Líf í árvekni: Hamingjan er að draga andann

þriðjudagur, 29. september 2009

Hamingjan er að draga andann

Í gær byrjaði ég að fylla út tímastjórnunareyðublöðin sem ég prentaði út hjá Námsráðgjöf Háskólans, full góðra fyrirheita eftir að hafa setið Málstofu meistaranema í þjóðfræði og hlýtt á góð ráð um skipulag og markmið og þess háttar. Er reyndar ekki alveg nýgræðingur í greininni, tók það upp eftir bókinni Hugræn atferlismeðferð fyrir vitgranna að gera mér stundatöflu hér um árið þegar þungt lyndi var mér fjötur um fót og hönd. Ákaflega gott fyrir sjálfsagann þegar kona starfar hjá sjálfri sér, og ekki síður til þess að hafa það svart á hvítu hvenær má taka sér frí með góðri samvisku.

Ekki þar fyrir, ég þjáist svo sem ekki af samviskubiti þótt ég hafi notið lífsins með hægð frá því að ég skilaði Auði minni í Forlagið fyrir nokkrum vikum. Búin að vera vinna stíft í 18 mánuði og kominn tími á að sinna mér og mínum, hitta vinkonur, hanga í símanum, lesa sænska krimma, hrunbækur og árveknibækur af ýmsu tagi, prjóna ullarsokka á stólfætur heimilins, þæfa ull utan um sápu, þæfa bolta fyrir köttinn Hallveigu, hekla mér lopablómsnælu og síðast en ekki síst, spjalla við spekingana: Skottuna og Únglínginn í skóginum. Makalaust hvað ég á gáfuð og vel gerð afkvæmi.

En Jemundur minn, hvað þeim væri skemmt, kaupmannssyninum og hinum stuttbuxnadrengjunum sem ég þrasaði hvað mest við í menntó fyrir aldarfjórðungi þegar hermannlegar vangamyndir af DO og Frikka Sóf. prýddu forsíðu SUS-blaðsins, ef þeir vissu hversu andstæðar skoðanir við Únglíngurinn höfum í pólitíkinni.

,,Frelsið /við höfum gert það að skækju / og við sofum hjá henni/ fyrir lítið verð," kvað Vilmundur heitinn Gylfason. Það hefur aldeilis hækkað verðið á því hjásofelsi og annað skáld búið að skrifa heila Hvítbók um það.

Svo hef ég líka verið vant við látin við að velta fyrir mér um hvað meistararitgerðin mín á að fjalla; ákveðin í að hefjast handa eftir áramótin. Búin að sitja dagsráðstefnu í Norræna húsinu um helsta hugðarefnið, menningarlegan skyldleika mörlandans við Bretlandseyjaskeggja, og hitti þar í kring hvern prófessorinn af öðrum til skrafs og ráðagerða: einn sænskan búsettan á Írlandi, einn enskan, sömuleiðis búandi á eynni grænu og einn amrískan með búsetu í Eiðinaborg, Skotlandi. Hugmyndin er að mótast, sýnist að framundan sé umfangsmikill lestur á þjóðsögum Orkneyinga (myndin af steinahringnum er frá Orkneyjum), Hjalta og Íslendinga.
En markmiðið áður en að því kemur er að ljúka við að færa lokaritgerðina mína í þjóðfræðinni í bókarform og koma í prentun hjá Guðjóni Ó (sem stofnaði reyndar prentsmiðjuna sína hér í stofunni fyrir margt löngu). Kilja er það heillin, í A-5 broti, titillinn þessi: Eru álfar á ferð? Grímu- og heimsóknasiðir á Íslandi um áramót og á þrettánda.Innan um (snilldarlega skrifaðan) sirka hundrað síðna textann verður góður slatti af ,,álfamyndum" sem viðmælendurnir mínir léðu mér, sú elsta frá árinu 1944 (sjá að ofan, tekin á Hrafnseyri), sú nýjasta frá 2004. Verðinu verður stillt í mikið kreppuhóf, hyggst fylgja þeirri venju sem amma og afi á Hofi höfðu við verðlagningu á sínu handverki, að hafa rétt fyrir efniskostnaði og kannski ekki alveg (þau sem eru áhugasöm um að tryggja sér eintak geta senda inn pantanir á netfangið mitt: vilborg (hjá) snerpa.is). Þegar nær dregur skelli ég hér inn ítarlegri texta um þetta tímamótaverk, sem líkt og fyrr segir, skal hafast að ljúka við ekki seinna en fljótlega.

