Líf í árvekni: Haust

sunnudagur, 7. september 2008

Haust

Haustið er góður tími. Það finnst mér að minnsta kosti þetta árið. Notalegt að hjúfra sig undir værðarvoð í bláa hægindastólnum með tebolla, hygge sig í mildri birtu kertaljósanna, á meðan regnið bylur á rúðunni og trjágreinarnar slást í glerið í mestu hviðunum. Finna að árstíðirnar hafa sinn gang hvernig svo sem allt annað veltist.

Gott að finna haustlyktina í loftinu, finna hvernig gustar af Móður Náttúru þegar hún sópar laufblöðunum um götur og torg borgarinnar af þessum líka myndarskap.

Á þessum tíma í fyrra var Mín innri kona reyndar eins og skjálfandi lauf í hringiðu haustlægðanna; ekkert að halda sér í hráslagalegri veröld og friðleysi af kvíðahugsunum sem ekkert gekk að bægja frá.
En allt leið það hjá á endanum eins og annað, með hjálp frá Maríunum mínum þremur og fleiri góðum konum, sumum læknis-og prestlærðum en öðrum vel versuðum í skóla lífsins. Gott að rifja það upp núna; muna að lífið gengur í bylgjum og ekkert varir til eilífðar, ekki heldur depurðin og kvíðinn.

Hér eru allir byrjaðir í skóla nema yðar einlæg og Hallveig (kisa) náttúrulega. Minn heittelskaði er byrjaður að stúdera til starfsréttinda í sálfræðinni og nú líða hér flest kvöld (eftir sögulestur og vísnasöng með Skottunni) í guðdómlegri kyrrð þar sem skötuhjúin sitja í sitt hvoru horninu lesandi fræðin sín af mikilli nautn. Þetta er yndislegt líf.
Partur af þessari miklu vellíðan sem hér flæðir um skjáinn á orsakir í útrás sem ég hef fengið síðustu daga fyrir Minn innri innanhúsarkitekt; nú er gamli eldhússkápurinn sem vék fyrir herlegheitunum frá Frans í sumar hvítmálaður og krúttlegur með postulínshöldum úr Brynju kominn upp í borðstofunni og aldeilis kom pláss fyrir tólfmannabollastelliðfrátengdamömmu- semhúnfékkfrásinnitengdamömmu.

Og við tiltekt í gær í geymslunni í kjallaranum kom í ljós þessi líka ljómandi verklegi göngustafur langafa Míns heittelskaða og var samstundis skipað í heiðursess í stofunni, ásamt með veski sem minnir mig á ömmur mínar heitnar (keypt í Fatabúð Hjálpræðishersins vestur í bæ), afaklukkunni sem föðurafi Míns átti og Singer saumavélinni hennar Mundu móðurömmu minnar, blessuð sé minning þeirra allra.

Sem ég horfi yfir heimilið þá er ekki laust við að hér sé að verða um að litast eins og á safni um arf genginna kynslóðir ;o) (Skítt-og-lagó, þau sem heimsækja okkur sjá nú alveg hvað við erum móderne þegar við bjóðum upp á lattekaffifroðu frá Gaggía!)

Talandi um þess háttar; við Skottan heimsóttum Safnið okkar í dag (miðasölukonan bendi okkur á þetta sérstaklega, þ.e. að við ættum safnið öll saman); Þjóðminjasafnið er góður staður til að skottast á í rigningu og roki og fara svo í kaffistofuna á eftir og borða bananabrauð og vínartertu (ætti nú samt eiginlega að skrifa dr. Gunna um verðlagið hjá þeim, ekkert meðlæti til á minna en 280 kr. Jú, nema reyndar Frón matarkex á 20 kr. ).

Ég gleymdi ljósmyndabanninu eitt augnablik og tók mynd af klukkunum í bríaríi af því að ég hélt að Únglíngurinn í skóginum hefði kannski gaman af að sjá þær, þar sem hann er að lesa Íslandsklukkuna þessa dagana í skólanum (,,gegt furðuleg bók!“). Var skömmuð en ekki mikið og mátti eiga myndina úr því að ég var búin að taka hana.

Skottan á lokaorð dagsins: Hún setti upp svipinn sem hér blasir við til hægri og spurði sem svo: ,,Veistu af hverju sjóræningjar gera alltaf svona?“
Nei, Skottumamma vissi það reyndar ekki.
-,,Svo að þeir fái ekki fisk í augað!“

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er Íslendingur sem býr erlendis. Ég elska að lesa pistlana þína og er alltaf svo ánægð þegar ég sé að þú ert búin að staldra við og skrifa eitthvað nýtt og skemmtilegt. Stundum er ég komin alla leið til Íslands í huganum þegar ég les og skoða myndirnar þínar. Skrifin þín hafa þann eiginleika að draga mann inn í söguna svona eins og þegar maður les skemmtilega bók.

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Takk fyrir það *roðn*
Einu sinni var ég Íslendingur í útlöndum og fannst skrítið stundum að gægjast til Íslands í gegnum tölvuskjáinn. Veröldin bæði stækkar og minnkar af öllum möguleikunum...

Nafnlaus sagði...

Ég er ennþá að hlægja að þessu með fiski í augað :)
Besti sem ég hef heyrt lengi.
Eigum við að taka IKEA á morgun?
knús
Auður Lilja