Líf í árvekni: ... til hafs.

fimmtudagur, 23. júlí 2009

... til hafs.

Nú er þessu netskrifaleyfi lokið. Hér með. Gúddness greisíus mí, hundrað dagar! Ég hef komist að því að það hentar mér ekki að lifa án þess að skrifa. Ég verð hreinlega niðurdregin ef ég skrifa ekki reglulega. Skiptir ekki öllu hvort það er söguleg skáldsaga eða raunveruleikaskáldsaga (les: blogg): ég þrífst ekki án þess að skrifa.

Það er mánuður frá því að ég skrifaði síðustu setninguna í þá sögulegu, kláraði á Jónsmessu, þann 24. júní. (Spojler alert: fyrirsögnin er síðustu tvö orðin). Þá tóku við eftirmálaskrif, því mér finnst nauðsynlegt að segja fólki frá því hvað sé satt og hvað ekki. Eða réttara sagt, hvað er haft eftir öðrum, aðallega írskum munkum og Landnámabókarriturum (sem hafa kannski verið að skálda) og hvað er spunnið af sjálfri mér.

Sérdeilis finnst mér mikilvægt að taka fram í eftirmála að það sem er virkilega óhuggulegt sé ekki komið úr mínum hugarheimi. Láðist að gera þetta aftan við bókina Galdur en þar er alls konar óhugnaður og grimmd sem er beint úr annálum og fornbréfasafni og svo heldur fullt af fólki náttlega síðan að ég sé með einhverja annarlega tendensa.
Eftir eftirmálann las ég allt heila klabbið yfir upphátt fyrir sjálfa mig, (ríflega 200 síður, jessmann), lagaði hist og her og henti líka út hellingi af semíkommum, ábyggilega ekki nógu miklu samt, sé það núna að ég er agalegur semíkommúnisti. Svo las sagnfræðiprófessor yfir líka (læt sko ekki hanka mig á díteilunum) og nú eru liðnir fjórtán dagar síðan ég fór yfir ábendingarnar frá honum og síðan þá hef ég ekki skrifað staf, bíð eftir því að ritstjórinn minn elskulegi, hún Silja Aðalsteins, ljúki seinni lestri.

Ég fann ekki fyrir neinum fráhvörfum fyrstu vikuna. Það hjálpaði vissulega til að ég komst hvergi nálægt lyklaborði, gekk Laugaveginn lengri með Mínum og Únglingnum frá Landmannalaugum í Þórsmörk, (sjá myndir), fimmtíuogfimm kílómetrar á fjórum dögum. Yndislegt, í einu orði sagt.
En að undanförnu hefur vanlíðan mín magnast dag frá degi. Það hjálpaði ekkert að skrá sig á Snjáldurskræðuna um daginn. Kann ekki almennilega á þann tjáningarmáta. Ætli ég sé bara ekki alltof langorð fyrir símskeytastílinn sem þar tíðkast.
Ég áttaði mig ekki einu sinni á því strax hvað væri eiginlega að angra mig. Hélt fyrst að þetta væri síðbúin kreppudepurð, sem ég hef haldið frá mér frá með því að hrærast í níundu öldinni öllum stundum, vakin af því að ég tók syrpu á bóklestri um efnið (Hrunið, Hvíta bókin, Sofandi að feigðarósi). En síðan las ég þrjár bækur um allt annað efni (tvær gamlar eftir Arnald, þar af önnur góð - Napóleonsskjölin - og eina eftir alsírskan hershöfðingja, Tilræðið, mjög góð) og fann engan mun.

Venjulega tekur við mikið annríki fljótlega eftir að bókaskrifum er lokið. En núna er ég svo tímanlega í því að það eru þrír mánuðir þar til Auður lítur dagsins ljós (var ég nokkuð búin að segja frá því að bókin heitir Auður?) og engir upplestrar eða viðtöl eða nokkurt einasta tækifæri til að láta másan móða - (hljómar betur, finnstér ekki?) - um ,,nýja barnið" og það eftir meðgöngu sem hefur staðið langt á annað ár. (Takið eftir því í næsta viðtali sem þið lesið við rithöfund af kvenkyni hvort hún talar ekki ábyggilega um bókina sem ,,barnið sitt") og þá er kannski ekki nema von að mér líði eins og álfkonu út úr hól.

Að vísu býst ég ekki við að ég eigi nokkurn einasta lesanda hér eftir, sé á bloggflettingadagbókinni að þessa hundrað daga hafa verið gerðar 3.300 tilraunir til þess að athuga hvort eitthvað sé títt (Líf-í-Árvekni-síðan er reyndar Heima bæði hjá Mínum og Mér, þannig að þar dragast minnst tvö þúsund skipti frá, en þá eru samt eftir þrettánhundruð ...).
En skítt og lagó, það má kannski reyna að hífa upp lesturinn aftur með því að láta inn mola og mola úr Auði. Spurning hvort áhugi sé fyrir því (...einhver?). Gæti líka sagt frá Gluggastríði í Þingholtunum eða Þeirri hvítu sem kom í mat eða andstyggilegu skrítlunni um bæjarstjórann í Kópavogi sem ég heyrði í fjallaskálanum í Emstrum eða ...

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hér er ég , dyggur lesandi!
Hlakka til þess að lesa það sem koma skal mín kæra.
Takk aftur fyrir samveruna í dag og hlakka til þess að hitta ykkur um helgina
xoxo Auður Lilja

Nafnlaus sagði...

Það var mikið og takk!
þva
Matta

Nafnlaus sagði...

Til hamingju kæra starfssystir! Mín er að koma út núna í ágústi, "Leiðarbók þokunnar", lokabindi á skerjagarðsttríleiknum, og stök saga í íslenskri þýðingu í haust, sú um útróðrarbóndann sem fór að smygla flottamönnum eftir strið...
annars allt í góðu hér austan salts

kveðja

Tapio

Nafnlaus sagði...

Loksins loksins!
Endilega ,láttu flakka sem flest!
Mamma

McHillary sagði...

Ég var búin að skrifa hér mega langt komment og það datt allt út! ARgg.
Allavega, frábærar myndir af ykkur, skælsmælandi á fjöllum og ánægð með lífið. Við höfum tekið myndir á nákvæmlega sömu stöðum sýnist mér og svo heyrði ég líka skrítlu um bæjarstjórann í Emstrum (komu Mjallhvít og Kvasimódó nokkuð við sögu í ykkar?)
Annars er mánudagur fínn fyrir mig! SJáumst þá.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með nýju bókina þína og frábært nafn ;) hlakka til að lesa hana og bloggið þitt.

Kveðja Auður Lísa