Á morgun fer Minn heittelskaði í sína hálfsárslegu segulómunarmyndun á heila, niðurstöður um hegðan drekans í kolli hans degi síðar. Eftir nokkra daga verða komin þrjú ár frá því að við fengum að vita um heilaæxlið, þann 11. október 2006, sem þá var talið hægt vaxandi, af 2. gráðu. Í janúar 2007 var Minn skorinn upp og helmingurinn af 8 sentímetra hlunknum fjarlægður úr gagnaugablaði heilans vinstra megin, og í ljós kom að staðan var sýnu verri en talið var í upphafi: ört vaxandi æxli af 3. gráðu og ,,næstum fjórðu" - daglegt geislastríð hófst við drekann mánuði síðar og stóð í sex vikur.

Síðan þá hefur allt verið með kyrrum kjörum, drekinn sefur, rotaður af geislunum, þ.e. heilaæxlið hefur ekki vaxið að umfangi svo sjáanlegt sé á segulómmyndum en Minn hefur vaxið að kröftum til slíkra muna að hann er nú á öðru ári í starfsréttindanámi í klínískri sálfræði. Í flestu gengur honum ákaflega vel en lestur og verkefnavinna tekur allan hans tíma, einbeitingin er ekki sú sem hún var áður, og minnistruflanirnar valda vandkvæðum sem krefjast æðruleysis af þeirri gerð sem aðeins örfáir búa yfir: fólk eins og Gandhi, móðir Teresa og Minn (og góðrar konu sem sér að mestu um tilfallandi húsverk á meðan lært er).

Í gegnum netskrifin mín um baráttuna við drekann og gönguna í gegnum ævintýraskóginn sem lífið okkar er, hef ég komist í tengsl við nokkra ,,ferðafélaga" sem takast á við svipaðar þrautir. Einn slíkur, fjölskyldufaðir á miðjum aldri, er í þessum skrifuðum orðum að gangast undir sína þriðju heilaskurðaðgerð á fimm árum á Landspítalanum, á að baki bæði geislameðferð og lyfjameðferð, og enn vex ófétis æxlið. Annar, kona mér tengd í gegnum móðurættina mína, fær nú sprautur og lyf í töfluformi eftir að heilaæxli tók sig upp á ný; hún var skorin upp og geisluð um svipað leyti og Minn heittelskaði. Í sumar las ég minningargrein um þriggja barna móður sem lést af völdum heilaæxlis, kannaðist við nafnið; hún hringdi í mig til Edinborgar, þessi ljúfa kona, í janúar 2007, hafði lesið bloggið og skildi hvað við var að eiga, var þá á batavegi eftir erfiða aðgerð hér heima. Það er undarlegt ferðalag, þetta líf. Þið sem eigið andartak aflögu, sendið þessu fólki og aðstandendum þeirra góðar og hlýjar hugsanir; kærleikanum eru engin takmörk sett, hvorki í tíma né rúmi.

En eins og ég sagði í upphafi þá fyllti ég út tímastjórnunarblöðin námsráðgjafanna í gær. Markmiðasetning, aldeilis eitthvað fyrir mína. Ákveðin í að hætta þessu hangsi og byrja að vinna af krafti í álfakiljunni. En í morgun vaknaði ég með svo þrælstíbblað nef að öll góð áform eru farin út um haustlitaðar þúfur. Afreka ekki meira en þennan alltof langa pistil í dag sem hefur kostað þrjá tebolla, fjórar hálstöflur, einn rauðan ópal, þó nokkra snýtuklúta og hálft glas af Otrivin (manneskjan sem fann upp Otrivin-nefúðann ætti að fá nóbelsverðlaunin í efnafræði).

Hamingjan er að draga andann, hindrunarlaust.

p.s. Þeim sem vilja hvað efsta myndin á eiginlega að fyrirstilla er
bent á að fylgjast með útgáfufréttum Forlagsins í kringum miðjan október.

Engin ummæli: