Líf í árvekni: Guðdómlegt áreynsluleysi

laugardagur, 29. ágúst 2009

Guðdómlegt áreynsluleysi

Sjálfri finnst mér að fólk eigi ekkert með að vera að halda úti bloggsíðu nema það drattist til að skrifa reglulega. Mikið er ég til dæmis fegin því að uppáhalds bloggarinn minn, hún Harpa íslenskukennari á Skaganum, er farin að skrifa pistlana sína aftur eftir sumarfrí.

Þessi nenna gengur samt í fullkomlega órökstuddum bylgjum hjá sjálfri mér og engin skýring eða afsökun við hendina fyrir undangengin skort á henni: bókin um Auði komin í umbrot, allir byrjaðir í skólanum aftur (nema ég) og dagleg verkefni að fá sinn ágæta vanagang aftur eftir lausagang sumarsins.
Þegar mér líður þannig að mig langar að deila mínu með veröldinni þá raðast orðin saman af sjálfu sér í kollinum á mér á meðan ég er að ganga, hjóla, strauja, sópa. Eða þrífa ofninn, eins og í kvöld. Líkast til er beint samband á milli líkamlegrar iðju sem ekki krefst einbeitingar en þó ákveðinnar natni og meðvitundar og þess að fá hugmyndir. Hmm ... er eitthvað frumlegt að fæðast hér?

Alla vega, lífið flæðir áfram þessa dagana í ,,guðdómlegu áreynsluleysi" eins og segir á góðum stað að það geti gert þegar hugsun og þroska miðar áleiðis í rétta átt: ég keppist við að lifa í núinu og njóta líðandi stundar, vera árvökul gagnvart augnablikinu (sbr. yfirskriftina) og draga að mér andann í þakklæti fyrir allt sem er.

Minn heittelskaði er að hefja seinna árið í Cand.Psych. (les kandsik) starfsréttindanámi í sálfræði í HÍ og les eins og hestur (hvaðan kemur þetta eiginlega með lestrarhestana?), líka á laugardögum þannig að í dag, eins og margan annan laugardaginn, áttum við Skottan góða stund á Borgarbókasafninu og aðra ekki síðri í Kolaportinu þar sem við gerðum ítarlega úttekt á vöruúrvali og mannlífi.

Komum heim mæðgurnar síðdegis, hlaðnar bókum af safninu og dýrgripum af flóamarkaðinum, þar á meðal þessum líka fína tjullkjól frá Kínaveldi (á litlar 1.500 krónur) sem brúka má til að breyta sér í prinsessu, álfamær eða ballerínu á einu augabragði, litla styttu af hundi (við hittum nefnilega Friggu frænku sem reif upp budduna um leið og Skottan opnaði munninn og sagði ,,mig langar í ..."), gómsætar sunnlenskar fjallagrasaflatkökur og þrjá mynddiska fyrir þúsundkall. Þar af fara tveir í jólapakka; nú er Yðar einlæg nefnilega ákveðin í að vera bæði hagsýn og skipulögð og dreifa jólainnkaupunum á lengri tíma en síðustu viku fyrir jól, vitandi að desember verður ákaflega annasamur: ég mun eiga fullt í fangi með að halda mér á floti í jólabókaflóðinu með Auði minni. Og kannski tekst mér meira að segja líka að koma út annarri bók á eigin vegum: styttri útgáfu af lokaritgerðinni minni í þjóðfræði um grímu-og heimsóknasiði á þrettánda og um áramót. En meira um það síðar.

Og talandi um hana, sko Auði, ekki þrettándaritgerðina, þá ákvað ég þarna áðan þegar ég var að skrúbba ofninn (með matarsóda, það svínvirkar og er auk þess bæði ódýrara og heilsusamlegra en þessi hefðbundnu eiturefni sem seld eru til ofnhreinsunar) að ég myndi svona að gamni botna pistilinn í kvöld með sýnishorni. En það er eins og með upplestra, það er alltaf fjandanum erfiðara að velja brot úr 300 blaðsíðum. Yfirleitt les ég upp byrjunina þar sem mannskapurinn er kynntur og sögusviðið, að taka innan úr verður vitanlega alveg samhengislaust, allt hefur sinn aðdraganda og svo framvegis. Þannig að þið fáið hér nokkrar fyrstu línurnar.Framan við fyrsta kaflann kemur fram á ákaflega fagurlega skreyttri - en þó ekki um of - síðu í keltneskum/norrænum stíl að tíminn í sögubyrjun er sólmánuður árið 853, staðurinn eyjan Tyrvist, vestur af Skotlandi, ein svonefndra Suðureyja. Hér má sjá fleiri ljósmyndir frá þessari yndislegu eyju, þar sem sólarstundir eru flestar á Bretlandseyjum öllum, ef ekki víðar. Minn og ég áttum þarna nokkra ljúfa daga sumarið 2007, í sólmánuði, hvar ég nam fróðleik um fortíðina af innfæddum á sögusetri þeirra An Iodhlann.

