Líf í árvekni: Við múmínálfarnir...

þriðjudagur, 3. febrúar 2009

Við múmínálfarnir...

...erum ekki með þeim snörpustu á fætur á köldum vetrarmorgnum. Ég hef mig þó alltaf framúr á endanum, sem er meira en þeir geta sagt, sofandi með furuköngla í maganum til vors. Gott eiga múmínálfar.

Og þetta blogg mitt er að verða ansi hreint múmínálfalegt, aðgerðalaust vikum saman. Hvað getur kona sagt nema... úps!

Mikið óskaplega er ég nú glöð yfir því að janúar er að baki, að snjórinn er kominn, að það er orðið nokkurn veginn bjart þegar við Skottan löbbum á Laufásborgina á morgnana og að sólin sest ekki fyrr en um það leyti sem ég er á leiðinni heim í gegnum Hljómskálagarðinn uppúr fimm.

Og að þar stendur nú yfir mikil snjókarlasýning, opið allan sólarhringinn á meðan veður leyfir, aðgangur ókeypis. (Nei, ég var ekki svona dugleg sjálf, snjókarlarnir eru eftir óþekkta listamenn).

Einhver hefur tekið sig til og múlbundið allar stytturnar í garðinum með hvítum klút og krotað á hann appelsínugult bros. Ég veit ekki alveg hvort þetta táknar eitthvað í sambandi við málfrelsi, hlýtur eiginlega að vera (þótt sjaldan hafi nú Íslendingar líklega talað/skrifað jafnmikið og nú).
Mér finnst skrítið að sjá Jónas minn svona til fara, hef samt ekki gert neitt í málinu. Minn segi ég, á auðvitað ekkert meira í honum en aðrir. Ég er búin að vera lengi með þessa mynd hér að neðan af honum á skjáborðinu mínu, umvafinn bleiku og grænu sumri, og vísast finnst mér þetta af því að ég sé hann bæði þar og í hvert sinn sem ég fer til og frá Safninu (þ.e. alla virka daga). Svo á hann afmæli sama dag og Minn (þ.e. Minn heittelskaði).Í þessum skrifuðum orðum fæ ég skeyti um að nafnlaus lesandi minn vilji nýtt blogg. Veskú!

6 ummæli:

Katrín sagði...

hahahahaaaaaaaa ég hélt alltaf að þetta væri Björgvin á background-inu þínu!

Nafnlaus sagði...

Heil og sæl!

Ég held að múmínálfarnir snæði barrnálar áður en þeir leggjast í dvala. Má þó vera að mig misminni.

Nafnlaus sagði...

Skemmtilegar samlíkingar,held að ég hafi verið hálfgerður múminálfur sjálf undanfarið ,en fer nú að skriða út úr skóginum.

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Máni, þetta er vitaskuld alveg rétt hjá þér, barrnálar eru það. En það mætti ímynda sér að furukönglar séu ekki síður tormelt og staðgóð næring á meðan legið er í hýði undir hrúgu af hlýjum teppum...

Kalli Hr. sagði...

Þetta blogg er ávallt hressandi lesning, kíki hér enn reglulega! Bestu kveðjur, vona að allt gangi vel.

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Hæ Kalli, gaman að heyra frá þér. Allt hér eins gott og það getur orðið, næsta tékk á Mínum í byrjun apríl. Góðar kveðjur og gott gengi, sömuleiðis!