Líf í árvekni: Með hákarl í höfðinu

laugardagur, 7. febrúar 2009

Með hákarl í höfðinu

Eftirfarandi pistil skrifaði ég í haust fyrir dagatalsbók Sölku 2009, Konur eiga orðið allan ársins hring, um reynslu mína af vetrarmánuðunum 2007 til 2008. Hluti af ágóðanum bókarinnar rennur til rannsókna á þunglyndi kvenna og það er vitanlega ágæt ástæða til að kaupa hana en þó miklu fremur hitt hvað hún er bæði töff og elegant,eins og hér kemur fram.

Í hverri opnu er tjáning kvenna úr öllum áttum af öllum stærðum og gerðum: snjallyrði, ljósmyndir, teikningar m.m. Og vitanlega rými til að skrifa niður hugleiðingu, áætlanir, tannlæknatíma, hjörtu, upphaf blæðinga, afmælisáminningar, innkaup, fund, mótmælastöðu, ljóð, hugdettur fyrir skáldsöguna, prjónauppskriftir, símanúmer eða hvaðeina annað sem konu gæti komið til hugar.

Þegar lundin þín er hrelld,
þessum hlýddu orðum:
Gakktu með sjó og sittu við eld,
svo kvað völvan forðum.

(þjóðvísa)
Stundum var hann vaknaður á undan mér. Fann hann í svefnviðjunum þrýstast upp undir bringsmalirnar: Gjugg í borg, ég er mættur! Fyrsta hugsunin þegar meðvitundin tók við af yndislegu óminni næturinnar: Get ég ekki flúið í skjól svefnsins aftur, komist undan því að horfast í augu við ófétið? Stundum tókst mér að blunda á ný, til þess eins að vakna við að kvíðahnúturinn hafði notað næðið til þess að vinda enn upp á sig og hertist nú um öll líffæri, sérdeilis þó hjarta og lungu, svo að undan verkjaði bæði í líkama og sál.

Því lengur sem ég þráaðist við að takast á við daginn, því meir óx hnútnum ásmegin. Hann vatt sig feitur og pattaralegur um sjálfstraustið mitt og skammaðist yfir skorti mínum á sköpunargáfu, getuleysi sem móður og almennum gungugangi. Undir hádegi var hann búinn að ljúka sér af og árásunum linnti en þá tók dapurleikinn við með tilheyrandi skorti á drift og kannski ekki von að mikil orka væri aflögu þegar hugurinn var orðinn fastur í fjötrum af því tagi sem að ofan er lýst; mín orðin sannfærð um að hún væri þungur baggi á mannlegu samfélagi og tilverurétturinn miklum vafa undirorpinn.

Til allrar hamingju kom að því að ég hafði rænu á að rétta út höndina og leita mér hjálpar. Ég kalla þær Maríurnar mínar, konurnar sem hafa hjálpað mér út úr mínu þunga lyndi þótt flestar þeirra beri önnur nöfn, ýmist lærðar í læknislistum, guðfræði eða skóla lífsins þar sem þessi þraut virðist vera ofarlega á aðalnámskrá. Ein Marían kynnti mig fyrir hugrænni atferlismeðferð sem felst samandregið í því að kona skoðar hvaða hugsanir liggja að baki vanlíðan, skrifar þær niður og þrætir síðan við sjálfa sig um réttmæti þeirra. Það er nefnilega svo skrítið að ýmislegt af því sem hljómar afar sannfærandi í hljóði hugans, er augljóslega tóm tjara þegar það er komið á blað.

Þegar unglingurinn minn hagaði sér eins og unglingum er gjarnt á meðan þeir villast um í gelgjuskóginum hætti mér til dæmis til að hugsa sem svo: ,,Ég er vonlaus móðir.“ ,,Mér hefur misheppnast uppeldið með öllu.“ ,,Drengurinn er stjórnlaus og ég ræð ekki við neitt.“ Og svona áfram þar til ég sá son minn fyrir mér liggjandi í ræsinu með heróínsprautur í handleggjunum. Ástæðan fyrir þessari sjálfsköpuðu martröð gat til dæmis verið sú að fermingardrengurinn hafði sagt mér (með þjósti) að ég skildi sig ekki.

