Líf í árvekni: Að eiga ævintýralegt líf

mánudagur, 26. nóvember 2012

Að eiga ævintýralegt líf

Eins og fastagestir á þessari síðu vita þá tókum við hjónin upp á því að kalla krabbameinsæxlið í höfði Míns heittelskaða ,,drekann" stuttu eftir að við fréttum af tilvist þess fyrir tæpum sex árum. Nafngiftina má auðveldlega misskilja sem svo að við lítum á sjúkdóminn sem eldspúandi ógnvald sem hafi yfirtekið allt okkar líf. En það var nú aldrei meiningin heldur einmitt hið gagnstæða eins og lesa má um í fyrsta pistlinum sem ég skrifaði um söguna af prinsessunni undurfögru og hugrakka prinsinum hennar og drekanum sem lék sér við lambhrút þegar hann átti að vera að gæta prinsessunnar fyrir vonbiðlum í turninum háa.

Síðan þá hef ég komið auga á stöðugt fleiri líkingar með hinu sígilda ævintýri og lífinu sjálfu, ekki síst því lífi sem við Minn höfum lifað frá því að við gengum inn í krabbameinsveröldina, nauðug viljug. Í þjóðfræðinni lærum við um frásagnarliði ævintýrisins, sem rússneski þjóðsagnafræðingurinn Propp rakti fyrir löndum sínum árið 1928 og alllöngu síðar vestrænum kollegum. Hann hafði þar liðina 31 talsins ef ég man rétt og þá er ekki alla að finna í hverju einasta ævintýri en nokkrir þeir helstu eru svo algengir að eiginlega má segja að það séu þeir sem gera ævintýri að ævintýri. 

Í fyrsta lagi þá er hetjunni hrundið af stað út í ævintýrið. Hún er yfirleitt mjög treg til að yfirgefa öryggi heimilisins og stundum þarf að beita talsverðu ofbeldi til þess að reka hana af stað. Oft er hetjan munaðarlaus og á bágt, er sú minnsta systkina sinna og sú sem minnst er búist við af, lítilmagni og látin vera í öskunni. Ef systurnar heita Ása, Signý og Helga þá eru Ása og Signý í uppáhaldi hjá karli og kerlingu - en píslin Helga litla er sú sem er rekin af stað með harðri hendi þegar þær snúa ekki aftur úr leitinni að Búkollu.

Af frægum kvikmyndahetjum má til dæmis benda á ofurhetjur eins og Súperman og Batman, báða munaðarlausa frá unga aldri. Súpermanni var m.a.s. sem ungbarni skotið í geimskipi til jarðar á sama augnabliki og plánetan hans Krypton var sprengd í tætlur með þeim afleiðingum að allt hans fólk lét lífið. Mér hef heyrt fleiri en eina og fleiri en tvær segja frá því að þeim hafi einmitt fundist sem þeim þætti jörðinni bókstaflega hafa verið kippt undan fótum þeirra þegar vitnaðist að við krabbamein væri að etja. 

Nú nú, hetjan leggur af stað og ekki er sjálfstraustinu fyrir að fara sem von er eftir allar þær úrtölur sem hún hefur mátt þola í æsku. Eiginlega má segja að hetjurnar hafi undantekningalítið orðið fyrir því sem í dag nefnist einelti (hvað erum við mörg sem þekkjum þess háttar á eigin skinni...?) En svo fer að hún eflist við hverja þraut og er ráðabetri en ætla mætti, brjóstvitið og hjartagæskan hafa betur en græðgin og eigingirnin eldri systranna/ bræðranna sem telja sig allt vita og kunna.

Þessu næst er skúrkurinn kynntur til sögunnar, sem Propp kallar reyndar líka skortinn því stundum er einhverju rænt (Búkollu t.d.) í stað þess að skessan/ drekinn marseri inn á sögusviðið með fyrirgangi. Hér höfum við þá drekann okkar Míns heittelskaða. Eða liðagigtina, MS eða ME sjúkdóminn, alkóhólismann, þunglyndið, kvíðann, erfiðleika Únglingsins ... hvaðeina það sem við á og hrjáir okkur sjálf eða ástvini okkar.

En ekki er þó langt liðið á gönguna til móts við átökin þegar hetjan kemst að því að hún er aldeilis ekki einsömul á ferðalaginu eins og hún hafði talið í fyrstunni. Fram undan hólum og steinum spretta fram hjálparhellur sem leggja henni til heilræði og töfragripi sem munu koma að góðum notum í þrautinni sem framundan er, hvort sem það er nú að finna Búkollu, fyrirkoma tröllskessu eða dreka.

Takið eftir því að hjálparhellurnar, gamlar konur, dvergar og dýr, eru oftar en ekki í líki þeirra sem við búumst síst við því geti lagt öðrum lið. Lesist: Við skulum horfa í allar mögulegar áttir eftir hjálparhellum en einblína ekki á að einhverjar tilteknar persónur eða stofnanir ,,eigi" að hafa svörin við öllum okkar vandræðum.

