Líf í árvekni: „Þar með verður til ný saga“

laugardagur, 9. nóvember 2013

„Þar með verður til ný saga“Þegar ég var á tólfta eða þrettánda ári hafði ég þann starfa í tilbót við barnapössun að ganga í  hverri viku hús úr húsi á Þingeyri og bera Vikuna út til áskrifenda og selja í lausasölu. Ég var fljót að setja mig inn í hverjar meðal mögulegra viðskiptavinkvenna voru flínkar með prjónana og hverjar voru sterkari í bakstri eða garðyrkju, las sjálf blaðið spjaldanna á milli áður en ég lagði af stað með þunga axlartöskuna og upplýsti hverja þá sem virtist þurfa að hugsa málið áður en kaupin voru gerð um hvað væri spennandi að hafa þar þessa vikuna: prjónauppskrift eða hnallþórur, ráðleggingar Póstsins við unglingabólum, já eða hvað væri nýjast að frétta úr höllinni hjá Prins Valiant og Aletu drottningu. Það voru yfirleitt ekki mörg blöð afgangs sem þurfti að skila kápulausum suður aftur og áskrifendum fjölgaði til muna eftir Þingeyrinni endilangri, kaupendur allt frá Rannveigu frænku á Byggðarenda yst í þorpinu og til Gunnu Huld sem bjó innst og átti það til að vera svo hranaleg í viðmóti að við krakkarnir, bæði Brekkugötu og Oddapúkar, vorum dálítið hrædd við hana. En ég fékk prósentur fyrir hvert selt blað og lét mig hafa það að labba alla leið inn eftir hvernig sem viðraði og banka hjá þessari illskeyttu bónusdrottningu frystihússins og bjóða Vikuna. Gunna Huld hafði líka held ég bara gaman af því að sjá hvort hún gæti skotið þessari kotrosknu stelpu með þykku gleraugun skelk í bringu og keypti blaðið ábyggilega í og með til að verðlauna mig fyrir hugrekkið. 

Og tilefni þess að ég deili nú þessari minningu frá áttunda áratug síðustu aldar með ykkur? Já, það er nefnilega það að á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, þann 24. október, sl. var yðar einlæg forsíðustúlka Vikunnar. Nokkuð sem ég hefði nú seint látið mér koma til hugar þar sem ég skottaðist ánægð heim eftir Aðalstrætinu með blaðatöskuna tóma og pyngjuna fulla af þungum fimmtíuköllum (lausasöluverð Vikunnar árið 1977: 350 kr.). 

Og úr því að ég á textann til og veit að nú er ég komin úr hillunni í Bónus og ný forsíðustúlka mætt í minn stað þá ákvað ég að birta hann hér. Ef ske kynni að einhver gæti mögulega haft af því gagn sem hefur líka kynnst sorginni og finnst gott að máta sig í annarra spor. 


Í dag, laugardaginn 9. nóvember, eru níu mánuðir frá því að Minn heittelskaði dó. Níu mánuðir liðnir frá 9. febrúar 2013. Meðgöngutími barns. Lífið er stundum seigfljótandi og ég finn að takturinn í mér og veröldinni fer ekki alveg saman. Ég lifi með hægð, djúpt hugsi og oft annars hugar, en reyni samt að koma því öllu í verk sem þarf að koma í verk og sinna þeim sem treysta á mig: háaldraðri tengdamóður sem er enn einn ganginn komin á Landsann, Únga manninum mínum sem er stundum dálítið týndur í skóginum, litlu Skottunni og foreldrum mínum sem ég reyni eftir megni að styðja í því sama stóra verkefni sem þau standa nú frammi fyrir og við Minn gerðum fyrir réttu ári. Allt er þetta eðlilegur gangur lífsins, eins og pabbi segir, og gott að styðja sig við það. En það er kannski ekki mikil einbeiting afgangs til að skapa ódauðleg skáldverk þessi misserin. 

,,Ertu með bók fyrir jólin?“ 


Ég segi þetta hér vegna þess að sum hafa spurt mig að því á förnum vegi að undanförnu hvort ég sé með bók fyrir jólin. Þetta er svona eins og ósjálfráð spurning hjá mörgum þegar þau mæta rithöfundi á þessum árstíma og ég geri mitt besta til að minna sjálfa mig á að fá átta sig á því hvað það er mikil vinna og krefjandi að skrifa skáldsögu því flest kaupa vitanlega árvissa krimmana eftir konunginn og drottninguna og búast kannski við því að við hin séum öll svona rojallí afkastamikil. Og geng út frá því að önnur en mín nánustu muni jafnvel ekkert eftir því að ég var einmitt með bók fyrir síðustu jól; tíminn er líka svo skrítið fyrirbæri. Og líka að spurningin sé kannski fyrst og fremst borin upp til þess að láta í ljósi ósk um að þau fái nú bráðum eitthvað frá mér að lesa,í henni felist eiginlega hól. Þess vegna svara ég því til að ég hafi aldrei verið minna en tvö til þrjú ár með hverja af þessum sjö bókum sem ég hef skrifað, þetta taki allt sinn tíma. Og fólk skilur það, kinkar kolli. 

