Líf í árvekni: Í hverfulleika lífsins er gildi þess falið

föstudagur, 1. febrúar 2013

Í hverfulleika lífsins er gildi þess falið

Þáttaskil urðu enn í sjúkdómsgöngu Míns heittelskaða í fyrradag þegar hugur hans lokaðist þannig að þær vökustundir sem hann á núna er hann nær samfellt í eins konar annars heims ástandi og skynjar ekki veruleika okkar hinna, er órólegur og eirðarlaus. Þetta ástand stafar af breytingu á gagnaugablaðsflogaveiki hans en það var hún sem varð til þess að hann greindist með heilakrabbameinið í október 2006. Þessi tegund flogaveiki er afar sjaldgæf og flogin sem eru mjög ólík þeim krampaköstum sem flestir kannast við. Augnaráð hans er fjarrænt og hreyfingar hægar og hann er ekki í neinum tengslum við umhverfið. Á meðan floginu stendur er hann ekki meðvitaður um það sem er að gerast sem er dálítil raunabót. En vegna þessa hefur nú verið ákveðið að gefa honum svefn-og verkjalyf í lítilli dælu sem miðlar lyfjunum jafnt og þétt út í blóðið allan sólarhringinn. ,,Þetta er eins konar draumatæki,“ sagði Lóa hjúkrunarfræðingur við Skottuna þegar hún sýndi henni litlu dæluna í kvöld. ,,Pabbi fær lyf í gegnum dæluna og þá sefur hann og dreymir fallega drauma.“

Svefninn líknar.
Sem hún skýrði þetta út fyrir barninu varð mér hugsað til þess sem Minn heittelskaði hefur sagt við mig aftur og aftur undanfarna daga: ,,Hvar eru draumarnir mínir? Mig vantar draumana mína.“

Frá því að síðasti pistillinn minn fór á Netið fyrir fáum dögum hef ég fengið ótal kveðjur og orðsendingar sem allar eru á eina lund, uppfullar með samhug, hlýju og kærleika. Fjölmörg hafa talað um að það sé gott að fá að lesa um lífsreynslu sem þau þekkja sjálf eftir að hafa staðið í svipuðum sporum en hafa kannski sjaldan haft á orði við aðra. Bæði er að okkur skortir tungutakið og einnig tækifærin til þess. Því fólk verður hrætt þegar við tölum um dauða okkar nánustu og tal um þá sem eru deyjandi eða látnir minna á þá óþægilegu staðreynd að það sleppur enginn lifandi héðan. Þess vegna hættir of mörgum til að forðast með öllu að tala um þau deyjandi og dánu. Og jafnvel getur óttinn við að segja óviljandi eitthvað ,,óviðeigandi" og særa aðra orðið til þess að hinn látni er sjaldan eða aldrei nefndur á nafn að erfidrykkjunni lokinni, næstum eins og hann hafi ekki verið til. Og það held ég að sé sárast af öllu.

Þessi mynd fylgdi einni af þeim fallegu
kveðjum sem mér hafa borist í póstinum.
Á sama tíma og ég skrifaði orðin hér að ofan fékk ég skilaboð í pósthólfið á Facebook frá Gerði Guðrúnar (a.k.a. Gaga Skorrdal fatahönnuður) sem hlustaði á viðtalið við mig á Rás 2 í morgun en hún hefur misst bæði son sinn og dóttur. Hún sagðist hafa höggvið sérstaklega eftir þeim orðum mínum að fyrir komi að síminn þagni eftir að andlát hefur orðið í fjölskyldunni en af því hef ég heyrt frá fleiri en einum. Gerður gaf mér leyfi til að vitna til orða sinna en hún segir að sér finnist sem hún búi á eyðieyju eftir lát barna sinna: ,,Síminn þagnaði í mínu tilfelli og fólk hætti bara að hafa samband þó svo að ég hafi reynt að hafa samband við það. Nú eru rúm þrjú ár síðan að sonur minn fór til annarra heima og það verða 13 ár síðan að dóttir mín fór sömu leið og hvað ég sit ein og mér finnst stundum að ég hafi ekki átt neina vini.“

Við getum ekki ráðið því hvenær dauðinn sækir okkur heim. En við getum ráðið því hvernig við bregðumst við komu hans, hvort sem það erum við sjálf sem finnum hann nálgast eða ástvinir okkar. Sorgin yfir aðskilnaðinum við ástvin er þung og þau sem standa í kring fyllast vanmætti yfir því að geta ekki breytt því sem er óumflýjanlegt. Raunin er sú samt sem áður að við búum öll yfir mætti kærleikans og hann getum við notað til þess að hjálpa þeim sem syrgja. Tölum um þau sem eru farin, hvað gerðist, hvernig þau lifðu og hvernig þau dóu. Látum þau þannig lifa áfram í minningu okkar og hjarta þótt þau hafi siglt á braut.

Ég hef lært svo ótal margt á þessarri göngu með Mínum heittelskaða um ævintýraskóginn og nú þegar hans vegferð er í þann mund að ljúka hef ég öðlast nýjan skilning á mikilvægi þess að tala um dauðann rétt eins og lífið. Því það er í hverfulleika lífsins sem gildi þess er falið. Við elskum lífið vegna þess að því lýkur, líkt og við hrífumst af fegurð blómsins vegna þess að það á eftir að fölna og döguninni vegna þess að við vitum að sólin á eftir að hníga í sæ. Við þurfum að geta talað um dauðann, á honum má ekki hvíla bannhelgi. Því hvernig getum við ella lært að deyja vel, þetta eina sem við eigum öll fyrir höndum? Við gerum okkar besta í menntakerfinu og uppeldinu til þess að búa börnin okkar undir lífið og verkefnin sem þau þurfa að takast á við en við tölum aldrei við þau um að að við eigum öll eftir að deyja. Að hvert og eitt okkar mun þurfa að skiljast við einhvern nákominn áður en kemur að okkar eigin endalokum.

Við reynum flest að útiloka það sem veldur okkur skelfingu og afneita því. Bregðumst þess vegna mörg hver við með reiði þegar okkur verður loks ljóst að dauðinn er óumflýjanlegur. Ég held að það sé miklu betra að sættast sem fyrst við þá staðreynd að lífið tekur enda. Leggja hendur niður með síðum og sóa ekki dýrmætri orku og tíma í reiði og tal um óréttlæti eða ósanngirni heldur horfa á það sem við höfum öðlast þá daga sem okkur er úthlutað saman og líta á dauðann sem kærkominn vin sem leysir sálina úr viðjum líkama sem getur ekki annast hana lengur. 

Skottan sefur vært með Baldur broddgölt sér við hlið og Hallveig Fróðadóttir kastalafrú  gætir beggja.
Þannig tala ég við börnin mín þrjú, segi þeim að sál Björgvins verði hjá Guði en líkaminn, skel sálarinnar, muni hvíla í fallega garðinum þar sem Ingimar afi er grafinn í Fossvoginum. Dóttir okkar, átta ára, ætlar að setja mörg blóm á leiðið hans pabba, sagði hún við hann með grátstaf í kverkum, því hún mun sakna hans svo mikið. ,,En svo hittir hann sjálfur pabba sinn,“ bætti hún við og saug upp í nefið. ,,Og kannski líka gömlu kisuna okkar sem dó.“ Þannig er barnshugurinn þegar byrjaður að vinna úr því sem er framundan og hún er farin að leita leiða til að sjá fleira en aðeins eigin missi. 

40 ummæli:

Ingunn sagði...

Elsku Vilborg. Ég hugsa til þín og þinna á hverjum degi. Orð mega sín ekki mikils hér, en þau fallegustu sem ég á fylgja ykkur þessa dagana. Hlýjar kveðjur, Ingunn.

Blomsterbarn65 sagði...

Elsku fólkið mitt í Hallveigarkastala <3 hugur minn og hjarta er með ykkur á göngunni- Takk Villa mín fyrir að leifa okkur að fylgjast með og gefa okkur hlutdeild-
Bestu kveðjur frá Selfossi,
Lóa frænka.

Nafnlaus sagði...

<3 hlý kveðja Alva K.K.

Nafnlaus sagði...

Það er svo satt og fallegt það sem þú skrifar. Ferðlagið hans elskulega Böbba er rétt að byrja...Fæðing inn í andlegan heim, þangað eigum við öll eftir af fara. Ég vil trúa því að það sé góður staður og að þar fái hann alla heimsins hjálp til að losna undan þessum dreka...Knústil ykkar og kærleikur!/Inga

Nafnlaus sagði...

Kærleikskveðjur
Margrét Halldórsdóttir

Nafnlaus sagði...

Sæl Vilborg - við þekkjumst ekki en mikið dáist ég að þér að geta blæggað um þessa erfiðu reynslu - gangi þér allt í hagin - Ása.

mags sagði...

Courageous Vila, This I know is true, that when the heart is open to death life returns in surprising and inspiring ways .... " Keep a green bough in your heart and the singing bird will come " ......

