Líf í árvekni: Ný vídd í sjónmáli

miðvikudagur, 29. júlí 2009

Ný vídd í sjónmáli

Ég þarf að gúggla til að komast að því hvað var að gerast í heiminum árið 1972: Fisher vann Spasskí, Óli Jó var forsætisráðherra, Nixon réði í útlandinu og Víetnamstríðið var innbyrt með ýsu, kartöflum og hamsafloti. Einn dagur frá þessum fyrsta vetri mínum í Barnaskóla Þingeyrar, snemma hausts 1972, er þó ljóslifandi í minningunni. Það var þegar ég fór í mína fyrstu skólaskoðun.
Minningin um berklaplástrana með sultunni rennur reyndar kannski saman við önnur skipti sem þeim var klesst á bringuna á okkur, það var gert árlega lengi vel, og sömuleiðis bólusetningarsprauturnar. Eða vorum við kannski stungin á Sjúkraskýlinu?

Alla vega, þetta fyrsta skipti er vandlega geymt í langtímaminninu, umvafið blendnum tilfinningum, súrum og sætum. Það var nefnilega þannig að ég kunni að lesa þegar ég byrjaði í skólanum. Var löngu búin að læra að stafa mig eftir prjóni í gegnum Stafrófskverið bræðra minna og lesa Litlu gulu hænuna hjá mömmu og pabba í þaula.

Og þegar læknirinn, íklæddur hvítum slopp, og kennarinn, sem var í jakkafötum hvunndags eins og presturinn, og ekki síður virðulegur maður, hjálpuðust að við að festa upp stórt spjald með bókstöfum við hliðina á töflunni, á krókinn þar sem landakortið var venjulega, og sögðu að við ættum að segja þeim hvað stafirnir hétu, þá sá ég þar borðleggjandi tækifæri til að stækka mig í augum bekkjarfélaganna svo um munaði.
Mér þóttu þessir krakkar vægast sagt ógnvekjandi fyrstu daga skólagöngunnar (og nokkur næstu árin reyndar); þau voru nefnilega öll með tölu innanhúsapúkar og ég þekkti því hvorki á þeim haus né sporð, verandi eini Oddapúkinn í árgangnum. Allmörg voru aukin heldur Brekkugötupúkar (sjá kort) og ég hafði eftir áreiðanlegum heimildum (fjórir eldri bræður) að þeir væru hrekkjusvín upp til hópa, strákar jafnt sem stelpur - að minnsta kosti öll stóru systkin þeirra.

Sögulegrar nákvæmni vegna er rétt að geta þess að þótt víst teljist sonur sveitarstjórans (sjá mynd af dreng á þrettándabúningi árið 1972) og frændi hans, sonur póstmeistarans, af sömu árgerð og yðar einlæg teljist í hópi utanhúsapúka þá bjuggu þeir um miðbik plássins en ekki á Þingeyraroddanum og voru ekki með okkur Oddapúkunum í kýló og brennó og ketti og mús og hvað þetta hét nú allt saman, þessir óskaplega heilsusamlegu útileikir sem voru svona líka miklu hollari fyrir líkama og sál en heiladeyfandi og hreyfiletjandi tölvuleikir 21. aldarinnar.

En það er allt önnur Ella, það var komið að því að lesa á spjaldið. Ég mátti bíða lengi eftir því að röðin kæmi að mér; við vorum tekin upp í stafrófsröð. Brekkugötupúkarnir hikstuðu margir á því að þekkja stafina, það fór ekki framhjá mér og ég viðurkenni það fúslega, 37 árum seinna, að ég var farin að sjá fyrir mér undrunar- og aðdáunarsvip þeirra jafnt sem kennara og læknis þegar ég myndi rúlla þessu upp í lokin. Aumingja börnin, höfðu mömmur þeirra og pabbar ekki haft tíma til að sitja með þeim með prjón og stafrófskver og kenna þeim að lesa? Ég var farin að vorkenna þeim.

Ég og sá ekki alveg stafina á spjaldinu úr sætinu mínu en það var allt í lagi, við þurftum ekki að lesa þaðan heldur var hver og einn látinn standa á tilteknum stað á gólfinu nokkra faðma frá kennarapúltinu. Það var ekki alveg laust við að hjartað berðist ögn hraðar í brjóstinu þegar kennarinn stillti mér upp spölkorn framan við spjaldið. Svo var bent með priki á stafina. Þeir efstu voru léttir: A. Og svo E og D í næstu línu. Þegar neðar dró vandaðist málið. Þetta voru svo ponsulitlir stafir að ég barasta sá þá ekki nema óljóst. Vandræðalegt. Nú myndu þau halda að ég kynni ekki alla stafina! Læknirinn bauð mér að ganga dálítið nær og ég þáði það, eldrjóð í framan. Og nær. Nær en nokkur annar í öllum bekknum. Stóð loks alveg við kennaraborðið og pírði augun upp á spjaldið fyrir framan nefið á mér, giskaði á o, eða kannski p eða k ... þagnaði loks alveg, mállaus af skömm.