En þrátt fyrir þennan minn mikla skilning á því sem að baki liggur laumar sér í hugskotið sú óþægilega hugsun að fólkinu sem spyr mig eftir bókaútgáfu finnist ég ekki nógu dugleg úr því að ég sé ekki tekin til við að skrifa af fullum krafti aftur. Það haldi kannski að besta lækningin við sorginni sé að drekkja sér í vinnu, ýta söknuðinum og tómleikanum frá sér með valdi. En þið öll sem hafið misst ástvin vitið að þannig er það alls ekki. Vissulega heldur lífið áfram, eins og Minn heittelskaði sagði við mig fáum vikum áður en hann dó. En sorgin verður að hafa sinn gang í því lífi og við henni er engin lækning og hún þarf heldur enga lækningu. Sorgin opnar hjartað og dýpkar skilninginn á því hvað felst í því að vera manneskja. Allt hefur sinn tíma undir himninum. Líka það að harma og að gráta.

Blíðar kveðjur,
Vilborg


PS Ég gleymdi næstum að geta þess að reyndar er ég með bók í Bókatíðindunum þetta árið: þýðingu sem ég lauk fjórum mánuðum eftir að ég skrifaði undir samninginn við bókaforlagið Sölku 7. okt. 2008 - en kom ekki út fyrr en á þessu ári. Titillinn: Að finna hamingjuna. Þetta er sem sagt það sem ég dútlaði mér við á meðan við Minn biðum þess að  komast að því hvort varasjóðurinn okkar sem var í frosti í Sjóði 9 hjá Glitni hefði gufað upp eður ei. Það var afar hollt og gott í því fári öllu ...


  
Texti: Steingerður Steinarsdóttir
Myndir: Heiða Helgadóttir

Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur sefar sorgina með orðum:

„Þar með verður til ný saga“

„Mennirnir elska, missa, gráta og sakna.“ Þetta raula íslenskar konur yfir vöggum barna sinna en vísuorðunum fylgja óskir um að einmitt þau sleppi og þurfi aldrei neins að sakna. Enginn fær þó undan þessum fylginautum mannkynsins vikist og það veit Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur en í átta mánuði hefur hún syrgt og saknað mannsins síns, Björgvins Ingimarssonar.

Vegna þess að Vilborg hefur alla ævi notað orð, elskað þau og smíðað úr þeim notar hún þau óspart sér til huggunar og til að ná tökum á þessu nýja lífi sem hún óskaði alls ekki eftir. „Mér finnst ég vera að læra gríðarlega mikið á þessu sorgarferli,“ segir Vilborg. „Sorgin kemur í bylgjum. Stundum koma tímabil þegar mjög sterkar tilfinningar grípa mig og ég er mjög meyr. Svo líða einhverjir dagar og mér er farið að líða talsvert betur og ég rifja upp góðar minningar. Kannski er ég orðin duglegri núna við að minnast alls þess góða sem ég fékk en fyrst eftir lát mannsins míns hafði ég nánast líkamlega þörf fyrir að fara aftur og aftur í gegnum síðustu dagana. Allt sem gerðist í banalegunni og andlátið sjálft leitaði á mig og ég hafði þörf fyrir að fara í gegnum það sem gerðist og segja söguna af því, bæði sjálfri mér og mínum nánustu.

Ég held að það sé sameiginlegt með öllum syrgjendum að til verður sagan okkar í kringum missinn. Það sem gerðist, hvernig það gerðist og hvar var ég? Ég á þrjú börn og þegar ég hugsa til baka er þetta að einhverju leyti líkt og þegar kona fæðir barn. Við þurfum að fara í gegnum aðdragandann og við þurfum að endurupplifa atburðarásina með því að segja öðrum söguna okkar þangað til við erum búnar að samlaga hana öllu okkar lífi. “

Horfst í augu við endanleikann

Í raun virðist enginn samt fyllilega undir það búinn að missa ástvin þegar stundin kemur. Sorgarferlið virðist öllum jafnerfitt.

„Við eigum öll sameiginlegan óttann við að hverfa og þegar einhver deyr nálægt okkur verðum við að horfast í augu við endanleikann,“ segir Vilborg. „Þótt við segjumst vita að lífið endar þá skiljum við það ekki til fulls fyrr en við stöndum á þessum stað, við kistuna. Hjá mörgum vaknar reiði þegar fólk deyr í blóma lífsins, langt á undan eigin börnum og það er skiljanlegt. En ég hef ekki fundið þá tilfinningu, kannski af því að við Björgvin litum þannig á frá upphafi, þegar hann greindist með heilakrabbamein fyrir sjö árum, að sjúkdómurinn hefði ekkert með sanngirni að gera. Það er enginn sem útdeilir áföllum í lífinu eftir einhverjum sanngirnisreglum, svona er þetta bara. Við eigum erfitt með að tala um dauðann vegna þess að hann vekur með okkur skelfingu, við getum ekki ímyndað okkur hvernig það er að vera ekki til lengur. Þau viðbrögð sem ég fékk við því sem ég skrifaði um veikindi míns manns, sneru meðal annars að því að fólk var undrandi á að ég talaði um banaleguna og yfirvofandi andlát hans eins og það væri hluti af lífinu. Sem það er.

