Líf í árvekni: Hamingjan er...

fimmtudagur, 2. apríl 2009

Hamingjan er...

Í síðustu viku fannst mér hamingjan vera að finna lyklakippuna mína (með bíllykli, húslyklum, hjólaláslykli, auðkennislykli, mynd af Che Guevara og lirfu í áppelsínugulri hettupeysu) ofan í dótakörfu dóttur minnar eftir að hún hafði verið týnd í tvo daga og mín búin að hringja í óskilamunadeild pólitísins, leikskólann og bókasafnið án árangurs.

Í þessari viku finnst mér hamingjan felast í því að segulómunarmyndin sem var tekin af kolli Míns heittelskaða sýndi að heilaæxlið hans er til friðs, hefur ekki vaxið um svo mikið sem eina frumu frá síðustu myndatöku í október 2008 og þar með sex mánuðir í næstu eftirlitsheimsókn á C11 á Landsanum.

Ég hef verið spurð að því af og til að undanförnu hvernig á því standi að ég sé svona hauglöt við að blogga og svara því hér með: Það er af því að ég er svo andskoti dugleg við að skrifa Bókina sem á að koma út í haust hjá Máli og menningu. Búin með hundraðfimmtíuogeina síðu, með einföldu línubili, tólf punkta letri. Heilmikil hamingja þar, líka. Ég veit samt ekki alveg hvað er mikið eftir, ekki gott að segja fyrr en alveg í blárestina. Of mikið alla vega til að stelast í annað. (Af sömu ástæðu hef ég ekki heldur skrifað mig inn í Fésbókina/Snjáldurskræðuna og mun ekki gera fyrr en í fyrsta lagi þegar ég er búin með Bókina.) Þá mun ég líka fá (hugsanlega síðbúið) sumarfrí, fyrr ekki.

Elsti bróðir minn er að flytja vestur á firði eftir að hafa misst vinnuna hér í borginni í fjöldauppsögn, krepputengdri vitanlega. Ég vona að hann fái eitthvað að gera fyrir vestan sem fyrst, hann er harðduglegur. Mér hefur ekki fundist frá því að ég fór að vinna hjá sjálfri mér um aldamótin, að ég byggi við atvinnuöryggi fyrr en nú.

Svona er nú allt afstætt í henni versu. Hamingjan líka.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með ómniðurstöður.
IÞÞ

Nafnlaus sagði...

:) Hjúkked....áfram í örygginu. Hér erum við alltaf að taka eitt skref fram á við..og nú bara hálf til baka.
Heimilislífið snýst allt um fótbolta og meiri fótbolta þannig að allir mínir karlar hafa nóg að gera. Þá er lífið hamingja.
Knús til ykkar
Inga María

Harpa sagði...

Ég hlakka mjög til að lesa bókina þína - búin að bíða eftir nýrri bók lengi en hef í staðinn lesið Hrafninn þrisvar sem nýja!

Katrín sagði...

Hamingjan er atvinnuöryggi :)

Nafnlaus sagði...

Hæ Villa, mig vantar að fá netfangið þitt, þarf að senda þér póst, við ætlum að fara að hittast, eigum 25 ára afmæli.
Kv
Gerður Gíslad.
gerdur@lagafellsskoli.is

Nafnlaus sagði...

Hi, Vila
just a wee note to say I'm thinking of you and wishing you well
love
Morag D.x

Nafnlaus sagði...

cbse 10th result 2017
up board result 2017
cbse result 2017
jee main result 2017
icse result 2017
SSC result 2017
neet result 2017
neet result 2017