Líf í árvekni: Að leggja við hlustir

mánudagur, 3. desember 2007

Að leggja við hlustir

Eitt af því sem ég hef lært af Mínum er listin að hlusta á annað fólk. Er að læra, réttara sagt, því seint verð ég víst fullnuma í þessari kúnst og gleymi mér iðulega, sérdeilis þegar eitthvað er til umræðu sem mér er mikið hjartans áhugamál.

Þeir sem til okkar þekkja vita sem er að þrátt fyrir ýmsa eiginleika sem við deilum (eins og finnast báðum eðlilegt að merkja með penna á kassa undan 60w ljósaperu sem er hafður undir gamla 40w peru: ,,Notuð 40w", gera matseðil fyrir heilan mánuð í einu, númera pappakassa við búslóðaflutninga o.fl. þess háttar) þá höfum við misjafnan hátt á tjáningu okkar.

Minn heittelskaði hefur orðað þennan mun þannig að í jólaboðum í sinni stórfjölskyldu hafi fólk ekki talað mikið saman þar til Hún ég kom til sögunnar. Um Minn má hins vegar segja eins og Stjána vini varð að orði einhvern tímann: ,,Hann kjaftar ekki af sér, drengurinn!"

Ég hef í gegnum tíðina borið því fyrir mig þegar mér er bent á að ég eigi það til að grípa fram í fyrir öðrum, að ég hafi alist upp í stórri og fremur háværri fjölskyldu þar sem ein helsta leiðin til þess að ná orðinu var að rífa það af öðrum og halda því síðan eins lengi og fært var, þ.e. með því að anda ekki mikið á milli orða. Ella var einfaldlega ólíklegt að stelpa kæmi sínu að yfirhöfuð.

En þessi afsökun (,,Ég er eins og ég er af því að ég þurfti að vera þannig fyrir löngu síðan") er náttlega útslitin réttlæting og ekkert annað en merki um andlega leti, eins og lesa má í flestum, ef ekki öllum sjálfseflingarkverum sem eitthvað er spunnið í.

Sú eða sá sem ekki getur leyft öðrum að tala út og grípur stöðugt fram í með spurningum eða eigin útlistunum á sjaldnast samræður til þess að eiga samskipti. Tilgangurinn er miklu fremur sá að koma sínu að og tíminn sem fer í að leyfa öðrum að tjá sig er aðeins biðtími eftir því að komast að á ný og notaður til þess eins að undirbúa næsta framlag eða leggja upp nýjar spurningar. Því sá sem spyr spurninganna ræður nebblega ferðinni í samtalinu.

Í ágætum mannræktarsamtökum, þar sem ég þekki ögn til, er eftirfarandi haft að orðtaki: Hlustaðu og lærðu. Þar er fyrirkomulag á fundum þannig að einungis einn hefur orðið í einu, aldrei er gripið fram í fyrir öðrum og næsti tekur ekki til máls fyrr en mælandi hefur skilað af sér orðinu með því að þakka fyrir sig.

Ætla mætti að þetta verði til þess að malbikarar á við yðar einlæga leggi undir sig heilu og hálfu fundina en sú er reyndar alls ekki raunin nema í örfáum undantekningartilvikum og þá er bara að nota tækifærið og æfa sig í þolinmæðinni rétt á meðan - já, og hlusta og sjá hvort það má ekki læra eitthvað mikilvægt af málæðinu, eins og til dæmis um gildi tillitseminnar.

Nú er ég ekki að mæla með því að fólk skiptist á ,,tjáningu" dags daglega og bíði eftir opinberum tilkynningum um að því sé óhætt að opna á sér munninn en við mættum áreiðanlega flest gera meira af því að hlusta í raun og veru það sem aðrir hafa að segja og hugsa okkur betur um áður en við tökum til máls.

Ég hef á stundum mæðst yfir því hvað Únglingurinn minn í skóginum (og á árum áður átti þetta við Þá uppkomnu) getur haft mikið að segja og verið áhugalaus um áheyrendur sína og hugsanlegan áhuga þeirra á umræðuefninu (ellegar áhugaskort) en hef nú tekið upp nýja taktík sem felst í einmitt þessu, að hlusta og læra.

Því ef ég mætti velja á milli þess að hlusta á fyrirlestra hans um hvaðeina sem er ,,í umræðunni" þann og þann daginn (og ég hef þróað með mér nánast óþol gagnvart ,,umræðunni" - meira um það síðar, kannski) og hins vegar þess að hann nennti ekki að eyða á mig orðum, þá er ég ekki í vafa um að ég tæki fyrri kostinn. Sem er ágætt, þar sem ég á ekki um neitt að velja ;o)

Fletti upp í bókinni sem var svo óskaplega umdeild ,,í umræðunni" hér um daginn og fann eitt og annað þessu viðkomandi, meðal annars sagði sá spaki Salómon: ,,Svari einhver áður en hann hlustar er það heimska hans og skömm."

Og í Síraksbók sem er ein af þessum ,,nýju" eldgömlu apókrýfu ritum Gamla testamentisins var heil runa af heilræðum í sama dúr og kæmi mér ekki á óvart að Sírak hafi haft málugt fólk í kringum sig þegar hann ritaði eftirfarandi á skrollu:

-Ver reiðubúinn til að hlusta á aðra
en hugsa þig vel um áður en þú svarar.

- Sértu fús til að hlusta muntu fræðast
og verður hygginn ef þú leggur við hlustir.

-Svara eigi fyrr en þú hefur hlustað
og gríp ekki fram í er annar talar.

-Haf eigi uppi mælgi er á annað er hlustað
og lát ekki í ótíma ljós þitt skína.
Svo mörg voru þau orð...
P.S. Gleðilega aðventu!

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég opnaði munninn í það minnsta fjórum sinnum til að grípa fram í fyrir þér í þessari færslu. En las til enda, þótti gott og man ekki lengur hvaða athugasemdir ég hafði við ræðuna. Dettur einna helst í hug að ég sé jafnvel ekki góður hlustandi.

kveðja
Matta

Nafnlaus sagði...

Á ég að taka þetta til mín??

Katrín sagði...

Hehe ég tók þetta aðeins til mín... þar til ég las "á árum ÁÐUR átti þetta við Þá uppkomnu" ;)

Svakalega er hún Skotta litla komin með sítt hár! Ég bókstaflega brenn í skinninu eftir að sjá hana (og ykkur hin líka...) á föstudaginn! Og hvað allt er orðið jóló.
Vona bara að það verði ekki fiskur í matinn :P

Nafnlaus sagði...

Það er sko heldur betur margt til í þessu en virk samtöl sem ganga á báða bóga finnst mér skemmtilegust.
Þar sem fólk einmitt spyr spurninga, það finnst mér gefa til kynna að fólk sé að hlusta af áhuga og vilji vita meira án þess þó auðvitað að áherslunni á málefninu hverju sinni sé vísað í aðra átt.

Einlægur áhugi þess sem hlustar er afskaplega verðmætur.

Knúskveðja og koss á skottuna sem tekur sig svakalega vel út í jóla búningi :o)

Nafnlaus sagði...

OK so why is the bicycle up a tree?
Arnot

Nafnlaus sagði...

Dear Arnot, I have not the foggiest idea! It was just there, right above the heads of shoppers on our "Princes Street", our main shopping street, Laugavegur, the other day. Performance art, perchance?

I hope our Christmas tree was all there in the box and nothing missing - does it miss us?!

Nafnlaus sagði...

Hér er alltaf sælkerakonfekt í boði.
Takk fyrir mig - gleðilega aðventu.

kv Dísa ókunnuga