Líf í árvekni: Höfðingi Búðingaættar

sunnudagur, 27. janúar 2008

Höfðingi Búðingaættar

Það var óskaplega gaman hjá okkur í gærkvöldi. Við fórum í fyrsta sinn á Burns Supper Edinborgarfélagsins, borðuðum þjóðarrétt Skota, haggis og ,,neeps & tatties“ (sem á íslensku eru ekki næpur og kartöflumús heldur rófustappa og kartöflumús) og dönsuðum cèilidh-dansa í fyrsta skipti á ævinni við fiðlu- og nikkuspil af miklum móð (þ.e. Yðar einlæg og Minn, Sú uppkomna kann öll sporin og snúningana eftir fjöldann allan af keilidh-kvöldum í James Gillespie´s High School).

Það var rúmlega húsfyllir á samkomunni sem var haldin í sal Fríkirkjunnar í þarþarnæstu götu; eitthvað um 130 manns og svo góð var mætingin að einhverjir urðu frá að hverfa því allt pláss var algerlega uppurið og rófustappan og kartöflumúsin kláruðust þegar þrjú borð áttu enn eftir að fá smakk. Við plássleysinu var lítið að gera annað en sitja þröngt einsog sáttum sæmir en skorti á mús og stöppu var reddað snarlega - snarast niður á BSÍ eftir ábót!

Edinborgarþráin fyllir brjóstið eftir svona skemmtan og skotapilsaþyt og mikið hlakka ég til þegar við förum þangað í heimsókn í sumarbyrjun. Makalaust alveg hvað það er fljótgert að eignast annað ,,heimaland" því það er Skotland nú vissulega orðið í mínu hjarta, þótt búsetan þar yrði aðeins tvö ár. Ég hef það fyrir satt (frá vinkonu sem bjó eitt sinn í Svíþjóð) að það tæki sirka fimm ár að flytja heim eftir að hafa búið erlendis en í gærkvöldi var á næsta langborði við okkur fólk sem tók ástfóstri við Edinborg á árunum upp úr 1970 og hefur haldið hópinn og Skotlandstryggðina alla tíð síðan.
Burns Supper, fyrir þau sem ekki kannast við fyrirbærið, er kvöldverður og skemmtan haldin á eða sem næst fæðingardegi þjóðskálds Skota, Robert Burns (1759-1796), þann 25. janúar ár hvert. Meðal þess sem er fastur liður á slíku kvöldi er að flutt er Haggis ávarpið eftir Burns yfir rjúkandi réttinum um leið og vömbin er rist utan af góðmetinu:

Fair fa' your honest, sonsie face,
Great chieftain o' the puddin-race!
Aboon them a' ye tak your place,
Painch, tripe, or thairm:
Weel are ye wordy o' a grace
As lang's my arm.

Kveðskapinn má lesa hér í heild en ekkert jafnast á við að heyra hann fluttan einsog í gær á harðmæltri skosku með hnífasveiflum af knjáfögrum Skota á viðeigandi köflóttu pilsi. (Og nú hef ég loforð frá Mínum um að athuga með pilsakaup þegar við förum út, því hér er vissulega kominn árlegur vettvangur fyrir þvílíkan klæðnað!)

Burns er ekki síst elskaður og dáður fyrir að hafa kveðið óhikað á sínu skoska móðurmáli, sem er náskylt enskunni enda af henni komið en í skosku er fjöldinn allur af orðum sem ekki finnast í ensku og framburðurinn er alveg sér á parti.

Allmörg skosk orð eru komin úr norrænu máli og um það gæti ég skrifað heilan pistil og geri kannski seinna en læt duga að nefna bairn sem merkir barn, dreigh sem merkir drjúgur og að þegar sagt er: There is a moose loose in the hoose þá er framburðurinn ákaflega líkur því að sagt sé að það sé ,,mus lus in ðe hus.“ Já, og þegar Skotar segja að klukkan sé sex, þá meina þeir að hún sé einmitt 6.

Burns var ekki aðeins elskaður af Skotum almennt heldur líka náið af mörgum konum; svo heitt að samtals átti hann tólf börn með fjórum þeirra og varð þó ekki nema 37 ára gamall eins og annað elskað þjóðskáld, íslenskt að ætt (Jónas). Hér má lesa meira um Rabbie Burns (færsla frá því í janúar 2006).

Því má svo við bæta að fleiri merkismanneskjur eiga afmælisdag þann 25. janúar, ein slík er hún mamma mín elskuleg. Endurnýti í því samhengi líka aðra færslu frá því í janúar 2006 ;o)

Botna í kvöld með mynd af dáldið stórri, sjálfstæðri stúlku (hennar eigin orð), sem hér er vissulega stærri en sjálf fjöllin, að minnsta kosti þau sem eru á háaloftinu í Listasafni Íslands.

5 ummæli:

Katrín sagði...

fljót, maman, áður en e-r sér þetta: það er ceildh, ekki keilidh! ;)

Katrín sagði...

heyrðu, ertu ekki til í að birta ræðuna þína stórskemmtilegu hérna, fyrir þá sem misstu af henni?

Nafnlaus sagði...

Tek undir þetta með ræðuna...

Katrín sagði...

mammaaaaaaaaaaaaaaaaaa! við viljum ræðu!

Nafnlaus sagði...

Tek undir það. Þú varst þvílík rós í kaótík kvöldsins og þið öll reyndar.

Hafðu heilar þakkir fyrir þitt framlag og ég styð heilshugar tillögu undirritaðra. Er texti sem flestir eiga að njóta.

Sjáumst síðar, ég heiti á það!:-)

Kær kveðja, Gunnbjörg (alsæl þrátt fyrir óvænta og sveitta kaótík vinsælda Skotlandsnostalgíunnar.)