Eitt og annað kemur upp á ferðalaginu og stundum höldum við að við komumst ekki lengra en svo setjum við annan fótinn fram fyrir hinn og sjáum að við getum reyndar meira en við héldum og allt mjakast þetta í áttina. Einn dag í einu, skref fyrir skref. Og inn á milli koma rólegir dagar og þá má fara ofan í körfuna og sækja bláköflóttan dúk, Thermos-brúsa, kleinur og eggjasamlokur og setjast niður í rjóðri og eiga notalega stund með þeim sem styðja okkur á göngunni.

Ævintýrin enda eins og alkunna er alltaf á því að hetjan hefur betur betur en skúrkurinn, hvort sem sá er foráttuljótur tröllkarl, andstyggileg skessa í stjúpulíki eða eldspúandi dreki. Og fær að launum prinsinn/ prinsessuna og kóngsríkið að launum og lifir hamingjusöm til æviloka með Sinni/ Sínum heittelskaða. Úti er ævintýri og köttur úti í mýri setti upp á sig stýri.


Og nú hugsa kannski einhver ykkar sem svo: ,,Hvernig ætlar hún að snúa sig út úr þessu, konan? Því þótt prinsinn og prinsessan hafi hvort annað þarna í Hallveigarkastala þá er það nú svo að þótt læknavísindunum hafi fleygt fram þá verða ekki allir sjúkdómar læknaðir." Og víst er það rétt að ekki verða allir drekar að velli lagðir. Heilakrabbameiní verður aðeins haldið í skefjum um óákveðinn tíma, í einhver misseri eða ár, hve lengi vita aðeins örlaganornirnar þrjár undir aski Yggdrasils sem spinna okkur lífsþráðinn.

Áður en ég svara þessari vissulega réttmætu spurningu þá vil ég nefna nokkuð sem mér hefur legið á hjarta um langt skeið. Mér hefur alltaf leiðst hversu  fólki er tamt að líkja alls kyns verkefnum sem við þurfum að takast á hendur á lífsleiðinni við stríðsátök. Vettvangur stjórnmálanna er eins og vígvöllur þar sem menn skjóta föstum skotum á andstæðinginn og allt snýst um að ganga frá óvininum, helst þannig að hann standi ekki upp aftur eftir útreiðina. (Hverjir sigruðu í prófkjörum um helgina og hverjir töpuðu...) Í viðskiptalífinu snýst allt um að vera grjótharður í horn að taka og þar eru öll launráð leyfileg, vinna þarf bæði orrusturnar og stríðið. Og fólk líkir sjúkdómsmeðferð við stríð. Það talar um að einhver hafi ,,barist hetjulega við krabbameinið" en á endanum ,,tapað" og ,,beðið ósigur fyrir meininu". Úff! Var þá til einskis gengin gatan um ævintýraskóginn, úr því að þetta ,,tapaðist" allt á endanum?

Nei, ég kýs að líta öðruvísi á lífið. Baráttan sem við heyjum á hverjum degi við drekann á Skeljastöðum Míns heittelskaða snýst ekki um það að  láta sjúkdóminn hverfa, gufa upp, læknast í eitt skipti fyrir öll. Heldur hitt að njóta þess að vera til og lifa hvern dag til fulls og í þakklæti fyrir það sem við höfum, þrátt fyrir að allt sé eins og það er. Að þiggja, gefa og lifa í kærleika. Það eru sigurlaunin, kóngsríkið okkar, og þannig höfum við betur en drekinn. 

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Endalaust kennir þú mér kæra vinkona. Takk fyrir þennan góða pistil. Bestu kveðjur í Hallveigarkastala vonandi sjáumst við fljótlega. Vona að drekinn sofi vel og langa lengi.

þva
Matta

Nafnlaus sagði...

Þú ert stórkostleg! Þetta er eins og talað út úr mínu hjarta. Svo rétt og svo satt. Mikið mættu margir lesa þessa hugvekju. Því vekjandi er hún fyrir hug og hjarta.
Ástarkveðja,
Valgerður

Nafnlaus sagði...

Ég segi eins og stöllur hér að ofan, þú ert einstök og stórkostleg. Það er mannbætandi elsku besta systir mín að þekkja þig. Þú ert alltaf að kenna manni eitthvað nýtt ( ætli það sé ekki partur af uppeldi líka sbr. samtal fyrr í dag hahaha )
Knús & kreista. Sjáumst á morgun xxx

Auður Lilja

Ragga sagði...

Mikið eru þau fögur og rík, orðin þín öll, vitra Villa, vinkona mín.
Kærar kveðjur í Kastalann frá Röggunni.

Alda sagði...

Dásamlegur, frábærlegur pistill. Eins og allir hinir. Auk þess gæti þetta gæti verið efni í MA ritgerð í Þjóðfræði, þ.e. ef þú værir ekki þegar búin með hana.

Harpa Hreinsdóttir sagði...

Mikið er þetta góður pistill! Takk fyrir hann. Lífið er vegferð, ekki kapphlaup milli stoppistöðva ... svo ekki sé talað um kapphlaup að endastöðinni (hún er ekki það eftirsóknarverð þannig lagað). Lífið er ævintýraferð og eins og í almennilegum ævintýrum hendir margt misgott á þeirri leið.

Enn og aftur: Kærar þakkir fyrir bloggið þitt. Ég læri mikið á að lesa það. Gangi ykkur allt í haginn við að svæfa drekann illa.