Líf í árvekni: Með hjartað fullt af þakklæti

sunnudagur, 27. júlí 2008

Með hjartað fullt af þakklæti

Engu líkara en árvökult jöklaskrímsl hafi gægst upp úr lóninu og gefi konu (eitt) auga þarna vinstra megin í myndinni - hálfa manneskjan fremst (sem átti reyndar ekkert að vera með) sýnir stærðarhlutföllin. Búin að skoða þessa mynd og fleiri úr Austurferðinni okkar aftur og aftur, tek andköf í hvert sinn yfir fegurðinni sem fyrir sjónir bar í þessari lengi-tilstandandi-helgarreisu til vinafólks á Höfn í Hornafirði.

Komum við í Skógasafni á leiðinni austur og hver heilsar þar kumpánlega í afgreiðslunni nema þýðversk skólasystir úr þjóðfræðinni frá því um árið. ,,Égtrrúúúiðessekki!" hvein í henni á innsoginu og framúrskarandi íslensku þegar yðar einlæg viðurkenndi að hún hefði aldrei komið þar fyrr. Og aftur, þegar ég upplýsti að ég hefði heldur aldrei á ævinni komið á Höfn, hvert ferðinni væri heitið: ,,Égtrrúúúiðessekki!"

Um daginn var ég að spjalla (á skandinavísku með A.Lindgren-hreim) við norska mágkonu mína sem var 3 vikum á undan mér í siglingu um Jökulsárlón - (það var vinkona hennar og bróður míns sem var á mynd í Mogganum um daginn að synda í lóninu; hún er sko í ,,Hafbaðsfélaginu" í Þrymssjó/Tromsö) - og hún sagði sisvona að hún hefði tvisvar sinnum farið Hringinn og auðvitað upp á Hveravelli. Ætli hún hafi ekki komið til landsins í svona fjögur, fimm skipti undanfarna tvo áratugi.

Ég hef reyndar komið á Hveravelli, tvisvar meira að segja (í annað skiptið með henni og bróður mínum) en ég hef aldrei farið Hringinn og vísast myndi Martina mín þýska ekki trúa því heldur - að það sé hægt að búa svona lengi á þessu landi án þess að hafa veitt sér þá ánægju að hafa skoðað það hringinn í kring.
Við áttum yndislega helgi á Höfn, komum vel nærð bæði á sál og líkama í bæinn aftur og hjartað fullt af þakklæti. Hér að neðan getur að líta útsýnið frá bænum í átt til jöklanna sem skríða frá Vatnajökli; myndin er tekin um miðnæturbil og þó hún sé falleg nær hún vart að fanga töfrana á þessu stillta kvöldi þegar húmið var að síga á.
Af heimilislífinu er það annars tíðast að mannskapurinn er að afloknu sumarfríi að búa sig undir að veita Þeirri uppkomnu húsaskjól aftur eftir nokkurt hlé; hún er reyndar í 69. sæti biðlistans eftir einstaklingsherbergi á Gamla garði Háskóla Íslands og við krossum auðvitað puttana þar til úthlutun hefur farið fram (eftir 2 vikur), fórum samt í Ikea í dag og fjárfestum í (eins konar) léttfataskáp og fleiri sænskum patentlausnum af ýmsu tagi til þess að koma henni og því sem henni fylgir fyrir í kastalanum á ný með betra móti. P.S. Þeim, sem vita að áður en við fórum í Austurferðina fórum við í ákaflega ljúfa og skemmtilega Vesturferð og vilja sjá myndir úr þeirri reisunni, er bent á Myndasíðu Dadda á hlekkjalistanum hér til hægri yfir bloggsíður - þ.e. þegar hann er búinn að setja inn myndir frá Ættarmóti afkomenda hjónanna frá Hofi; ég gleymdi nefnilega að hlaða myndavélina áður en við fórum heim til Þingeyrar við Dýrafjörð.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær myndin úr Jökulsárlóninu!'Astarkveðjur að Vestan. Mamma.

Nafnlaus sagði...

Held að þetta sé verðlaunamynd!
Mamma.

Katrín sagði...

#63!

Nafnlaus sagði...

æðislegar myndir
keep on blogging!
kv. Auður Lilja

Matthildur Helgadóttir sagði...

Takk fyrir síðast og nú fer vonandi að styttast í heimsókn frá mér.
þva
Matthildur

Nafnlaus sagði...

Fín mynd og pistill systa! Ís-sund greinin var reyndar í Fréttablaðinu/visir.is en ekki í íhaldsmálsgagninu :-)