Líf í árvekni: Svo margar bækur, svo lítill tími...

mánudagur, 10. desember 2007

Svo margar bækur, svo lítill tími...

Auk þess sem mig dreymdi um að hafa perubrjóssigg, lakkrísrúllur og malaðan ís í brauðformi í matinn alla daga þegar ég yrði stór, var ég ákveðin í að lesa eins mikið og lengi og mig lysti þegar ég réði mér og mínum tíma sjálf. Þá yrði enginn skóli til að vakna í að morgni og ekki þörf á því að eiga vasaljós til að lesa undir sænginni því það yrði enginn til að skipta sér af því þótt stelpa kláraði ekki bara síðuna heldur allan kaflann ef hana langaði til og jafnvel bara bókina sjálfa.

Þegar ég var barn talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða lagði ég niður barnaskapinn. Svona að mestu leyti.
Einkennilegt að það skuli ennþá vera svona miklu skemmtilegra að lesa á kvöldin en á morgnana. Það hefur einhvern veginn aldrei flögrað að mér að reyna að lesa fyrir hádegi eða einu sinni miðdegis. Bóklestur er eins og sætur eftirréttur; kemur ekki til greina fyrr en í fyrsta lagi eftir kvöldmatinn. ,,Vinnan fyrst, skemmtunin svo!" Samt á þetta nú að teljast hluti af vinnunni minni því hver getur skrifað bók án þess að hafa lesið ósköpin öll áður til að vita hvernig þær geta bestar orðið?

Jafnvel skyldugur námsbókalestur, bæði í menntó í gamla daga og háskólanum seinni árin, hefur verið mér einstaklega erfiður fyrripart dags. Það bregst ekki að eftir tvær eða þrjár síður eru augnlokin farin að síga niður á við eins og í þeim hangi níðþung lóð.

Mér var á sínum tíma bent á það ráð að lesa sitjandi við borð en ekki upp í bláa, notalega sófanum mínum með púða allt í kring og því var það að 900 síðna ljósritaða heftið í Munnlegri hefð, Eddukvæðum og Íslendingasögum átti heima á eldhúsborðinu í Hruna í fjóra mánuði, við hliðina á djúpu kaffibollafari.
Seinast á kvöldin þarf ég hins vegar að beita mig hörðu til þess að leggja frá mér bókina og fara að sofa í hausinn á mér. Alltaf er nú planið að byrja að lesa fyrr og helst strax eftir kvöldmat, ekki síst heimildabækurnar mínar sem eru farnar að safnast í stafla bæði hér á skrifborðinu og uppi á náttborði en einhvern veginn fer það iðulega svo að lunginn úr kvöldinu fer í eitthvert dútl sem engu skilar.

Það er kannski horft á hálfan fréttatíma, þurrkað af borðum og ný kerti sett í stjakana, pottablómin vökvuð (ef þau eru ekki þegar sölnuð og dáin), leikföngum safnað saman og sett í dótakörfuna, hálfur tími eða heill fer í að rækta vinskap í gegnum símann eða skrifa bréf til vinafólks útlendis, svo þarf aðeins að kíkja á netskrif hist og her, jafnvel blogga sjálf ef þannig liggur á mér og fletta Amasónu eftir nýju lesefni og... fyrr en kona veit af er kominn tími til að drattast í ból.

Á náttborðinu, þar sem svefnráðgjafar segja að eigi ekkert að vera nema í mesta lagi ilmolía og vekjari stilltur á vöknun í bítið, bíða þá allt að fjórtán bækur (það er metið mitt, held ég). Núna eru þær reyndar ekki nema sjö og vekjarinn dettur alltaf á gólfið þegar ég leita að honum því það er eiginlega hvergi pláss fyrir hann á milli staflanna.

Engin þessara bóka er nýútkomin; ég leyfi mér engar jólabækur fyrr en á aðfangadagskvöld og fram eftir janúarmánuði - veit ekki af hverju í ósköpunum - nema þegar ég er sjálf með jólabók; þá ,,má" ég lesa hin á milli þess sem henst er á milli upplestra um borg og bý.

Á náttborðinu eru núna þessar bækur: Fyrirgefningin eftir Jampolsky (óopnuð ennþá en verður lesin því María og g.bergmann mæltu bæði með henni), Frigg og Freyja, kvenleg goðmögn í heiðnum sið sem er meistaraprófsritgerðin hennar Ingunnar Ásdísar, doktorsritgerð Karenar vinkonu um örlaganornirnar Urði, Verðandi og Skuld (þarf að klára hana í hvelli svo ég geti hringt og óskað henni til hamingju með vörnina við Edinborgarháskóla með góðri samvisku), Máttugar meyjar eftir Helgu Kress, Eyrbyggja eftir ókunnan höfund, Ljóðasafn Hannesar Péturssonar og In Search of Stones eftir M. Scott Peck.

