Líf í árvekni: Geðstirðir gamlingjar

fimmtudagur, 1. júní 2006

Geðstirðir gamlingjar

Minn heitt- elskaði hefur nú fengið nasaþefinn af því sem hann á í vændum þegar fram líða stundir, en fyrir skömmu fórum við á einkar fróðlega sýningu um miðaldurskeið kvenna og það sem siglir í kjölfar þess. Sýningin bar yfirskriftina Grumpy Old Women Live og er raunar sviðsgerð af gríðarvinsælum sjónvarpsþáttum og bók sem yðar einlæg krækti sér í fyrir nokkru og grét af hlátri yfir.

Heima á klaka í fyrra hafði minn elskulegi fundið okkur í Amazon skóginum líka bókina um grútfúla kalla, Grumpy Old Men, hvar maður áttaði sig fljótt á því að hver sem er getur veirð geðstirður gamlingi; það er hugarástand sem hefur ekkert að gera með aldur, kyn, hormónasveiflur, flöskubotna-fjarsýni eða ofnæmi fyrir æskudýrkun og elliandúð nútímans.

Þrenningin hér að ofan (þessi kunnuglega lengst til hægri lék Tracey Stubbs í Birds of a Feather um árið og talar dýrlega cockney ensku) útlistaði fyrir okkur sumt það helsta sem fer í taugarnar á þeim við feikigóðar undirtektir áhorfenda, sem n.b. voru 95% af kvenkyni á umræddu miðaldurskeiði eða eldri.

Það kom þó ekki í veg fyrir að við unglömbin tækjum undir "tutting" þeirra og tungusmelli, þegar gribburnar grútfúlu báðu um álit áhorfenda á ýmsu því sem miður fer í nútímanum, svo sem eins og naflasýningum ungmenna og lokkagötum á ótrúlegustu stöðum á líkamanum (hvað gera þau þegar þau fá slæmt nefkvef?!), frostið í stórmarkaðinum og slappt grænmeti í Asda (og hvað varð um þjónustulund starfsfólksins - "GET ME THE MANAGER!), tungukelerí unglinga á almannafæri (hvað myndu þau segja ef við rækjum tungur oní kok hvert á öðru á stoppistöðinni..!!), gargandi teknó-músík í öllum tuskubúðum (sem þykjast selja fatnað á fullorðnar konur en allar tuskurnar eru sniðnar á barbí eða 10 ára börn!) og þá furðulegu þróun að krakkakjúklingar fá nú stöður presta, lækna og lögreglufólks.

Umkvartanirnar voru endalausar, bara ein sem við kveiktum ekki á en það var mikill meirihluta vilji fyrir því að Top of the Pops verði flutt á fimmtudagskvöldin aftur... Ætli það eigi eitthvað skylt við þá íslensku nostalgíu að þykja fimmtudagskvöld best til bíóferða?

Engin ummæli: