Líf í árvekni: Á helgum stað

þriðjudagur, 5. febrúar 2013

Á helgum stað

Minn heittelskaði er nú á helgum stað, bæði í veraldlegum og andlegum skilningi. Í gær, sunnudaginn 3. febrúar, lagðist hann inn á líknardeild LSH í Kópavogi. Undangengna sólarhringa hefur hann verið órólegur og eirðarlaus þær stundir sem hann vakir og litla lyfjadælan, draumatækið, hefur ekki ráðið nógu vel við að hjálpa honum að ná slökun og hvíld. Tjáningargetan er með öllu horfin og það hefur valdið honum hugarangri sem enginn fær skilið til fulls. Ekki síst vegna litlu dóttur okkar fannst mér að nú væri komið að því sem við ræddum fyrir þremur vikum þegar hann sagði: ,,Ef ég verð að leggjast inn, þá leggst ég inn."  Á líknardeildinni er betri aðstaða til þess að tryggja öryggi hans og vellíðan en heima við, þar sem snarbrattir kastalastigarnir eru stöðug ógn, og hjarta mitt tekur viðbragð við minnsta brak í trégólfinu sé ég ekki við rúmstokkinn. Og Skottan þarf ekki að eiga minningar um annan föður en þann sem hefur ávallt verið ljúfur og blíður í viðmóti.

Líknardeildin er helgur staður. Hér ríkir kyrrð og friður og úr svip fólksins sem hér starfar skín hlýja og kærleikur. Út um gluggann á sjúkrastofunum átta sér yfir Kópavoginn, útsýnið yfir sjó og himinn aldrei eins frá einni stundu til annarrar.

Fyrsta sólarhringinn vorum við á lítilli stofu sem ætluð er fyrir bráðainnlagnir en í dag var Minn heittelskaði færður á stórt herbergi í endahúsinu við Kópavogsgerði. Hér er auk sjúkrarúmsins hans annað rúm fyrir aðstandanda, góður letistóll og sjónvarp á vegg - þótt það sé nú reyndar lítið brúkað. Og netsamband. Frammi er setustofa, eldhús og borðstofa, rúmgóðar og hlýlegar vistarverur.

Helgur staður, líknardeildin. Og fólkið sem hér á viðdvöl er sjálft á helgum stað í óeiginlegri merkingu, í lokaáfanga lífs síns. Þau eru á mörkunum á milli þess sem er og þess sem verður, þau munu stíga inn í heim sem okkur er hulinn og við fáum aðeins anganina af í fegurstu ljóðum og textum mannsandans. Við aðstandendurnir sem njótum þeirra forréttinda að fá að fylgja þeim síðasta spölinn að hliðinu á milli lífs og dauða fyllumst hljóðri virðingu og þakklæti.

Í Austfjarðaferðinni okkar sumarið 2011. Garðurinn við
Steinasafn Petru á Stöðvarfirði.

Í kvöld lásum ég, Sú uppkomna og Úngi maðurinn upp fyrir hvert annað og Skottuna textann um kærleikann í fyrra Korintubréfi Nýja testamentisins og ljóðin um ástina og dauðann í Spámanninum eftir Kahlil Gibran. Skottan skoðaði fjölskyldumyndir í albúmi á meðan en tilkynnti strax að hún væri búin að lesa í kvöld, rétt búin að lesa fyrir bróður sinn heimanámslesturinn um Skúla skelfi.

Minn heittelskaði á enn bágt með að finna eirð og samfelldan svefn þrátt fyrir lyfjagjöfina úr nokkru stærra og tæknilegra draumatæki líknardeildarinnar. Eftir stuttan blund rís hann upp í rúminu og dregur af sér sængina, klæðir fæturna í sokka og reimar á sig skó sem engir eru, annars staðar en í huga hans, rétt eins og sá sem leggur af stað í nýtt ævintýri þarf jú vitanlega að gera. Enginn fer í langferð nema vel skóaður.