Er um það bil að klára þá síðustu, af hreinni þrjósku vegna þess að þar eru herra og frú Peck að ferðast á milli bautasteinaldarminja Skota og ég er með ,,heimþrá" til Skotlands; þetta er langsísta bókin eftir Peck sem ég hef lesið og mæli ekki með henni við aðdáendur hans sem hrifust af hinum fáfarna vegi (The Road Less Travcelled etc.). Ennfremur vara ég við því að honum sé flett upp á netinu; dauðsé eftir því að sjá hvað karlinn lifði í miklu ósamræmi við eigin boðskap :(
Næstu kvöld verður samt sem áður enn minna lesið en venjulega og ekki tími í neitt dútlerí því planið er að bjóða vinum og ættingjum sem hyggjast leggja leið sína í bæinn næsta laugardag, þann 15. desember, á milli kl. 3 og 6 síðdegis að líta við hjá okkur heiðurshjónunum í smákökur og súkkulaði/kaffi latte/malt og appelsín. Ætlunin er að koma sjö sortum af fyrir laugardaginn svo að það er reyndar þegar farið að láta hendur standa fram úr ermum.
Smákökuboð Villu og Böbba, sem verður vitanlega árviss hefð ef vel tekst til, er okkar framlag til þess að efla verslun í heimabyggð og um leið liður í baráttunni gegn kringlu-og tippalaga verslunarmollum. Náttúrulega alveg tilvalið að koma á Hallveigarstíginn til að hlýja sér og fá dálitla næringu þegar kuldabelja (ég lærði þetta orð af lítilli stúlku sem er í leikskóla á Laufásborg) er um það bil að bíta af fólki nef og eyru í jólainnkaupunum á ljósum prýddum Laugavegi og Skólavörðustíg.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það væri nú ekki dónalegt að komast í smákökuboð ;) Verst að ég þekki þig bara ekki neitt þó svo að svolítið séum við skyldar ......
Kveðja Anna Gísla og Hölludóttir :)

Matthildur Helgadóttir sagði...

Mikið væri ég til í að koma í kaffi og kökur á Hallveigarstíg en mín heimabyggð er önnur. Ég mun þó væntanlega efla verslun á Ísafirði og forða mér frá kuldabelju inn á Langa Manga í jólakakó og piparkökur.

kveðja
Matta

Katrín sagði...

Ég skil svoleiðis alveg hvað þú meinar, maman, með að tíminn fari í allt annað en að lesa allar bækurnar sem konu (jú, ég get alveg talað um sjálfa mig í 3.p.et.kvk., eins og þú!) langar - og ÆTLAR - að lesa! Munurinn er bara sá að mínar bækur eru uppi í hillu en ekki á náttborðinu. Sumar eru líka ennþá í búðinni... Reyndar er ég með eina bók uppi í rúmi hjá mér, í hinu plássinu, sko. Svona til að minna mig á hváð ég hef að hlakka til eftir prófin ;)
Og já svo kíki ég alveg endilega við í smákökur og kakó eftir málvísindaprófið á laugardaginn. Mun ábyggilega þurfa á smá yl að halda þá, hehehe.

Matti sagði...

mammma rocks!!!!!!!!!!! má ég fá köku?

Nafnlaus sagði...

Þekki þetta með bókastaflann á náttborðinu. Annars les ég alltaf bloggið þitt en hef aldrei kommentað fyrr en nú, en það kemur til af því að mamma þín skipaði mér að gera það :)

En við erum frænkur svo að það er ekki nema tilhlýðilegt að ég kvitti annað slagið fyrir mig...
Takk fyrir skemmtilegar færslur og gleðileg jól.
Ylfa Mist

McHillary sagði...

Hæ elskan.
Mikið sem það var nú gaman að kíkja til ykkar í smákökuboðið og þiggja einn latte úr vélinni dásamlegu. Þarf endilega að kíkja aftur sem fyrst og fá að maula fleiri kökur, það er svo voðalega erfitt að gera upp á milli þeirra undir svona pressu.
Lov jú,
Hilla litla

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir boðið og kökurnar Bö og Vi! Þær voru gómsætar, bestar voru rúsínukökur a la mamma, að sjálfsögðu :-) Kiddi.