Þau sem hafa misst ástvin skilja þetta og eru þakklát fyrir að komið sé orðum að því sem þau upplifa. Okkur vantar orð til að tala um þennan þátt lífsins, dauðann og sorgina. Syrgjendur skynja það sterkt að fólk veit ekkert hvað það á að segja. Við höfum þessa stöðluðu setningu: „Ég samhryggist.“ En eftir það eru flestir stúmm og vita ekki hvaða orð þeir geta notað og mega nota. Óttinn við tilfinningar er líka ráðandi. Við óttumst að sá sem syrgir bresti í grát og hvað gerum við þá? Við viljum ekki verða þess valdandi að fólk fari úr jafnvægi, erum hrædd við að missa stjórnina.

Ég hef fengið mörg góð bréf þar sem fólk deilir með mér sinni reynslu og þar er meðal annars talað um að aðrir þori varla að tala um þann látna vegna þess að þeir óttast að kalla fram tilfinningaleg viðbrögð. Það kom mér hins vegar á óvart í minni sorg að ekkert gleður mig jafnmikið og þegar fólk rifjar upp minningar um manninn minn. Segir: ,,Manstu hvað hann sagði, hvað hann gerði?“ Það vekur alltaf bros og hjartahlýju.  Ég og börnin tölum saman um hann og við móðir hans, sem er á níræðisaldri, rifjum upp sögurnar af honum.

Þegar ég er innan um aðra tala ég oft um Björgvin. Það getur vel verið að sumum bregði við þegar ég fer að vitna í hann og ræða viðbrögð hans við ýmsum hlutum. En það gefur mér styrk og hjálpar mér. Þannig held ég honum áfram sem hluta af lífi mínu. Á mörgum legsteinum eru þessar stöðluðu setningar: „Minningin lifir“ og „Minningin er ljós í lífi okkar“.  Og það er einmitt það sem aðstandandinn þráir svo heitt. Að minningunni sé haldið lifandi.“

Huggun í hetjukvæðum

Á þennan hátt getur fólk teygt sig út yfir gröf og dauða, skynjað hug þess sem eitt sinn andaði og gekk á þessari jörð yfir móðu tímans. Vilborg er ein þeirra sem hafa gert okkur þetta kleift í gegnum bækur sínar þar sem hún skrifar um konur á söguöld og skapar heim persóna sem lifðu á fyrri tímum.

„Það er þessi kúnst að geta opnað glugga að horfnum tíma,“ segir Vilborg. „Það er markmiðið mitt. Þegar maður finnur samkennd með öðrum og skilur að manneskjan er alltaf eins á öllum tímum. Alveg frá því að ég var um tvítugt hef ég verið heilluð af eddukvæðunum. Þar tala forfeðurnir og formæðurnar til okkar í gegnum aldirnar. Ég kenni á móti öðrum námskeið í Háskóla Íslands um munnlega hefð, fornsögurnar og kvæðin og það er magnað að fá að opna þennan heim fyrir öðrum.

Hetjukvæðin eru ein best geymdu leyndarmál sagnaarfsins. Völuspá og Hávamál þekkjum við flest en ekki hetjukvæðin þar sem sagt er frá Sigurði Fáfnisbana, Guðrúnu Gjúkadóttur, Brynhildi Buðladóttur og Sigurdrífu valkyrju. Þessar stórkostlegu sögur af því þegar Sigurður drepur drekann Fáfni þar sem hann liggur á gullinu en er síðan svikinn og drepinn af mágum sínum. Ein kviðan lýsir því þegar ekkja hans, Guðrún, situr við dánarbeð hans og það er blæja yfir andlitinu. Enn í dag er lögð blæja, lítill blúnduvasaklútur, yfir andlit látinnar manneskju við kistulagningu. Guðrún er frosin af sorg og getur ekki grátið. Konurnar í kringum hana, móðir, systur og mágkonur, fara að segja henni frá sínum hörmum, hvernig þær hafa misst syni, eiginmenn, bræður.

Og er það ekki það sem við gerum, konur? Við rekjum raunir okkar hver fyrir annarri og segjum: „Ég skil hvernig þér líður. Þetta kom fyrir mig.“ Kona missir fóstur og vinkonurnar koma og segja frá sinni reynslu. Í þessu forna kvæði gera konurnar einmitt þetta og segja frá hvernig karlmennirnir hafa borist á banaspjótum og þær sitja eftir einar. En það er ekki fyrr en ein þeirra tekur líkblæjuna frá andliti Sigurðar að Guðrún brestur í grát og byrjar að bölva bræðrum sínum sem drápu hann.“

„Þá grét Guðrún Gjúka dóttir“

Vilborg teygir sig í Eddukvæðin sem liggja á borðinu og það er nokkuð augljóst að þessi bók hefur verið marglesin.

