Líf í árvekni: Góð tíðindi úr efra

fimmtudagur, 1. október 2009

Góð tíðindi úr efra

Það hefur verið haft á orði á Snjáldurskræðunni (eins og það sé ekki þetta fína, og svo til ónotaða, kommentakerfi hér á Lífi í árvekni, hrmpf ...) að yðar einlæg eigi það til að vera margorð á lyklaborðinu. Nokkuð til í því, sérdeilis þar sem hér er enginn til að grípa fram í. Og það er annað hvort í ökkla eða eyra; annað hvort er ekkert ritað hér á meðan tungl vex og minnkar og vex aftur eða tvær færslur birtast í einni og sömu vikunni.

En þessi verður ekki löng (held ég). Erindið er það eitt að segja aðdáendum Míns heittelskaða frá því að segulómunarmyndin sem var tekin af heilanum hans í gær var alveg eins og hinar (teljitelj...) sjö eða átta sem hafa verið teknar frá því að Minn lauk geislastríðinu í Eidinborg vorið 2007: Drekinn sefur á sínu græna og hefur ekki vaxið neitt að séð verði með ítrustu bergmálstækni og litarefnisinnspýtingum. Og ekki nóg með það, doktor Jakob féllst strax á tillögu Míns um að láta ófétið ómyndað í heilt ár!

Prinsessan undurfagra gaf til kynna með miklum augnabrúnalyftingum og ennishrukkum að hún væri ekki alveg jafnhiminlifandi með það og prinsinn hugrakki en féllst síðan með semingi á árslangt afskiptaleysi eftir að hafa tekið heilagt loforð af piltinum um að hringja strax og á stundinni í doktorinn og óska eftir myndatöku ef eitt einasta einkenni um halaslettur eða reykský úr drekagininu gera vart við sig í kollinum (óvænt-og-ekki-sjáanlega-af-öðrum-ástæðum flog, höfuðverkur, geðvonska, ógleði, auknar minnistruflanir og kannski eitthvað fleira sem ég veit ekki ennþá hvað gæti verið en mun komast að því).

Með það fór hann glaður með nýja nafnspjaldið sitt á bringunni yfir á geðdeildina, nei, ekki til innlagnar: kandídatsykólógí-neminn kominn í starfsþjálfun og skondrast nú í hverri viku á milli Geðsins, Hvíta bandsins og háskólans.

En úr því að ég er nú byrjuð að pikka á annað borð (yfirlaggan í Árnessýslu er beðin að hætta að glotta, andskoti varstu annars flottur í júníforminu í sjónvarpinu um daginn) þá langar mig að biðja þá sem eiga hlýjar hugsanir aflögu að senda þær hingað og bara til allra sem glíma við þennan arma ára sem krabbamein er. Góð kona, móðir 19 ára krabbaþjáðs pilts, sagði einu sinni við mig: Hinn heilbrigði á margar óskir, hinn sjúki aðeins eina. Höfum það á bak við eyrað þegar pólitíkin/kreppan/veðrið/blankheit/nágranninn fer í pirrurnar á okkur.

5 ummæli:

Kolbrún sagði...

Mikið er ég glöð að heyra þetta Vilborg.

Sendu mínar bestu kveðjur til Björgvins.

Edinborgin bað að heilsa ykkur líka, hún tók á móti mér björt og fögur en hinsvegar var Prinsastræti ekki eins fagurt heldur hreinlega í rúst þar sem verið er að leggja fyrir sporvögnum.

kær kveðja, Kolbrún

Sigga J sagði...

Gott að heyra Villa mín. Yfirlaggan í Árnesinu var voðalega virðulegur þarna í fréttunum í gær. Annars detta nú ýmis gullkorn frá honum á fésinu. Sum óskiljanleg og önnur minna skiljanleg.. :-)

Nafnlaus sagði...

Dásamlegt, nú er hún Vilborg allt í senn, langorð, margorð og oftorð (ef það er þá orð) Það er gaman hjá okkur þegar þú er á milli bóka því þá bloggarðu svo oft og mikið.
Til hamingju með góða útkomu úr sneiðmynd og hvenær hyggur þú á útgáfupartý vegna Auðar?
þva
Matta

Nafnlaus sagði...

Frábærar fréttir!Kærar kveðjur frá okkur og hamingjuóskir ,mamma og pabbi. Vantar þig nokkuð vettlingana strax?

Nafnlaus sagði...

Júbb. leit í spegil. Glottið er þarna enn og ekki aö fara neitt. Gleðilega hátíð frú og fólkið þitt.

Oddurinn