Nafnlaus sagði...

Ég þekki þig/ykkur ekki neitt en ég dáist svo sannarlega að þér kæra Vilborg!Þú kemur einstaklega vel frá þér orðum og lýsir þessari miklu reynslu svo vel. Ég hef sjálf gengið í gegnum að kveðja náinn fjölskyldumeðlim og verða vitni af því þegar hann skildi við og hóf sitt ferðalag inn í eilífðina.
Þetta eru erfiðir tímar en samt gefur manni svo ótrúlega mikið á sama tíma.
Megi Guð vera með ykkur og styrkja ykkur og taka vel á móti Björgvini þegar hans tími er kominn.

Erla


Nafnlaus sagði...

Hlýjar kveðjur til ykkar elsku Vilborg.

Nanna Imsl.

Unknown sagði...

Kæra Vilborg. Ég er svo snortin af skrifum þínum og þakklát þér fyrir að deila upplifun þinni og ykkar. Þau eru mér styrkur til að takast á við minn eigin dauðageig og ótta við að deyja eða missa mína nánustu. Ég les orð þín aftur og aftur og finn í þeim einskonar líkn og þau fylla mig ró. Sem er kannski omvent, þar sem þitt líf er svo erfitt núna og ég finn til með þér.
Þín frænka í Vestrinu
Ylfa Mist

Unknown sagði...

Yndislega vilborg, takk fyrir þessi fallegu skrif þín. guð styrki ykkur öll og líkni á erfiðri stund.

kær kveðja, sigga dóra (edinborgarnámsmær)

Nafnlaus sagði...

Mikið ertu fallega þenkjandi og vel gerð manneskja. Megi allar góðar vættir vaka yfir þér og þínum og lýsa Björgvini leiðina til nýrra heimkynna.

Kær kveðja,
Rannveig Ása Guðmundsdóttir
Melalind 4
Kópavogi

Nafnlaus sagði...

Elsku Vilborg.

Við Jonni lesum bloggið þitt og hugsum sterkt til ykkar. Brúðkaup ykkar hjóna var eitt það fallegasta sem ég hef farið í og þetta blogg þitt er einhvern vegin í takt við það.

Við sendum ykkur öllum góðar kveðjur frá Atlanta,
Kata og Jonni.

Valgerður sagði...

Gangi þér vel í þessu mikla verkefni og takk fyrir að leyfa okkur hinum að læra af reynslu þinni og átakanlegri baráttu.
kv
Valgerður Guðjónsdóttir

Kleina sagði...

Elsku Björgvin

Ég var að lesa þær fréttir að þú værir orðin svona veikur.

Vilborg, ég var með með honum Björgvin í Cand.psych hér á Íslandi og við hittumst nú á árshátíð einni eða tveimur :)

Mig langaði bara að senda hugheilar kveðjur til ykkar.

Steina

Nafnlaus sagði...

Það er sárt að missa ástvin en það er betra að gera það í sátt en ósátt. Þú ert sannarlega full af trú, von og kærleika og gefur það áfram. Allar góðar vættir vaka yfir ykkur, fjölskyldunni og vinum

Nafnlaus sagði...


Takk fyrir að deila með okkur hinum Vilborg. Við þekkjumst ekki en ég held að margir sem hafa misst eða eru í sárum aðstæðum finni frið við lestur bloggsins þíns. Að minnsta kosti upplifði ég það svo. Frásögnin hreyfir við manni sem manneskju á góðan hátt. Vel skrifarðu um sérstakan tíma og lýsir þinni reynslu af kærleika til tilverunnar í sínum margbreytileika. Ég hugsa fallega til ykkar og óska ykkur áframhaldandi styrks núna og um alla framtíð. Kærleikskveðja. Sólveig

Nafnlaus sagði...

Kæra Vilborg.
Ég dáist mikið af þínum styrk.
Góður guð veri með þér og börnunum ykkar.Guð blessi þinn heittelskaða eiginmann. Ein sem þekkir ykkur ekkert.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir að leyfa mér og öllum hinum að taka þátt í þessu og takk fyrir að opna umræðuna um dauðann. Guð veri með ykkur.
Gréta

inga Heiddal sagði...

Mér finnst þú svo mikil hetja og ég vona að ég verði ein slík ef eitthvað þessu líkt á eftir að koma fyrir hjá mér. Þú svo sannarlega sefar sorg margra með þessum skrifum þínum. ÞAð er eitt í þessu lífi sem við vitum með vissu og það er að við deyjum. Gangi þér sem allra best. Kærleikskveðjur. Inga

Nafnlaus sagði...

Dáist að skrifum þínum, svo mikil þörf þessi skrif fyrir þig og ykkur sem og okkur öll hin. Það þekki ég að síminn þagnar eftir jarðaför, við eigum að tala um látinn einstakling og hvað við munum hann fyrir, ekki þegja hlutina í hel eða dauða viðkomandi.
Knús
Harpa

Nafnlaus sagði...

Ég þekki þig ekki en með tárin í augunum sit ég og les skrifin þín. Guð styrki þig og börnin þín á þessum erfiða tíma.

Nafnlaus sagði...

Þegar ég kvaddi ástina mína fyrir 30 árum með litlu dótturna mér við hlið og lítinn 3ja mánaða bumbubúa, var ég ótrúlega sátt, því árin 5 sem viö fengum voru yndisleg, en sársaukinn og einmanaleikinn var mikill eftirá. Með tímanum breytist sorgin í ljúfsára minningu um yndislegar stundir og í börnum okkar lifði hann áfram. Mér finnst þú ótrúlega sterk og dugleg og réttsýn á líf og dauða, þetta er jú leiðin okkar allra, en margir vilja ekki horfast í augu við það, þakka þér fyrir að deila þessu.Þú ert til fyrirmyndar.

Nafnlaus sagði...

Ótrúlega fallega skrifað og af svo mikilli visku og æðruleysi.
Ljós til ykkar allra.

Hulda (ókunnug)

Gerður Pétursdóttir sagði...

Falleg, áhrifarík og lærdómsrík skrif. Takk fyrir að deila þessari reynslu með okkur. Gangi þér og þínum allt í haginn.

Unknown sagði...

Kæri Björgin,

Mikið þykir mér leitt að svona er farið. Við áttum góðar stundir í námi, á kaffihúsum og í 1717. Leitt þykir mér að þær verða ekki fleiri.

Vina- og kærleikskveðjur til þín og Vilborg: Styrkur til þín og barnanna ykkar.

Helgi.

Hanna sagði...

Má ég þakka þér mín kæra.Ég efa ekki að þessi skrif eru þér og þínum nánustu dýrmæt og mannbætandi á erfiðum timum. En þau eru líka svo dýrmæt fyrir alla aðra sem eru hræddir og feimnir, óttast að særa og hafa ekki fundið leiðina til að takast á við sorgina, hvorki sína eigin né annarra. Enn og aftur kær þökk fyrir þessi einlægu og dýrmætu skrif.

Nafnlaus sagði...

I read your blog tonight, Vila. Everything you write is true. We need to accept dying as part of living. I feel you and I walk a similar pathway- you with your beloved Bjorgvin and me with my cherished Rob. It is possible to hold your lover in your heart and celebrate they are in your life, in love, forever.
I send my love to you, Bjorgvin and your family.
Morag D.x


Nafnlaus sagði...

Hugheilar kveðjur til ykkar og megið þið finna líkn og styrk á erfiðri stund.

Inga Sigga.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir að leifa okkur að fylgjast með skrifum þínum. Á eftir að hugsa öðruvísi um dauðunn eftir að hafa lesið skrif þín. Þú gerir þetta eitthvað svo fallegt.
Guð veri með ykkur.
Kv. Alma Bj.

Nafnlaus sagði...

Elsku Björgvin og Vilborg

Leitt að heyra að svona er komið fyrir Björgvin, allt of snemmt en svona er lífið. En þið getið verið þakklát fyrir að hann skuli geta verið heima, það er ómetanlegt og gefur manni heilmikið. Það reyndi ég sjálf og mín börn þegar eiginmaður minn var veikur af krabbameini og gat að eigin ósk fengið að vera heima og deyja þar.
Það er frábært Vilborg að þú skulir geta skrifað um þessa reynslu þína. Skrifin sýna mikið þakklæti og þroska.
Sendi Björgvin og ykkur öllum hlýjar kveðjur.

María Reykdal, skólasystir úr sálfræðináminu H.Í.

Nafnlaus sagði...

Kæra Vilborg!
Þakka þér fyrir þín nærandi og einlægu skrif um lífið, því sannarlega er dauðinn hluti af lífinu. Lengst af mínum starfsaldri hef ég unnið sem ljósmóðir og tekið þátt í að undirbúa komu mannsins í þennan heim. Ekki er síður ástæða til að undibúa brottför hans og varðveislu sálarinnar. Í skrifum þínum nálgast þú þann hluta af óvenju miklu innsæi. Að vera "ljósmóðir sálnanna" er hugtak sem mér datt í hug þegar ég las skrifin þín.
Megi góður Guð styrkja ykkur og blessa.
Guðný Bjarnadóttir

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa mín og fjölskylda, sendi ykkur kærustu kveðjur og styrk.
Valgerður Ben.

