Hér getur að líta ýmsa þanka sem tengjast því að lifa af árvekni í deginum í dag, til fulls, sjálfrátt, ríkulega, með eftirtekt, af djúphygli, í varurð, í núinu, af gjörhygli ... með öðrum orðum, því að læra að strauja þannig að það verði nautn að sjá krumpurnar hverfa.
miðvikudagur, 25. janúar 2006
Rabbie Burns
Ástsælasta skáld Skota, Robert Burns, kom í heiminn þennan dag fyrir 247 árum, þann 25. janúar árið 1759, í bænum Alloway íAyrshire. Skotar um allar trissur fagna þessum degi með kvöldverð í minningu skáldsins þar sem þeir háma í sig haggis (líkist blóðmör en gert úr hökkuðum innyflum) og syngja ljóðin hans Rabbie, meðal annarra Óðinn til haggis-keppsins og Auld Lang Syne - það síðarnefnda þekkjum við Frónverjar betur sem hin gömlu kynni sem gleymast ei - og hella í sig viskíi líkt og skáldið gerði í miklum mæli á sinni stuttu og harmrænu ævi. Því Rabbie var ógæfumaður og hélst illa bæði á peningum og kvenfólki, þótt hann væri frjósamur með afbrigðum bæði í anda og líkama (átti heilan helling af börnum) og dó aðeins 37 ára að aldri.
Skotar elska og dá Rabbie Burns víst framar öðru fyrir það að hann orti fyrstur á skoska tungu, sem menn mega alls ekki rugla saman við gelísku eða harðan framburð þeirra á enskunni. Samt mun það víst svo að skoskan er hreint ekkert hátt skrifuð og í skólanum eiga börnin að læra að tala ,,proper English".
Í kvæði sem Burns orti til músarinnar eru þessar línur meðal annarra sem blésu John Steinbeck anda í brjóst, og reyni nú hver sem betur getur að átta sig á skoskunni:
But Mousie, thou are no thy-lane,
In proving foresight may be vain:
The best laid schemes o' Mice an' Men,
Gang aft agley, An' lea'e us nought but grief an' pain,
For promis'd joy!
Still, thou art blest, compar'd wi' me!
The present only toucheth thee:
But Och! I backward cast my e'e,
On prospects drear!
An' forward, tho' I canna see, I guess an' fear!
Talandi um mýs; ein slík að minnsta kosti gerir sig enn heimakomna í húsinu - "there is a moose loose in the hoose", gæti maður sagt á skoskunni - og trítlaði þvert yfir eldhúsgólfið í gær svo að við mæðgurnar sem þar vorum staddar tókum kvenleg andköf. Héldum að við hefðum komið þeim öllum fyrir kattarnef fyrir jól. En nú dugir engin miskunn, límgildran hefur verið dregin fram og ekkert hnu með það! Framhald síðar...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli