Líf í árvekni: Í hliðinu

föstudagur, 8. febrúar 2013

Í hliðinu

Ég finn að trúarvissa mín styrkist eftir því sem nær dregur lífslokum Míns heittelskaða. Ég er sannfærð um að hans bíður nýtt ævintýri þegar hann gengur í gegnum hliðið og stígur inn í Guðsríki. Eitthvað sem er svo stórkostlegt að við sem enn erum hérna megin getum ekki einu sinni gert okkur það í hugarlund. Þar ríkir kærleikurinn öllu ofar.

Bænirnar og hlýhugurinn sem hafa umvafið okkur að undanförnu hefur fært Björgvin frið og værð. Við komum hingað á Líknardeildina í Kópavogi á sunnudag og á þriðjudagskvöld hafði hjúkrunarfólkinu tekist að stilla lyfjagjöfina hans þannig að eirðarleysið hvarf og hann hefur sofið værum svefni síðan. Hann sefur þó ekki mjög fast, losar blundinn þegar við segjum nafnið hans stundarhátt og líka stundum til að hagræða sér í rúminu.

Við sjáum hvernig líkami hans er að draga sig æ meir í hlé, sálin að undirbúa flugið. Á hverjum degi merkjum við breytingar í þessa veru og nú er svo komið að púlsinn er orðinn veikari og öndunin hefur breyst sem gefur ótvírætt til kynna að tíminn sem hann er á meðal okkar styttist.

Á líknardeildinni er ekki aðeins búið vel að þeim sem er deyjandi heldur einnig aðstandendum. Á herberginu er aukarúm og að kvöldi er það fært að rúmi Míns heittelskaða þannig að við hjónin getum sofið ,,í einni sæng" líkt og við erum vön.

Skottan kom hingað upp úr hádegi í gær og við mæðgurnar fórum í stutta gönguferð meðfram Kópavoginum á meðan góð frænka sat hjá systursyni sínum. Hér er ákaflega falleg útsýn yfir sjóinn og gott að geta í miðri borginni samt verið í slíkri nánd við náttúruna.

Gæsir halda hér til margar og forðuðu sér vagandi á hlaupum þegar Skottan ákvað að athuga hversu nálægt þeim mætti komast - og tóku síðan flugið upp í bláan himininn.

Síðdegis komu Sú uppkomna og Úngi maðurinn líka og við áttum öll notalegt kósíkvöld saman inni á stofunni, horfðum á vídjómynd (Harry Potter og eldbikarinn þótt við Skottan séum ekki alveg búnar með bókina) og borðuðum pizzur og sælgæti. Skottan gisti síðan hér hjá okkur og nú er hjá henni eins konar aukalegur laugardagur; hún horfir á teiknimyndir í tölvunni hans pabba og borðar restina af snakkinu sem stóru systkinin skildu eftir á milli þess sem hún tekur hlaupaspretti fram í eldhús og setustofu. Prófaði líka dálítið hjólastólarall áðan eftir stofuganginum, móður sinni til dálítilla vandræðalegheita. En hjúkrunarfræðingarnir brostu bara og sögðu: ,,Það er gott að hún getur leikið sér."

Á eftir viðtalinu við yðar einlæga í þættinum Íslandi í dag á Stöð 2 í vikunni var sýnt viðtal við Unni Guðjónsdóttur sem hefur farið í 34 ferðir til Kína og sankað að sér ótrúlegum fjölda muna þaðan. Í lok samtals hennar og dagskrárgerðarmannsins kom fram að á laugardaginn lýkur ári drekans samkvæmt kínversku tímatali. Hjartað í mér tók kipp þegar hún sagði þetta.

Þið sem hafið fylgst með göngu okkar á þessum síðum skiljið hvers vegna. Þegar heilakrabbameinið greindist fyrir sjö árum og ég hóf að deila reynslu okkar þá fórum við að kalla meinið drekann og gáfum sjálfum okkur um leið aðalstitla: Mín er Hin undurfagra prinessa ævintýrisins, Minn heittelskaði Hugrakki prinsinn.

Og hvað tekur svo við þegar ár drekans er liðið? Jú, það er ár snáksins. Ég og Minn erum bæði fædd á ári snáksins, ég í september árið 1965 en hann í nóvember. Ég þekki ekkert til kínverskrar stjörnuspeki en í þjóðfræði Evrópu - og víðar - er snákurinn tákn eilífrar endurnýjunar og eilífs lífs vegna þess að hann skiptir um ham. Hann varpar af sér gamla hamnum sem hefur lokið sínu hlutverki og kemur ekki að gagni lengur og skilur hann eftir og heldur leið sinni áfram í nýju og glansandi skinni.