Kennarinn og læknirinn skiptust á þýðingarmiklum augntillitum og ég var send í sætið aftur þótt helmingur spjaldsins væri enn ólesinn, og hafði aldrei upplifað áður þvílíka vanlíðan. Hefði mér á þeirri stundu, sjö vetra gamalli, verið kynnt máltækið dramb er falli næst, þá hefði ég skilið það og tekið til mín. Í sömu svipan tekur til mín stökk ein af innanhúsapúkastelpunum, hún sat við næsta eða þarnæsta borð, hallar sér að mér og segir í eyrað á mér - og kannski var það alls ekki af illkvittni eins og mér fannst það þá, heldur einfaldlega til að sýna mér hvað hún væri vel að sér: ,,Þú færð örugglega GLERAUGU!"

Ég starði á hana steinhissa. Þetta hafði mér alls ekki komið til hugar. Og vissi varla hvort ég átti að vera móðguð eða ekki. Gleraugu? Litlir krakkar eru aldrei með gleraugu. Var nokkur í skólanum með gleraugu? Kannski einhverjir í eldri bekkjunum, elsti bróðir minn og einn eða tveir aðrir. Þvílík vitleysa.
En stelpuóhræsið hafði rétt fyrir sér. Nokkrum vikum seinna skartaði ég nærsýnisgleraugum með styrkleikanum mínus 3, plastumgjarðir dökkbrúnar, keyptar hjá Rögnu sem kom alltaf vestur á sumrin og vann í Optik í Reykjavíkinni. Tilfinningunni sem því fylgdi að sjá heiminn skýrt í fyrsta skipti verður ekki lýst með orðum, eins og þau vita sem reynt hafa. Innanhúsapúkarnir gáfust upp fljótlega upp á því að stríða mér með því að kalla mig gleraugnaglám og þess háttar því ég var alveg hæstánægð með gleraugun mín og óvænta yfirsýnina sem þau færðu mér.
Ragna hafði yfirumsjón með gleraugnakaupunum næsta áratuginn, sem skiluðu mér suður í höfuðborgina framan af á hálfs árs fresti og síðan árlega, allt þar til að að sjónin stilltist í þetta mínus 10/mínus 13. Og ég gerði uppreisn gegn plastumgjörðunum úr Optik: festi kaup á þessum líka glæsilegu Lennon gleraugum.
Átján ára upplifði ég í annað sinn áþekka tilfinningu og haustið "72, þegar linsur voru settar upp í fyrsta skiptið. Ég sá í rigningu, gat gert strik undir augun og sett skugga á augnlokin án þess að klína öllu út um allt. Og ég sá mér til undrunar að ég var með lið á nefi. Því hafði ég aldrei tekið eftir fyrr.
Því er ég svo að rifja þetta upp núna, færa til bókar 37 ára gleraugnasögu? Þegar ég var í kringum fermingaraldurinn man ég eftir að hafa lesið í Úrvali grein úr Readers Digest um rússneska vísindamenn sem voru farnir að skera upp augun í fólki og lækna í því nærsýnina. ,,Einn góðan veðurdag verður hægt að gera svona á Íslandi ..." hugsaði ég með mér.
Árið 2001 var ég gerð afturreka þegar ég óskaði eftir leysigeislaaðgerð: Hornhimnurnar of þunnar, sjóndepran of mikil. Ég fór næstum að skæla, tók peningana sem ég hafði þegar safnað fyrir aðgerðinni og keypti mér betri bíl. Í sumar talaði litla systir mig inn á að gera aðra tilraun, eftir að hafa fengið sjálf slíka bót: kannski er tæknin orðin betri en um aldamótin?
Og viti menn og konur, reyndar er hún það. Nú eru nýlega komnar til sögu ICL linsuaðgerðir fyrir þá sem hafa ekki möguleika á leysigeislanum, eins konar eilífðarlinsur sem er smeygt inn í sjálft augað. Makalaus þessi tækni. Í gærmorgun fór ég í undirbúningsaðgerð, fékk tvö göt í hvort auga með einhvers konar höggbylgjum með leysigeisla; þau eiga að tryggja að vökvi flæði um augað skilst mér, eftir að linsurnar eru komnar á sinn stað. Og já, það var óþægilegt að fá göt í augun en samt ekki eins og ætla mætti. Rauðar eldglæringar og nokkur högg sem virtust sendast aftur í hnakka.
Ég bíð spennt eftir því að upplifa í þriðja sinn nýja vídd í lífinu. Hugsið til mín þann 6. ágúst og krossið putta fyrir mig. Það verður skrítið að byrja daginn ekki á því að ryðja bókunum út af náttborðinu í leit að gleraugunum ...

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér krossbrá er ég opnaði síðuna! Nýtt útlit , kannski í tilefni af nýrri sjón? :)
Götótt augu - styttist í fullkomna sjón!
Knús á þig systir kær

Myndasafn sagði...

Skemmtileg frásögn og rifjar upp eilift stríðið við innanbæjarpúkana .. Og til hamingju með sjónina þegar að því kemur.

Nafnlaus sagði...

Já ,svona var það í þá daga.Flott útlit á blogginu! Hlökkum til að fá ykkur í heimsókn,hittumst heil.
Mamma.

Nafnlaus sagði...

Gangi þér vel á morgun Villa mín!

Mamma