Líf í árvekni: Maðurinn minn, kolleginn...

föstudagur, 8. ágúst 2008

Maðurinn minn, kolleginn...

,,Nú skil ég af hverju þú skrifar bækur," sagði Minn heittelskaði og dæsti af vellíðan þegar hann fletti nýju bókinni sinni sem kom sjóðheit úr prentsmiðjunni í dag: Rásakverið: Handbók í rafeindatækni. Yðar einlæg brosti mildilega, kinkaði kolli full samkenndar og -gleði, (dáldið öfundsjúk samt), rak nefið oní eintak til að finna þessa makalausu lykt sem er af nýprentaðri bók - það var ekki alveg eins gott og að þefa af eigin bók, en næstum því. Ekki síst vegna þess að í fyrsta sinn á ævinni stendur prentað í bók: Til Villu.

Já, nú er hún komin, bókin góða sem hefur verið ,,hjáverk" Míns síðastliðin árin (meðfram því sem hann hefur kennt, orðið fjölskyldufaðir, flutt á milli landa, tekið tvær háskólagráður, verið skorinn í heilabúið og geislaður). Tilbúin. Prentuð. 241 blaðsíða með löngum formúlukafla og hellingi af skrítnum hand-og tölvuunnum teikningum af rásum, spennum, díóðum, emitterum, köllum og kellingum. Þegar á útgáfudegi komin í tvær búðir (Íhlutir og Iðnú). Ég á kollega á heimilinu. Velti því fyrir mér í dag hvort það myndi ekki færa okkur enn nær hvort öðru.

Núna áðan, sirka sex tímum eftir að kössunum hafði verið staflað upp í einu horni stofunnar, fékk ég einmitt staðfestingu á því. Þá heyrðist nefnilega í manninum mínum, kolleganum, upp úr eins manns hljóði og hljómaði dálítið dapurlega: ,,Ég er eitthvað svo tómur."

Í útgáfuheiminum er þetta vel þekkta fyrirbæri kallað póstpöblisjíng-dípressjón. Bókin sem hefur lagt undir sig lífið og tilveruna um langa hríð er farin út í veröldina og þarf ekki lengur á skapara sínum að halda. Nístandi tómleiki tekur við hjá höfundinum og hann ráfar eirðarlaus um göturnar; ekki bætir úr skák að nú tekur við biðin eftir viðtökum miskunnarlausra gagnrýnenda.

En svo fann ég að á okkur Mínum er þó nokkur munur, því að nokkrum mínútum síðar gall í honum, til muna léttari í bragði: ,,Þetta er nú bara af því að ég sleppti golfinu í gær. En nú fer ég í golf í fyrramálið!"

Rásakverið er prentað hjá GuðjóniÓ. Prentsmiðjan sú var stofnuð fyrir 53 árum, í einu horni stofunnar okkar hér á Hallveigarstígnum eins og lesa má um hér á síðunni þeirra - kannski því sama og bókakassarnir standa í núna. Skondin tilviljun. Eins og hringur sem lokast. Eða rás, öllu heldur.
Botna í dag með mynd úr ævintýraskóginum, þessum sem ég hef stundum talað um á mínum skáldlegri stundum við netskrifin - skóginum sem hvert og eitt okkar þarf að rata í gegnum um og leysa hinar ýmsu þrautir á leiðinni, stundum er dimmt yfir og engir brauðmolar nokkurs staðar að lesa sig áfram eftir en stundum skín sólin í heiði og lífið er hreint út sagt yndislegt.
Þetta tiltekna rjóður er á Austurvelli í Reykjavík.
P.S. Pantanir á bókinni góðu má senda á netfangið: bjorgvin ,,hjá" rasakverid.is
P.P.S. Nýjar myndir úr hvunndeginum í Myndasafninu.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með Rásakverið þitt Björgvin!Bestu kveðjur Tengó.

Nafnlaus sagði...

Vá...Vilborg þú hlýtur að vera rafmögnuð.
Til hamingju bæði tvö.
Inga María

Nafnlaus sagði...

Ertu búin að senda verðlaunamyndina á moggan?
Mamma!

Matthildur Helgadóttir sagði...

Til hamingu með bókina Björgvin og til hamingju með Björgvin Villa. Það er ekki vitað hvort hún ratar inn á mitt bókaborð enda alls óvíst að nokkur sé drepinn í henni þessari.
mbk
Matta

tapio sagði...

Til hamingju með bókina Björgvin og til hamingju með mannin þinn Villa! Maður klárar best af svona tómleika eftir útkomu bókar þegar maður hefur eitthvað fyrir stafni, eins og fara í gólf(sem ég hef reyndar aldrei gert) eða fara á sjó eða smiða útihús fyrir kunningja sinum. Smásagnabókin mín var nefnilega að koma út, ég fékk kassann á föstudaginn var! Bókin heitir "Smakkaðu, svo manstu eftir" og er hér tilvitnað í söguna um dularfullt "Vitund"-smjörlíki sem hefur undarlega áhrif á fólk... og nú er að koma kviði fyrir gagnrýnin... hvernig höndlið þið það, fyrir utan að skrifa svo rosalega góðar bækur?

Gunni sagði...

Til hamngju með bóndann og með aðfararorðin tvö.

Hildur Sig sagði...

Innilega til hamingju með kollegann! Nú verð ég bara að fara að kíkja í kaffi á Hallveigarstíginn,hmmmm

Túttan sagði...

Sæl Vilborg.
Hef verið að fylgjast með blogginu þínu frá því snemma í vor þegar ég hitti þig á námskeiði hjá Kvennakirkjunni. Til hamingju með allt sem þið skötuhjúin hafið tekið ykkur fyrir hendur! Frábært!
Langaði bara sisona að kasta á þig kveðju... mér þótti þú svo merkileg kona þegar ég hitti þig, langaði alltaf að spjalla soldið meira.
Nú er ég komin til Kaupmannahafnar með litlu skottunni minni... og er að blogga líka! Mannfræðinám sem bíður mín hér næstu mánuði... Wúúú! Gaman.
kv. Guðbjörg.

Túttan sagði...

úps! ætlaði að skilja eftir bloggsíðuna mína:www.danskalandid.blogspot.com.Kv. Guðbjörg.