Líf í árvekni: Náttúrufegurð í miðborginni

þriðjudagur, 6. júní 2006

Náttúrufegurð í miðborginni

Það eru að vísu engin tyrkneskt böð við Drömmsjúgh Pleis lengur en hér á númer tíu er þó eitt stykki djakúsí bað, með loftbólunuddi og alles.

Í kvöld uppgötvuðum ég og minn heittelskaði stórkostlega gönguleið meðfram ánni Water of Leith, og þótti yðar einlægri sem hún væri stigin inn í annan tíma löngu liðinn; lágvær þyturinn í trjám og hvers kyns gróðri á báðar hendur og fjarlægur niður borgarinnar sameinuðust í óm sem minnti á tíðasöng munka frá liðnum öldum. Fuglarnir sungu með, grunn áin spilaði undir. Íkorni skaust grein af grein og slútti gróðurinn sums staðar saman yfir okkur svo að laufkrónurnar mynduðu þak í ótal grænum litbrigðum.

Inn á milli krónanna sá í háreistar turnspírur á nálægri kirkju og á einum stað gengum við undir háa og bogalaga steinbrú sem ég kann ekki að nefna, en það rifjaðist upp fyrir okkur að þegar við heimsóttum borgina fyrst haustið 2004 gengum við yfir hana daglega af gistihúsinu okkar niður á West End – sem er heiti hverfisins þar sem við búum nú um stundir – og Princes Street, og mynduðum þá gróðurhafið sem af henni blasti við sjónum í öllum litbrigðum haustsins.

Spottinn fagri er fjórðungur úr mílu og endar við mikinn stall undir þaki í rómverskum stíl þar sem einhvur kona úr steini á sér skjól, þó varla gyðja því sjálfur stallurinn hýsir brunn heilags Bernharðs, sem áreiðanlega var bæði kristinn og kaþólskur. Á stórum veggplatta greinir frá því máðum stöfum að Vilhjálmur Nelson hafi árið 1881 kostað og reist þessa miklu umgjörð um brunn dýrlingsins og fært borgarbúum að gjöf, svo að þeir mættu njóta um ókomna tíð. Hafðu okkar þökk, Vilhjálmur, hér fundum við ekki aðeins rómantískustu gönguleið hérna megin Atlantsála heldur einnig fyrirtaks hlaupabraut næstu vikurnar á meðan Meadows-garðarnir eru utan göngufæris.

Ég ákvað við upphaf þessarar dagbókar að sneiða hjá veðurfréttum af fremsta megni en get þó ekki látið hjá líða að láta þess getið að veðrið í dag í Eiðinaborg var guðdómlegt; glampandi sólskin og blíða og mæðgurnar spókuðu sig því allar þrjár í bænum í dag á stuttpilsum – fundum líka þetta fína róló í vesturenda garðsins við Prinsastræti, Skottunni til mikillar gleði.

Engin ummæli: