Líf í árvekni: Að eiga fjöll

fimmtudagur, 26. janúar 2006

Að eiga fjöll

Ég er farin að lesa The Scotsman af meiri athygli en áður og af og til horfi ég á fréttirnar hjá BBC og BBC Scotland - (það síðarnefnda er sérstaklega sent út fyrir okkur hér nyrðra). Ekki oft en æ oftar samt. Vitanlega ætti sú sem vill nema sem mest um þá þjóð sem Skotland byggir að liggja á fjölmiðlaspenanum alla daga og sjúga í sig allt mögulegt sem um Skota og þeirra þankagang um heiminn snertir... en ég hef verið hæg í gang.

Kannski vegna þess að í svo mörg ár var það hluti af vinnunni minni að þamba þessa undanrennu daginn út og inn og finna nýjar smúþí-tegundir fyrir miðilinn sem ég vann fyrir í það og það sinnið, búa til einhvern innlendan hræring, um allt og ekki neitt, súrar bæði og sætar eða allsendis bragðlausar. Margt skrýtið í þeim kýrhaus - eða júgri - og gott að vera horfin inn á aðrar lendur 365 daga ársins og hlaupársdag líka þegar hann er.

En sem sé, nú er ég farin að líta eftir því hvað Skotum þykir umtalsvert og reyna að ráða af því hverjum augum þeir líta heiminn og sjálfa sig. Og verð iðulega aldeilis hissa á gestgjöfum okkar; makalaust hvað fólk er skemmtilegt og skrítið þegar maður fer virkilega að spá í það. Að stærstum hluta til er forvitni mín þó vakin af lærimeisturum við Skóla hinna skosku fræða; nú hafa tveir slíkir hvatt okkur námsmenn sína til að fylgjast með fjölmiðlaumræðu í hvaða mynd sem hún birtist, annars vegar um þá mynd sem landsmenn gefa af sér og menningararfi sínum (sjá hafragrautspistil) og hins vegar um trúarbragðaumræðu hvers kyns og einkum tjáningu trúar, jafnt í miðlum og umhverfinu.

Undanfarna daga hefur hvort tveggja borið á góma og sumt einkar jákvætt. Nú getur til dæmis gamla fólkið í hinni afskekktu sókn Glens and Kirriemuir Old Parish náð í Guð almáttugan á netinu ef það kemst ekki til kirkju sakir elli eða krankleika - já, eða að minnsta kosti hlustað á predikunina og sent inn bænaefnin sín í tölvupósti.

Önnur frétt, ekki síður merkileg, birtist í Skotanum í vikunni og sagði frá því að Jón MacLeod 29. höfðingi MacLeod klansins stæði í viðræðum við Bretlandslottóið um að selja ríkinu Dunvegan kastala á eyjunni Skíði (Skye) og - takið eftir - Black Cuillin fjallahringinn (!) á 25 milljónir punda (tæpir þrír milljarðar ísl. króna). Lottóið er sem sé notað hér í landi til að fjármagna kaup og rekstur á ,,menningararfi" af ýmsu tagi, aðallega þó sögufrægum kastölum, og gera almenningi kleift að njóta þessa ,,arfs" forfeðra sinna og mæðra. (Íþróttahreyfingin virðist sjá um sig sjálf án lottóhjálpar, vísast af því að Tjallinn er enn duglegur við að fara á völlinn).

Hálandahöfðingjarnir eru náttlega ekki svipur hjá sjón síðan á dögum Vilhjálms Wallace aka Mel Gibson og ráða ekkert við viðhald á margra alda gömlum kastölum, hvað þá við að finna góða húshjálp á þessum síðustu og verstu. Segir reyndar í fréttinni að kastalinn sé ekki svo mjög gamall, var reistur af 25. höfðingja MacLeodanna á milli 1840 og 1850 - en landið hefur verið eign þeirra í samfelld 800 ár og ekki seinna vænna að fara að koma þessu í verð.

Eins og sjá má á myndinni efst eru þetta þó nokkur fjöll og ekki ósnotur og maður svona ímyndar sér að Skíðisbúum - já og Skotum öllum - þyki nokkur akkur í að eignast þau eftir að þau hafa verið í einkaeign um svo langan aldur. Að maður tali nú ekki um kastalann. Það er vonandi að Makklád og Lottóið nái saman. En ósköp er ég nú fegin því að enginn verðmiði verður nokkru sinni settur á vestfirsku alpana - enda nóg fjöll fyrir alla á Íslandinu góða...

1 ummæli:

Anna Gísla (frænka þín) sagði...

Ég bara varð að kvitta fyrir mig :)
Kveðja
Anna Gísladóttir (og Höllu Jökulsdóttir) ;)