„Eddukvæðin hafa verið mín uppáhaldsljóð frá því  ég skrifaði mína fyrstu bók, Korku sögu, fyrir tuttugu árum.  Ég stakk inn í hana erindum úr þeim, skynjaði strax að þessi kvæði voru þáttur af lífinu,“ heldur hún áfram. „Ég hef hins vegar aldrei skilið harmkvæðin jafndjúpt og ég geri í dag. Þegar Guðrún lítur andlit mannsins síns látins: „Þá grét Guðrún Gjúka dóttir, svo að tár flugu, tresk í gögnum og gullu við gæs í túni.“ Ég gleymi því aldrei að þennan febrúarmorgun þegar ég sat hjá Björgvin dánum þá heyrði ég í gæsunum fyrir utan glugga sjúkrastofunnar, gargandi við voginn.

Mér finnst koma svo vel í gegnum þetta viska kvenna í gegnum aldirnar. Við vitum að tárin líkna. Við þurfum að gráta, við megum ekki halda aftur af tárunum. Kviðurnar eru margar einstakar út frá kvennasögulegu sjónarmiði. Þær eru ritaðar á skinn á 13. öld en eru mun eldri því þar er að finna heiðin stef sem koma úr munnlegri hefð frá því löngu fyrir kristni.

Þegar hún lýsir manninum sínum sem er dáinn gerir hún það svo fallega: „Svo var minn Sigurður hjá sonum Gjúka sem væri geirlaukur úr grasi vaxinn.“ Geirlaukur er hvítlaukur sem vex auðvitað mun hærra en grasið og síðan kemur: „eða væri bjartur steinn á band dreginn, jarknasteinn yfir öðlingum.“ Jarknasteinn er gimsteinn, hann er því eðalsteinn konunganna. Þetta er einstök ástarjátning. Að elska er kjarkurinn til að vera berskjaldaður og taka því að sá tími kemur að ástin mín deyr. Allir ástvinir hverfa, hvort sem það eru foreldrarnir, makinn, börnin. Og við verðum að þora að stíga út í óvissuna og elska samt sem áður. Sá sannleikur opnaðist fyrir mér upp á nýtt við að lesa þessi gömlu kvæði. Þau bera í sér mikla visku. Samkenndin með öðrum hjálpar vegna þess að í sorginni upplifum okkur algjörlega alein.

Öll tengsl sem myndast milli þín og annarrar manneskju spegla þig og það er ákveðinn heimur sem þið búið til saman. Hverfi hún ert þú sú eina sem geymir minninguna og eftir stendur mikið tóm. Risastór eyða í miðju lífinu. Þú ert orðin ein eftir til að segja söguna ykkar, geyma minningarnar um það sem þið bjugguð til saman. Þar með verður til ný saga. Mig dreymdi einkennilegan draum í sumar, hálfu ári eftir að Björgvin dó. Mér fannst ég vera barnshafandi og ég var algjörlega meðvituð um það í draumnum að hann væri dáinn. Samt var ég komin sex mánuði á leið. Ég hugsaði: Hvernig fórum við að þessu? Í draumnum hóf ég að telja á fingrum mér tímann og reyna að reikna út hvernig þetta mætti vera en að lokum hugsaði ég með mér: Jæja, það skiptir ekki máli. Þetta er barnið hans, barnið okkar beggja og ég ætla að vernda það.

Ég vaknaði svo með þá hugsun og gleði innra með mér yfir að við hefðum skapað eitthvað nýtt og mér finnst eftir á að hyggja það á vissan hátt vera það sem gerðist. Það varð til ný ég. Nú er ég önnur kona en ég var áður og það er orðið til dýrmætt, nýtt líf sem ég verð að vernda. Ég þarf að kynnast sjálfri mér upp á nýtt. Hvernig tekst ég á við áfallið? Hver er ég núna? Að einhverju leyti er maður áhorfandi sjálfs síns. Þetta nýja líf mitt er sköpun okkar beggja.“

Á helgum stað

Björgvin dó í blóma lífsins og flestum finnst okkur óskaplega óréttlátt þegar það gerist og kannski erfiðara að búa við þannig sorg en þegar gömul manneskja deyr.

„Það er viðsnúningur á gangi lífsins þegar börn deyja á undan foreldrum sínum, þegar einhver deyr án þess að fá að sjá börnin sín vaxa úr grasi,“ segir Vilborg. „Óréttlæti hefur samt ekkert með málið að gera. Lífið er hvorki réttlátt né óréttlátt. Ég man vel eftir orðum hjúkrunarfræðings frá Heimahlynningunni sem kom hingað heim þegar Björgvin lá fyrir dauðanum. Við vorum að tala um þann mun sem er á sorg þegar gömul manneskja deyr og þegar ung manneskja fer fyrir aldur fram. Þá sagði hún: „Vissulega er það öðruvísi en það er samt ekki rétt að bera þetta saman. Missirinn er samur, hvort sem þú hefur elskað manneskjuna stutt eða lengi.“ Þegar við missum foreldri sem við höfum elskað alla ævi höfum við á móti þakklætið fyrir að þau áttu langa og vonandi góða ævi en söknuðurinn er samur.

