Líf í árvekni: Drömmsjúgh Pleis

föstudagur, 2. júní 2006

Drömmsjúgh Pleis

Jæja, það kom að því. Á mánudaginn hefjast iðnaðarmenn hér handa við að rífa niður loftið í eldhúsinu og lagfæra það sem úr lagi fór 31. mars síðastliðinn, svo að helgin fer í að flytja okkur og það hafurtask sem lífsnauðsynlegt telst í fjórar vikur á nýjan verustað.

Íbúðin sem á að planta okkur í rétt á meðan ósköpin ganga yfir er í West End í New Town, (nokkru nær miðbænum en við erum þegar), við litla götu sem ber afar skoskt heiti: Drumsheugh Place. Þetta er ákaflega "posh" staður og íbúðin í fínu standi, parketlögð og hvítmáluð, gríðarstór svefnherbergi með miklum speglaklæddum klæðaskápum - en því miður engu Interneti, síma, sjónvarpi eða uppþvottavél, og eldhúsið svo nett að þar gæti maður varla skipt um skoðun án þess að fara fram, hvað þá hengt upp þvottinn sinn. Við því er sosum lítið hægt að gera - minn heittelskaði getur nú kannski bjargað okkur (les: Katrínu) um sjónvarpstengingu - en næstu vikurnar verðum við bara að skreppa í heimsókn hingað í Leven til að líta eftir pósti og hafa samband við umheiminn.

Kostirnir eru náttlega ýmsir: Internetið mun ekki stela frá manni tíma sem á að fara í vinnu, lærdóm og lestur heimilda; uppvask er ein besta aðferðin til að hugleiða í verki og fá góðar hugmyndir að nýjum bókum; við fáum að skoða nýtt og skemmtilegt hverfi; það er örstutt yfir í Princes Street og garðinn þar (svona 5 mín. labb) og síðan en ekki síst: það verður óskaplega gaman að koma heim aftur í lok mánaðar...

Ef eitthvert ykkar finnur hjá sér sterka þörf til að tala við yðar einlæga í eigin persónu er um að gera að líta í síðasta tölvupóst og sjá, undir nafninu er gemsanúmer sem notast má við ef neyðin kallar. Svo má líka skrifa inn komment til að gleðja mitt litla hjarta, þegar ég lít í póstinn t.d. um helgar.

p.s.
Fann enga mynd úr götunni á netinu en sú að ofan er úr tyrkneskum böðum sem þarna ku hafa verið starfrækt á fyrri öldum.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jæja. Gangi ykkur vel þar í landsflottanum. Þar sem tyrknesk böð eru annars vegar: sánur og baðstofur voru vist stundaðar viða um Evrópu, og oft var svona fjölþjónusta í þeim. þeas. sána, vændishús og krá. Svo, þegar sárasótt barst til Evrópu, menn lögðu sánurnar niður, að því að margir urðu smitaðir í sánuferðinni og þannig það hlaut að vera hrikalega óhóllt að baða sig...

Ljúfa sagði...

Uss, það hefur ekkert smá gengið á! Gott að sú gamla lifði þetta af.

Nafnlaus sagði...

Gangi ykkur vel með flutninginn! Það er aldeilis blíðan hjá ykkur!Vonandi hafið þið svalir eða verönd til að njóta blíðunnar! Talandi um leiksýningar, þá fórum við í Kvenfélaginu í hópferð til Hnífsdals og sáum Alveg brilljant skilnað með Eddu Björgvins.Frábær sýning!Ástarkveðjur til allra, mamma

Nafnlaus sagði...

Jæja þá er Matti mættur ,hefur veið önnum kafinn við stíflugerð og skurðgröft síðan í gær! Fór í sund með afa í morgun og er hinn ánægðasti sýnist mér,bestu kveðjur mamma

Nafnlaus sagði...

hæ mamma bún að vera í stýflugerð og land lags mótun. ps elska þig.

Nafnlaus sagði...

Hér gengur allt vel ,Matti búinn að kynnast Kristjáni frænda sínum og unir sér vel! bestu kveðjur, mamma