Sem ég fylgdist með honum hnýta ósýnilega slaufu á skóna sína í dag í enn eitt sinnið varð mér hugsað til frásagnar í Gísla sögu Súrssonar, sem gerist í Dýrafirðinum mínum fagra, af helskónum sem bundnir voru Vésteini föllnum:


Gísli býst nú til að heygja Véstein með allt lið sitt í sandmel þeim er á stenst og Seftjörn, fyrir neðan Sæból. Og er Gísli var á leið kominn þá fara þeir Þorgrímur með marga menn til haugsgerðarinnar.
En þá er þeir höfðu veitt Vésteini umbúnað sem siður var til gekk Þorgrímur að Gísla og mælti: "Það er tíska," segir hann, "að binda mönnum helskó þá er þeir skulu ganga á til Valhallar og mun eg það gera við Véstein."
Og er hann hafði það gert þá mælti hann: "Eigi kann eg helskó að binda ef þessir losna."


Hjartans þakklæti fyrir allar kærleiksríku kveðjurnar sem mér hafa borist, bæði í gegnum vini og ættingja, hér og í skilaboðahólfið mitt á Facebook. Ég mun svara þeim skriflegu eftir því sem tími og næði gefst til. Þið sem bænheit eruð, biðjið fyrir friði og værum svefni fyrir Minn heittelskaða.

Megi Mátturinn vera með ykkur.

36 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kærleikskvedja frá Færeyjum fallegi og hrausti hugur!

Nafnlaus sagði...

Sendi ykkur fangið fullt af kærleikskveðjum.
Bið Guð að gefa að ykkar heittelskaði nái slökun, svo vont fyrir alla að hann er órólegur.
Þess óskar
Sólveig

Nafnlaus sagði...

þið eruð sannarlega á Helgum stað, þarna vinna englar, svo mikið veit ég, vonandi nær ró og friður að færast yfir þinn heittelskaða..

Sigrún

Vísnabálkar sagði...

Elsku Villa, mikill er styrkur þinn er þú með blæðandi hjarta ritar þessar línur. Guð styrki ykkur og styðji, og veit frið fyrir værum svefni fyrir þinn Heittelskaða.
kveðja Helga frænka úr Dýrafirðinum.

Nafnlaus sagði...

Megi mátturinn líka vera hjá þér og verða þín stoð og stytta elskuleg. Kram/Inga

Nafnlaus sagði...

Kæra Vilborg (sem ég þekki ekki neitt)

Skrif þín eru óendanlega falleg og full af slíku æðruleysi sem alla hlýtur að dreyma um að búa yfir á slíkri ögurstundu.

Vegni ykkur öllum sem best á erfiðum tímum. Guð blessi ykkur.

Sigrún

Nafnlaus sagði...

Kæra fjölskylda,við höfum fylgst með baráttu ykkar og sendum ykkur hlýjar hugsanir og frið, þið eru hetjur!

Þór Pálsson (samstarfmaður Björgvins úr Iðnskólanum)og
Vilbor Sverrisdóttir

búsett í Alaaborg núna.

Jakob Hjálmarsson sagði...

Þakka þér enn fyrir að deila þessu með okkur hverju fram vindur. Sannarlega er helgi yfir bæði þeim stað og lífsáfanga sem þú fjallar um svo nærfærnislega og einlæglega. Vafalaust heilbrigð ákvörðun að leita skjóls þarna við Kópavoginn, hef góða reynslu af þeim stað og dýrmætt fólkið sem helgar sig þjónustunni. Þið lásuð í Korintubréfinu segirðu. Einhver dyrmætasti texti sem ég þekki er þar í IKor 15. Þar rís hugsun mannsandans út fyrir tíma og rúm með stórkostleri reisn. Veriðsvo öll Guði falin.

Nafnlaus sagði...

Kærleikskveðjur til ykkar allra mín kæra mamma,pabbi og Daddi

Skref fyrir skref sagði...

Þegar ég las eftirfarandi línur þennan fallega morgun varð mér hugsað til þín Vilborg og fjölskyldu þinnar " Mindful time spent with the person we love is the fullest expression of true love and real generosity" Thich Nhat Hanh
kær kveðja,
Pálína

Nafnlaus sagði...