Mín fyrstu kynni af því að missa voru þegar móðurafi minn dó, þá áttatíu og níu ára gamall. Þá var ég tuttugu og tveggja. Ég grét eins og hjartað í mér ætlaði að springa. Ég var miður mín þótt ég vissi að hann var orðinn háaldraður og enginn væri eilífur. Ég held að á þeim aldri hafi ég alls ekki gert mér grein fyrir að lífið endaði. Amma mín dó síðan fjórum árum seinna og þá var áfallið aðeins minna, kannski af því að ég vissi að hún þráði að fylgja honum. Dauðinn er svo fjarlægur ungu fólki þannig að hugsanlega eru fyrstu kynnin af honum sárust. Læknir á Líknardeildinni sagði að einna erfiðast væri fyrir ungt fólk, sérstaklega pilta, að takast á við dauðsfall. Dauðinn er aldrei sýnilegur í samfélaginu sem hluti af því sem lífið færir okkur. Stelpurnar hafa meiri þjálfun en strákar í tala um tilfinningar sínar. Rétt eins og kemur fram í gömlu kvæðunum. Karlarnir byrgja tilfinningarnar frekar inni og þá verða hlutirnir enn þyngri, þegar þeim er ekki komið í orð.

Pabbi minn, sem er áttatíu og þriggja ára, greindist með krabbamein í sömu vikunni og Björgvin dó, bæði í blöðru og lungum. Lungnakrabbinn hefur sáð sér í eitla og bein og læknar sagt okkur að ekki sé hægt að aðhafast neitt til að hægja á örum gangi sjúkdómsins. Það er öðruvísi að fylgja foreldri í síðasta áfanga lífsins en maka en á einhvern hátt held ég að það hjálpi mér núna að eiga reynsluna með Björgvin að baki. Um leið er ég að læra mjög mikið af  mömmu og pabba. Æðruleysi þeirra er ótrúlegt. Þetta er bara eðlilegur gangur lífsins, segir pabbi og þau eru þakklát fyrir þann tíma sem hann hefur fengið og hversu gott líf hann hefur átt, verið stálhraustur alla tíð og alltaf haft nóg fyrir stafni. Það hjálpar okkur hinum hversu opinskátt hann talar um að hann fari bráðum að kveðja. Það er enginn feluleikur í gangi eða flótti. Það er mjög magnað. Við höfum átt góð samtöl og ég deilt með honum minni reynslu. Ég hef velt því fyrir mér hvað taki við í guðsríkinu en hann er á því að það verði og eigi að vera hulið þar til umskiptin verða, eins og hann orðar það svo vel. Og ég er raunar alveg sammála því.

Það kom mér á óvart við andlát Björgvins hvað þetta var falleg stund. Hún tók frá mér óttann við sjálfan dauðann. Að fylgja einstaklingi síðustu sporin alveg að hliðinu eru forréttindi. Fólkið frá Heimahlynningu og á Líknardeild undirbjó mig eins og því var fært og sagði mér hvernig andlátið myndi bera að höndum, að hann myndi smám saman falla í dýpra og dýpra dá. Ég hélt mér fast í það að einn hjúkrunarfræðingurinn sagðist aldrei hafa orðið vitni að öðru en friðsælu andláti. Það hjálpaði mikið. Ég skrifaði bloggpistil á Líknardeildinni sem heitir Á helgum stað. Mér finnst það eiga vel við þar og það finnst vart helgari staður nema ef vera kynni fæðingarstofan. Við teljum orðið ,,ljósmóðir“ vera eitt fallegasta orð íslenskrar tungu vegna þess hvað sú manneskja gegnir mikilvægu starfi. Í raun er sá sem hlúir að deyjandi fólki í jafnhelgu starfi því hann eða hún leiðir þann sem er að fara að hliðinu þar sem ljósið tekur við.“

Brúin inn í svefninn

Það er augljóst að orðin eru það sem veitir þér mesta líkn. Kannski ekki undarlegt þar sem þú ert rithöfundur og hefur skrifað alla ævi. Er eitthvað annað sem hjálpar?
„Tónlist er líka mjög heilandi,“ segir Vilborg. „Margir fá mikla huggun í gegnum tónlist og söng. Ég fann mjög sterkt þegar ég var að undirbúa útförina hversu áríðandi það var að velja réttu sálmana, réttu lögin, að það væri eitthvað sem segði þeim syrgjendum sem þar voru með mér eitthvað um Björgvin, hvernig manneskja hann var. Það hjálpar líka að hafa verk að vinna. Að skipuleggja útförina gefur þeim sem eftir standa hlutverk og hefðirnar ramma inn lífið. Við styðjum okkur við hefðirnar í öllum stóru áföngum lífsins. Skírnin þegar haldið er upp á fæðingu barns, fermingin þar sem barn stígur fyrstu skrefin í átt til fullorðinsára, giftingin þegar þú binst annarri manneskju og að lokum útförin. Við höfum alls konar ritúöl að halda okkur í og þeim er viðhaldið vegna þess að þau hjálpa.

Ég hef stundum heyrt það sagt og veit að það er rétt vegna þess að ég er líka tvífráskilin kona að þau sem skilja vildu gjarnan að einhver athöfn væri til að merkja þann atburð, og segja: Hér lýkur þessari sögu og ný byrjar. Það er aftur augljóst þegar einhver deyr. Sorgin sem verður við skilnað er að mörgu leyti lík þeirri sem verður við andlát.“

Lesturinn er Vilborgu haldreipi, lífsnauðsyn og á sama tíma ánægja. Hún sefur enn vinstra megin í rúminu eins og áður og á náttborðinu stór stafli af bókum.

„Kvöldin eru mínar erfiðustu stundir og undanfarna mánuði hef ég lesið mikið af fantasíubókum eftir Terry Pratchett. Þetta eru bækur í léttum dúr sem gerast í heimi þar sem öll þjóðtrú okkar er veruleiki. Drekar, álfar, nornir og guðir ganga þar um og eru hluti af hversdeginum og oft er þar að finna sterka samfélagsádeilu. Húmorinn í þeim hjálpar mér að brúa bilið yfir í svefninn.

Hver dagur gengur út á að ná hugarró og stundum heldur maður að henni sé náð og líður bara vel. Ég er í góðu jafnvægi og allt gengur sinn gang en svo opna ég eldhússkáp, næ í könnu til að fá mér kaffi og tek út uppáhaldsmugguna hans. Þá þyrmir yfir mig og sorgin tekur völdin um stund. En svo fæ ég mér kaffið og held áfram. Allir syrgjendur þekkja að vera í sínu daglega stússi en allt í einu kemur einhver hreyfing, setning eða hlutur sem minnir á þann sem dó og þá skellur yfir holskefla tilfinninga.

Ég fór út til Skotlands í sumar og heimsótti söguslóðir síðustu tveggja bóka minna um Auði djúpúðgu. Við vorum fjórar vinkonur saman, allar ekkjur, og ókum um Norður-Skotland. Það var óskaplega gott að vera með þessum konum því þegar þú ert innan um aðra sem hafa gengið í gegnum það sama og þú skapast sérstakt andrúmsloft og þú þarft ekki að útskýra neitt. Við rifjuðum upp minningar en ég kynntist tveimur þessara kvenna úti Skotlandi þegar maðurinn minn greindist fyrst og gekk í gegnum uppskurð og geisla og önnur missti sinn mann það ár úr heilakrabba. Við leigðum okkur lítið hús á Katanesi með útsýni til Orkneyja. Dag einn fór ein þessara vinkvenna minna að gera tai chi æfingar á stofugólfinu og þá ,,flugu tárin“. Björgvin iðkaði tai chi í mörg ár og tók oft pósur heima í stofu. Þetta eru hægar, tignarlegar hreyfingar og það var mjög gott að sjá þetta þótt ég táraðist. Hún gaf mér myndina af honum að gera æfingar.

Og svo eru það öll þessi fyrstu skipti. Ég velti því stundum fyrir mér hvort enginn endir sé á þeim. Í okkar hjónabandi, eins og öðrum, var ákveðin verkaskipting. Hún skapaðist ekki vegna þess að ég gæti ekki gert ákveðna hluti eða hann ófær um þá heldur vorum við bara góð á mismunandi sviðum. Áður en hann varð sálfræðingur var hann rafeindavirki og allt sem sneri að tækni lék í höndunum á honum. Hann gerði við hvaðeina sem bilaði og það var líka hans deild að skipta um perur. Vissulega gat ég gert það eftir að hafa verið sjálfstæð móðir í sjö ár, séð um allt sjálf og átti til dæmis mína eigin borvél og kunni að nota hana. En þetta var hans hlutverk. Fyrstu vikurnar eftir að hann dó sprungu hér allar perur. Ég var stöðugt að skipta um perur sem ég hafði ekki gert í tíu ár. Og það var sársaukafullt því það minnti mig á missinn og eyðuna í lífi mínu. Að þrífa bílinn, fara með hann í skoðun, öll þessi verk sem voru hans. Reyndar fékk kunningi mig til að hugsa þetta með perurnar upp á nýtt, þegar hann rifjaði upp hvað Björgvin gat verið stríðinn. Var hann ekki bara að segja mér að nú væri röðin komin að mér að skipta um perur og að ég væri fyllilega fær um það? Ég er ekki enn farin að elda chili con carne sem var uppáhaldsrétturinn hans og sérgrein í eldhúsinu. Öll þessi afmæli eru líka erfið, afmælisdagur dóttur okkar, mitt afmæli, brúðkaupsafmælið, dagurinn sem við kynntumst, dagurinn sem hann greindist með heilaæxlið.“

Með bók í smíðum

Vilborg heldur dagbók, skrifar ljóð, les ljóð og skrifar. Hún er með í smíðum bók um sorgarferlið þar sem hún blandar eigin reynslu við þekkingu sem hún hefur viðað að sér annars staðar frá.