Fyrsta skrefið á batagöngunni var að setja kvíðahnútinn í athyglissvelti. Þegar við vöknuðum saman á morgnana heilsaði ég honum snúðugt: ,,Jæja, þarna ertu þá, ræfillinn. Mér er skítsama, þú verður farinn áður en varir og þangað til ætla ég að gera eitthvað annað en taka eftir þér.“ Svo haskaði ég mér fram úr áður en honum gafst færi á að draga úr mér kjarkinn, gerði á mér morgunverkin, settist við tölvuna og byrjaði að vinna. Af og til rak hann upp sinn ljóta haus en því betur sem mér gekk að hunsa hann, því meir skrapp hann saman.

Þessi árangur skipti sköpum: Ég fann að ég gat haft áhrif á eigin líðan. Tilfinningin um að hafa ekki vald á eigin lífi er ein sú erfiðasta sem ég hef tekist á við um dagana; sú kennd að mig reki stjórnlaust fyrir veðri og vindum í lífsins ólgusjó er hreint út sagt skelfileg. Hálfur sigur var unninn þegar ég hafði sannað fyrir sjálfri mér að þótt ég réði engu um ytri aðstæður sem víst hafa á stundum verið erfiðar, þá get ég ráðið líðan minni gagnvart þeim því að ég vel sjálf mínar eigin hugsanir. Og það er aldeilis ekki lítið.

Við þetta bætti ég síðan gönguferðum með sjó, reglulegum samtölum við Guð vinkonu mína og Maríurnar, stundatöflu (bráðnauðsynlegt þegar kona vinnur hjá sjálfri sér), námskeiðasókn í einu og öðru, og leiddri slökun í lazy-girl stólnum mínum sem ég keypti sérstaklega til þess arna, auk þess sem ég sagði eigin fordómum stríð á hendur og fór að taka inn sólarvítamín á morgnana (rósamál fyrir geðdeyfðarlyf). Þannig mjakaðist ég út úr myrkrinu og fann með vorinu aftur gleðina yfir því að vera til. En ég er önnur en ég var; ég er dýrmætri reynslunni ríkari og gái betur að því en áður hvað ég hugsa.

Um tíma hefur fjögurra ára dóttir mín verið afar treg til að fara ein upp á efri hæð heimilisins og sárbiður jafnan um fylgd. Um daginn spurði ég hana hvað hún héldi að gæti gerst ef hún færi ein upp. Sú stutta hrukkaði ennið hugsi, svaraði síðan sposk á svip: ,,Það getur komið ... hákarl!“ Við skelltum báðar upp úr og hún skottaðist einsömul upp stigann.

7 ummæli:

Hafrun sagði...

Takk.

INGIBJÖRG sagði...

Takk fyrir að deila þessu með okkur hinum.
Ingibjörg

Harpa H sagði...

Þetta er frábær lýsing á kvíðapúkanum og hvað kona getur gert til að forðast að hann stækki eins og púkinn sem þreifst á bölvi. Í mínu lífi er þetta eilífur slagur líka, eins og þú veist.

Dagbjört sagði...

Alltaf gaman að lesa það sem þú skrifar Vilborg. Og gaman að sjá Hörpu hér ;)

Ég ætlaði að senda þér eina litla spurningu í tölvupósti en fæ póstinn alltaf til baka. Gætirðu nokkuð sent mér póst á dagbjog@hi.is svo ég fái netfang sem er virkt hjá þér? :)

Kveðja,
Dagbjört

Karl Hreiðarsson sagði...

Mögnuð frásögn og lærdómsrík, takk!

Hefði kannski átt að bæta því við síðast að allt gengur vel prýðilega megin en því er þá komið til skila núna :-)

Nafnlaus sagði...

frábært...
Áfram þú!

Nafnlaus sagði...

Frábær texti systir góð. Og þú bakar líka mjög góðar (les mömmulegar) smákökur, takk fyrir þær líka! Knús, Kiddi