"La vie est un sommeil,
l'amour en est le reve,
et vous aurez vécu,
si vous avez aimé."
(Alfred de Musset)

„Lífið er svefn,
ástin draumur þess.
Hafirðu elskað,
hefurðu lifað".

Móa sagði...

kæra Vilborg,
Ég er snortin af hugrekki þínu og fallegum skrifum, Þetta er allt svo satt, við forðumst þess í lengstu lög að horfast í augu við þennan óumræðilega hluta lífsins.
Kærar og hlýjar keðjur til ykkar í kastalann frá Edinborg.
Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir

Nafnlaus sagði...

Sæll Björgvin,
Ég vil þakka þér fyrir að hafa fengið að kynnast þér fyrir vestan þó ekki hafi nú samskipti okkar verið mikil síðan þá.
Við og við höfum við þó rekist á hvorn annan á förnum vegi. Ég er sérstaklega þakklátur fyrir síðasta skipti sem var nú í bíói í haust.

Kveð þig nú með því að segja: Góða ferð kæri vin.

Vilborg og þið öll, sendi til ykkar hlýjar hugsanir og blessun.
Kær kveðja,
Einar Ársæll

Ingibjörgu sagði...

Fallega skrifað, hugsa til þín, kærar kveðjur að vestan.

Nafnlaus sagði...

Sæl Vilborg,
Við höfum einu sinni hist á Bárugötunni þegar við fjölskyldan komum til að skoða íbúðina ykkar sem var orðin of lítil enda skotta á leiðinni í heiminn. Við keyptum þessi dásamlegu híbýli og hefur liðið dásamlega hér - orðin fjögur en tímum ekki að flytja. Eftir þessi íbúðaviðskipti hitti ég Björgvin stundum á förnum vegi í Þingholtunum og uppi í HÍ og alltaf brostum við, heilsuðumst og jafnvel skiptumst á nokkrum orðum... Ég sá svo bloggið þitt í hjá vinkonum þínum að austan sem ég er líka svo heppin að þekkja.
Ég deili þeirri lífskoðun þinni að við eigum að tala um dauðann og þá sem fara á undan okkur. Ekkert er verra en að láta sem ekkert hafi gerst ... að lífið hafi ekki markað sín spor. Takk fyrir að deila.
Megi allar góðar vættir vaka yfir ykkur öllum.
Bryndís á Bárunni

Nafnlaus sagði...

Kærleikskveðjur <3

Auður Lísa

appu sagði...



Spiderman homecoming Public Holidays 2017
Happy New Year 2017 SMS
enem 2016 resultado
cat 2016 result
new year 2017 wallpapers
resultado enem 2016
Diwali Wishes
Happy Onam Images Happy Onam wishes Whatsapp Status for Christmas Christmas Whatsapp Status

merly sagði...

Mig langar að deila dásamlegu vitnisburði mínum um hvernig ég kom aftur til eiginmannar míns í lífi mínu, ég vil segja fólki að það sé raunverulegt stafrænt á netinu á netinu og er öflugt og einlægt. Hann heitir DR PEACE, hann hjálpaði mér nýlega að hafa sambandið mitt sameinað með eiginmanni mínum sem varpaði mér. Þegar ég snerti DR PEACE kastaði hann ástfangelsi fyrir mig og eiginmanninn minn sem sagði að hann hefði ekkert að gera með mér, kallaði mig og bað mig. Fyrir alla sem lesa þessa grein og þarfnast hjálpar, getur DR PEACE einnig boðið upp á alls konar hjálp, svo sem að sameina hjónaband og samband, lækna alls konar sjúkdóma, málaferli, meðgöngu frásögn, við erum nú mjög ánægð með okkur sjálf. DR PEACE gerir honum grein fyrir hversu mikið við elskum og þarfnast hvert annað. Þessi maður er alvöru og góður. Hann getur einnig hjálpað þér að endurheimta brotið samband þitt. Ég hafði eiginmanninn minn aftur! Það var eins og kraftaverk! Engin hjónaband ráðgjöf og við erum að gera mjög vel í kærleika líf okkar. Hafðu samband við þennan mikla mann ef þú átt í vandræðum með sjálfbæran lausn
með tölvupósti: doctorpeacetemple@gmail.com
WhatsApp: +2348059073851
Viber: +2348059073851