„Sumir segja að mesti skáldskapurinn verði til í sársauka. Kannski er eitthvað til í því, að minnsta kosti vekja sterkar tilfinningar sköpunarþörfina. Það gefur mér mikið að lesa um reynslu annarra og máta mig við hana. Einhver skrifaði í athugasemdakerfið á bloggsíðunni minni að skáld gerðu meira en að segja sögur, skemmta og uppfræða. ,,Þau eru undanfarar sem feta slóðann, lýsa leiðinni og nefna það sem fyrir augu ber. Það auðveldar okkur hinum að rata.” Mér fannst það mjög fallegt. Þegar ég les texta eins og eddukvæðin og eins frásagnir annarra af eigin reynslu finn ég að það hjálpar. Það dregur úr einsemdinni.“

Bókin hennar Vilborgar verður áreiðanlega fengur fyrir þá sem syrgja og vilja leita í smiðju skáldsins eftir leiðarvísi um þá villustíga. En æðruleysið og hreinskiptnin sem einkenndi bloggskrif hennar höfðu áhrif á líf ótal margra. En það er mál að láta staðar numið nú og bíða þess að heyra meira þegar bókin kemur út.

Án þín

Ein leið Vilborgar tl að takast á við sorgina er að skrifa ljóð. Hún veitti góðfúslega leyfi til að birta þetta.

Án þín
Sorgin rís
eins og brimskafl
í brjóstinu
ölduhæð átján metrar
brotsjór af tárum
berst við
að ná andanum
finnst ég vera
að drukkna
hjartað opin und
logsvíður
undan
salti minninganna

21 comments:

Ingibjörgu sagði...

Fallega skrifað að vanda, þú gefur bara út Bloggið þitt Villa mína, holl og góð lesning fyrir svo marga :-) Bestu kveðjur að vestan og knús til foreldranna :-D

Kv. Ingibjörg Snorra

Nafnlaus sagði...

Faðmlag frá mér til þín, mín kæra. Þú ert einstök. Anna Þóra

Gegga sagði...

Ég hef sjaldan lesið eins fallegan og "manneskjulegan" texta. Viska, kærleikur, auðmýkt, heiðarleiki...og önnur mikilvæg gildi skína í gegn og kenna mér svo margt! Mínar bestu þakkir elsku Vilborg! Knús og bros. Gegga

Thórgunna Thórarinsdóttir sagði...

Vilborg.Þakka þér fyrir öll þin einlægu skrif. Sendi þér umvefjandi hugsanir og óska þér kærleiks og innri friðar á degi hverjum. P.s.Þú ert falleg kona og mikil hetja. Kærleikskveðjur Þórgunna

Nafnlaus sagði...

Hjartagull- Falleg og hjartnæm lesning elsku Villa <3
Kær kveðja,
Elín Lóa Kristjánsdóttir

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir pistilinn þinn elskuleg,sit hér með tár í augum og þakklæti í brjósti.
Knúskveðja,
Hrefna

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þetta. Utan við sig ástandið vill vara nokkuð lengi. Það kemur enn fyrir hjá mér, 6 árum síðar en það er ekki eins þykk blæja. Kær kveðja til þín og styrkur til þín og foreldranna
Ragnheiður

Nafnlaus sagði...

Þakka þér ástsamlega fyrir yndislegt og gagnlegt viðtal.
Þín Valgerður Ben

Nafnlaus sagði...

Dear Vila,
thinking of you, as always. you put all my feelings into words for me, even now after six years without Rob, I have tears. I will write soon. take care.
with love,
your scottish sister
Morag D.x

Ranveer Patil sagði...

Thanks you for this post… great information.
ICC t20 World Cup 2016 Schedule download pdf
T20 World Cup 2016 Expected Start Date time

Saim iqbal sagði...

Really enjoyed this post a lot, keep sharing.

T20 World Cup Schedule 2016

Asia T20 World Cup Time Table 2016


ICC T20 World Cup 2016 Points Table

Nafnlaus sagði...

Neet 2016 Result
Neet 2016
Neet result 2016
IPL 2017 Live Streaming
Vivo IPL 2017
IPL 2017 Schedule
IPL 2017
IPL 2017 Point Table
Fifa World Cup 2018 schedule

appu sagði...RRB NTPC Result 2016
SSC CGL 2016 Result
Happy New Year 2017 Wishes
IBPS PO Result 2016
GCSE Results 2016
SBI PO Result 2016
NEET 2016 Result
New Year 2017 Wallpaper
Good Morning Quotes
Merry Christmas wishes Christmas wishes

anju 2016 sagði...