Megi mátturinn vera með ykkur.

18 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk Villa, þú gerir þetta allt svo miklu auðveldara fyrir okkur að bæði skilja og upplifa þó að hvorutveggja sé aðeins fölur skuggi af því sem þú sjálf ert að upplifa. Mér varð að hugsun þegar ég las síðustu málsgreinina að í raun er drekinn að ganga sín síðustu spor og að hér er barátta hans að ljúka meðan Björgvin heldur áfram þó í öðrum ham sé.
Kveðja Gunni bróðir

Nafnlaus sagði...

Gud er med ykkur og thinum

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa, Takk fyrir að gefa okkur hlutdeild. Guð og allir góðir englar umvefji ykkur kærleika sínum.
Kær kveðja,
Lóa frænka.

Nafnlaus sagði...

..Þú ert einstök

Hallgerður Pétursdóttir

kjartan sagði...

Þú ert einstök Vilborg mín. Algerlega einstök. Mikið væri ég þakklátur ef ég hefði aðeins brot af því hugrekki og æðruleysi sem þú býrð yfir.
Það er gott að fá að fylgja ykkur eftir í þessari erfiða lífsskeiði.

Bestu kveðjur og knús til ykkar frá Sverige
Kjartan <3

Nafnlaus sagði...

Æðruleysi þitt er ótrúlegt.
Ég bið fyrir þínum heittelskaða,
þér og þínum.

villa olvers sagði...

Sæl nafna.
guð gefi ykkur allan þann styrk sem þið þurfið.
Það logar kerti fyrir þinn heittelskaða og ykkur og bið ég alla engla heimsins að vaka yfir ykkur.
Kærleikskveðjur.
Villa

Nafnlaus sagði...

Ótrúlegt æðruleysi og opinská umfjöllun um hluti sem við mannfólið veigrum okkur oft við að ræða um. Takk fyrir að gefa innsýn.

Sigríður H. Sigurðardóttir

Daddi bróðir sagði...

sammála Gunna bróðir

Nafnlaus sagði...

Hafðu þökk fyrir fallega pistla og viðtal. Megi allt gott fylgja ykkur og styrkja á erfiðum tíma. Hlýjar kveðjur. Laufey, ókunnug.

Nafnlaus sagði...

Elsku þið öll
Yndislegt að heyra að rúminu eru flutt saman eins og vant er.
Þú setur þetta fram Vilborg eins og ævintýri eða fallega sögu, sem það,kannski er. Því ef Lífið getur verið ævintýri ætti dauðinn að geta verið það líka, ef fólk hefur þína og ykkar sýn og þroska.
Allavega þó það sem er að gerast í ykkar lífi sé ótímabært og illásættanlegt þá gerir þú það fallegt en sorglegt.
Megi trúin og kærleikurinn,halda áfram að styrkja þiig og ykkur öll.
Þess óskar Sólveig af öllu hjarta.

Nafnlaus sagði...

Þakka þér fyrir að deila reynslu þinni með okkur.
Megi ár snáksins færa þér og þínum nýtt upphaf af lífsins göngu.
Guð veri með ykkur öllum á göngu ykkar gegnum lífið og dauðann.

ókunnug kona á förnum vegi

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir falleg skrif og gott viðtal .Megi allar góðar vættir vaka yfir ykkur.Hlýjar kveðjur Alma

Nafnlaus sagði...

Kæra Vilborg,
megi góður Guð vaka yfir ykkur fjölskyldunni á þessari örlagaríku stundu, gefa ykkur öllum styrk til að takast á við framhaldið og þínum heittelskaða ljúfa lendingu á æðri stað. Ég dáist að æðruleysi þínu og styrk.

kærleikskveðja
ókunnug

Nafnlaus sagði...

Guð geymi ykkur.

Nafnlaus sagði...

I have read your blog tonight,Vila and like you, realise that Bjorgvin is ready to end his journey in this world.I hope all remains peaceful for you both at this time. The Hospice sounds wonderful, the ideal support for you all.
I received your e-mail and will write soon, but it will take me some thought to answer with my memories.
All my love to Bjorgvin,to you and to Sigrun. My heart is with you.
Morag D.x

Nafnlaus sagði...

Kærleikskveðjur frá mér og mínum. Dedda.

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus skrifari.
Mann setur hljóðan að lesa skrifin þín. Þvílíkur kjarkur og einlægni. Guð styrki ykkur, umvefji og leiði um alla framtíð.
Kærleikskveðjur.