Líf í árvekni: Jæja

þriðjudagur, 8. júlí 2008

Jæja

Þá er víst kominn tími á netskrif og þó fyrr hefði verið. Sjö vikur í pásu. Yðar einlæg vísast búin að tapa öllum sínum tryggu lesendum (nema kannski mömmu og Mínum) fyrir fjölmörgum ,,ekkert-nýtt-blogg-ennþá!"-flettingum síðan. Jæja, skítt og lagó. Það nennir hvort eð er engin/n að sitja yfir tölvunni þegar sólin skín á Klakann eins og hlýnun jarðar sé komin til að vera.

Mér til forláts er þó rétt að geta þess að harði diskurinn tölvunnar krassaði eins og það heitir á fagmáli og þurfti endurnýjunar við, Skottan er í komin í leikskólafríi síðan um miðjan júní, auk þess sem við heiðurshjónin brugðum okkur í vikuorlof til yndislegu Edinborgar í millitíðinni, rifum niður gömlu eldhúsinnréttinguna og höfðum hjartaskipti á heimilinu. Hjartaskiptin má sjá í framhaldssögumyndasyrpu hérna; orðið svo kósí hjá okkur að við komumst varla upp að sofa á kvöldin; sitjum bara ymjandi af sælu í fallega eldhúsinu okkar og dáumst að eigin smekkvísi.

Læt tvær myndir úr Edinborgarreisunni nægja í bili; sú fyrri er tekin í miðju nýja völundar-og bænastígsins í litla garðinum á Georgstorgi, hvar Skóli keltneskra og skoskra fræða er til húsa í 300 ára gömlum byggingum Edinborgarháskóla. Þetta mun vera nákvæm eftirmynd af völundar-og bænastígnum í dómkirkjunni í Chartres í Frans, sem ég hef einu sinni séð utanfrá (kirkjuna sko, klukkan var orðin svo margt að það var búið að læsa, Katrínu þá 11 ára gamalli til mikils léttis); það var fyrir sléttum áratug og í öðru lífi.
Kirkjan þessi leikur nokkuð stórt hlutverk í bókinni til hægri, sem er ágæt fyrir áhugasama um sögur sem spila á vinsældir davinsíkóðans, frekar langdregin reyndar.

Seinni Edinborgarmyndin sýnir Minn heittelskaða endurnýja gömul kynni af vinsælasta límonaði Skota (söluhærra en bæði pepsí og kók) sem ber heitið Irn Bru, snarast sem Járnbrugg. Bragðið ku svo slæmt að lögurinn er ódrekkandi nema hafa verið í að minnsta kosti klst. í frystinum - en góður kostur að mati Míns sem fékk þá að hafa sitt brugg í friði fyrir öðrum gosþambandi fjölskyldumeðlimum. Eins og sjá má á svipnum eru honum fornu minnin afar kær. (Myndin er tekin um miðnætti, í Meadows garðinum, korteri eftir komuna með lestinni frá Glasgow).
En talandi um kröss á hörðum diskum: Ég mæli eindregið með því að fólk taki afrit af ÖLLUM gögnunum sínum af og til. Ég var svo bráðsnjöll í janúar sl. að taka afrit af öllu dótinu mínu - nema reyndar póstinum - (já, auðvitað tek ég líka daglegt afrit af Bókinni) eftir að ég frétti af góðri vinkonu minni í Danaveldi sem missti ótryggða aleiguna í eldi um jólin (eldsvoði í búslóðageymslunni!). Snillingunum hjá Tölvuteki tókst reyndar að bjarga öllu innvolsinu mínu frá eyðingu - nema póstinum. Netfangaskrá sem safnast hefur í sl. sirka átta ár er sem sé horfin. Ef einhver vill að ég hafi samband við sig netleiðis þá er honum/henni hér með tilkynnt að það er illmögulegt.
Það má náttlega brúka landpóstinn; ég fékk skrifað sendibréf með landpóstinum frá Tórshavn í Færeyjum í vikunni, mér til ómældrar gleði.
Settist spennt upp á svalir í sólina með kaffibollann og bréfið og get varla lýst eftirvæntingunni sem streymdi um mig þegar ég sá þarna fjórar síður þéttskrifaðar með penna, og nöfn vinkvenna minna tveggja á bakhlið umslagsins. Annað eins hefur ekki hent mig í háa herrans tíð. Eins og tölvupóstur er nú þægilegur þá hefur hann ekki viðlíka sjarma og alvöru sendibréf. En fatlafólið ég get reyndar ekkert skrifað sendibréf fyrir vefjagigtarverkjum í úlnliðum við hvaðeina umfram nafnið mitt, njah - gæti auðvitað tölvuskrifað bréfin mín, prentað út og sent í raun-umslagi. Hugsa málið.
Þau sem vilja finna mig í eigin persónu eru velkomin á Kaffi Hallveigu á næstunni (leikskólafríið er fram í miðjan júlí og á meðan held ég áfram að vera í fríi með góðri samvisku gagnvart Bókinni); ef ég er ekki í eldhúsinu eða að sólbakast á svölunum er okkur mæðgurnar að finna í Hljómskálagarðinum (sjá efstu mynd)- Skottan er sú í sandgryfjunni, ég er þessi á bekknum sem er ekki að gera nokkurn skapaðan hlut, (alveg eins og krakkarnir í Únglíngavinnunni sem sitja hreyfingarlaus við beðin þar allt í kring, bara aðeins eldri).
P.S.
Gleymdi stórfréttinni: Ég varð afasystir lítils, rauðhærðs drengs í kóngsins Köbenhavn þann 6. júlí. Sem er skrítið eins og ég er nú ung ennþá, en kannski ekki eins skrítið samt og að mamma mín er nú orðin langamma og pabbi minn langafi. Þetta líf er svo makalaust merkilegt.

6 ummæli:

Katrín sagði...

Þú gleymdir að minnast á hvað þú færð mikla nautn út úr því að skella skúffunum í eldhúsinnréttingunni! ;)

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir bloggið - takk :)
kv. Auður - ennþá yngri afasystirin!

Nafnlaus sagði...

eigið þið sem sagt birgðir núna af þessu fræga limonaði? Gott að vita af þér mín kæra. Kveðja
Inga María

Matthildur Helgadóttir sagði...

Ég hætti ekkert að lesa þó þú hafir hætt að skrifa, ég las gamla pistilinn aftur og aftur. Mikið er annars gott að lesa nýskrifað efni eftir þig mín kæra. Og til hamingju með nýja eldhúsið, þið erun greinilega smekkfólk. það fer að koma tíma á kaffispjall bráðum.
þva
Matta

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa,til hamingju með nýja eldhúsið og hlutverkið, afasystir. Tórshavn hefur heillað mig eins og Edinborg gerði, gaman að sjá myndirnar tadan og hvað Bjørgvin er sæll með járnbruggið.
Knús og kossar, Ragga

Morag Dickson sagði...

Hello, Villa
Can't understand the Icelandic but enough to know that you enjoyed Edinburgh and the new kitchen looks great. will e-mail you tomorrow
love
Morag x