IPL 2017
IPL 2017 Teams
IPL T20 Live Streaming
IPL Schedule
ipl 2017 schedule
cbse result 2017
happy easter 2017
oscar nominations 2017
oscar winners 2017
sslc result 2017
Kerala HSE Result 2017
Kerala Plus Two Result 2017
lic aao result 2017
jee main result 2017
ssc result 2017
cbse 10th result 2017
gate 2017 result
gate 2017 answer key
jee main 2017 answer key

IPL 2017
IPL 2017 Teams
IPL T20 Live Streaming
IPL Schedule
ipl 2017 schedule
cbse result 2017
happy easter 2017
oscar nominations 2017
oscar winners 2017
sslc result 2017
Kerala HSE Result 2017
Kerala Plus Two Result 2017
lic aao result 2017
jee main result 2017
ssc result 2017
cbse 10th result 2017
gate 2017 result
gate 2017 answer key
jee main 2017 answer key

Editor Team sagði...

nice information
IPL Auction
IPL 2017 Schedule
IPL 2017 Matches
IPL 2017 Points table
IPL Tickets
IPL Live
Today IPL Match
IPL Opening Ceremony

aliamay sagði...

Thanks for he informative news.. Now I am sharing India premier league 2017 ipl 10 statrted now in5 th april 2017. Get all th news and updates of ipl 2017 live score , team squads and all the updates related to ipl 2017.
ipl 2017 schedule
Royal Challengers Banglore RCB Team squad 2017
Kings XI Punjab team squad 2017
Indian premier league ipl 2017
Delhi Daredevils team squad 2017
2017 Indian Premier League
Gujrati Lions Squad 2017

Ajay sagði...

You are doing great job. This is a very useful information for us. Hope you like this.
IPL Prediction
IPL Toss Prediction
IPL Bhavishyavani
IPL Astrology
IPL Yahoo Live Score
IPL 2017 Yahoo Cricket Live Score
IPL 2017 Yahoo Cricket Live Score
IPL Live Yahoo

Varun g sagði...

Thanks for sharing nice information with us. i like your post and all you share with us is uptodate and quite informative, i would like to bookmark the page so i can come here again to read you, as you have done a wonderful job.

U.P Board 10th Result 2017
UP Board High School Results in 2017
U.P Board Result 2017 10th class
U.P Board 10th Result 2017
NEET 2017 Result
NEET UG Exam Result

yeng chan sagði...

🎆THE HACK GEEKS🎆
Hefurðu einhvern tíma furða ef það er hægt að hakka hlutina eins og tölvusnápur gera það í bíóunum.
🤔🤔

Já mögulegt !!! 😁😁😁

Hacking getur auðveldlega verið gert með því að gróðursetja tölvuveira eða spyware (allt eftir því hvað tölvusnápur hyggst gera) í markvissum tækinu.🤐🤐

Við hjá HACK GEEKS gefa þér bestu hakkþjónustu þar sem alltaf er
Við skiljum útgáfur af svindlarum um allt netið og það er þess vegna sem við gefum þér traustan sönnun á þjónustu okkar.👌👌

Við höfum fengið toppur tölvusnápur í hackerone.com sem er alltaf tilbúinn til að hakk fyrir þig hvenær sem er, hvar sem er, hvaða tæki, samtök, sambandsskrifstofur, háskóli, háskóli sem þú hugsar bara um það.
Viltu:
* Til að Hack, Clone eða fylgjast með síma? 📲
* Til að hreinsa, eyða eða breyta skrá í fyrirtæki, stofnun eða í sambandsskrifstofu? 📖
* Til að sækja minni BitCoin? 💰
* Til að hakka í tölvupósti eða hvaða félagslega miðilreikning? 💞
* Til að flytja fé án þess að hafa fundist? 💴💵💷
* Til að auka lánshæfismat þitt? 🔝🔝
* Til að hakka kredit / debetkort? 💰💳
Allt þetta er það sem við getum gert fyrir þig.
Við erum descrete og mun ekki afhjúpa þjónustuna okkar til þín fyrir neinn.
Hafa samband:
thehackgeeks@gmail.com
Við hlökkum til að reiðhestur fyrir þig

christina james sagði...

Vá er gott að vera aftur með fyrrverandi mína, þakka þér dr. Ekpen fyrir hjálpina, ég vil bara láta þig vita að þetta er að lesa þessa færslu ef þú ert með mál með elskhuganum þínum og leiðir til skilnaðar og þú gerir það ekki Vilja skilnaðinn, Dr Ekpen er svarið við vandamálið. Eða þú ert nú þegar skilnaður og þú vilt samt að hafa samband við hann. Dr Ekpen stafrænar rifrildi núna (ekpentemple@gmail.com) eða whatsapp hann á +2347050270218 og þú verður klæddur sem þú gerðir.

Happy New Year 2019 sagði...

AGT The Champions: I’m really happy to say it was an interesting post to read. I learned new information from your article, you are doing a great job. Continue -> AGT The Champions Winner


I like this article.I was searching over search engines and found your blog and its really helps thank you so much Happy New Year 2019 Wish

Looking great work dear, I really appreciated to you on this quality work. Nice post!! these tips may help me for future.Popcorn Time APK Download