með einka-og hlutafélagavæðingu má síðan vísa á Sjáið-hvað-ég-er-mikið-góðmenni-sjóði grilljónunganna og fella endanlega niður þetta bjánalega almannatryggingakerfi sem enginn botnar nokkuð í hvort sem er.
Sérdeilis fannst mér skemmtileg umræða Einars Más um franskar heimspekipælingar sjötta og sjöunda áratugarins, sem hafa tiltölulega nýlega haldið innreið sína hingað til landsins bláa, aðallega í gegnum fólk sem hefur menntast í Bandaríkjunum en þar var þessi skondna strúktúr-súrrealíska þvæla Frakkanna tekin upp, slitin úr samhengi og soðinn síðan upp úr henni póstmódernisminn, sem til allrar hamingju virðist um það bil að komast úr tísku aftur.
Það krimti í mér þegar hann taldi upp spekingana einn af öðrum sem yðar einlæg þrælaði sér í gegnum með miklum harmkvælum í meistaranáminu fyrir ári síðan, sjá þessa færslu frá í desember 2006, og tætti þá í sig.
Auðvitað fannst mér þetta mest gaman af því að ég hafði skammast sjálf yfir þessari dellu bæði í ræðu og riti, mínum annars ágæta lærimeistara í þjóðfræðideildinni við HÍ til nokkurrar gremju. Verst að ég er búin að setja möppurnar þykku með greinabunkunum oní kjallara svo að ég get ekki í snarheitum flett upp á einhverjum gullkornunum sem þar hrutu af síðum; ekki nóg með að hugsunin væri hringsnúin heldur voru þetta þýðingar úr frönsku yfir á ensku. Drottinn minn dýri, þvílík steypa.
Þar sem ég er komin í bréfinu til Maríu, lokahlutann, fjallar e.m.j. (hann var einu sinni blm. á Þjóðviljanum líkt og -vd.) um tungumálið og umræðurnar allar um hvað sé þjóð (ein prófspurninganna í fyrrnefndum kúrsi), útskýrir listilega hvers vegna okkur er hollt að kunna eins vel og okkur er mögulegt fleiri mál en okkar eigið og ræðir um þann vanda að koma hugsun úr einu máli yfir á annað svo vel fari. Mín er náttlega heima þar líka, búin að liggja yfir þýðingu úr amrískri engilsaxnesku undangengna mánuði og rétt að fara að skila af sér.
Einar Már bendir m.a. á það sem ég fann á sjálfri mér í Skotlandinu góða, þrátt fyrir að hafa háskólagráðu í enskri tungu, að það kostar gríðarmikla menntun og ástundun að ná fullu valdi á öðru tungumáli en sínu eigin og öðlast dálitla færni í öllum þeim aragrúa af tilvísunum, orðatiltækjum og málsháttum sem hvert einasta mál býr yfir og skapa því sinn sérstaka heim. Ég get sagt hvað sem er á íslensku en bara það sem ég hef lært á ensku.
Og nú hef ég vísast sagt meira en nóg í dag, botna þetta með því hvetja þá sem eiga Bréf til Maríu ólesið að útvega sér eintak. Já, og svo vil ég þakka Matthildi Helgadóttur á Ísafirði kærlega fyrir óbeisluðu fegurðina sem af henni geislar og það tiltæki að efna til ádeilu á hömlulausa markaðsvæðingu kvenlíkamans, sem var til umfjöllunar í heimildamyndinni Óbeisluð fegurð í Sjónvarpinu í kvöld. Vel gert, Matta og félagar!
P.S. Minn heittelskaði átti ammali sama dag og Jónas og þar sem við vorum erlendis á sextándanum tekur hann við afmæliskveðjum út þessa viku ;o)
7 ummæli:
Björgvin! Innilega til hamingju með afmælið. Þú hefur væntanlega farið með spúsu þína á slóðir ykkar Óla Bjarna og Palla Malmbeg í námsferð IH forðum daga. Við hin vorum stundum hálf öfundsjúk, vorum að missa af einhverju spennandi...sem við vitum í raun ekki enn hvað var.
En það er auðvitað engin tilviljun að þið Jónas Hallgrímsson eigið sama afmælisdag, en tilviljun að þú skyldir velja að dvelja í Barcelóna, þegar við vorum farin að gæla við þá tilhugsun að fá ykkur hjónakornin í heimsókn til okkar í fjörðinn á degi íslenskrar tungu. Bestu kveðjur, Bryndís
takk fyrir spegilinn og nammið!
Til hamingju aftur kæri Böbbi. Og takk fyrir skemmtilegan pistil, mér fannst rétt eins og ég væri kominn á ný til höfuðborgar musterisriddaranna. Bréf til Maríu er "must", þarf að reyna að fá hana á bókasafninu - hættur að kaupa bækur, er ekki búinn að fatta markaðsvæðinguna nógu vel til að kunna að græða nóg til að hafa efni á svoleiðis lúxus!
Björgvin: til hamingju með afmælið! það er ekki sem verst að fara til Barþelona, borg Gaudis, kataloniu og alvöru stjórnleysingjanna!
Þessi alsherjar-væðing fer að líkjast æ meir og meir sovéska kommunismanum: hann hrundi þegar fólk fór að vera alveg sama, að því að það gat ekki lengur haft áhrif á sitt lif eða nánasta umhverfi. Sömuleiðis er ekki lengur spurt, hvað fólkið vill, heldur hvað markaðurinn (Flokkurinn?) vill. Villa: er ekki okkar markmið sem rithöfundar að skrifa bók og gagnrýna markaðsvæðingu og auðvaldið og helst slá í gegn með hana og græða alveg glás af peningum...
Hér er leiðrétting á meinlegri þýðingarvillu sem skrifast alfarið á Minn, sem er spænskumælandi fjölskyldunnar: El Corte Inglés þýðir alls ekki ,,Stutti Tjallinn" heldur ,,Engelska saumsporið" eða eitthvað í þá veruna. Sagði spænskukennari Míns á námskeiðinu sem hann sækir á miðvikudagskvöldum. Unnendur spænskrar tungu eru beðnir velvirðingar á mistökunum...
Annað mál: Áhugasömum um fagra sönglist er bent á að lesa sér til um væntanlega tónleika Háskólakórsins og Ungfóníunnar á heimasíðu Þeirrar uppkomnu: www.pantaleon.blogspot.com
Vel mælt að vanda hjá þér Villa. Sagan mun dæma frjálshyggjuna og markaðshyggjuna og mig grunar að það verði litið stórt niður á þessar kenningar í framtíðinni. Við mannfólkið höfum jú svo gott lag á því að vera vitur eftirá.
morag said
I wish I understood icelandic!!!!
lots of love
Skrifa ummæli