Suðureyjaheitið kemur reyndar af því að norrænir menn komu fyrst til Orkneyja, norðan við Skotland, líkast til á áttundu öld, og fóru þá í suður þegar þeim óx ásmegin á þeirri níundu og lögðu líka undir sig margar ef ekki allar eyjarnar sem innfæddir kalla Hebrides og guð einn má vita hvernig var sagt fyrir ellefu öldum á péttnesku. Sumir halda reyndar að það heiti sé upphaflega úr norrænu máli og hafi einhvern tímann verið Hafbrúnseyjar eða Hafbreiðueyjar, en það finnst mér nú ekki sérlega trúlegt. Eins og innfæddir hafi ekki haft eigin heiti yfir eigin heimkynni?!

Og hvað varðar sólmánuð: norrænt fólk nefndi mánuðinn sem sól er lengst á lofti vitanlega eftir sólinni. Júní (eftir rómversku gyðjunni Júnó Satúrnusdóttur) varð ekki til hér norður frá fyrr en á miðöldum og komst ekki í almenna notkun meðal formæðra okkar og feðra fyrr en seint á átjándu öld, jafnvel ekki fyrr en á þeirri nítjándu. En hvað um það, nóg komið af skýringum. Hér er upphaf sögunnar af Auði djúpúðgu Ketilsdóttur. Framhald 15. október . . .

Auður er horfin, enn og aftur.

,,Jórunn, farðu og finndu hana,“ segir Yngveldur. ,,Þú veist hvar hún heldur sig.“ Hún segir þetta ásakandi, eins og þær séu saman í ráðum um að vera henni til armæðu.

Jórunn fer reyndar nærri um það hvar Auður er. Einhvern tímann síðla nætur smokraði hún sér fram úr setinu sem þær deila og hvíslaði því í eyra hennar að hún ætlaði fram á Bjarghöfða að horfa eftir sæfólki í víkinni, það er helst á ferli í flæðarmálinu í birtingu, kannski sést til skipa, hún myndi koma heim í bítið með skelfisk. Jórunn hefði víst átt að segja eitthvað til að stöðva hana en tal Auðar um sæfólkið skýtur henni alltaf skelk í bringu og hún sneri sér til veggjar og hélt áfram að sofa, það hefði ekki verið til neins hvort sem var. Auður stenst ekki sumarnóttina og kemur og fer eins og henni sjálfri sýnist, finnst ekki nema hún vilji það og skilar sér alltaf heim um síðir til þess að taka við hirtingunni sem jafnan bíður hennar, hvort sem hún kemur með skeljar eða ekki því það er ambáttarverk að safna mararhettum.


5 ummæli:

Harpa sagði...

Takk fyrir hrósið, Vilborg: Ég roðna oní tær! Og gleðst ákaflega.

Ég fæ einmitt flottustu hugmyndirnar að bloggi á labbi um Langasand eða meðan ég ryksuga í helgarþrifum.

Við höfumst kannski ekki svo ólíkt að: Á morgun verð ég að kynna Unni djúpúðgu Ketilsdóttur flatnefs fyrir tveimur hópum - hún er væntanlega eitthvað skyld henni Auði þinni? Barnungarnir mínir sem koma úr Dölunum eru alltaf svolítið sárir yfir þeirri tiktúru Laxdæluhöfundar að láta þessa merkiskonu heita Unni og vera heiðna! Verður nú huggandi fyrir þau að fá nútímasögu um konuna þá, undir réttu nafni.

Hrönn sagði...

Facebook nægir mér engan veginn til að fá útrás fyrir skriftargleðina. Áður en ég byrjaði að blogga var ég í þremur netklúbbum, skrifaði helst um börn og barnauppeldi, nú skrifa ég liggur við eingöngu um hjólreiðar og samgöngur. Það tímabil mun án efa taka enda og þá fer ég að skrifa um eitthvað allt annað, en stundum hefur hugmyndin komið á undan verknaðinum hjá mér. T.d. þegar ég var á Ísafirði og var að skoða kort og spá í hvar ég gæti hjólað á leiðinni suður, þá fæddist hugmyndin að "Hjólaði þvert yfir Ísland". Svo varð ég eiginlega að framkvæma það svo ég gæti bloggað um það.

Dagbjört sagði...

Sæl Vilborg.

Ég fann ekki netfangið þitt, svo ég sendi þér smá línu hér. Mig langar til að komast í samband við þig varðandi hljóðbókarútgáfu af Hrafninum, sem ég er nýbúin að kaupa og ömmu mína sem auk þess er frænka þín :)

B.kv. Dagbjört
dagbjortas@gmail.com

Nafnlaus sagði...

It was good to see an udate in your blog.I wish I could understand your language Vila! Love the photographs- you look so well and I hope that is the case.
Send me a translation!!
I'll write soon
Love Morag D.x

Nafnlaus sagði...

Þessi litli bútur lofar góðu :) ég bíð spennt eftir framhaldi.

Kveðja Auður Lísa