Gangi ykkur vel og megið þið eiga hlýjar og kærar stundir næstu daga

Kristín S (ókunnug)

Nafnlaus sagði...

Takk og takk og takk. Guð og góðu englarnir gæti ykkar allra.
Kærar kveðjur
Margrét Halldórsdóttir

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir að miðla þessari reynslu kæra Vilborg. Ég þekki þig ekki en hef lesið viðtölin sem hafa birst við þig og styrkur ykkar er óumdeilanlega aðdáunarverður.
Megi allt það góða sem umvefur okkur á degi hverjum og nóttu umvefja ykkur á þessum síðustu metrum í þessu jarðlífi og halda því áfram.

Kveðja
Hrafnhildur

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir að miðla þessari reynslu kæra Vilborg. Ég þekki þig ekki en hef lesið viðtölin sem hafa birst við þig og styrkur ykkar er óumdeilanlega aðdáunarverður.
Megi allt það góða sem umvefur okkur á degi hverjum og nóttu umvefja ykkur á þessum síðustu metrum í þessu jarðlífi og halda því áfram.

Kveðja
Hrafnhildur

Unknown sagði...

Eg fann thessa sidu thegar eg var ad skoda dagblodin a netinu. Eg verd ad skilja eftir linu handa ther Vilborg.
Vid thekkjumst ekki neitt en eg vil thakka ther fyrir svona falleg skirf um fjolskyldu thina og thennan kafla i lifinu sem er flest ollum erfidur og sar.
Eg bid um frid i hjarta ykkar, megi thessi veruleiki sem thid erud i nuna verda fridsaell eins og haegt er.
Megi thu og thid oll finna styrk eins og haegt er.
Med bestu kvedjum fra okunnugri konu i Vinarborg sem stundum skodar blodin.
Erla Erlingsdottir Hjukrunarfraedingur hja Kjarnorkumalastofnuninni.

Nafnlaus sagði...

Þessir pistlar þínir sýna okkur hve erfitt lífið er en þó hve hægt er að sjá fallegt líf í erfiðleikunum! Það hljómar sérkennilega en orð megna lítið. Guð geymi ykkur öll og styrki í mótlæti. Takk fyrir orðin þín og fallegar hugsanir.

Bergljót Hreinsdóttir sagði...

Hef fylgst með skrifum þínum og dáist að einlægni þinni og kærleika..:) Sendi engla ljós og bænir og vona að Þinn heittelskaði nái að hvílast..<3
Gangi ykkur sem best:)
Kv.
Bergljót Hreinsdóttir

Unknown sagði...

Sendi þér og þínum hlýjar kærleikskveðjur..
kv Ásta

Nafnlaus sagði...

Sá þig í sjónvarpinu áðan, passaðu vel upp á sjálfa þig. Ég skal biðja hann Guð minn að taka vel á móti manninum þínum og gera honum vistaskiptin auðveld. kærleiks kveðja

Nafnlaus sagði...

Kæra fjölskylda.
Sendi ykkur kærleikskveðju á þessum erfiðu tímum.
Með kveðju
Valgerður O

Nafnlaus sagði...

Kæra Vilborg og fjölskylda

Mínar bestu óskir um frið og kærleika á þessum erfiða tíma.

Bestu kveðjur
Hrefna Díana þjóðfræðingur

Nafnlaus sagði...

I hope for peace for you and Bjorgvin, your caring lover, in these final stages of his life, Vila. He will always be with you.
All my love
Morag D.x

Nafnlaus sagði...

Knús til ykkar.
Valgerður B.

Nafnlaus sagði...

Kæra Vilborg
Hjarta mitt og hugur er hjá ykkur fjölskyldunni. Ég eins og aðrir dáist að einlægninni og fallegum skrifum þínum um endastöðina og ást þína á manninum Þínum. Bið algóðan Guð um að styðja ykkur og styrkja á erfiðum tímum.
Kærleikskveðjur frá Húsavík
Jóhanna (ókunnug)

Nafnlaus sagði...

Þið eruð í bænum mínum. Sendi ykkur ljós og góðar hugsanir <3

Kærleikskveðja frá Sandvík,
Jóhanna

Unknown sagði...

Knús til þín Vilborg mín. Hugsa til þín og sendi þér góða strauma.

Kv. Lóa (félagi þinn úr leynifélaginu fyrir svona 10 árum)

Nafnlaus sagði...

Knúz

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa mín og Björgvin, þið eruð í bænum mínum <3 Hjartans þakkir fyrir allt og allt <3
Ljós og litir,
Lóa frænka.

Nafnlaus sagði...

Sæl kæra frænka.
Þú ert í hugsun um mínum og bænum.
Megi góður Guð styrkja ykkur á komandi dögum.
Kveðja,
Anna Lilja Torfadóttir

Nafnlaus sagði...

Kæra Vilborg.

Falleg og einlæg skrif þín um það sem sjaldnast er rætt, hafa sannarlega snert við strengjum inni í mér. Það er svo mikið hugrekki og sálarstyrkur í þeim falin - hafðu kæra þökk fyrir að deila þeim með okkur, þau hafa fengið mig til að hugsa. Ég sendi þér og fjölskyldu þinni hlýjar hugsanir á þessum erfiðu tímum. Kær kveðja frá ókunnugri ungri konu í Danmörku.

Nafnlaus sagði...

Kæra Vilborg - þekki þig aðeins gegnum skáldsögur og nú skrif þín sem ég met mikils og ekki aðeins hjálpa þér og þínum heldur einnig mér, t.d. í veikindun mínum sem eru léttvæg miðað við allt sem þið gagnið í gegnum.
Vona að þú getir haldið áfram að miðla úr viskubrunni þínum og fáir stuðning til að bæta í hann.
Kær kveðja,
Björg

Nafnlaus sagði...

Elsku Vilborg

Hugur minn er allur hjá þér nú um daga þar sem ég er búinn að lesa greinar þínar og hvað þær eru fallega orðaðar og hvað þú ert sterk að geta sest niður og skrifað um þinn ástvin og innt bæði honum og börnum ykkar af alúð <3 Ég bið al góðan guð um að vevja ykkur styrk og hlýju <3 Guð geymi ykkur og var veiti á þessum erfiða tíma.

Unknown sagði...

Kæra Vilborg.
Þetta eru einstakir dagar, þó þeir séu fullir sorgar. Besta vinkona mín dó á Líknardeildinni, ég kom daglega, og þú lýsir því svo vel, hvernig andrúmsloftið þar er. Ég fór tárfellandi inn- og út, en þegar komið var inn, umvafði mann þessi hlýja og kærleikur. Og stundum hreinlega gleði. Og við áttum örfáa góða daga, gátum spjallað í tærustu einlægni; jafnvel dreypt á hvítvíni og borðað pönnsur, sem ég hafði meðferðis. - Og svo var allt búið. - Ég þakka þér fyrir allt sem þú gefur af þér, og nær svo vel til okkar.

Nafnlaus sagði...

Sendi ykkur stórt kærleiksknús. Falleg grein og vel skrifuð. Guð veri með ykkur. ókunnug kona.

diddarikk46@gmail.com sagði...

Þetta er svo mikill sannleikur sem þú skrifar hér Vilborg! Ég hef sjálf fylgt mínum heittelskaða síðustu sporin á Líknardeildinni árið 2007 og ég á engin orð yfir hve þar er yndislegt andrúmsloft. Ég hefði ekki viljað missa af þeirri reynslu og upplifun. Takk fyrir þín fallegu skrif hér.

kveðja
Kristín

appu sagði...



Spiderman homecoming Public Holidays 2017
Happy New Year 2017 SMS
enem 2016 resultado
cat 2016 result
new year 2017 wallpapers
resultado enem 2016
Diwali Wishes
Happy Onam Images Happy Onam wishes Whatsapp Status for Christmas Christmas Whatsapp Status